Mánudagur 28. október 2024
Síða 236

Fiskeldisgjaldið hækkar um 23%

Eldiskvíar.

Alþingi afgreiddi lagabreytingu fyrir jólin um fiskeldisgjald og hækkaði það úr 3,5% í 4,3% af verði eldislax á alþjóðlegum markaði. Hækkunin nemur 23%. Tekjur ríkissjóðs af gjaldinu eru áætlaðar verða 2,1 milljarður króna á þessu ári og hækkar þær um 630 m.kr. vegna hækkunarinnar.

Upphaflega lagði fjármálaráðherra til að gjaldið yrði 5% en meirihluti fjárlaganefndar Alþingis dró úr hækkuninni og lagði til að það yrði 4,3%, sem var svo samþykkt.

Þrátt fyrir það voru tekjur ríkissjóðs af gjaldinu ekki lækkaðar frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Segir í áliti meirihluta fjárlaganefndar að það sé vegna þess að talsverður munur sé á áætlaðri framleiðslu samkvæmt tölum frá MAST annars vegar og fiskeldisfyrirtækjum hins vegar. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta gerði Mast ráð fyrir að framleiðsla ársins yrði 40.000 tonn af eldislaxi en fiskeldisfyrirtækin áætla að framleiðslan verði 49.000 tonn.

Með hækkun gjaldsins í 4,3% og framleiðslumagn 49.000 tonn er gert ráð fyrir þeim tekjum af fiskeldisgjaldinu sem upphaflega tillagan um 5% átti að skila í ríkissjóð.

Vestfjarðastofa: orkuskortur hamlar uppbyggingu

Í áramótapistli Sigríðar Ólafar Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu, sem birtist á Bæjarins besta á gamlársdag segir hún að mikill uppgangur sé á Vestfjörðum og fjárfestingar umtalsverðar, bæði af hálfu hins opinbera og einkaaðila. Hins vegar þurfi bæði meiri orkuframleiðslu á Vestfjörðum og jafnvel að tvöfalda Vesturlínu. Hið opinbera hafi „þrátt fyrir hillumetra af skýrslum hefur hið opinbera engin raunveruleg svör.“ Sigríður segir að taka þurfi ákvarðanir um næstu skref strax til að svæðið geti tekið þátt í orkuskiptunum framundan og haldið áfram uppbyggingu atvinnulífs og samfélags.

íbúðaskortur

Annað sem þrengir að uppbyggingunni á Vestfjörðum er að mati Sigríðar skortur á íbúðahúsnæði sem standi „þróun samfélags og atvinnulífs fyrir þrifum á svæðinu.“ Þrátt fyrir mikinn skort er verð á íbúðahúsnæði enn víða vel undir byggingarkostnaði sem skýri hversu lítið hafi verið byggt síðustu áratugina. Bendir Sigríður á að fjölgun hafi orðið í þeim byggðakjörnum og sveitarfélögum sem hefur náðst að byggja nýtt íbúðahúsnæði.

vegur um Teigskóg og brýr

Á síðasta ári hafi orðið gleðileg uppbygging í samgöngumannvirkjum og nefnir Sigríður sérstaklega nýja brú yfir Þorskafjörð, sem vígð var með viðhöfn og nokkru síðar opnaði vegurinn marg umræddi um Teigskóg í Þorskfirði.Auk þess séu framkvæmdir í gangi við 12 km langan nýjan veg á Dynjandisheiði og um helmingur hans hafi þegar verið tekinn í notkun.

Ísafjarðarhöfn: 10.357 tonn af botnfiski landað á síðasta ári

Páll Pálsson ÍS í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í desember var landað 667 tonnum af botnfiski í Ísafjarðarhöfn. Togarinn Páll Pálsson ÍS fór sjö veiðiferðir og aflaði samtals 444 tonnum. Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS landaði einu sinni 223 tonnum af afurðum.

Samkvæmt tölum frá Fiskistofu bárust 10.357 tonn af botnfiski á land í Ísafjarðarhöfn á síðasta ári. Auk þess var landað 3.503 tonnum af innfluttri rækju eða samtals 13.861 tonn.

Forsetakosningar verða í sumar

Það varð ljóst í gær að forsetakosningar fara fram í sumar. Guðni Th Jóhannesson, forseti tilkynnti þá að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri. Líklega verður kosið laugardaginn 8. júní.

Guðni varð hlutskarpastur í kosningunum 2016, en þá lét Ólafur Ragnar Grímsson af störfum eftir 20 ára setu á Bessastöðum.

Alls voru 9 frambjóðendur á kjörseðlinum. Guðni Th Jóhannesson hlaut 39,1% atkvæða. Næst honum kom Halla Tómasdóttir með 27,9% atkvæða. Andri Snær Magnason varð þriðji með 14,3% og Davíð Oddsson hlaut 13,8% atkvæða. Enginn hinna fimm frambjóðenda náði 5% atkvæða.

Í Norðvesturkjördæmi varð Guðni Th. Jóhannesson efstur með 42,1% atkvæða, Halla Tómasdóttir fékk 32%, Davíð Oddsson 14,1% og Andri Snær Magnason 7,2%.

Forsetakosningar fóru einnig fram 2020 og voru þá aðeins tveir frambjóðendur í kjöri, Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson. Vann Guðni Th. yfirburðasigur og fékk 92,2% atkvæða og Guðmundur Franklín fékk aðeins 7,8%.

Í nýársávarpi sínu rifjaði forsetinn upp að hann hefði í upphafi sagt að hann vildi ekki sitja lengur en 8 til 12 ár á Bessastöðum og að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu nú að láta hjartað ráða og að hann kysi frekar að halda sáttur á braut innan tíðar. Í öflugu lýðræðissamfélagi kæmi maður í manns stað.

Guðni Th. Jóhannesson er annar þjóðhöfðinginn á Norðurlöndum sem tilkynnti um áramótin að hann hygðist láta af störfum.

Margrét II Danadrottning segir af sér

Margrét II Danadrottining. Mynd: DR/KELD NAVNTOFT, Scanpix

Margrét Þórhildur II Danadrotting tilkynnti rétt í þessu að hún myndi láta af embætti þann 14. janúar næstkomandi, en þá verða liðin rétt 52 ár síðan hún tók við að föður sínum látnum, Friðrík IX.

Sonur hennar og ríkisarfi Friðrik krónprins mun verða konungur Dana frá þeim tíma.

Hún sagði í áramótaávarpi sínu í danska ríkissjónvarpinu að aldurinn væri farin að segja til sín og nú væri rétti tíminn til þess að næsta kynslóð taki við.

Gleðilegt nýtt ár 2024

Frá áramótabrennu á Hauganesi í Skutulsfirði fyrir rúmum 20 árum. Mynd: Helena Árnadóttir.

Bæjarins besta sendir lesendum sínum góðar óskir um gleðilegt nýtt ár og þakkar fyrir það gamla.

Gamlársdagur: aftansöngur á Ísafirði og í Bolungavík

Hólskirkja. Mynd: Þjóðkirkjan.

Á gamlársdag kl. 17:00 verður aftansöngur í Ísafjarðarkirkju. Kór Ísafjarðarkirkju syngur undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur. Judith Pamela Tobin leikur á orgelið.

Prestur er sr. Magnús Erlingsson.

Á sama tíma verður aftansöngur í Hólskirkju í Bolungavík.

Fjölnir Ásbjörnsson prédikar og þjónar fyrir altari. Kirkjukór Bolungarvíkur syngur undir stjórn Guðrúnar B. Magnúsdóttur organista.

Hátíðarsöngvar sr. Bjarna og glæný gamlársprédikun með jólalegu ívafi.

Áfram gakk – áramótaannáll 2023

Árið 2023 hefur verið á margan hátt gott á Vestfjörðum. Mikill uppgangur er í atvinnulífinu og fjárfestingar eru umtalsverðar á svæðinu bæði af hálfu hins opinbera og einkaaðila. Um áramót hefur undirrituð síðustu ár farið stuttlega yfir það sem efst hefur verið á baugi á árinu og horft lítillega fram á veginn.  Svo verður einnig um þessi áramót.

  1. Nýsköpun og hugvit var í sviðsljósinu á þessu ári í kjölfar ævintýralegrar velgengni hins ísfirska fyrirtækis Kerecis sem hefur á síðustu 15 árum byggst upp á Ísafirði, Reykjavík og ekki síst í Bandaríkjunum. Það var fallegur júlídagurinn á Ísafirði þegar salan á Kerecis til Coloplast var tilkynnt í Ísafjarðarbíói og nokkuð “moviestar” yfirbragð á Ísafirði.
  2. Orka & orkuskortur hafa verið til umræðu á landsvísu og víst er að svo verður áfram um nokkurt skeið. Orkumál Vestfjarða hafa verið til umræðu síðustu ár og leitt er að þrátt fyrir hillumetra af skýrslum hefur hið opinbera engin raunveruleg svör. Á Vestfjörðum þarf meiri orkuframleiðslu og jafnframt þarf að tvöfalda Vesturlínu. Taka þarf ákvarðanir um næstu skref strax til að svæðið geti tekið þátt í orkuskiptunum framundan og haldið áfram uppbyggingu atvinnulífs og samfélags.
  3. Loftslagsmál, orkuskipti og umhverfismál hafa fengið meiri hljómgrunn og með þátttöku Vestfjarðastofu, sveitarfélaga og fyrirtækja í Evrópuverkefninu RECET munu þessi mál verða enn meira til umræðu næstu árin sem er vel.  Samhliða aukinni orkuþörf er sjálfsagt að farið verið eins vel með þá orku sem til staðar er á svæðinu og unnt er og við séum meðvituð um áhrif okkar á umhverfið og reynum allt sem mögulegt er til að þau verði sem minnst.
  4. Skortur á íbúðahúsnæði stendur þróun samfélags og atvinnulífs fyrir þrifum á svæðinu. Þrátt fyrir mikinn skort er verð á íbúðahúsnæði enn víða vel undir byggingarkostnaði. Það gæti líka átt skýringar í því hve húsnæði er víða orðið gamalt þar sem lítið hefur verið byggt á svæðinu síðustu 20-30 ár. Það sést vel að fjölgun verður í þeim byggðakjörnum og sveitarfélögum þar sem næst að byggja nýtt íbúðahúsnæði.
  5. Nýir vegir og brýr gleðja marga Vestfirðinga og aðra vegfarendur á svæðinu þessi misserin en í haust var ný brú yfir Þorskafjörð vígð með viðhöfn og nokkru síðar opnaði vegurinn margumræddi um Teigsskóg.  Framkvæmdir eru í fullum gangi á nýjum 12 km kafla á Dynjandisheiði og hafa rúmlega 6 km af þeirri framkvæmd þegar verið opnaðir fyrir umferð. Þeir sem þurft hafa að hossast á 70 ára gömlum malarvegum gleðjast sérstaklega yfir nýjum og fallegum veglínum.
  6. Áföll í atvinnulífi hafa verið nokkur á árinu þó víða hafi gengið vel. Það var mikið áfall í Strandabyggð snemmsumars þegar tilkynnt var um lokun Hólmadrangs og einnig í Ísafjarðarbæ þegar Baader tilkynni um lokun á starfsstöð sinni sem áður var hið mikla nýsköpunarfyrirtæki 3X Technology sem áður hafði sameinast Skaganum í Skagann/3X. Kvótasamdráttur og slysasleppingar hafa líka haft neikvæð áhrif á atvinnulíf svæðisins.
  7. Vöxtur og vaxtarverkir í fiskeldi hafa verið ofarlega á baugi á Vestfjörðum. Fiskeldið er ótvírætt drifkraftur vaxtar og uppgangs á Vestfjörðum undanfarin ár og atvinnugreinin er orðin ein af burðarásum atvinnulífs á svæðinu. Það er því eðlilegt að fólk taki mjög nærri sér þá miklu og að mestu neikvæðu umræðu sem hefur verið um fiskeldið á þessu ári.  Mjög jákvæðir hlutir hafa líka verið að gerast í þessari mikilvægu atvinnugrein og má nefna skráningu Arnarlax á íslenskan hlutabréfamarkað, hið nýja vinnsluhús Arctic Fish í Bolungarvík og að Háafell uppskar fyrstu laxa úr Ísafjarðardjúpi síðasta haust.
  8. Menntun á Vestfjörðum hefur fengið meira vægi á árinu og má nefna samstarfssaming fiskeldisfyrirtækjanna við Menntaskólann á Ísafirði sem undiritaður var í byrjun árs um þróun á nýrri námsbraut sem hlotið hefur nafnið Hafbrau og tekur til starfa haustið 2024. Í undirbúningi er bygging nýs verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði sem verður mikið framfaraskref fyrir allt svæðið þar sem ákall er um iðnaðarmenn á öllum sviðum.  Nýjir nemendagarðar Lýðskólans á Flateyri og Stúdentagarðar Háskólaseturs Vestfjarða voru opnaðir á árinu 2023 og verða vonandi báðir til að efla starfsemi þessara mikilvægu stoða menntunar á Vestfjörðum.
  9. Ferðaþjónustan er á mikilli siglingu á Vestfjörðum þetta árið en greinilegt er í samtölum við ferðaskrifstofur og söluaðila að mikil þörf er á frekari uppbyggingu gististaða af öllum stærðum og gerðum. Mikill fjöldi farþega skemmtiferðaskipa hefur verið í umræðunni en á því sviði hefur einnig verið mikil þróun og verður vonandi áfram. 
  10. Menningin fékk nokkurn sess á Vestfjörðum á árinu og nefna má mikla grósku í starfsemi Kómedíuleikhússins og barnamenningarhátíðina Púkann sem haldin var í fyrsta sinn og tókst vel. Mikilvægt er að söfn og sýningar á svæðinu eflist og dafni og að opnunartími þeirra verði aukinn þar sem þau eru lykilþáttur í lengri ferðamannatíma á svæðinu. Hátíðir svæðisins gegna þar miklu hlutverki líka eins og sést á þeim fjölda sem sækir Aldrei fór ég suður, Fossavatnsgönguna og Skjaldborg svo nokkrar séu nefndar.

Í þessum pistli hef ég stiklað á stóru varðandi árið 2023. Við á Vestfjarðastofu erum spennt fyrir árinu 2024 sem verður mikið stefnumótunarár fyrir Vestfirði þar sem unnið verður að gerð Svæðisskipulags, ný Sóknaráætlun unnin sem og loftlslags- og orkuskiptaáætlanir fyrir sveitarfélögin á svæðinu. Leitað verður til íbúa og fyrirtækja um samstarf við gerð þessara áætlana sem gera má ráð fyrir að muni varða leiðina næstu ár og jafnvel áratugi.

Undirrituð vill fyrir hönd stjórnar og starfsmanna Vestfjarðastofu óska Vesfirðingum og landsmönnum öllum gleðilegs árs með þökk fyrir árið sem er að ljúka.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir
Framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

Vestfirðir: fjögur sveitarfélög undir meðaltekjum – 1% af tekjujöfnunarframlögum

Frá Norðurfirði í Árneshreppi.

Fjögur sveitarfélög á Vestfjörðum eru með meðaltekjur á íbúa á þessu ári undir landsmeðaltalinu samkvæmt yfirliti frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Í fimm sveitarfélögum eru meðaltekjurnar yfir landsmeðaltalinu. Miðað er við tekjur sveitarfélaga af útsvari og fasteignaskatti.

Sveitarfélögum landins er skipt í fjóra flokka eftir íbúafjölda og reiknað meðaltal tekna fyrir hvern flokk. Á Vestfjörðum eru fimm svetarfélög í fámennasta flokknum sem eru með íbúafjölda að 300 manns. Fjögur sveitarfélög eru í næstfámennasta flokknum , sem er með íbúafjölda frá 300 að 12.000 manns.

Fjögur af fimm sveitarfélögum í fámennasta flokknum eru með meðaltekjur á íbúa yfir meðaltalinu. Það eru Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Reykhólahreppur og Tálknafjarðarhreppur. Fá þau því ekkert tekjujöfnunarframlag frá Jöfnunarsjóðnum. Eitt sveitarfélag er undir mörkunum, Súðavíkurhreppur og fær hann 20.217 kr. á íbúa í jöfnunarframlag eða samtals 4,8 m.kr.

Meðaltekjur í þessu sveitarfélagaflokki eru 986.346 kr./íbúa og Jöfnunarsjóður bætir tekjur upp að 956.756 kr. Hæstar eru tekjurnar í Árneshreppi 1.155.859 kr., þá 1.043.584 í Tálknafirði og loks 1.018.878 kr. í Kaldrananeshreppi. Reykhólahreppur er með lægstu meðaltekjurnar 966.678 kr./íbúa en þó samt yfir því sem bætt er upp í. Í Súðavík eru meðaltekjurnar 936.539 kr./íbúa sem færir sveitarfélaginu tekjujöfnunina.

Fjögur sveitarfélög á Vestfjörðum eru í næsta flokki. Af þeim er eitt, Strandabyggð með meðaltekjur yfir þeim mörkum sem bætt er upp að fyrir þann flokk sem eru 911.135 kr./íbúa. Meðaltekjurnar í Strandabyggð eru 953.217 kr./íbúa sem er vel yfir mörkunum og því fær sveitarfélagið ekkert tekjujöfnunarframlag.

Þrjú fjölmennustu sveitarfélögin á Vestfjörðum eru öll með meðaltekjur undir viðmiðunarmörkunum er reiknast vera 911.135 kr./íbúa.

Í Bolungavík voru meðaltekjurnar 895.022 kr./íbúa og eru greiddar 16.113 kr./íbúa í tekjujöfnunarframlag. Í Ísafjarðarbæ eru meðaltekjurnar 905.388 kr./íbúa og greiðast 5.747 kr./íbúa í framlag. Vesturbyggð er með hæstu meðaltekjurnar af þessum þremur 910.695 kr./íbúa og er jöfnunarframlagið því aðeins 440 kr./íbúa.

Jöfnunarframlagið til Bolungavíkur fyrir 2023 verður 1,4 m.kr. , 7,3 m.kr. til Ísafjarðarbæjar og 170 þúsund krónur til Vesturbyggðar. Auk þeirra þriggja fær Súðavík 4,8 m.kr. í tekjujöfnunarframlag. Samtals eru jöfnunarframlögin til Vestfjarða rétt innan við 14 m.kr. af 1,4 milljarði króna sem deilt er út til sveitarfélaga landsins eða 1%.

Athyglisvert er að hæstu meðaltekjur á Vestfjörðum af útsvari og fasteignaskatti eru í Árneshreppi 1.155.859 kr./íbúa sem er nærri 28% hærra en í Ísafjarðarbæ.

Ísafjarðarbær: skrefagjald tekið eftir 10 metra

Í síðustu viku samþykkti bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar breytingu á samþykkt um meðhöndlun úrgangs. Gerð var sú breyting að skrefagjald verður tekið fyrir söfnun úrgangs ef draga þarf ílát lengra en 10 metra. Áður var miðað við 15 metra.

Markmið samþykktarinnar er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs í Ísafjarðarbæ valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, stuðli að endurnotkun og endurnýtingu, lágmörkun kostnaðar samfélagsins og góðri þjónustu við íbúa segir í upphafi hennar.

Samkvæmt gjaldskránni er gjald fyrir sorpílát með innra hólfi 50% hærra ef ílát er meira en 10 metra frá hirðubíl og sama fyrir blandaðan úrgang.

Þannig er gjaldið fyrir blandaðan úrgangur með innra hólfi fyrir lífrænan úrgang, 240 lítra 25.700 kr. innan 10 metranna en 38.550 kr. ef lengra er en 10 metrar.

Fyrir blandaðan úrgang 240 litra er gjaldið 33.500 kr. og 50.250 kr. með skrefagjaldinu.

Nýjustu fréttir