Síða 2360

Lilja kom í tólftu tilraun

Ásthildur og Hafþór með ljósgeislann, Lilju litlu. Mynd: mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra Vesturbyggðar og Hafþór Jónsson eiginmann hennar um langt og strangt ferli sem undan er gengið í lífi þeirra við að eignast barn. Í fjögur ár voru þau reglulegir gestir í Art Medica þar sem Ásthildur fór í gegnum hverja glasafrjóvgunina á fætur annarri, í 10 skipti var reynt, en allt kom fyrir ekki og þó voru þau Ásthildur og Hafþór þó búin að fá þá greiningu hjá stofnuninni að það ætti í raun ekkert að standa í veginum fyrir að þau gætu eignast barn eftir þessum leiðum. Aldur Ásthildar, sem var 38 ára þegar að ferlið hófst, og óútskýrð ófrjósemi gerði það að verkum að Ásthildur varð ekki barnshafandi tjáði læknir þeirra á stöðinni að 10 uppsetningum liðnum.

Ásthildur og Hafþór voru ekki tilbúin að gefast upp og leituðu þau til læknamiðstöðvar í Grikklandi eftir ábendingu frá vinkonu þeirra. Um leið og Ásthildur fer í skoðun þar kemur í ljós að hún er með fyrirstöðu í leginu sem læknunum hér heima hafði yfirsést, sem gerði það að verkum að hún gat ekki orðið barnshafandi og var strax framkvæmd minniháttar aðgerð til að fjarlægja fyrirstöðuna.

Frjóvgun tókst í annað skiptið sem Ásthildur fór í hana á grísku læknastöðinni Serum, en þegar að ekki tókst í fyrstu tilraun þar var hún alveg komin að því að missa móðinn, en eigandinn Penny sat hjá henni og taldi í hana kjarkinn að nýju og lofaði henni að nú myndi þetta takast: „Hættu að væla! Þú getur orðið ófrísk og ég legg hús mitt að veði að þú eignist barn. Og þú munt eignast barn á þessu ári, ég lofa þér því!“ Ekki laug Penny, því eftir þessa tólftu uppsetningu varð draumurinn um að verða barnshafandi að veruleika. Í byrjun októbermánaðar fæddist þeim Ásthildi og Hafþóri dóttirin Lilja, agnarsmá en hraust og falleg. Kom hún í heiminn rúmum tveimur mánuðum fyrir áætlaðan dag eftir að Ásthildur veiktist harkalega af meðgöngueitrun.

Ásthildur og Hafþór eru hreinskilin og opin í umfjölluninni um þetta erfiða ferli sem undan er gengið og má lesa viðtalið hér.

annska@bb.is

Fiskvinnslufyrirtæki sýna starfsfólki sínu lítilsvirðingu

„Þær vinnudeilur sem sjómenn og útgerðarmenn standa nú í hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir landverkafólk. Fiskvinnslufyrirtæki hafa nýtt sér ákvæði í landslögum sem gerir þeim kleift að senda fiskvinnslufólk á atvinnuleysisbætur vegna „ófyrirséðra áfalla“ í stað þess að njóta kauptryggingar vegna hráefnisskorts eins og hingað til hefur tíðkast. Með þessu spara fyrirtæki sér launakostnað í verkfallinu en að sama skapi geta fyrirtæki ekki vænst þess að fólk snúi aftur til vinnu eftir að deilan leysist. Með því að fara þessa leið eru fiskvinnslufyrirtæki að sýna starfsfólki sínu lítilsvirðingu og rjúfa þann gagnkvæma skilning sem felst í ráðningarsambandi.“

Þetta segir í yfirlýsingu sem Starfsgreinasamband Íslands sendi frá sér í dag þar sem það lýsir yfir fullum stuðningi við sjómenn í þeirri kjaradeilu sem nú stendur yfir. Segir þar jafnframt að þessar aðgerðir komi misjafnlega niður á afkomu fjölda starfsmanna fyrirtækjanna og þá séu ótaldir þeir einstaklingar sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Mun Starfsgreinasambandið freista þess að sækja réttindi þessa fólks og segja um grófa mismunun að ræða gagnvart þessum hópi sem sviptur er uppsagnarfresti og afkomu í einni sviphendingu. Krefst sambandið þess að fiskvinnslufyrirtæki sýni starfsfólki sínu virðingu og traust og geri allt sem í þeirra valdi stendur til að viðhalda ráðningasambandi og tryggja framfærslu starfsfólks. Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér.

annska@bb.is

Fylgja þarf reglum um hundahald

Þessi hressi ferfætlingur var eitt sinn í heimskönnun án eigenda sinna

Af og til berst lögreglu kvörtun um lausagöngu hunda í þéttbýli og barst slík tilkynning Lögreglunni á Vestfjörðum um nýliðna helgi vegna hunds sem var laus í miðbæ Ísafjarðar. Ekki kom til föngunar að þessu sinni þar sem eigandi sótti strokudýrið áður en til þess kom. Mikilvægt er að eigendur hunda fylgi reglum um hundahald, segir í tilkynningu frá lögreglu og bendir á hundur þarf að vera í taumi ef gengið er með hann í þéttbýli þar sem fólk kunni að vera hrætt við hunda og reglunum er m.a. ætlað að tryggja að það fólk geti gengið óttalaust um gangstéttir og göngustíga.

Það er á könnu sveitarfélagsins að handsama lausa hunda. Í slíkum tilfellum er fólk beðið um að hafa samband við forstöðumann þjónustumiðstöðvar í síma 620-7634 eða um netfangið ahaldahus@isafjordur.is og verður hundurinn þá fangaður og greiða eigendur þá fyrir handsömun og vörslu ferfættu heimskönnuðanna.

annska@bb.is

Fleiri háskólamenntaðir

Fleiri landsmenn á aldrunum 25-64 ára voru háskólamenntaðir en með framhaldsskólamenntun árið 2015. Árið 2014 voru háskólamenntaðir 25-64 ára íbúar á Íslandi í fyrsta skipti fleiri en íbúar með menntun á framhaldsskólastigi, en munurinn var innan skekkjumarka. Árið 2015 var munurinn hins vegar marktækur en þá voru háskólamenntaðir 25-64 ára 38,9% íbúa á Íslandi (64.600), 35,9% höfðu lokið framhaldsskólastigi (59.600) og 25,2% höfðu eingöngu lokið grunnmenntun, þ.e. styttra námi en framhaldsskólastigi (41.900), samkvæmt niðurstöðum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Íbúum með háskólamenntun fjölgaði um 3.400 frá fyrra ári en íbúum, sem aðeins hafa grunnmenntun, fækkaði um 2.200.

Fjölgun háskólamenntaðra má að miklu leyti rekja til fjölgunar háskólamenntaðra kvenna, og fækkun þeirra sem hafa eingöngu lokið grunnmenntun má líka rekja að miklu leyti til aukinnar menntunar kvenna. Minni breytingar hafa orðið á menntun karla á árunum 2003-2015. Þessar upplýsingar er að finna í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands og má lesa frekar hér.

annska@bb.is

Ók öfuga leið um hringtorg

Ökumaður lék sér að því að aka öfuga leið um hringtorgið á Ísafirði

Fimmtán ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða í umdæmi Lögreglunnar á Vestfjörðum er fram kemur í helstu verkefnum hennar í liðinni viku. Flestir þessara ökumanna voru í akstri á Djúpvegi. Sá sem hraðast ók mældist á 128 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km. Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í vikunni sem var minniháttar árekstur á bifreiðastæði á Ísafirði.

Á sunnudagskvöld stóðu lögreglumenn í eftirliti ökumann fólksbifreiðar að því að aka öfugt í hringtorg í miðbæ Ísafjarðar. Afskipti voru höfð af ökumanninum, sem virðist hafa gert sér þetta að leik og má hann búast við sekt fyrir athæfið.

annska@bb.is

Drög að samkomulagi við Hendingu

Mynd úr safni og tengist efni fréttarinnar óbeint

Á fundi bæjarráðs 19. desember lagði Gísli H. Halldórsson bæjarstjóri fram drög að samkomulagi við Hestamannafélagið Hendingu en um árabil hefur verið ágreiningur milli hestamannafélagsins og sveitarfélagsins vegna landspildu í Hnífsdal í eigu Hendingar sem ónýttist vegna jarðgangagerðar. Þar fór forgörðum skeiðvöllur Hendingar og hafa þeir nú byggt upp að hluta til nýja aðstöðu í Engidal.

Í ágúst 2008 segir frá því að Ísafjarðarbær hafi lagt fram tvær bótatillögur sem félagsmenn Hendingar felldu með öllum greiddum atkvæðum og undirbúningur hafinn til málsóknar á hendur Ísafjarðarbæ. Í október ári seinna segir Marinó Hákonarson, formaður Hendingar að óháð mat á tjóni félagsins sé metið á 46,5 milljónir króna, félagsmenn séu nú búnir að missa þolinmæðina og hafi ráðið sér lögfræðing. Í maí í fyrra situr allt við sama keip og krafa Hendingar nú komin upp í 84 milljónir.

Vegagerðin hefur verið tilbúin til greiðslu bóta frá byggingu ganganna sem felast í greiðslu 20 milljóna til Ísafjarðarbæjar og þar til nú verið talið ekki væri hægt að ganga frá þeirri greiðslu fyrr en frágengnu samkomulagi milli Hendingar og Ísafjarðarbæjar. Að sögn Gísla Halldórs virðist nú liggja fyrir að hægt er að ganga frá samkomulegi við Vegagerðina og greiðslu bótanna óháð niðurstöðu í ágreiningsefnum milli sveitarfélagsins og hestamannafélagsins.

Nú virðist hilla undir samkomulag ef marka má minnisblað bæjarstjóra frá 19. desember og bókun bæjarráðs í gær: „Lögð fram drög að samkomulagi milli Vegagerðarinnar og Ísafjarðarbæjar um greiðslu fullnaðarbóta vegna byggingar Bolungarvíkurganga, þ.á.m. vegna skerðingar á aðstöðu Hestamannafélagsins Hendingar að Búðartúni í Hnífsdal.“ Þarna er um að ræða samningur um bótagreiðslu Vegagerðarinnar til Ísafjarðarbæjar, niðurstaða bótagreiðslu Ísafjarðarbæjar til hestamannafélagsins liggur ekki ennþá fyrir.

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Jónas Þór Birgisson, lét bóka sérstaka ánægju með lyktir máls og þá sérstaklega að þær hafi verið á sömu nótum og lagt var upp með árið 2013.

bryndis@bb.is

10. janúar kl. 14:20 frétt uppfærð
Ábending hefur borist um að við atkvæðagreiðslu um bótatillögur árið 2008 hafi þær verið naumlega felldar, ekki með öllum greiddum atkvæðum og fram kemur í þessari frétt og í frétt sem birtist í ágúst 2008.

Kalt út vikuna

Norðan og norðvestan stormur verður um landið austanvert í nótt og á morgun, en hægari vindur vestantil. Kafaldsbylur norðan- og austanlands, en úrkomulítið sunnan- og vestanlands. Í dag er gert ráð fyrir norðaustan 10-18 m/s og snjókomu eða éljum á Vestfjörðum, einkum á svæðinu norðanverðu og verður frost á bilinu 0 til 5 stig. Á morgun er minnkandi norðaustanátt. Þá styttir upp og bætir í kuldann og búist við frosti á bilinu 5 til 10 stig síðdegis og verður kalt í veðri fram á sunnudag. Á Vestfjörðum er snjóþekja eða hálka og éljagangur á flestum leiðum þó er þæfingsfærð að hluta til í Ísafjarðardjúpi.

annska@bb.is

Ábyrgir undirrita í Vestrahúsi í dag

Fjölmenningarsetrið er staðsett í Vestrahúsinu á Ísafirði, þar sem fjölmargar aðrar stofnanir eru til húsa, s.s. Rauði krossinn.

Í gær sögðum við frá fyrirhuguðum undirritunum ábyrgra ferðaþjónustuaðila á yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu, afar viðeigandi framkvæmd í ljósi atburða gærdagsins. Vestfirskir ferðaþjónar sem taka vilja þátt í þessu verkefni geta mætt í Vestrahúsið kl. 14:30 og þar með lagt sitt á vogarskálar. Viðburðurinn mun fara fram í öllum landshlutum á sama tíma og tengdur með SKYPE.

bryndis@bb.is

Hvítfiskeldi vex hratt

Í nýútkominni skýrslu dr. Þórs Sigfússonar kemur fram að aukið framboð á hvítum eldisfiski gæti haft talsverð áhrif á markað á hvítum fiski. Villtur hvítfiskur eins og til dæmis Alaskaufsinn og Atlandshafsþorskurinn hefur haldist í magni nokkuð stöðugur frá árinu 1980 og Íslendingar átt um 10% af framboði hvítfisks í heiminum. Nú eru blikur á lofti og gera áætlanir ráð fyrir því að íslendingar muni aðeins bjóða um það bil 1% af framboði á hvítum fiski árið 2020. Framleiðsla á hvítum eldisfiski hefur farið úr 0.3 millj. tonna árið 1990 og reiknað er með að verði rúm 12 millj. tonna árið 2020. Helstu tegundir í hvítfiskeldi eru tilapia og pangasius.

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að all nokkur munur sé á hvíta eldisfisknum og villta Atlandshafsþorskinum með tilliti til gæða, næringarinnihalds, uppruna og sjálfbærnisjónarmiða en engin trygging er fyrir því að neytendur taki mikið mið af því enda þekking þeirra á gæðum fisks oft verulega takmörkuð, að mati skýrsluhöfundar. Söluaðilar á neytendamörkuðum séu oft á tíðum líka framleiðendur á eldisfiski.

Þór segir nauðsynlegt að Ísland treysti ímynd Íslandsþorskins á harðnandi markaði og leggur upp þá hugmynd að efla mætti samstarf við Norðmenn, Rússa og Færeyinga um kynningu á Atlandshafsþorskinum jafnvel sameinast í markaðs- og sölustarfi.

Kristján Jóakimsson vinnslu- og markaðsstjóri hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvör í Hnífsdal tekur undir áhyggjur Þórs og bætir við að ekki hafi verið lögð næg áhersla á að markaðssetja okkar vöru sem gæðavöru, skapa okkur sérstöðu á markaði með því. Í viðtali sem tekið var við Kristján í blaðinu Sóknarfæri árið 2013 segir hann að „Farsælast sé að snúa bökum saman og koma fram sem ein heild“ og í samtali við Kristján í dag segir hann þessi orð enn í fullu gildi.

bryndis@bb.is

Vestrapiltar komnir í undanúrslit

Sigursælir 9. flokksstrákar með Yngva Páli Gunnlaugssyni, þjálfara sínum. Ljósmynd: Guðjón Þorsteinsson.

9. flokkur Körfuboltadeildar Vestra eru eftir sannfærandi sigur 82-39 á Breiðabliki um síðustu helgi komnir í undanúrslit í bikarkeppni KKÍ. Vestri féll um riðil í síðustu umferð Íslandsmótsins, úr A í B, en Breiðablik tók sæti þeirra eftir sigur í B-riðli.

Lið Vestra skipa Hilmir og Hugi Hallgrímssynir, Egill Fjölnisson, Blessed og James Parilla og Friðrik Vignisson. Í leiknum á móti Breiðabliki skoraði Hugi 36 stig, Hilmir 25 stig , Egill 17 stig og Blessed og Friðrik 2 stig hvor.

Þeir Hugi, Hilmir og Egill voru allir boðaðir til landsliðsæfinga milli jóla og nýárs.

Vestri er fyrsta liðið til þess að tryggja sig inn í undanúrslit en framundan eru leikir milli annarra liða í 8-liða úrslitum. Leikir Keflavíkur og Vals, KR og Fjölnis og Grindavíkur og ÍR munu fara fram á næstu dögum.

Þetta kom fram á heimasíðu Vestra í gær.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir