Síða 2361

Áskorun um jöfn kynjahlutföll

Alþingi

Kvenréttindafélag Íslands ítrekar áskorun sína til þeirra alþingsmanna sem fá það verkefni að mynda nýja ríkisstjórn að tryggja að jöfn kynjahlutföll séu á ráðherrastólum. Félagið hvetur enn fremur alla flokka á Alþingi að gæta þess að tilnefna konur og karla til jafns í nefndir og ráð og tryggja jöfn kynjahlutföll í opinberum nefndum og ráðum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Kvenréttindafélaginu í dag og segir ennfremur „Kynjajafnrétti er grundvöllur hagsældar og velferðar og án valdeflingar og þátttöku kvenna á opinberum vettvangi er ekki hægt að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um frið, jafnrétti og lýðræði.

Ráðherrar
Þess má geta að samkvæmt vef Alþingis hafa 125 karlmenn gengt ráðherraembætti frá 1904 en 27 konur eða 18%

Í hinum hundrað ára Framsóknarflokki hafa verið 41 ráðherra, 83% þeirra eru karlar.

Sjálfstæðisflokkurinn skartar 45 ráðherrum og 82% þeirra eru karlar.

Vinstri grænir hafa átt 7 ráðherra, 3 karla og 4 konur og Samfylkingin 12 ráðherra, 5 karla og 7 konur.

Ríkisstjórnir
Í þriðja ráðuneyti Davíðs Oddsonar frá 1999-2003 (Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur) sátu 15 ráðherrar, þar af 4 konur eða 27%.

Í fjórða ráðuneyti Davíðs Oddsonar frá 2003 – 2004 (Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur) sátu 13 ráðherrar, þar af 3 konur eða 23%.

Í ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar frá 2004-2006 (Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur) sátu 14 ráðherrar, þar af 3 konur eða 21%.

Í ráðuneyti Geirs H. Haarde frá 2006-2007 (Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur) sátu 12 ráðherrar og þar af 4 konur eða 33%.

Í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde frá 2007-2009 (Sjálfstæðisflokkur og Samfylking) sátu sömuleiðis 12 ráðherrar, þar af 4 konur eða 33%.

Í ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir 2009 sátu 10 ráðherrar, 5 konur og 5 karlar.

Í öðru ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir 2009-2013 (Samfylking og Vinstri grænir) sátu 15 ráðherrar, þar af 7 konur eða 47%.

Í ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar 2013-2016 (Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur) voru 11 ráðherrar, þar af 5 konur eða 45%.

Í ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar 2016 (Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur) voru/eru 10 ráðherrar, fimm konur og fimm karlar.

bryndis@bb.is

Umsóknin inn fyrir miðnætti

Nú fer hver að verða síðastur í að sækja um í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða þetta árið en umsóknarfrestur til að sækja um verkefnastyrki til menningarmála, styrki til atvinnu- og nýsköpunarverkefna, og stofn- og rekstrarstyrki til menningarstofnana rennur út á miðnætti. Á árinu 2017 verður litið sérstaklega til verkefna sem uppfylla eitt eða fleiri eftirfarandi skilyrða: Verkefni sem efla nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu, verkefni sem stuðla að vöru- og gæðaþróun í starfandi fyrirtækjum, verkefni sem mynda atvinnutækifæri og auka fagmennsku á sviði lista og menningar, verkefni sem efla samstarf, ýmist á milli svæða, listgreina, fyrirtækja eða rannsóknaraðila, verkefni sem styðja við uppbyggingu og eflingu menningartengdrar ferðaþjónustu, verkefni sem skapa störf fyrir háskólamenntaðar konur og ungt fólk á svæðinu, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni sem eru gjaldeyrisskapandi og atvinnuþróunarverkefni sem eru á sviði líftækni.

Hægt er að sækja um styrki til allt að þriggja ára. Framkvæmda- og fjárhagsáætlun þarf að miðast við þann tímaramma í umsóknum, þegar sótt er um tveggja eða þriggja ára styrk.

Uppbyggingarsjóður er hluti af Sóknaráætlunar Vestfjarða og í umsjón Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hann veitir styrki til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar. Uppbyggingarsjóður varð til með samningi ríkis og Fjórðungssambands Vestfirðinga um Sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019 sem undirritaður var 10. febrúar 2015.

Sérstök níu manna úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs sér um að fara yfir umsóknir og úthluta styrkjum, á grundvelli Sóknaráætlunar Vestfjarða, áherslna og úthlutunarreglna, auk gæða umsókna og verkefna. Árið 2017 verður væntanlega úthlutað um 65 milljónum úr sjóðnum.

Hér má sækja um í sjóðinn.

annska@bb.is

Djúpið verður ekki teppalagt

Þorsteinn Másson

Þann 6. Janúar birtist frétt í Fréttatímanum með fyrirsögninni „Ísafjarðardjúp teppalagt með laxeldiskvíum“ og vísað í mynd úr skýrslu Arnarlax.

Hér er ákveðin misskilningur á ferðinni sem okkur er ljúft og skylt að leiðrétta.

Þegar Arnarlax sótti um leyfi til laxeldis í Ísafjarðardjúpi var sótt um svæði sem fyrirtækið hefur áhuga á að nota undir eldið. Næst er farið í rannsóknir á svæðinu og mikla gagnaöflun til að tryggja að eldiskvíarnar séu á besta mögulega stað inn í svæðinu.

Það er að mörgu að huga eins og skipaumferð, fiskveiðum, lífríki, ferðamennsku, öðru fiskeldi, dýpi, öldufari, straumum ásamt fleiri þáttum. Þegar búið er að ráðfæra sig við þessa hagsmunaaðila, safna gögnum og niðurstöður rannsókna liggja fyrir eru eldiskvíarnar settar niður á besta mögulega staðinn innan svæðisins.

Það er því ekki svo að allur reiturinn verði fullur af eldiskvíum heldur munu þær einungis þurfa brot af þessu plássi eins og sést á meðfylgjandi mynd.

En það er skiljanlegt að þessi miskilningur komi upp og hugsanlega þurfa fyrirtæki sem vinna að þessari uppbygginu að koma svona hlutum betur á framfæri.

Þorsteinn Másson
Starfsmaður Arnarlax

Samningafundi sjómanna lokið

Samningafundi sjómanna og útgerðamanna lauk nú fyrir stundu og hefur nýr verið boðaður á morgun kl. 13:00. Á vef RÚV kemur fram að bjartsýni hafi gætt í máli samningamanna.

bryndis@bb.is

Undirrita yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu

48 þúsund erlendir ferðamenn fóru á Látrabjarg skv. könnun Ferðamálastofu.

Á morgun 10.janúar klukkan 14:30 verður í Háskólanum í Reykjavík undirrituð af forsvarsfólki yfir 100 ferðaþjónustufyrirtækja yfirlýsing um ábyrga ferðaþjónustu. Það er Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn, í samstarfi við félög og stofnanir ferðaþjónustunnar, sem standa fyrir undirrituninni og bjóða þau íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum að sammælast um aðgerðir sem leiða til ábyrgar ferðaþjónustu hér á landi. Verndari verkefnisins er forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.

Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni og er tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar. Með ábyrgri ferðaþjónustu er átt við að fyrirtækin axli ábyrgð á þeim afleiðingum sem rekstur þeirra hefur á umhverfið og samfélagið.

Festa, í samstarfi við Íslenska ferðaklasann, mun í framhaldinu á árinu 2017 bjóða þátttakendum uppá fræðslu og stuðning í formi hugmyndafunda, málstofa og vinnustofa þar sem sérfræðingar kynna fyrir fyrirtækjum hagnýtar leiðir að ábyrgri ferðaþjónustu. En ferðaþjónustan á Íslandi er mikilvæg atvinnugrein sem getur stuðlað að langtíma velferð og góðum orðstír þjóðarinnar er segir í lýsingu á verkefninu. Þar segir jafnframt að í ferðaþjónustunni séu margar áskoranir sem snúa að samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þar megi telja aukinn ágang á náttúruna, að réttindi starfsfólks séu virt, að nærsamfélögin sem ferðamenn heimsækja fái sanngjarnan skerf af ávinningnum og ekki síst að öryggi ferðamanna sé tryggt og þeim veitt góð þjónusta.

Með undirritun gangast ferðaþjónar við því að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu með því að: Ganga vel um og virða náttúruna, tryggja öryggi gesta sinna og koma fram við þá af háttvísi, virða réttindi starfsfólks og hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið.

Sett verða upp markmið um ofangreinda þætti og þeir mældir og reglulega birtar upplýsingar um árangur fyrirtækisins. Þátttaka í yfirlýsingunni er þátttakendum að kostnaðarlausu en gert er ráð fyrir að henni fylgi raunverulegar aðgerðir fyrirtækjanna og áhrif þessa sameiginlega átaks geti því orðið umtalsverð.

annska@bb.is

Fjórði hlýjasti desembermánuðurinn

Bolungarvík í vetrarskrúða, en nýliðinn desember var einn sá hlýjasti frá upphafi mælinga samkvæmt veðurmælum þar í bæ.

Hlýtt var í veðri á landinu nýliðinn desembermánuð og var tíðin lengst af hagstæð er Veðurstofan greinir frá. Um austanvert landið var mánuðurinn sums staðar sá hlýjasti frá upphafi mælinga og í hópi þeirra hlýjustu um land allt. Úrkomusamt var og dimmt. Ekki var mikið um illviðri að undanskildum fáeinum hvössum dögum undir lok mánaðarins og urðu þá nokkrar samgöngutruflanir. Þá kólnaði nokkuð og var snjór á jörðu um allt land að kalla yfir jólahátíðina. En þann snjó tók þó fljótt upp aftur víðast hvar á láglendi.

Í Bolungarvík var meðalhitinn 2,7 stig og er það 3,6 gráðum hærra en að jafnaði sem gerir þennan desembermánuð að þeim fjórða hlýjasta síðustu 119 árin, sé litið til síðasta áratugar var mánuðurinn 2,7 stigum hlýrri. Meðalhiti í Reykjavík mældist 3,6 stig og er það 3,8 stigum ofan meðalhita áranna 1961 til 1990, en 3,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 2,8 stig, 4,7 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 3,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 3,0 stig og 4,0 stig á Höfn í Hornafirði.

Vindhraði var í ríflegu meðallagi, um 0,3 m/s umfram meðallag síðustu tíu ára á sjálfvirkum stöðvum Veðurstofu Íslands. Suðlægar áttir voru mun algengari og stríðari en þær norðlægu.

annska@bb.is

Fleiri stunda símenntun

Árið 2015 varð mikil aukning í símenntun á Íslandi en þá sóttu 27,5% landsmanna á aldrinum 25-64 ára sér fræðslu, annað hvort í skóla eða aðra fræðslu með leiðbeinanda, eða 45.700 manns er Hagstofan greinir frá. Það er fjölgun um 3.600 manns og um 1,9 prósentustig frá árinu 2014. Frá árinu 2003 hefur hlutfall landsmanna á aldrinum 25-64 ára, sem stundar einhvers konar símenntun, heldur farið hækkandi. Hlutfallið var 22,2% árið 2003 en fór hæst í 27,6% árið 2006 og nálgast nú þá tölu á ný.

Tæp 38% þeirra sem höfðu lokið háskólamenntun sóttu símenntun árið 2015 en rúm 17% þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun. Hlutfall þeirra sem sóttu sér menntun hækkaði mest frá fyrra ári meðal þeirra sem hafa háskólamenntun en lítið meðal þeirra sem aðeins hafa grunnmenntun. Mun fleiri konur en karlar sækja sér fræðslu.
Alls stunduðu 31.400 manns símenntun utan skóla árið 2015, sóttu til dæmis námskeið, ráðstefnu eða fyrirlestur. Þátttaka í símenntun meðal 25-64 ára var hlutfallslega meiri hjá atvinnulausum og fólki utan vinnumarkaðar en hjá starfandi fólki árið 2015. Þannig sóttu 33,8% atvinnulausra 25-64 ára sér fræðslu.

Ísland er í fjórða sæti 33 Evrópuþjóða þegar litið er á þátttöku 25-64 ára í símenntun árið 2015. Aðeins í Danmörku (32,1%), Sviss (31,3%) og Svíþjóð (29,4%) er þátttakan meiri en á Íslandi. Meðaltal Evrópusambandsríkjanna 28 er 10,7%.

Símenntun er skilgreind sem öll menntun sem einstaklingur sækir, hvort sem er formlegt nám í skóla eða menntun utan skóla, s.s. á námskeiði, fyrirlestri eða á ráðstefnu. Tölurnar eru byggðar á niðurstöðum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Grein Hagstofunnar um málið má lesa í heild sinni hér.

annska@bb.is

Minjar í Ólafsdal á Landbúnaðarsafni

Ólafsdalur. Mynd: Jón Guðmundsson/Ljósmyndasafn Íslands.

Hjá Landbúnaðarsafni Íslands er komin út skýrsla um ræktunarminjar í Ólafsdal við Gilsfjörð. Frá þessu segir á Reykhólavefnum. Minjarnar eru unnar af Ragnhildi Helgu Jónsdóttur og Bjarna Guðmundssyni í samvinnu við Ólafsdalsfélagið og með styrk frá Alþingi. Skýrslan gefur hugmynd um þær miklu ræktunarminjar, flestar frá fyrri aldamótum, sem er að finna í Ólafsdal og gera staðinn afar verðmætan í ljósi íslenskrar búnaðarsögu.

brynja@bb.is

Söfnun vegna flóða

Gríðarlegar rigningar eru nú víðsvegar í Tælandi og flæða ár og vötn yfir bakka sína. Þetta eru mannskæð flóð en að minnsta 18 manns hafa látið lífið í flóðunum og þúsundir þorpa eru að mestu undir vatni. Samkvæmt frétt á Vísir.is í gær hefur skólastarf 1500 skóla raskast en flóðin eru talin hafa raskað lífi nærri milljón manns í tíu fylkjum í landinu og útlit fyrir að ekki stytti upp fyrr en á morgun. Herinn hefur verið kallaður út til að hjálpa fólki að flýja flóðin og færa þeim mat sem eru innlyksa.

Laddawan Dagbjartsson íbúi og kennari í Bolungarvík rennur blóðið til skyldunnar og mun næstkomandi laugardag frá klukkan 12:00 – 14:00 vera með matsölu og skemmtun til að afla fjár, afrakstur dagsins fer til stuðnings bágstaddra vegna flóðanna í Tælandi.

bryndis@bb.is

Stormur og ófærð víða

Nokkurrar ófærðar gætir á Vestfjörðum í morgunsárið og sums staðar mjög hvasst í fjórðungnum, með ofankomu víða. Hálsarnir í A-Barðastrandarsýslu eru ófærir og Kleifaheiðin sömuleiðis. Þæfingsfærð er á Mikladal og Hálfdáni. Hálka og snjóþekja er á vegum á norðanverðum Vestfjörðum en stórhríð á Gemlufallsheiði. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum og mokstur ekki hafinn.

Nú er 970 mb lægð á austurleið skammt suður af landinu og veldur hún norðaustan hvassviðri eða stormi um mestallt land. Það dregur smám saman úr vindi og ofankomu seinnipartinn, einungis kaldi eða strekkingur í kvöld og él fyrir norðan og austan.

Á morgun nálgast fleiri lægðir landið, í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að þeim gangi illa að koma sér saman um hver eigi að ráða veðrinu. Það má segja að myndist millibilsástand sem þýðir það að vindur verður lengst af hægur á morgun, en snjómugga gerir vart við sig í flestum landshlutum.

Á miðvikudag og fimmtudag er útlit fyrir að deilan leysist, lægð fyrir austan land tekur völdin og möguleiki er á að berist til okkar mjög kalt loft beint norðan úr Íshafinu. Þá gætu tveggja stafa frosttölur látið sjá sig á mælum, en slíkt hefur verið sjaldgæft í vetur. Eins og svo oft í norðanáttinni, þá snjóar á norðanvert landið, en bjart syðra.

Nýjasta langtímaspá kom í hús nú á sjöunda tímanum og samkvæmt henni er útlit fyrir að kuldakastinu sé lokið á sunnudaginn því þá verði komin sunnanátt og hlýni á landinu.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir