Hjá Landbúnaðarsafni Íslands er komin út skýrsla um ræktunarminjar í Ólafsdal við Gilsfjörð. Frá þessu segir á Reykhólavefnum. Minjarnar eru unnar af Ragnhildi Helgu Jónsdóttur og Bjarna Guðmundssyni í samvinnu við Ólafsdalsfélagið og með styrk frá Alþingi. Skýrslan gefur hugmynd um þær miklu ræktunarminjar, flestar frá fyrri aldamótum, sem er að finna í Ólafsdal og gera staðinn afar verðmætan í ljósi íslenskrar búnaðarsögu.
Söfnun vegna flóða
Gríðarlegar rigningar eru nú víðsvegar í Tælandi og flæða ár og vötn yfir bakka sína. Þetta eru mannskæð flóð en að minnsta 18 manns hafa látið lífið í flóðunum og þúsundir þorpa eru að mestu undir vatni. Samkvæmt frétt á Vísir.is í gær hefur skólastarf 1500 skóla raskast en flóðin eru talin hafa raskað lífi nærri milljón manns í tíu fylkjum í landinu og útlit fyrir að ekki stytti upp fyrr en á morgun. Herinn hefur verið kallaður út til að hjálpa fólki að flýja flóðin og færa þeim mat sem eru innlyksa.
Laddawan Dagbjartsson íbúi og kennari í Bolungarvík rennur blóðið til skyldunnar og mun næstkomandi laugardag frá klukkan 12:00 – 14:00 vera með matsölu og skemmtun til að afla fjár, afrakstur dagsins fer til stuðnings bágstaddra vegna flóðanna í Tælandi.
Stormur og ófærð víða
Nokkurrar ófærðar gætir á Vestfjörðum í morgunsárið og sums staðar mjög hvasst í fjórðungnum, með ofankomu víða. Hálsarnir í A-Barðastrandarsýslu eru ófærir og Kleifaheiðin sömuleiðis. Þæfingsfærð er á Mikladal og Hálfdáni. Hálka og snjóþekja er á vegum á norðanverðum Vestfjörðum en stórhríð á Gemlufallsheiði. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum og mokstur ekki hafinn.
Nú er 970 mb lægð á austurleið skammt suður af landinu og veldur hún norðaustan hvassviðri eða stormi um mestallt land. Það dregur smám saman úr vindi og ofankomu seinnipartinn, einungis kaldi eða strekkingur í kvöld og él fyrir norðan og austan.
Á morgun nálgast fleiri lægðir landið, í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að þeim gangi illa að koma sér saman um hver eigi að ráða veðrinu. Það má segja að myndist millibilsástand sem þýðir það að vindur verður lengst af hægur á morgun, en snjómugga gerir vart við sig í flestum landshlutum.
Á miðvikudag og fimmtudag er útlit fyrir að deilan leysist, lægð fyrir austan land tekur völdin og möguleiki er á að berist til okkar mjög kalt loft beint norðan úr Íshafinu. Þá gætu tveggja stafa frosttölur látið sjá sig á mælum, en slíkt hefur verið sjaldgæft í vetur. Eins og svo oft í norðanáttinni, þá snjóar á norðanvert landið, en bjart syðra.
Nýjasta langtímaspá kom í hús nú á sjöunda tímanum og samkvæmt henni er útlit fyrir að kuldakastinu sé lokið á sunnudaginn því þá verði komin sunnanátt og hlýni á landinu.
Ísfell kaupir á Flateyri
Í fyrra hóf Ísfell ehf rekstur þvotta- og þjónustustöð fyrir fiskeldispoka á Flateyri en aukið fiskeldi á svæðinu kallar eftir að í boði sé allra handa þjónusta. Netapokarnir eru þvegnir, slitprófaðir, sjónskoðaðir og við þá gert ef þarf á verkstæðinu á Flateyri. Hingað til hefur þurft að aka netapokunum austur á land í þvottastöð, það er því gríðarlegur sparnaður fólgin í því fyrir eldisfyrirtækin á Vestfjörðum að geta fengið þessa þjónustu hér.
Ísfell leigði hluta af Hafnarbakka 8 af Arctic Odda ehf en hefur nú keypt allt húsið en í því var áður fiskmóttaka fyrir Arctic Odda ehf og skrifstofur fyrir Arctic Fish og dótturfyrirtæki. Með í kaupunum fylgdi einnig Gullkistan, viðbyggð skemma sem hefur verið nýtt sem geymsla en í henni fer nú fram saltframleiðsla.
Á heimasíðu Ísfells segir að með þessum kaupum sé fyrirtækið að byggja undir starfsemi sína á Flateyri og huga að framtíðarvexti félagsins á Vestfjörðum samhliða þeim vexti sem er fyrirhugaður hjá fiskeldisfyrirtækjum. Með þessu stóra húsnæði er hægt að bjóða eldisfyrirtækjum upp á geymslu á pokum eftir þvott. Ísfell sér fyrir sér að bæta þjónustu við útgerðir á Vestfjörðum með almennri víra- og netaverkstæðisþjónustu.
Ísfell hefur þegar tekið við eigninni og mun fara í nauðsynlegt viðhald á þaki og útliti þegar fer að vora segir sömuleiðis á heimasíðu Ísfells en húsið er afar illa farið.
Opið fyrir tilkynningar um innlausn greiðslumarka
Matvælastofnun annast innlausn greiðslumarks lögbýla samkvæmt reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt og geta handhafar greiðslumarka óskað eftir innlausn á greiðslumörkum sínum með að fylla út eyðublað 7.13 í þjónustugátt Matvælastofnunar. Með beiðni um innlausn á greiðslumarki skal fylgja staðfesting um eignarhald á lögbýli, samþykki ábúanda og sameigenda, og þinglýst samþykki veðhafa í lögbýlinu. Tilkynningu um innlausn skal skila eigi síðar en 20. janúar og greiðir Matvælastofnun innleyst greiðslumark eigi síðar en 15. febrúar næstkomandi, en innlausnarvirði þess árið 2017 er 12.480 kr. á ærgildi.
Aðalfundur Sjálfsbjargar á morgun
Í síðasta tölublaði Bæjarins besta kemur fram í auglýsingu að aðalfundur Sjálfsbjargar á Ísafirði verði haldinn þriðjudaginn 12. janúar í húsi Framsóknarflokksins við Pollgötu kl. 16:00. Nú er það svo að 12. janúar mun ekki lenda á þriðjudegi fyrr en árið 2021 og fullsnemmt að auglýsa aðalfund með fjögurra ára fyrirvara. Þarna eru leið mistök á ferðinni, fundurinn er á þriðjudegi engu var um það logið en dagurinn mun vera númer 10 í janúar en ekki 12 og leiðréttist það hér með.
Aðalfundur Sjálfsbjargar, félags hreyfihamlaðra á Ísafirði, verður haldinn í húsi Framsóknarflokksins við Pollgötu, þriðjudaginn 10. janúar kl. 16:00, þannig átti að þetta nú að hljóma.
150 milljónum úthlutað úr Afrekssjóði ÍSÍ
150 milljónum hefur verið úthlutað úr Afrekssjóði ÍSÍ. 100 milljónum verður úthlutað seinna á árinu eftir nýjum reglum sjóðsins sem verið er að vinna að. Frá þessu er greint á vef Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.
Síðasta sumar var ákveðið að auka framlag ríkisins til Afrekssjóðsins og unnið er að mótun nýrra úthlutunarreglna. Áætlað er að framlagið á næsta ári verði 200 milljónir, 300 milljónir árið 2019 og 400 milljónir 2020.
Hæst framlag hljóta þau sérsambönd sem taka þátt í lokamótum stórmóta á árinu en alls bárust umsóknir frá 26 sérsamböndum ÍSÍ. Hæsta framlagið í þetta skiptið fékk Handknattleikssamband Ísland eða 28,5 milljónir.
Körfuknattleikssambandið fékk 18,5 milljónir og Sundsamband Íslands 13,5 milljónir.
Úthlutunin skiptist á eftirfarandi hátt:
Blaksamband Íslands (BLÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 4.400.000,-
Badmintonsamband Íslands (BSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 2.200.000,-
Borðtennissamband Íslands (BTÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-
Dansíþróttasamband Íslands (DSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 2.100.000,-
Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Anítu Hinriksdóttur og Ásdísar Hjálmsdóttur og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 12.000.000,-
Fimleikasamband Íslands (FSÍ)
Vegna landsliðsverkefna í áhaldafimleikum og hópfimleikum, verkefna Irina Sazonova og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 7.950.000,-
Golfsamband Íslands (GSÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 8.850.000,-
Hjólreiðasamband Íslands (HRÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.100.000,-
Handknattleikssamband Íslands (HSÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliða karla og kvenna, yngri landsliða og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 28.500.000,-
Íþróttasamband fatlaðra (ÍF)
Vegna landsliðsverkefna sambandsins, undirbúnings fyrir Paralympic Games 2018, verkefna Helga Sveinssonar og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 7.750.000,-
Íshokkísamband Íslands (ÍHÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliðs karla og kvenna, yngri landsliða og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 3.200.000,-
Skautasamband Íslands (ÍSS)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-
Júdósamband Íslands (JSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.600.000,-
Karatesamband Íslands (KAÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.600.000,-
Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliðs karla og kvenna, yngri landsliða og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 18.500.000,-
Keilusamband Íslands (KLÍ)
Vegna landsliðsverkefna, unglingalandsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.100.000,-
Kraftlyftingasamband Íslands (KRA)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Fanneyjar Hauksdóttur, Júlíans Jóhanns Karls Jóhannssonar, Viktors Samúelssonar og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 6.600.000,-
Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliðs kvenna, yngri landsliða kvenna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 8.400.000,-
Landssamband hestamannafélaga (LH)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 2.200.000,-
Lyftingasamband Íslands (LSÍ)
Vegna landsliðsverkefna kvenna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.100.000,-
Skíðasamband Íslands (SKÍ)
Vegna landsliðsverkefna í alpagreinum, skíðagöngu og á snjóbrettum, undirbúnings fyrir Vetrarólympíuleikar 2018 og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 9.800.000,-
Skylmingasamband Íslands (SKY)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.700.000,-
Sundsamband Íslands (SSÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Hrafnhildar Lúthersdóttur, Eyglóar Óskar Gústafsdóttur, Antons Sveins Mckee og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 13.550.000,-
Skotíþróttasamband Íslands (STÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Ásgeirs Sigurgeirssonar og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 3.850.000,-
Tennissamband Íslands (TSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-
Þríþrautarsamband Íslands (ÞRÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-
Heildarúthlutun til sérsambanda ÍSÍ kr. 150.450.000,-
Atvinnuleysisbætur hækka
Þann 1. janúar hækkaði fjárhæð atvinnuleysisbóta og er nú óskert upphæð grunnatvinnuleysisbóta 217.208 kr. á mánuði fyrir skatt. Óskert upphæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta er nú 342.422 kr. á mánuði fyrir skatt. Vegna framfærsluskyldu barna yngri en 18 ára eru greiddar 8.688 kr. á mánuði með hverju barni (4% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum). Þá hækkuðu fjárhæðir bótaflokka almannatrygginga á sama tíma að jafnaði um 7,5%.
Skoðar lausnir til að berjast gegn landrofi
Brian Gerrity, nemandi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, vinnur nú að meistaraprófsverkefni þar sem hann fjallar um lausnir til að berjast gegn landrofi sjávar í heimabæ sínum Half Moon Bay í Kaliforníu. Á næstu vikum mun hann skila lokaritgerðinni og verja hana í framhaldinu. Þótt verkefninu sé ekki að fullu lokið hefur það nú þegar vakið athygli í heimabæ Brians. Í síðustu viku fjallaði blaðið Half Moon Bay Review um verkefnið og þau vandamál sem stafa af landrofi á svæðinu.
Frá þessu er sagt á vef Háskólaseturs Vestfjarða og þar segir jafnframt að verkefni Brians sé gott dæmi um það hvernig rannsóknir nemenda í haf- og strandsvæðastjórnun geta haft áhrif á viðfangsefni sem fengist er við á strandsvæðum bæði í byggð og óbyggðum.
Brian Gerrity mun síðar á árinu verja ritgerð sína og það munu einnig gera fleiri nemendur úr 2015 árgangi meistaranámsins. Á vef Háskólasetursins verður komið á framfæri fréttum af hverri vörn fyrir sig áður en þær eiga sér stað.
Mugison tilnefndur til Hlustendaverðlaunanna

Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Mugison er tilnefndur í tveimur flokkum Hlustendaverðlaunanna 2017. Annars vegar í flokknum plata ársins, þar sem nýjasta plata hans Enjoy! keppir við skífur Skálmaldar, Kaleo, Júníusar Meyvants og Emmsjé Gauta sem einnig komu út á síðasta ári. Hins vegar er Mugison að finna í flokknum söngvari ársins, en þar eru líka þeir: Friðrik Dór, Jökull Júlíusson, Páll Óskar, Júníus Meyvant og Magni.
Það eru: Bylgjan, X-ið. FM957 og Tónlist sem standa fyrir Hlustendaverðlaununum. Allir geta tekið þátt í kosningunni á einfaldan máta með því að smella á „líkar þetta“ við þá listamenn sem þeim fannst skara fram úr á nýliðnu ári. Einnig er kosið í flokkunum: Söngkona ársins, lag ársins, erlenda lag ársins, flytjandi ársins, myndband ársins og nýliði ársins.
Hlustendaverðlaunin verða veitt í Háskólabíói þann 3.febrúar og verður sjónvarpað beint frá þeim á Stöð2.