Síða 2363

Viðræður á núll punkt

Viðræður sjómanna og útgerðanna eru komnar á núll punkt. Þetta kemur fram í frétt Verkalýðs Vestfjarða eftir samningafund sem haldinn var hjá ríkissáttasemjara í gær. Á fundinum höfnuðu útgerðarmenn höfnuðu öllum kröfum sjómanna og höfnuðu einnig þeim hugmyndum að byggt yrði ofan á þann samning sem var felldur í desember 2016.

Í fréttinni kemur fram að viðbrögð útgerðarinnar setji viðræðurnar í raun á núll punkt og að því miður sé ekki hægt að segja annað en að deilan hafi harðnað til muna eftir þessi hörðu viðbrögð útgerðarmanna við kröfum sjómanna.

Ríkissáttasemjari hefur boðað deiluaðila til fundar mánudaginn 9. janúar þar sem næstu skref í viðræðunni verða ákveðin.

brynja@bb.is

Útgjöld til fræðslumála ekki lægri frá 2001

Áætlaður árlegur rekstrarkostnaður samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands á hvern nemanda í grunnskólum, sem reknir eru af sveitarfélögum, er 1.754.072 krónur. Meðalrekstrarkostnaður á hvern nemanda í grunnskólum árið 2015 var 1.651.002 krónur og vegin meðalverðbreyting rekstrarkostnaðar frá 2015 til janúar 2017 er áætluð 6,2%. Útreikningarnir eru skv. 2. og 3. mgr. 3.gr. reglugerðar nr. 1270/2016 um ákvörðun framlaga úr sveitarsjóði til sjálfstætt rekinna grunnskóla.

„Útreikningur Hagstofu Íslands skv. 1. mgr. vegna komandi skólaárs skal liggja fyrir í september ár hvert. Útreikningur skal byggður á ársreikningum sveitarfélaga fyrir liðið ár, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga til þess dags sem útreikningur er gerður. Verðlagsbreytingar skulu taka mið af almennum launahækkunum starfsmanna grunnskóla og breytingum á vísitölu neysluverðs að teknu tilliti til vægis hvors þáttar fyrir sig í rekstrarkostnaði grunnskólanna.

Hagstofa Íslands tekur saman 90 dögum eftir að viðmiðunarmánuði lýkur og birtir fimmta dags hvers mánaðar, á tímabilinu frá október og fram til ágúst, framreiknað framlag skv. 1. mgr. Við framreikning þess skal tekið tillit til verðlagsbreytinga sem orðið hafa frá ákvörðun framlags skv. 1. mgr., þ.e. almennra launahækkana starfsmanna grunnskóla og breytinga á vísitölu neysluverðs, miðað við vægi hvors þáttar í rekstrarkostnaði grunnskóla.“ Segir á vef Hagstofu Íslands.

annska@bb.is

Íslenskunámskeið í Háskólasetri

Nemendur á íslenskunámskeiði. Mynd: Háskólasetur Vestfjarða.

Undanfarna viku hefur staðið yfir íslenskunámskeið við Háskólasetrið. Námskeiðið er vikulangt og er svokallað Crash Course námskeið. Þetta námskeið hefur verið í boði í byrjun árs í nokkur ár en einnig er hægt að sækja það í maí og ágúst.
Að þessu sinni sækja sex nemendur sækja námskeiðið og koma þeir frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Finnlandi og Þýskalandi. Tveir nemendanna eru búsettir á Vestfjörðum en flestir hinna nemendanna koma gagngert til Íslands og Ísafjarðar til að sækja námskeiðið.

brynja@bb.is

Klofningur segir upp fólki

Frá hausaþurrkun.

Fiskþurrkunarfyrirtækið Klofningur hefur sagt upp fimm starfsmönnum í starfsstöð fyrirtækisins á Brjánslæk. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá þessu. Uppsagnirnar tóku gildi frá áramótum og verður starfsstöðinni lokað. Guðni Einarsson, framkvæmdastjóri Klofnings, vonar að einungis sé um tímabundnar uppsagnir að ræða.

Undanfarið ár hefur rekstur Klofnings verið þungur og tekjur fyrirtækisins hafa lækkað um 65%. Gengi nærunnar, gjaldmiðils Nígeríu, féll og skapaði það erfiða markaðsstöðu. Einnig lækkaði vöruverð Klofnings um allt að 50% í dollurum og styrking krónunnar hefur reynst fyrirtækinu erfið. Auk þess hafa launahækkanir og hráefnisskortur vegna sjómannaverkfalls haft áhrif.

Guðni segir að ekkert hafi verið að gera frá áramótum og er þetta í fyrsta skiptið í 20 ár að fólk sé sent heim. Síðast hafi það gerast á fyrsta rekstrarári Klofnings þegar verkalýðsfélögin á Vestfjörðum fóru í verkfall. Klofningur er með starfsstöðvar á Brjánslæk, á Ísafirði, Tálknafirði og tvær á Suðureyri og vonast Guðni til þess að halda megi rekstrinum gangandi á hinum starfsstöðvum Klofnings en segir útlitið ekki vera bjart.

brynja@bb.is

Haftyrðlar á Ströndum

Hraktir haftyrðlar fundust víða um Strandir undir lok síðasta mánaðar er greint er frá á Strandir.is. Fundust þeir m.a. í Kollafirði, Steingrímsfirði og Bjarnarfirði. Haftyrðlar (Alle alle) eru ekki lengur varpfuglar við Ísland, en verptu í Grímsey, á Langanesi og e.t.v. í Kolbeinsey þar til í kringum 1900. Fuglinum fækkaði síðan mjög, vegna hlýnandi veðurfars að því talið er. Til skamms tíma verptu fáein pör í Grímsey, þar sem fuglinn var stranglega friðaður, en hann er nú alveg horfinn þaðan.

Haftyrðill er smæstur svartfugla og einn af minnstu sjófuglunum er segir í lýsingu Jóhanns Óla Hilmarssonar á fuglinum á vef Náttúruminjasafns Íslands. Hann er þybbinn, hálsstuttur og mjög kubbslegur, á stærð við stara. Vængirnir eru stuttir. Á sumrin er hann svartur að ofan, niður á bringu, og hvítur að neðan. Hvítar rákir eru um axlir. Á veturna verður hann hvítur á bringu, kverk og upp á vanga. Stuttur, keilulaga goggurinn er svartur eins og fæturnir, augu eru dökk.

Fyrrum vakti það furðu þegar haftyrðlar fundust á veturna, dauðir eða lifandi, og vissu menn ekki hvaðan þessi furðufugl var kominn. Talið var að þetta væri þjóðsagnafuglinn halkíon. Sem átti samkvæmt grískum þjóðsögum að verpa úti á rúmsjó. Haftyrðill var sagður fyrirboði um illviðri, en annars er lítið í þjóðtrúnni um fuglinn, fyrir utan söguna um halkíon.

annska@bb.is

Hægur vindur og bjart í dag

Veður í dag klukkan 12.

Eftir stormasama nótt með éljagang hillir í betri tíð og jafnvel hið ágætasta vetrarveður eftir hádegi að sögn Veðurstofunnar. Á Vestfjörðum verður hægur vindur fram eftir degi, frost og bjart eða léttskýjað. Vindstrengur er við sunnanverða Vestfirði og skýjað. Síðdegis nálgast lægðardrag landið og fer þá að þykkna upp sunnan og vestanlands með slyddu, og talsverðri rigningu undir kvöld. Í kvöld og nótt má búast við 2-3°C hita og úrkomu.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er snjóþekja er á flestum vegum á Vestfjörðum og sums staðar þæfingur á fjallvegum en verið að hreinsa. Þá er jeppafært norður í Árneshrepp.

brynja@bb.is

Heimska valin besti skandinavíski skáldskapurinn

Eiríkur Örn Norðdahl.

Heimska, bók Eiríks Arnar Norðdahl, hefur verið valin besti skandinavíski skáldskapurinn af franska bókmenntatímaritinu Transfuge. Heimska gerist í óskilgreindri framtíð, í eftirlitssamfélagi framtíðarinnar. Í umsögn franska tímaritsins við veitingu verðlaunanna segir að Eiríki Erni Norðdahl takist að koma þema sögunnar fram á ólíkum stigum og dýpt, hann taki áhættu og takist vel til. Honum takist gríðarlega vel að útfæra hugmyndina um eftirlitssamfélag sem gerist í póst-módernísku samfélagi.

Eiríkur er að vonum ánægður með verðlaunin „Ég er mjög kátur yfir þessu öllu saman, einsog vera ber. Heimska kom líka út í Svíþjóð í nóvember og hefur fengið feykifína dóma þar. Þetta er ekki síst gleðilegt vegna þess að bókin kom hálfskakkt út úr jólabókaflóðinu. Það munar um minna, að eiga annan séns – að ég tali ekki um þann þriðja – þegar maður býr á lítilli eyju.“

Þetta er í annað sinn sem Eiríkur hlýtur þessi verðlaun, en hann hlaut þau einnig fyrir skáldsöguna Illsku. Fyrir Illsku hlaut
hann einnig Íslensku bókmenntaverðlaunin.

brynja@bb.is

Næst fundað í kjaradeilu sjómanna á mánudag

Kröfum sjómanna var hafnað.

Öllum kröfum sjómanna var hafnað á fundi sjómannaforystunnar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í gær. Fundað var hjá ríkissáttasemjara og sagði Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur að öllu kröfum hafi verið hafnað. Frá þessu var greint á mbl.is.

Ekki hefur verið fundað síðan 20. desember og verður næsti fundur á mánudaginn kemur. Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir í samtali við Ríkisútvarpið að fundurinn á mánudaginn verði ákveðinn úrslitafundur, en þá skýrist betur hvort einhver framvinda verði á kjaradeilunni.

brynja@bb.is

Metár á fiskmörkuðum

Metsala varð á fiskmörkuðum landsins í tonnum talið á síðasta ári. Þrátt fyrir mikla aukningu í magni dróst söluverðmætið hins vegar saman milli ára vegna lækkandi fiskverðs. Þetta kemur fram í úttekt í nýjustu Fiskifréttum.

Í heild nam salan á fiskmörkuðum landsins rúmum 113 þúsund tonnum á síðasta ári og söluverðmætin voru um 26,3 milljarðar króna. Aldrei fyrr í sögu fiskmarkaðanna hefur salan farið yfir 110 þúsund tonn en árið 2013 var salan 109,8 þúsund tonn.

Á árinu 2015 voru seld rúm 104 þúsund tonn á fiskmörkuðunum þannig að salan á síðasta ári jókst um 9 tonn frá árinu áður, eða 8,7%. Salan í verðmætum dróst hins vegar saman um 1,1 milljarð á síðasta ári eða um 4% enda lækkaði meðalverð á fiski talsvert.

Meðalverð á öllum tegundum á fiskmörkuðum var 231,44 krónur á kíló á síðasta ári en var 263,12 krónur á kíló á árinu 2015. Meðalverðið lækkaði þannig um 31,68 krónur milli ára, eða um 12%. Þessa lækkun má að hluta til skýra með sterku gengi íslensku krónunnar.

brynja@bb.is

Sjúkraflug eykst og heilsugæslan í sárum

Á síðasta ári voru hátt í 700 manns fluttir með sjúkraflugi hér á landi, en árið 2006 var fjöldi þeirra sem fluttur var 464. Björn Gunnarsson‚ barna- svæfinga- og gjörgæslulæknir, segir brýnt að komast því hvers vegna sjúkraflutningum með flugi hefur fjölgað svo mikið og gerir hann það að umtalsefni sínu í ritstjórnargrein í Læknablaðinu og spyr hann hvort minni sjúkrahús úti á landi mæti niðurskurði með því að senda sjúklinga til Reykjavíkur.

Hallgrímur Kjartansson, framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, vísar því á bug í tilfelli HSVEST og segir í raun sömu starfsemi á sjúkrahúsinu á Ísafirði og hefur verið, þrátt fyrir fjárhagserfiðleika og því ekki um bein áhrif af þeim að ræða. Hallgrímur segir fjárhagserfiðleikarnir sem HVEST glímir við hafa bitnað mest á Heilsugæslunni og þar starfi of fáir læknar. Viðvarandi læknaskortur hafi verst bitnað á útstöðvunum heilbrigðisstofnunarinnar; Bolungarvík, Súðavík, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri,Tálknafirði og Bíldudal.

Við þetta rímar vel grein Þórarins Ingólfssonar‚ formanns Félags íslenskra heimilislækna sem einnig birtist í Læknablaðinu þar sem segir meðal annars: „Heilsugæsla á landsbyggðinni stendur veikt og er læknisþjónustan víða rekin með aðstoð afleysara í verktöku. Slíkt er ekki boðlegt. Fórnarkostnaðurinn við að skila hallalausum rekstri hefur verið heilsugæsla í sárum sem ekki nær að sinna hlutverki sínu og starfsánægja í lágmarki. Til samanburðar má nefna að í fjármögnunarlíkani því í Svíþjóð sem er fyrirmynd fjármögnunarlíkans þess sem á að innleiða á næsta ári í heilsugæslu er fjármögnunin um 40% meiri. Þó er skólaheilsugæsla og mæðravernd ekki inni í sænska líkaninu. Þá væri munurinn enn meiri.“

Á öðrum stað í greininni vísar hann til undirmönnunar á heilsugæslunni hér á landi og bendir á að í sérnámi hérlendis hafi verið 30-40 námslæknar undanfarið og 4-9 útskrifast að jafnaði á ári. En ef við miðuðum okkur við Svía ættu hér að vera 80 sérnámslæknar og þrír kennslustjórar fjármagnaðir af velferðarráðuneyti og segir hann að verulega þurfi að bæta í ef vel eigi að vera.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir