Síða 2358

Skattsvik í Súðavík

Pétur Markan

Á fundi sveitarstjórnar í Súðavík í lok desember fjallar stjórnin í seinni umræðu um fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 en áætluð lokaniðurstaða ársins gerir ráð fyrir afgangi upp á rúmar 27 milljónir og handbært fé hækki í tæpar 84 milljónir í árslok. Pétur Markan sveitarstjóri Súðavíkurhrepps bókar í fundargerð að rekstur sveitarfélagsins hafi stórbatnað á kjörtímabilinu en það sé áhyggjuefni hversu útsvarstekjur dragast skart saman milli ára og skýringa sé ekki að leita með fækkun skattbærra manna eingöngu. Pétri þykir líklegasta skýringin að þeim tilfellum þar sem íbúar nota einkahlutafélög til að fjármagna heimilis- og einkaneyslu hafi fjölgað. „Þessi þróun er afar uggvænleg og í raun aðför að samfélaginu sem byggir samrekstur sinn á skattheimtu“ eru lokaorð bókunarinnar.

Í 31. grein laga um tekjuskatt (90/2003) er fjallað um hvaða kostnað megi draga frá tekjum í sjálfstæðum atvinnurekstri. Þar kemur fram í fyrstu málsgrein „þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við“. Í lögum virðist ekki gert ráð fyrir neinu svigrúmi til að fjármagna einkaneyslu í einkahlutfélögum.

Pétur Markan segir í samtali við bb.is í dag að aðallega sé átt við það svigrúm sem fellst í greiðslu lágra launa við eigin atvinnurekstur. „Í bókuninni er bent á þá vá sem fylgir því þegar að útsvarstekjur lækka. Margskonar skýringar geta verið á bakvið slíka þróun. Í tilfelli Súðavíkurhrepps, og þetta er veruleiki allra sveitarfélaga á landinu, verður sveitarfélagið af miklum tekjum vegna einkaneyslu sem tekin er í gegnum fyrirtæki, í stað þess að greiða starfsmönnum hærri laun, sem aftur skilar þér í meira framlagi til samneyslu samfélagsins. Þetta er fyrst og fremst vandamál sem rekja má til of mikils rýmis innan skattalöggjafarinnar hvað við lítur fyrirtækjum. Þá er líka stór hluti vandamálsins að sveitarfélög hafa enga skattheimtu af fyrirtækjum, sem er mikið réttlætismál fyrir sveitarfélög. Sveitarfélag rekur sína þjónustu og velferð á skatttekjum. Ef þær dragast saman, dregst starfsemi sveitarfélagsins saman. Ekkert ábyrgt sveitarfélag lætur þá staðreynd óhreyfða, ef skatttekjur þess dragast meira saman en eðlilegt getur talið. Þá er vegið að tilveru þess og framtíð og við því þarf að bregðast af ábyrgð, hreinskilni og festu.“

Í 7. grein þeirra laga sem áður er vísað til, segir „Vinni maður við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal hann telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Sama gildir um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Á sama hátt skal reikna endurgjald fyrir starf sem innt er af hendi af maka manns eða barni hans sé starfið innt af hendi fyrir framangreinda aðila.“

bryndis@bb.is

Opið fyrir umsóknir um byggðakvóta

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir eftirtalin byggðarlög skv. Ákvæðum reglugerðar nr. 641/2016 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2016/2017: Sandgerði, Akureyrarkaupstaður (Grímsey og Hrísey). Auk reglugerðarinnar er vísað til sérstakra úthlutunarreglna í eftirtöldum byggðalögum sbr. auglýsingu nr. 6/2017 í Stjórnartíðindum: Stykkishólmur, Ísafjarðarbær (Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Hnífsdalur og Ísafjörður), Vopnafjarðarhreppur (Vopnafjörður).

Umsóknum skal skilað til Fiskistofu og þarf þeim að fylgja samningur við vinnslu, fylgi slíkur samningur ekki með telst umsókn ekki gild. Umsóknarfrestur er til og með 26. janúar 2017.

annska@bb.is

Sú gula mætt í Breiðadal

Neðri Breiðadalur Mynd: Guðrún Hanna Óskarsdóttir

Það urðu fagnaðarfundir í Önundarfirði í gær þegar sú gula varpaði geislum sínum að gamla bænum í neðri Breiðadal, í fyrsta sinn á þessu ári. Það skipti engum togum að húsmóðirin tók á sprett heim að bæ og skellti pönnukökur en það eru hefðbundnar trakteringar við tækifæri sem þessi.

Mynd og bakari: Guðrún Hanna Óskarsdóttir

bryndis@bb.is

Áfram kalt í veðri

Á Vestfjörðum í dag er spáð norðaustan 5-10 m/s og stöku éljum, einkum í nótt. Hægviðri verður í nótt og langt fram eftir degi á morgun, en gengur í suðaustan 10-15 m/s með snjókomu seint annað kvöld. Harðnað hefur í frosti á svæðinu síðustu daga og bítur kuldinn kinn, áfram verður kalt í veðri með frosti á bilinu 5 til 10 stig. Snjóþekja eða nokkur hálka er á Vestfjörðum. Þæfingsfærð er í Ísafjarðardjúpi en mokstur stendur yfir.

annska@bb.is

Gísli á fjalirnar á morgun

Elfar Logi í hlutverki Gísla á Uppsölum

Okkar maður er mættur í Þjóðleikhúsið og er að gera klárt fyrir fyrstu sýningu á Gísla á Uppsölum en uppselt mun vera á fyrstu þrjár sýningarnar og bætti leikhúsið snarlega við þremur sýningum við þær upphaflegu þrjár sem voru fyrirhugaðar. Á heimasíðu Þjóðleikhússins er sýningunni líst sem einstöku leikverki um einstakan mann, hér sé um að ræða áhrifamikla sýningu sem hefur hrifið áhorfendur líkt og saga söguhetjunnar. Fyrsta sýning er á morgun kl. 19:30.

Elfar Logi hefur farið víða um land með þetta fertugasta leikverk sem Kómedíuleikhúsið hefur sett upp en vinsælast hingað til hefur verið einleikurinn um Gísla Súrsson. Í viðtali við bb.is í nóvember sagði Elfar: „Ég er bara í Gíslatöku ekkert annað og ann því vel, ætli maður geri ekki næst leikrit um vorn bæjarstjóra Gísla Halldór eða nafna hans Landa Einarsson.“

Jón Viðar Jónsson gagnrýnandi fer fögrum orðum um sýningu Elfars, „Þeir Elfar Logi og Þröstur Leó fara afskaplega næmum höndum um þetta viðkvæma efni og draga upp látlausa en blæbrigðaríka mynd af einbúanum og einstæðingnum sem þjóðin tók á einhvern undarlegan hátt að hjarta sér þegar hún kynntist honum fyrst í frægum þáttum Ómars. Örlög hans, hvernig stórvel gefinn maður dagar uppi í íslenskum afdal á tuttugustu öld, eru og verða trúlega alltaf ráðgáta. Ráðningu þeirrar gátu er ekki að finna í þessar fallegu sýningu og það er kannski, þegar upp er staðið, hennar helsti styrkur.“

Nú gefst sunnlendingum tækifæri til að njóta listar Elfars Loga og rifja upp í leiðinni þá upplifun að minnast Gísla á Uppsölum sem við kynntumst með Ómari Ragnarssyni.

bryndis@bb.is

Um 100 umsóknir bárust

Frestur til að sækja um styrk í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða rann út á miðnætti á mánudag. Að þessu sinni bárust um 100 umsóknir, sem er heldur minna en á síðasta ári er þær voru um 130. Nú tekur við úrvinnsla og mat á umsóknum hjá úthlutunarnefnd sjóðsins og er niðurstaða að vænta í lok febrúar. Til ráðstöfunar í úthlutun eru um 65 milljónir að þessu sinni.

Uppbyggingarsjóðurinn var stofnaður árið 2015 og tók hann við hlutverki Menningarráðs Vestfjarða og Vaxtarsamnings Vestfjarða. Sjóðurinn er hluti af samningi íslenska ríkisins og Fjórðungssambands Vestfirðinga um Sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019. Úr sjóðnum eru veittir stofn- og rekstrarstyrkir til menningarstofnana, verkefnastyrkir til menningarmála og verkefnastyrkir til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna.

annska@bb.is

Afhentu nýtt saltsíló

Kristján Andri Guðjónsson og Guðjón Jónsson frá áhaldahúsinu og Karl Ásgeirsson frá 3X-Technology við saltsílóið góða. Mynd af Fésbókarsíðu Ísafjarðarbæjar

Áhaldahúsið á Ísafirði fékk í vikunni afhent glæsilegt saltsíló sem smíðað var í 3X-Technology. Sílóið er notað til að blanda salti í möl og er talsverður vinnusparnaður af því fyrir starfsmenn bæjarins að þurfa ekki að handmoka úr saltpokum eins og gert hefur verið hingað til. Í frétt um hina nýju græju á Fésbókarsíðu Ísafjarðarbæjar segir að sjálfsögðu þurfi ekki að sækja vatnið yfir lækinn þegar fyrirtæki eins og 3X eru steinsnar í burtu og var því samið innanbæjar um smíðina.

annska@bb.is

Svara erindum hratt og vel

Jónas Þór Birgisson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er ósáttur við viðbrögð bæjarstjórnar við fyrirspurnum. Í bókun hans á fundi bæjarráðs fyrr í vikunni kemur fram að hann hafi ekki fengið formleg svör við fyrirspurnum sem hann lagði fram í september og nóvember í fyrra og segir það óviðunandi. Fyrirspurnirnar varða þann kostnað sem fallið hefur á sveitarfélagið vegna hönnunarsamkeppninnar um Sundhöll Ísafjarðar og hverjir hafi fengið greiðslur.

Í bókun Jónasar segir orðrétt „Það er mikilvægt að stjórnsýsla bæjarins svari erindum hratt og vel og á það ekki hvað síst við þegar um skipulagsmál er að ræða. Að sama skapi er mjög mikilvægt að bæjarstjóri svari eins hratt og unnt er fyrirspurnum frá bæjarfulltrúum. Að mati undirritaðs er eitt mikilvægasta hlutverk bæjarfulltrúa í minnihluta að veita meirihlutanum aðhald. Byggist það ekki síst á því að koma til bæjarbúa upplýsingum um hvernig farið er með fjármuni þeirra og í því samhengi gegna formlegar fyrirspurnir bæjarfulltrúa og formleg svör bæjarstjóra lykilhlutverki.“

bryndis@bb.is

250 ferðaþjónustuaðilar undirrituðu ábyrgðaryfirlýsingu

Ferðamenn fylgjast með í Neðstakaupstað á Ísafirði

Í gær var undirrituð víðsvegar um landið yfirlýsing um ábyrga ferðaþjónustu. Þegar hafa yfir 250 ferðaþjónustuaðilar skráð sig í verkefnið sem lýtur að því að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu með því að: Ganga vel um og virða náttúruna, tryggja öryggi gesta og koma fram við þá af háttvísi, virða réttindi starfsfólks og hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið. Sett verða upp markmið um þessa þætti og þeir mældir og reglulega birtar upplýsingar um árangur fyrirtækisins. Þátttaka í yfirlýsingunni er þátttakendum að kostnaðarlausu en gert er ráð fyrir að henni fylgi raunverulegar aðgerðir fyrirtækjanna og áhrif þessa sameiginlega átaks geti því orðið umtalsverð. Það er Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn, í samstarfi við félög og stofnanir ferðaþjónustunnar, sem standa fyrir verkefninu og er verndari þess Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Á Vestfjörðum var efnt til undirritunar í Vestrahúsinu á Ísafirði og Þróunarsetrinu á Hólmavík og hafa þegar nokkur fyrirtæki á svæðinu skráð þátttöku sína, eða: Markaðsstofa Vestfjarða, Westfjordian, Iceland Backcountry Travel, Heydalur og Strandagaldur. Enn er opið fyrir skráningu og segist Díana Jóhannsdóttir hjá Markaðsstofu Vestfjarða hafa fulla trú á því að fleiri vestfirsk fyrirtæki muni skrá þátttöku sína þar sem hún hafi skynjað talsverðan áhuga á málefnum umhverfislegrar og félagslegrar ábyrgðar á svæðinu.

annska@bb.is

Byrjendasvæðið í Tungudal opnar í dag

Ekki hefur verið miklum snjó fyrir að fara á vestfirskri grundu það sem af er þessum vetri og sýnist hverjum sitt um það. Skíðafólk hefur kannski öðrum hópi fremur verið langeygara eftir snjónum og eflaust einhverja farið að klæja undan þránni eftir að renna sér niður snæviþaktar brekkur. Á Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar er nú unnið hörðum höndum að því að bregðast við þránni, en í Tungudal hefur ekki verið nægjanlegur snjór til að opna megi allt skíðasvæðið. Í dag dregur þó til tíðinda þar sem opnað verður á byrjendasvæðinu. Þar er búið að troða og verður opið á milli klukkan 16 og 19. Í þeirri brekku er nokkuð sléttur og hreinn jarðvegur undir svo betur gengur að vinna á því svæði og gera það klárt til skíðaiðkunar að sögn svæðisstjórans Hlyns Kristinssonar, segir hann önnur svæði í Tungudal erfiðari yfirferðar og þar vanti enn herslumuninn svo sé hægt að opna þar.

Göngusvæðið í Seljalandsdal er einnig opið í dag, en gönguskíðaiðkendur fá skíðaþörfinni iðulega fyrr svalað hér um slóðir og hefur verið opið þar frá því í lok desembermánaðar. Þar er í dag búið að troða 3,3km braut og verður opið frá klukkan 14.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir