Síða 2362

Ísfell kaupir á Flateyri

Hafnarbakki 8 á Flateyri

Í fyrra hóf Ísfell ehf rekstur þvotta- og þjónustustöð fyrir fiskeldispoka á Flateyri en aukið fiskeldi á svæðinu kallar eftir að í boði sé allra handa þjónusta. Netapokarnir eru þvegnir, slitprófaðir, sjónskoðaðir og við þá gert ef þarf á verkstæðinu á Flateyri. Hingað til hefur þurft að aka netapokunum austur á land í þvottastöð, það er því gríðarlegur sparnaður fólgin í því fyrir eldisfyrirtækin á Vestfjörðum að geta fengið þessa þjónustu hér.

Ísfell leigði hluta af Hafnarbakka 8 af Arctic Odda ehf en hefur nú keypt allt húsið en í því var áður fiskmóttaka fyrir Arctic Odda ehf og skrifstofur fyrir Arctic Fish og dótturfyrirtæki. Með í kaupunum fylgdi einnig Gullkistan, viðbyggð skemma sem hefur verið nýtt sem geymsla en í henni fer nú fram saltframleiðsla.

Á heimasíðu Ísfells segir að með þessum kaupum sé fyrirtækið að byggja undir starfsemi sína á Flateyri og huga að framtíðarvexti félagsins á Vestfjörðum samhliða þeim vexti sem er fyrirhugaður hjá fiskeldisfyrirtækjum. Með þessu stóra húsnæði er hægt að bjóða eldisfyrirtækjum upp á geymslu á pokum eftir þvott. Ísfell sér fyrir sér að bæta þjónustu við útgerðir á Vestfjörðum með almennri víra- og netaverkstæðisþjónustu.

Ísfell hefur þegar tekið við eigninni og mun fara í nauðsynlegt viðhald á þaki og útliti þegar fer að vora segir sömuleiðis á heimasíðu Ísfells en húsið er afar illa farið.

bryndis@bb.is

Opið fyrir tilkynningar um innlausn greiðslumarka

Matvælastofnun annast innlausn greiðslumarks lögbýla samkvæmt reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt og geta handhafar greiðslumarka óskað eftir innlausn á greiðslumörkum sínum með að fylla út eyðublað 7.13 í þjónustugátt Matvælastofnunar. Með beiðni um innlausn á greiðslumarki skal fylgja staðfesting um eignarhald á lögbýli, samþykki ábúanda og sameigenda, og þinglýst samþykki veðhafa í lögbýlinu. Tilkynningu um innlausn skal skila eigi síðar en 20. janúar og greiðir Matvælastofnun innleyst greiðslumark eigi síðar en 15. febrúar næstkomandi, en innlausnarvirði þess árið 2017 er 12.480 kr. á ærgildi.

annska@bb.is

Aðalfundur Sjálfsbjargar á morgun

Frá landsfundi Sjálfsbjargar í Bolungarvík 2015

Í síðasta tölublaði Bæjarins besta kemur fram í auglýsingu að aðalfundur Sjálfsbjargar á Ísafirði verði haldinn þriðjudaginn 12. janúar í húsi Framsóknarflokksins við Pollgötu kl. 16:00. Nú er það svo að 12. janúar mun ekki lenda á þriðjudegi fyrr en árið 2021 og fullsnemmt að auglýsa aðalfund með fjögurra ára fyrirvara. Þarna eru leið mistök á ferðinni, fundurinn er á þriðjudegi engu var um það logið en dagurinn mun vera númer 10 í janúar en ekki 12 og leiðréttist það hér með.

Aðalfundur Sjálfsbjargar, félags hreyfihamlaðra á Ísafirði, verður haldinn í húsi Framsóknarflokksins við Pollgötu, þriðjudaginn 10. janúar kl. 16:00, þannig átti að þetta nú að hljóma.

bryndis@bb.is

150 milljónum úthlutað úr Afrekssjóði ÍSÍ

Frá úthlutun styrkjana.

150 milljónum hefur verið úthlutað úr Afrekssjóði ÍSÍ. 100 milljónum verður úthlutað seinna á árinu eftir nýjum reglum sjóðsins sem verið er að vinna að. Frá þessu er greint á vef Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.

Síðasta sumar var ákveðið að auka framlag ríkisins til Afrekssjóðsins og unnið er að mótun nýrra úthlutunarreglna. Áætlað er að framlagið á næsta ári verði 200 milljónir, 300 milljónir árið 2019 og 400 milljónir 2020.

Hæst framlag hljóta þau sérsambönd sem taka þátt í lokamótum stórmóta á árinu en alls bárust umsóknir frá 26 sérsamböndum ÍSÍ. Hæsta framlagið í þetta skiptið fékk Handknattleikssamband Ísland eða 28,5 milljónir.

Körfuknattleikssambandið fékk 18,5 milljónir og Sundsamband Íslands 13,5 milljónir.

Úthlutunin skiptist á eftirfarandi hátt:

Blaksamband Íslands (BLÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 4.400.000,-

Badmintonsamband Íslands (BSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 2.200.000,-

Borðtennissamband Íslands (BTÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-

Dansíþróttasamband Íslands (DSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 2.100.000,-

Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Anítu Hinriksdóttur og Ásdísar Hjálmsdóttur og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 12.000.000,-

Fimleikasamband Íslands (FSÍ)
Vegna landsliðsverkefna í áhaldafimleikum og hópfimleikum, verkefna Irina Sazonova og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 7.950.000,-

Golfsamband Íslands (GSÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 8.850.000,-

Hjólreiðasamband Íslands (HRÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.100.000,-

Handknattleikssamband Íslands (HSÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliða karla og kvenna, yngri landsliða og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 28.500.000,-

Íþróttasamband fatlaðra (ÍF)
Vegna landsliðsverkefna sambandsins, undirbúnings fyrir Paralympic Games 2018, verkefna Helga Sveinssonar og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 7.750.000,-

Íshokkísamband Íslands (ÍHÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliðs karla og kvenna, yngri landsliða og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 3.200.000,-

Skautasamband Íslands (ÍSS)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-

Júdósamband Íslands (JSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.600.000,-

Karatesamband Íslands (KAÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.600.000,-

Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliðs karla og kvenna, yngri landsliða og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 18.500.000,-

Keilusamband Íslands (KLÍ)
Vegna landsliðsverkefna, unglingalandsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.100.000,-

Kraftlyftingasamband Íslands (KRA)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Fanneyjar Hauksdóttur, Júlíans Jóhanns Karls Jóhannssonar, Viktors Samúelssonar og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 6.600.000,-

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliðs kvenna, yngri landsliða kvenna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 8.400.000,-

Landssamband hestamannafélaga (LH)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 2.200.000,-

Lyftingasamband Íslands (LSÍ)
Vegna landsliðsverkefna kvenna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.100.000,-

Skíðasamband Íslands (SKÍ)
Vegna landsliðsverkefna í alpagreinum, skíðagöngu og á snjóbrettum, undirbúnings fyrir Vetrarólympíuleikar 2018 og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 9.800.000,-

Skylmingasamband Íslands (SKY)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.700.000,-

Sundsamband Íslands (SSÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Hrafnhildar Lúthersdóttur, Eyglóar Óskar Gústafsdóttur, Antons Sveins Mckee og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 13.550.000,-

Skotíþróttasamband Íslands (STÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Ásgeirs Sigurgeirssonar og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 3.850.000,-

Tennissamband Íslands (TSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-

Þríþrautarsamband Íslands (ÞRÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-

Heildarúthlutun til sérsambanda ÍSÍ kr. 150.450.000,-

brynja@bb.is

Atvinnuleysisbætur hækka

Þann 1. janúar hækkaði fjárhæð atvinnuleysisbóta og er nú óskert upphæð grunnatvinnuleysisbóta 217.208 kr. á mánuði fyrir skatt. Óskert upphæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta er nú 342.422 kr. á mánuði fyrir skatt. Vegna framfærsluskyldu barna yngri en 18 ára eru greiddar 8.688 kr. á mánuði með hverju barni (4% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum). Þá hækkuðu fjárhæðir bótaflokka almannatrygginga á sama tíma að jafnaði um 7,5%.

annska@bb.is

Skoðar lausnir til að berjast gegn landrofi

Brian Gerrity á Ísafirði síðasta vor. Mynd af vef UW: Kristin Weis.

Brian Gerrity, nemandi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, vinnur nú að meistaraprófsverkefni þar sem hann fjallar um lausnir til að berjast gegn landrofi sjávar í heimabæ sínum Half Moon Bay í Kaliforníu. Á næstu vikum mun hann skila lokaritgerðinni og verja hana í framhaldinu. Þótt verkefninu sé ekki að fullu lokið hefur það nú þegar vakið athygli í heimabæ Brians. Í síðustu viku fjallaði blaðið Half Moon Bay Review um verkefnið og þau vandamál sem stafa af landrofi á svæðinu.

Frá þessu er sagt á vef Háskólaseturs Vestfjarða og þar segir jafnframt að verkefni Brians sé gott dæmi um það hvernig rannsóknir nemenda í haf- og strandsvæðastjórnun geta haft áhrif á viðfangsefni sem fengist er við á strandsvæðum bæði í byggð og óbyggðum.

Brian Gerrity mun síðar á árinu verja ritgerð sína og það munu einnig gera fleiri nemendur úr 2015 árgangi meistaranámsins. Á vef Háskólasetursins verður komið á framfæri fréttum af hverri vörn fyrir sig áður en þær eiga sér stað.

annska@bb.is

Mugison tilnefndur til Hlustendaverðlaunanna

Mugison ásamt hljómsveit sinni á útgáfutónleikum í Edinborgarhúsinu. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.

Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Mugison er tilnefndur í tveimur flokkum Hlustendaverðlaunanna 2017. Annars vegar í flokknum plata ársins, þar sem nýjasta plata hans Enjoy! keppir við skífur Skálmaldar, Kaleo, Júníusar Meyvants og Emmsjé Gauta sem einnig komu út á síðasta ári. Hins vegar er Mugison að finna í flokknum söngvari ársins, en þar eru líka þeir: Friðrik Dór, Jökull Júlíusson, Páll Óskar, Júníus Meyvant og Magni.

Það eru: Bylgjan, X-ið. FM957 og Tónlist sem standa fyrir Hlustendaverðlaununum. Allir geta tekið þátt í kosningunni á einfaldan máta með því að smella á „líkar þetta“ við þá listamenn sem þeim fannst skara fram úr á nýliðnu ári. Einnig er kosið í flokkunum: Söngkona ársins, lag ársins, erlenda lag ársins, flytjandi ársins, myndband ársins og nýliði ársins.

Hlustendaverðlaunin verða veitt í Háskólabíói þann 3.febrúar og verður sjónvarpað beint frá þeim á Stöð2.

annska@bb.is

Nýársfagnaður á Hlíf

Mynd úr safni

Hinn árlegi nýársfagnaður Kiwanisklúbbsins Bása verður haldinn á sunnudaginn og hefst hann kl. 15:00. Í boði verða að venju girnilegar kaffiveitingar og skemmtiefni af fínustu sort. Nýársfagnaðurinn nýtur mikilla vinsælda og þegar best hefur látið hafa mætt um 120 manns en allir eldri borgarar eru velkomnir.

bryndis@bb.is

Bændur uggandi vegna stjórnarmyndunar

Sindri Sigurgeirsson.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir í pistli á vef samtakanna að bændur séu uggandi vegna frétta síðustu daga af stjórnarmyndunarviðræðum. Hann segir þær valda ugg hjá fleirum sem byggja afkomu sína á matvælaframleiðslu víða um land.

„Helstu tíðindin sem borist hafa úr stjórnarmyndunarviðræðunum eru að stefnt verði að frekari tollalækkunum á ostum og svína- og alifuglakjöti. Þessar fregnir koma bændum á óvart enda nýbúið að gera róttækar breytingar á tollaumhverfinu með nýlegum samningi við Evrópusambandið u m aukna tollfrjálsa kvóta á búvörum,“ segir Sindri í pistli sínum og segir áhrif þess samnings afar neikvæð fyrir íslenskan landbúnað og að útreikningar sýni beint fjárhagslegt tjón upp á hundruð milljón króna.

Sindri segir að hér sé notað minna af sýklalyfjum en víðast annars staðar og að heilbrigði búfjár sé betra en í samanburðarlöndum og spyr hvort stjórnmálamenn sé tilbúnir að fórna því: „Lyfjaþolnar bakteríur hafa ekki fundist hér á landi og meiri kröfur eru gerðar til framleiðenda varðandi eyðingu á salmonellasmituðum afurðum og þannig má lengi áfram telja. Vilja stjórnmálamenn og kjósendur þeirra gefa eftir þessa stöðu í skiptum fyrir ódýrar matvörur að utan?“

brynja@bb.is

Jólin kvödd í dag

Þrettándinn, þrettándi og síðasti dagur jóla, er í dag. Ýmis þjóðtrú er deginum tengd hér á landi líkt og að kýrnar tali mannamál og búferlaflutningar álfa. Fólk hefur gjarnan komið saman og kveikt upp elda til að fagna deginum og kveðja jólin og ekki er þá óalgengt að álfarnir sjálfir – í miðjum flutningum, ásamt öðrum furðuverum láti sjá sig. Björgunarsveitin Dýri og íþróttafélagið Höfrungur hafa um árabil haldið saman þrettándagleði á Þingeyri og verður slík í dag klukkan 17. Safnast verður saman innst í Brekkugötu, þar sem seldir verða kyndlar fyrir gönguna og þaðan gengið að Stefánsbúð, þar sem kveikt verður upp í brennunni og sungið. Botninn verður svo sleginn í gleðina með flugeldasýningu björgunarsveitarinnar. Á Þingeyri er hefð fyrir því að börnin bregði sér í allra kvikinda líki á þrettándanum og þrammi um bæinn og sníki sér gott í gogginn og halda þau í þá ævintýraferð að brennu lokinni.

Í Bolungarvík verður sameiginleg þrettándagleði Bolungarvíkurkaupstaðar og Ísafjarðarbæjar við Hreggnasa klukkan 20. Þar mun eldurinn í brennunni loga, dans stiginn og söngvar sungnir við hljóðfæraspil. Að sama skapi endar gleðin þar á flugeldasýningu sem Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík stendur fyrir.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir