Síða 2358

Sagnastund í Holti

Friðarsetrið í Holti

Hin árlega samverustund í Önundarfirði sem haldin er á afmæli stórskáldsins Guðmundar Inga frá Kirkjubóli verður að venju haldin í Friðarsetrinu í Holti á sunnudaginn. Sagnastund í Holti kallar Ingastofunefndin samkomuna að þessu sinni og hyggur á ekta baðstofumenningu þar sem gestir stíga fram og mæla af munni fram sögur og ljóð. Það eru þau Magnús, Dúnna, Smári, Bryndís og Guja sem verða tilbúin með eitthvert andans góðmeti fyrir hina að njóta en á langborðinu verður boðið upp á kaffi og dýrðlegar pönnukökur.

Ingastofunefnd sem staðið hefur fyrir samkomum í Önundarfirði þann 15. janúar ár hvert er afar hugmyndarík og alltaf eitthvað nýtt á boðstólum og árið 2013 var til dæmis boðið upp á Hjarðardalskvartettinn og Söngsystur, árið 2011 var Brynjólfur Árnason bóndi á Vöðlum í öndvegi og lög hans við ljóð Guðmundar Inga flutt af Kirkjukór Önundarfjarðar. Í fyrra var dagskráin helguð konum.

Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld var fæddur á Kirkjubóli í Bjarnadal þann 15. janúar árið 1907 en lést í hárri elli 30. ágúst 2002. Samferðafólk hans mátu hann mikils og hafa minnst hans með menningarvöku á afmælisdegi hans allar götur síðan.

bryndis@bb.is

Ferðaþjónar landsbyggðarinnar streyma á Mannamót

Það var í nægu að snúast hjá vestfirskum ferðaþjónum á síðustu Mannamótum. Mynd af Fésbókarsíðu Markaðsstofa landshlutanna

Markaðsstofur landshlutanna standa fyrir ferðasýningunni Mannamót 2017 fimmtudaginn 19. janúar í Reykjavík, í ár er yfirskrift Mannamótanna „Sóknarfærin eru á landsbyggðinni.“ Tilgangur Mannamóta markaðsstofanna, sem er nú haldið í fjórða sinn, er að auka dreifingu ferðamanna um landið allt með því að mynda og efla tengsl á milli ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi með því að kynna ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni fyrir ferðaþjónustuaðilum, ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu um viðburðinn segir að þrátt fyrir fjölgun ferðamanna til landsins á seinni árum eru enn mörg ónýtt sóknarfæri á landsbyggðinni og ferðaþjónustan þar í stakk búin að taka á móti fleiri gestum.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands og talskona Mannamóta, segir tækifærin mörg í ferðaþjónustunni úti á landi og að hægt sé að taka á móti mun fleiri ferðamönnum en gert sé nú. „Það er óþarfi að hægja á straumi ferðamanna til landsins,” segir hún. „Það þarf bara að beina honum lengra út á landið.”

Hún segir að þótt þróunin þokist í rétta átt sé mikil árstíðasveifla víða á landsbyggðinni og erfiðlega gangi að reka ferðaþjónustufyrirtæki utan háannatímans á sumrin. Eitt af hlutverkum Mannamóta sé að sýna fram á að fjölda vel rekinna ferðaþjónustufyrirtækja sé að finna á landsbyggðinni sem vel geti þjónustað mun fleiri viðskiptavini en gert er í dag.

Þegar hafa 200 ferðaþjónar víðsvegar af landinu skráð sig til leiks á Mannamótin, sem verða sem áður segir haldin fimmtudaginn 19. janúar í flugskýli Flugfélagsins Ernis (vestan við Icelandair Hotel Natura) milli kl. 12 og 17.

annska@bb.is

Brimbrettakappar glíma við vestfirskar öldur í nýrri mynd

Vestfirskt landslag leikur stórt hlutverk í nýrri heimildarmynd „Under an Arctic sky“ sem könnuðurinn og ljósmyndarinn Chris Burkard vinnur í samstarfi við kvikmyndagerðamanninn Ben Weiland. Ekki er það einungis landslagið sem hefur heillað kvikmyndagerðarmennina. Í upphafsatriði stiklu úr myndinni sem birt var í gær, má sjá og heyra skipstjórann Sigurð Jónsson, segja frá því hvernig hafið stjórni öllu í kringum okkur og ávallt sé það náttúran sjálf sem sitji við stjórnvölinn þrátt fyrir að við leggjum okkur fram um vel skipulagða leiðangra líkt og brimbrettakapparnir sem fylgt er eftir í myndinni leggja upp í.

Í stiklunni má sjá mögnuð myndskeið af mönnunum glíma við ískaldar öldur norður-Atlantshafsins og fást við íslenskan vetur líkt og hann gerist verstur, en þeir voru við tökur hér á landi í desembermánuði 2015 er mikið óveður gekk yfir landið. Ferðuðust þeir félagar bæði á láði og legi og var skútan Aurora farkostur félaganna á hinu síðarnefnda og má oft sjá hana bregða fyrir.

Í kynningartexta segir að myndin fjalli um sex brimbrettakappa sem sigli meðfram frosnum Íslandsströndum, vitandi að versti stormur sem komið hafi í aldarfjórðung sé á leiðinni. Með því að þrauka endalaust myrkur og úfið haf hafi þeir fundið hinar fullkomnu öldur og skráð sig í sögubækur fyrir að standa á brimbrettum undir norðurljósunum.

Stikluna í heild sinni ásamt frekar upplýsingum um myndina má sjá hér.

 

Bæjarins besta 2. tbl. 34. árgangur 2017

Kysstu rauðhærða dagurinn

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.

Í sárabót fyrir það andstreymi sem rauðhærðir hafa orðið fyrir í tímana rás, fyrir það eitt að skarta gullfallegum rauðum makka, var árið 2009 ákveðið að 12. janúar væri dagurinn sem rauðhærðum væri hampað. Á opinberri og alþjóðlegri síðu samtakanna „International Kiss a Ginger“ er fólk hvatt til að kyssa alla rauðhærða sem kunna að verða á vegi þeirra í dag.

bryndis@bb.is

Fyrsti leikurinn í kvöld

Opnunarleikur HM 2017 í handbolta fór fram í gær og hinir Frönsku heimsmeistarar lögðu Brasilíumenn með miklum bravúr með 31 stigi gegn 16. Vincent Gerard markmaður var valinn maður leiksins en hann var í marki Frakka í seinni hálfleik.

Íslenska liðið er í B-riðli og etur kappi við feiknasterkt lið Spánar í kvöld kl. 19:45. Spænska liðið spilaði til úrslita á EM í Póllandi í fyrra þar sem það tapaði fyrir Þýskalandi. Fram kemur á ruv.is að leikmenn liðsins gjörþekki hvern annan og hafi spilað lengi saman. Góðu fréttirnar fyrir Íslenska liðið eru að fyrirliðinn Enterríos verður látinn hvíla í leiknum í kvöld en hann hefur glímt við meiðsli.

Talsverð endurnýjun er í Íslenska liðinu og munu áhorfendur þurfa að læra nokkur ný nöfn og efalaust sakna þeirra sem nú eru hættir. Það eru Arnar Freyr Arnarsson, Bjarki Már Elíasson, Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon sem þreyta frumraun sína á stórmóti að þessu sinni og spennandi að sjá hvernig þeim gengur. Guðjón Valur var í þeirra sporum í Króatíu árið 2000 og enn gleður hann áhorfendur með snilli sinni á vellinum. Illu heilli var Aroni Pálmasyni snúið heim og tekur hann ekki þátt að þessu sinni vegna meiðsla.

Næsti leikur hjá Íslenska liðinu er gegn Slóveníu á laugardag og hefst hann kl. 13:45.

bryndis@bb.is

Af vestfirskum uppruna

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Yngsti ráðherrann í nýrri ríkisstjórn Íslands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er Vestfirðingur í báðar ættir. Þórdís er sem lögfræðingur að mennt gegnir nú stöðu ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra. Hún er fædd og uppalin á Akranesi en ættuð af Vestfjörðum. Móðir hennar, Fjóla Katrín Ásgeirsdóttir, er dóttir Ásgeirs Hannessonar frá Ármúla í Ísafjarðardjúpi og Þórdísar Katarínusardóttur frá Arnadal í Skutulsfirði. Faðir hennar, Gylfi R. Guðmundsson, er sonur Guðmundar Helga Ingólfssonar frá Hnífsdal og Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur frá Ísafirði, sem búsett er í Reykhólasveit.

annska@bb.is

Ný jógastöð opnuð á Mávagarði

Gunnhildur Gestsdóttir jógakennari

Jógastöð Gunnhildar Gestsdóttir á Ísafirði hefur nú opnað á nýjum stað. Stöðin er nú til húsa við Mávagarð og er hún í innsta húsi þeirra þriggja nýbygginga sem þar hafa risið. Blaðamaður heimsótti Gunnhildi á nýja staðinn sem er afar vistlegur og með útsýni sem Ameríkanar myndu kalla milljón dollara, þar sem höf og fjöll Skutulsfjarðar, Ísafjarðardjúp og Snæfjallaströnd blasa við í allri sinni dýrð. Aðstaðan rúmar allt að tuttugu iðkendur hverju sinni og kenna þar jóga Gunnhildur sjálf, Aðalheiður Jóhannsdóttir og Jenný Jensdóttir.

Óhætt að segja að á skömmum tíma hafi möguleikar íbúa á norðanverðum Vestfjörðum til jógaiðkunar aukist til muna, en lengi vel var einungis einn kennari sem bauð upp á jógatíma. Gunnhildur segist afar ánægð með að hafa fengið þær Jennýju og Aðalheiði til liðs við sig og með þessu samstarfi megi bjóða upp á jógaiðkun fimm daga vikunnar og suma daga fleiri en einn tíma. Tímafjöldi Jógastöðvarinnar hefur því farið úr tveimur opnum tímum á viku í sex. Einnig kenna þær jóga á leikskólunum á Ísafirði, Grunnskólanum á Ísafirði og á Hlíf.

Kennt er á ýmsum tímum. Fyrir þá árrisulu er boðið upp á jóga á þriðjudagsmorgnum klukkan 6:15, á mánudögum er jóga í hádeginu, síðdegistímar eru á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum og einnig er kennt á laugardögum. Stundaskrána má nálgast hér. Fyrir þá sem vilja prófa en hafa litla reynslu af jógaiðkun verður fljótlega boðið upp á sérstakt byrjendanámskeið, slíkt var einnig á haustönn, sem og námskeið í meðgöngujóga, en vonir standa til að boðið verði upp á það aftur á vorönn.

Aðspurð um ávinning þess að stunda jóga svarar Gunnhildur „Jóga er stundað um allan heim í þeim tilgangi að auka heilbrigði og andlegan þroska hvers einstaklings. Jóga er ætlað að þjálfa og sameina líkama og huga. Með því ræktum við heilbrigði í huga og á líkama og þannig leitumst við við að lifa í sátt við umheiminn og njóta lífsins til fulls. Lifa núna.“

Jógastöðin er í innstu nýbyggingunni við Mávagarð á annarri hæð í öðru bili.

Skattsvik í Súðavík

Pétur Markan

Á fundi sveitarstjórnar í Súðavík í lok desember fjallar stjórnin í seinni umræðu um fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 en áætluð lokaniðurstaða ársins gerir ráð fyrir afgangi upp á rúmar 27 milljónir og handbært fé hækki í tæpar 84 milljónir í árslok. Pétur Markan sveitarstjóri Súðavíkurhrepps bókar í fundargerð að rekstur sveitarfélagsins hafi stórbatnað á kjörtímabilinu en það sé áhyggjuefni hversu útsvarstekjur dragast skart saman milli ára og skýringa sé ekki að leita með fækkun skattbærra manna eingöngu. Pétri þykir líklegasta skýringin að þeim tilfellum þar sem íbúar nota einkahlutafélög til að fjármagna heimilis- og einkaneyslu hafi fjölgað. „Þessi þróun er afar uggvænleg og í raun aðför að samfélaginu sem byggir samrekstur sinn á skattheimtu“ eru lokaorð bókunarinnar.

Í 31. grein laga um tekjuskatt (90/2003) er fjallað um hvaða kostnað megi draga frá tekjum í sjálfstæðum atvinnurekstri. Þar kemur fram í fyrstu málsgrein „þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við“. Í lögum virðist ekki gert ráð fyrir neinu svigrúmi til að fjármagna einkaneyslu í einkahlutfélögum.

Pétur Markan segir í samtali við bb.is í dag að aðallega sé átt við það svigrúm sem fellst í greiðslu lágra launa við eigin atvinnurekstur. „Í bókuninni er bent á þá vá sem fylgir því þegar að útsvarstekjur lækka. Margskonar skýringar geta verið á bakvið slíka þróun. Í tilfelli Súðavíkurhrepps, og þetta er veruleiki allra sveitarfélaga á landinu, verður sveitarfélagið af miklum tekjum vegna einkaneyslu sem tekin er í gegnum fyrirtæki, í stað þess að greiða starfsmönnum hærri laun, sem aftur skilar þér í meira framlagi til samneyslu samfélagsins. Þetta er fyrst og fremst vandamál sem rekja má til of mikils rýmis innan skattalöggjafarinnar hvað við lítur fyrirtækjum. Þá er líka stór hluti vandamálsins að sveitarfélög hafa enga skattheimtu af fyrirtækjum, sem er mikið réttlætismál fyrir sveitarfélög. Sveitarfélag rekur sína þjónustu og velferð á skatttekjum. Ef þær dragast saman, dregst starfsemi sveitarfélagsins saman. Ekkert ábyrgt sveitarfélag lætur þá staðreynd óhreyfða, ef skatttekjur þess dragast meira saman en eðlilegt getur talið. Þá er vegið að tilveru þess og framtíð og við því þarf að bregðast af ábyrgð, hreinskilni og festu.“

Í 7. grein þeirra laga sem áður er vísað til, segir „Vinni maður við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal hann telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Sama gildir um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Á sama hátt skal reikna endurgjald fyrir starf sem innt er af hendi af maka manns eða barni hans sé starfið innt af hendi fyrir framangreinda aðila.“

bryndis@bb.is

Opið fyrir umsóknir um byggðakvóta

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir eftirtalin byggðarlög skv. Ákvæðum reglugerðar nr. 641/2016 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2016/2017: Sandgerði, Akureyrarkaupstaður (Grímsey og Hrísey). Auk reglugerðarinnar er vísað til sérstakra úthlutunarreglna í eftirtöldum byggðalögum sbr. auglýsingu nr. 6/2017 í Stjórnartíðindum: Stykkishólmur, Ísafjarðarbær (Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Hnífsdalur og Ísafjörður), Vopnafjarðarhreppur (Vopnafjörður).

Umsóknum skal skilað til Fiskistofu og þarf þeim að fylgja samningur við vinnslu, fylgi slíkur samningur ekki með telst umsókn ekki gild. Umsóknarfrestur er til og með 26. janúar 2017.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir