Síða 2357

Bílvelta á Súðavíkurhlíð

Bílvelta var á Súðavíkurhlíð í gærkvöldi. Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í hálku og rann út af veginum þar sem bíllinn fór eina veltu. Ökumaður var einn í bílnum og slasaðist hann ekki við óhappið og segir Hlynur Snorrason yfirlögregluþjónn á Ísafirði öryggisbeltin þarna enn og aftur hafa sannað gildi sitt.

annska@bb.is

Leita eftir gestgjafafjölskyldum

SIT hópurinn síðasta sumar í heimsókn á Melrakkasetrinu

Háskólasetur Vestfjarða leitar nú að gistifjölskyldum fyrir bandaríska háskólanema sem eru á leið í vettvangsnám til Ísafjarðar í næsta mánuði og þarfnast gistingar í þrjár vikur. Góð reynsla er af móttöku slíkra nema á Ísafirði og í nágrenni en Háskólasetrið hefur um fimm ára skeið haft milligöngu um heimagistingu fyrir sambærilega hópa. Nemendurnir eru á vegum SIT vettvangsskólans, School for International Training (SIT) í Vermont í Bandaríkjunum. Háskólasetrið er samstarfsaðili SIT og nemendahópurinn mun dvelja samtals sjö vikur hér á landi. Námið fer að mestu fram hér á norðanverðum Vestfjörðum, í Reykjavík og á Grænlandi.

Frá árinu 2012 hefur Háskólasetrið haft umsjón með heimagistingu í tengslum við sumaráfanga SIT skólans. Síðastliðið haust var í fyrsta sinn boðið upp á vettvangsnám að vetri og bauð Háskólasetrið þá velkominn hóp bandarískra nemenda sem hóf nám við nýja vettvangsbraut sem SIT Study Abroad hleypti af stokkunum í samvinnu við Háskólasetrið. Hún nefnist Iceland and Greenland: Climate Change and the Arctic, hún nær yfir heila önn eða 15 vikur og er í boði haust og vor. Hluta úr önninni dvelja nemendurnir á Ísafirði.

Nú styttist í að vorönnin hefjist og þar sem gisting í heimahúsum er liður í náminu leitar Háskólasetrið nú að fjölskyldum sem eru til í að opna heimili sín fyrir þessa nemendur tímabilið 20. febrúar- 13. mars n.k. Markmiðið með heimagistingu er að gefa ungmennunum tækifæri til að kynnast íslenskri menningu, með því að taka þátt í lífi fjölskyldu. Nemendurnir hafa í gegnum tíðina gist hjá fjölskyldum ýmist á Ísafirði, í Hnífsdal eða í Bolungarvík.

Frá þessu er greint á vef Háskólaseturs Vestfjarða og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við Pernillu Rein, verkefnastjóra hjá Háskólasetrinu í síma 820-7579 eða pernilla@uw.is. Einnig má kynna sér málin á Fésbókarhóp verkefnisins.

annska@bb.is

Bæjarins besta í Vísindaporti

Bryndís Sigurðardóttir, ritstjóri

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða þessa vikuna mun Bryndís Sigurðardóttir, ritstjóri héraðsfréttablaðsins Bæjarins besta og netmiðilsins bb.is, fjalla um erindi og ábyrgð fjölmiðla, mikilvægi héraðsfréttamiðla og hvað það þýðir að vera frjáls og óháður miðill. Bryndís mun einnig kynna nýja heimasíðu bb.is og ýmis verkefni miðilsins á nýju ári sem varða umfjöllun um viðburði, tengingar við stærra svæði og fleira.

Bryndís Sigurðardóttir er fædd og uppalin í Ölfusi og Hveragerði, við ástríki og hamingju og áhuga á landsins gagni og nauðsynjum eins og hún sjálf orðar það. Hún er kerfisfræðingur og viðskiptafræðingur að mennt auk þess að hafa viðað að sér víðtækri þekkingu og reynslu, svo sem eins og auknum ökuréttindum og svæðisbundnum leiðsöguréttindum. Hún fluttist til Vestfjarða árið 2013 og tók við stöðu framkvæmdastjóra sjávarútvegsfyrirtækisins Arctic Oddi á Flateyri. Sumarið 2015 tók hún við eignarhaldi og ritstjórnartaumunum á Bæjarins besta úr höndum Sigurjóns J. Sigurðssonar sem hafði ásamt félaga sínum haldið miðlinum úti í rúma þrjá áratugi. Bæjarins Besta er því að sigla inn í sitt 33. starfsárs í fjölmiðlaflóru landsins.

Vísindaportið er að vanda opið öllum og stendur frá 12.10-13.00. Erindi Bryndísar fer fram á íslensku.

annska@bb.is

Gylfi kominn í fjármála- og efnahagsráðuneytið

Gylfi tekur við starfsmannamöppunni úr hendi Svanhildar Hólm í fjármála- og efnahagsráðuneytinu

Með nýjum ráðherrum í ríkisstjórn Íslands taka einnig við nýjum störfum aðstoðarmenn þeirra. Meðal þeirra sem það gerir er ísfirðingurinn Gylfi Ólafsson, sem er nú aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra og er hann nú tekinn til starfa í ráðuneytinu. Gylfi leiddi lista Viðreisnar á Vestfjörðum í alþingiskosningum síðasta haust. Flokkurinn kom ekki inn manni í kjördæminu en Gylfi tók í framhaldinu við starfi sem aðstoðarmaður formanns flokksins. Er Benedikt tók við lyklavöldum á mánudag úr höndum Bjarna Benediktssonar, tók Gylfi við starfsmannamöppu frá fráfarandi aðstoðarmanni, Svanhildi Hólm. Segir hann nýtt starf leggjast vel í sig:

„Við Benedikt höfum unnið saman síðustu mánuði, fyrst í kosningabaráttunni og svo hef ég verið aðstoðarmaður hans sem formanns að kosningum loknum. Það samstarf hefur gengið afar vel. Okkur báðum hentar vel að fara í fjármálaráðuneytið, í mínu tilviki vegna menntunar minnar í hagfræði.

Þennan eina vinnudag sem ég hef verið hér hefur okkur verið afar vel tekið og augljóst að hér starfar fært og glaðsinna starfsfólk. Hér er einnig annar Ísfirðingur, Leifur Skarphéðinsson, og við höfum nú þegar stofnað stuðningshóp fólks sem segir „á helginni“.“

Gylfi hefur ekki af því neinar áhyggjur að sitja auðum höndum í nýju starfi og mörg verkefni sem bíða í ráðuneytinu. „Við ætlum að ganga vasklega til verks og vinna að þeim málum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem undir fjármálaráðuneytið heyra, en þar falla bæði stór og smá verkefni. Eitt það stærsta er kannski endurskoðun peningastefnu, en endurskoðun skattkerfis, stöðugleikasjóður og fleira er þar einnig að finna. Svo er það nú með þetta starf að það óvænta getur oft tekið langmestan tíma.“

Hvað hann sjálfan áhrærir segir Gylfi hans helsta hlutverk verða að sjá til þess að ráðherra geti sinnt starfi sínu sem best í hvaða mynd sem það birtist og segir hann það eiga eftir að þróast á næstu vikum.

annska@bb.is

6 standa eftir

Unnið er að því að ráða í stöðu forstöðumanns Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða líkt og greint hefur verið frá á vef Bæjarins besta. Tólf umsækjendur voru um stöðuna og eftir stendur nú helmingur þeirra. Þeir hafa verið boðaðir í viðtöl sem verða í næstu viku og á Smári Haraldsson sem nú gegnir stöðunni von á að í vikunni þar á eftir liggi niðurstöður fyrir.

annska@bb.is

Samkvæmt orðanna hljóðan

Súðavík.

Birt er á bb.is aðsend grein eftir Pétur Markan sveitarstjóra Súðavíkurhrepps og fjallar hann þar um efnistök bb.is á málefni sem hann vakti máls á í fundargerð sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps. Það er að sönnu rétt að orðið „skattsvik“ koma ekki fram í bókun hans á fundi sveitarstjórnar þann 19. desember en lesendum til glöggvunar er bókun hans birt hér orðrétt:

„ Rekstur sveitarfélagsins hefur stórbatnað á kjörtímabilinu eins og vöxtur á handbæru fé gefur til kynna.

Áhyggjuefni er hversu útsvarstekjur dragast skart saman á milli ára. Skerðingin verður ekki útskýrð með fækkun skattbærra manna eingöngu.

Líklegasta skýringin er að tilfellum fjölgar í sveitarfélaginu þar sem íbúar notast við einkaneysluhlutafélög til þess að fjármagna heimilis og einkaneyslu.

Þessi þróun er afar uggvænleg og í raun aðför að samfélaginu sem byggir samrekstur sinn á skattheimtu“

Í frétt um málið á bb.is er vísað í lög og reglugerðir hvað varðar rekstur einkahlutafélaga og vefurinn stendur við þá túlkun sína að í þriðju málsgrein bókunar sveitarstjórans felist ásökun um skattsvik.

bryndis@bb.is

Stórkostlegur árangur grunnskóla Ísafjarðarbæjar

Klárir krakkar

Nemendur í grunnskólum Ísafjarðarbæjar voru yfir landsmeðaltali í öllum greinum PISA-könnunarinnar 2015 og yfir OECD-meðaltali í tveimur flokkum af þremur. Sé litið til einstakra sveitarfélaga þar sem niðurstöður hafa verið birtar er Ísafjarðarbær með besta árangur allra í náttúruvísindum og einungis Garðabær betri í stærðfræði og lesskilningi. PISA-rannsóknin er alþjóðleg rannsókn sem framkvæmd er á þriggja ára fresti og metur breytingar á frammistöðu nemenda og stöðu þeirra við lok skyldunáms. Menntamálastofnun birti niðurstöður 8 stærstu sveitarfélaga landsins og var strax kallað eftir upplýsingum um árangur hjá grunnskólum Ísafjarðarbæjar sem hafa nú borist. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ísafjarðabæ í dag

Í tilkynningunni kemur líka fram að í náttúrufræði voru nemendur í Ísafjarðarbæ með 503 stig, eða heilum 30 stigum yfir landsmeðaltali og 10 stigum yfir OECD-meðaltali. Í stærðfræði skoraði Ísafjarðarbær 507 stig (19 stigum yfir landsmeðaltali og 17 yfir OECD) og 489 í lesskilningi (7 stigum yfir landsmeðaltali, 4 stigum undir OECD).

Það sem kannski mestu máli skiptir er að nemendur í Ísafjarðarbæ bæta sig umtalsvert í öllum flokkum milli áranna 2012 og 2015 eins og sést í meðfylgjandi skjali. Í kjölfar dapurra niðurstaðna 2012 var ráðist í umtalsverða vinnu sem hafði það einfalda markmið að bæta námsárangur barna, sjálfsmynd þeirra og framtíð. Vel var fylgst með því sem önnur sveitarfélög voru að gera, settar voru upp skimunaráætlanir og lestrar- og stærðfræðiteymi tóku til starfa. Lestrarteymið lagði í heilmikla vinnu og á allra næstu dögum kemur út ný lestrarstefna Ísafjarðarbæjar. Stærðfræðistefna er svo væntanleg með vorinu.

Fram kemur sömuleiðis að á þessa góðu niðurstöðu verði litið á sem hvatningu til frekari dáða, en ekki vísbendingu um að öllum markmiðum sé nú náð. Það er mikilvægt að við sofnum ekki á verðinum heldur höldum áfram þessu góða skólastarfi; starfsfólk, nemendur og foreldrar. Enn eru möguleikar fyrir hendi til þess að gera betur og allir verða að muna að næg vinna er framundan.

Aðgerðalítið veður fram á sunnudag.

Hún verður austlæg áttin og hæg í dag hér á Vestfjörðum og frostið að líkindum 5 – 10 gráður og svipað er upp á teningnum á morgun en þó gæti komið snjókoma á stöku stað. Á sunnudag er búist við að hlýni, með hvassviðri og úrkomu en svo fer aftur að kólna.

bryndis@bb.is

Skattheimta, sveitarfélög og almannahagur.

Pétur G. Markan

Héraðsmiðillinn BB gerir að fréttaefni bókun mína frá 35. sveitarstjórnarfundi Súðavíkurhrepps, sem varðar lækkun á útsvarstekjum á milli ára. Það er afar þakkarvert að fjölmiðillinn skuli taka upp þessa umræðu.

Fyrirsögn BB er eftirfarandi: Skattsvik í Súðavík. Það skal árétta að orðið “skattsvik,, í þessari umræðu er fært inn af ritstjóra BB, sem skrifar umrædda frétt. Ásakanir um lögbrot er framlag ritstjóra BB.

Það er ekkert í bókun sveitarstjóra sem kallar samborgarana skattsvikara.

Hins vegar er bent á þá vá sem fylgir því þegar að útsvarstekjur lækka. Margs konar skýringar geta verið á bakvið slíka þróun. Í tilfelli Súðavíkurhrepps, og þetta er veruleiki allra sveitarfélaga á landinu, verður sveitarfélagið af miklum tekjum vegna einkaneyslu, sem tekin er í gegnum fyrirtæki, í stað þess að greiða starfsmönnum hærri laun, sem aftur skilar sér í meira framlagi til samneyslu samfélagsins.

Það er val þeirra sem kjósa að stýra eiginrekstri í gegnum einkahlutafélag að greiða lægri laun, og skila þess í stað meiri arði, sem síðan er skattlagður af ríkinu. Hins vegar er einn galli á gjöf Njarðar í því tilfelli og hann er að ríkið hefur þennan fyrirtækjaskatt fyrir sig sjálft, að nánast öllu leiti.

Kannski finnst lausnin í því að veita sveitarfélögum hlutdeilt í skattstofnun fyrirtækja. Sem væri þá mótvægi við þá fjármuni sem tapast í núverandi kerfi. Verðugt verkefni fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga.

Sveitarfélag rekur sína þjónustu og velferð á skatttekjum. Ef þær dragast saman, dregst starfsemi sveitarfélagsins saman. Velferð og þjónusta við almenning minnkar. Ekkert ábyrgt sveitarfélag lætur þá staðreynd óhreyfða, ef skatttekjur þess dragast meira saman en eðlilegt getur talist. Þá er vegið að tilveru þess og velferð íbúa. Við því þarf að bregðast af ábyrgð, hreinskilni og festu.

Góð þjónusta við íbúa, öflugir skólar og styðjandi velferð í sveitarfélögum er almannahagur. Sé vegið að þessum atriðum er það skylda þeirra sem standa í stafni sveitarfélagana að vekja athygli á því og vinna markvisst gegn því. Með þetta að leiðarljósi skal lesa bókun sveitarstjóra frá 35. fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps. Hugmyndin er ekki að hengja neinn, hitt heldur, að standa vörð um almenning.

Pétur G. Markan
Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps

Smáskipanám aftur í gang

Nóg er um að vera hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða á vorönn og til að mynda hefst þar á bæ um helgina námskeið í útvarpsþáttagerð „Útvarp sem skapandi miðill – þættir af mannabyggð og snortinni náttúru.“ Þar verða þátttakendum kynnt allt það helsta sem þarf að vita til að vinna megi útvarpsþátt og í lok námskeiðsins hver og einn búinn að skila af sér um 30 mínútna löngum útvarpsþætti. Dansnámskeið í samstarfi við Fjölmennt verður einnig um helgina og í komandi viku hefjast námskeið í frönsku og íslensku fyrir útlendinga.

19. janúar hefst svo smáskipanám Fræðslumiðstöðvarinnar að nýju, en það kemur í stað þess sem áður var nefnt 30rl réttindanám eða pungapróf og miðast atvinnuskírteinin nú við lengd skipa í stað brúttórúmlestatölu áður. Réttindin sem þátttakendur hljóta miðast við skip 12 metrar og styttri að skráningarlengd og eftir að hafa lokið 12 mánaða siglingatíma og þessu námi sem telur 115 kennslustundir. Kennari er Guðbjörn Páll Sölvason og er námið kennt með faglegri ábyrgð Skipstjórnarskóla Tækniskólans.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir