Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2353

Vestfirskir sjómenn funda í dag

Fundur verður haldinn í Sjómannadeild Verkalýðsfélags Vestfirðinga klukkan 14 í dag. Fundurinn verður í Fræðslumiðstöð Vestfjarða og verður hann sendur út um fjarfundarbúnað, Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, til Patreksfjarðar og verður þar í Þekkingarsetrinu Skor, Aðalstræti 53.

Á vefsíðu Verk Vest er fundurinn auglýstur sem áríðandi og eru meðlimir Sjómannadeildarinnar sem starfa eftir kjarasamningi Verk Vest og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi eru eindregið hvattir til að mæta, ræða stöðuna og næstu skref í kjaradeilu sjómanna.

annska@bb.is

Konungur fuglanna í Djúpinu

Haförn. Ljósmynd: Hilmar Pálsson

Hann var tignarlegur haförninn, konungur íslenskra fugla líkt og hann er gjarnan nefndur, er hann leit yfir landið sitt í Ísafjarðardjúpi í gær. Hilmar Pálsson, tryggingasali og áhugaljósmyndari með meiru, var á leið frá Reykjavík til Ísafjarðar er hann kom auga á arnarpar í Ísafirði.

„Við sáum örn fljúga yfir fjörðinn við Arngerðareyri, og Gugga (kona Hilmars) segir: „Ætli hann sé að koma úr Grímseynni á Steingrímsfirði og að fara í mat í Svansvík?“ En við sáum örn í Steingrímsfirði í haust. Svo ökum við fyrir fjörðinn og rétt áður en komið er að flugvellinum á Reykjanesinu sitja tveir ernir stutt hvor frá öðrum svona, sennilega par.“ Hilmar var fljótur að grípa til myndavélarinnar, en styggð kom að öðrum fuglinum á meðan að hinn virtist ekki slá vængjunum á móti þessum fyrirsætustörfum og náði Hilmar af honum þessari stórglæsilegu mynd.

„Við stoppum bílinn og ég fer út og læðist í skjóli eins nálægt og ég þorði og stóð upp mjög hægt með myndavélina tilbúna, en þá flýgur strax annar þeirra en hinn sat sem fastast og leyfði myndatöku, en gafst svo upp að lokum og flaug á eftir kellu sinni sennilega.“ Segir Hilmar um þessa óvæntu myndatöku.

Um fuglinn er sagt á Wikipediu: Haförn (fræðiheiti: Haliaeetus albicilla) er mjög stórvaxinn ránfugl af haukaætt. Haförn verpir í norðurhluta Evrópu og Asíu. Haförnum var næstum útrýmt í Evrópu en með friðun og aðgerðum hefur tekist að endurreisa varp sums staðar. Hafernir eru alls staðar sjaldgæfir en ernir eru þó flestir við strendur Noregs. Hafernir eru oftast staðfuglar.

Haförn er um 70-90 sm langur og vænghaf hans er 200 -240 sm. Fuglinn vegur um 5 kg. Karlfuglar eru mun minni en kvenfuglar. Haförninn hefur breiða ferhyrnda vængi og stórt höfuð. Fullorðinn örn er brúnn en höfuð og háls er ljósara, stélið er hvítt og goggur og fætur gulir. Á ungum fuglum er stél og goggur dökkt og stélið verður hvítt með svartri rönd þegar fuglinn eldist. Ernir verða kynþroska 4 til 5 ára gamlir. Ernir parast fyrir lífstíð og þegar annar fuglinn fellur frá þá getur tekið hinn mörg ár að finna nýjan maka. Ernir gera sér stundum hreiður í hrúgu af kvistum í tré eða á klettasyllum.

annska@bb.is

Nærri fjórðungs samdráttur hjá skipum HG

 

Skip Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, fiskuðu alls 12.114 tonn á síðasta ári að verðmæti 3.131 milljóna króna. Aflinn dróst saman um 13,8% milli ára en árið 2015 fiskuðu skipin 14.054 tonn. Aflaverðmætið minnkaði um tæpan fjórðung, eða úr 4.084 milljónum kr.

Á vef HG er þessi minnkun á afla og verðmæti einkum rakin til þess að allir togarar fyrirtækisins fóru í slipp á árinu, mikillar styrkingar krónunnar og áhrif verkfalls sjómanna á seinni hluta ársins.

Júlíus Geirmundsson ÍS skilaði mestum aflaverðmætum á síðasta ári eða 1.467 milljónum kr. samanborið við 1.901 milljón kr. árið áður. Aflaverðmæti Páls Pálssonar var 869 milljónir kr. en var  1.252 milljónir kr. árið áður. Stefnir fiskaði fyrir 719 milljónir kr. en árið áður var aflaverðmæti Stefnis 844 milljónir kr.

smari@bb.is

Þorri gengur í garð

Kræsilegur þorramatur.

Í dag er bóndadagur, upphafsdagur þorra, fjórða mánaðar vetrar samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Það er spurning hvort margir heimilisfeður hafi gert líkt og kveður á um í þjóðsögum Jóns Árnasonar til að bjóða þorra velkominn, þar sem þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum. Fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu.

Þó ekki margt nútímafólk fagni þorra með þessum hætti, þá er það sannarlega gert. Siðir og venjur breytast í aldanna rás, en nú líkt og til forna er maður manns gaman og eru þau gömlu og nýju sannindi heiðruð á þorranum er fjöldinn allur skemmtir sér á þorrablótum. Gengur nú í garð tími þeirra ágætu mannamóta. Annað kvöld er þorrablót hjóna og sambúðarfólks í Bolungarvík, sem bolvískar konur standa að og er ávallt haldið fyrsta laugardag þorra. Á blótinu reiða trogfélagar fram sinn eigin þorramat og drykk og sýndir eru leikþættir, samdir og leiknir af þorrablótsnefnd. Félagsheimili Bolungarvíkur opnar kl. 19:30 og borðhald byrjar kl. 20:00. Halli og Þórunn leika fyrir dansi að loknu borðhaldi og skemmtun. Á þorrablótinu í Bolungarvík er ætlast er til að konur mæti í upphlut eða peysufötum og karlar í hátíðarbúningi eða dökkum jakkafötum með hálstau.

Á morgun verður einnig hið árlega þorrablót slysavarnadeildarinnar Varnar á Þingeyri haldið í Félagsheimili Þingeyrar. Þar er sá siður á að þorrablótsnefndin sér um að framreiða veitingarnar, sem eru að sjálfssögðu hefðbundinn þorramatur. Húsið opnar klukkan 19 og borðhald hefst klukkan 20. Að loknu borðhaldi verður svo slegið upp dansleik þar sem þeir Stebbi Jóns og Gummi Hjalta halda uppi fjörinu.

annska@bb.is

Rignir í dag

 

Eftir kulda síðustu daga hlýnar að nýju í dag og spáin fyrir Vestfirði kveður á um suðaustan 8-15 m/s og rigningu en heldur hvassara til fjalla um tíma í nótt. Hiti verður á bilinu 2 til 7 stig. Vindur snýst í suðvestan 5-10 m/s með slydduéljum eða éljum síðdegis á morgun og kólnar. Búist er við vægu frosti annað kvöld. Hálka er víða á Vestfjörðum og sums staðar snjóþekja.

annska@bb.is

Fossavatnsgangan hlaut Virðisaukann

 

Fossavatnsgangan hlaut í gær Virðisaukann 2016, viðurkenningu og hvatningarverðlaun atvinnu- og menningamálanefndar Ísafjarðarbæjar. Fossavatnsgangan var fyrst gengin árið 1935. Á fimmta og sjötta áratugnum féll Fossavatnsgangan 14 sinnum niður, en frá árinu 1955 hefur hún farið fram á hverju vori. Lengst af voru keppendur nær einvörðungu heimamenn en í fyllingu tímans jókst aðdráttaraflið, fyrst fyrir göngunmenn annars staðar á landinu og síðar utan landsteinana. Árið 2005 var gangan tekin inn á mótaskrá Alþjóða skíðasambandsins, FIS, og sama ár varð hún stofnaðili að norrænni mótaröð, FIS Nordic Ski Marathon Cup. Í tvö ár hefur Fossavatnsgangan verðið hluti haf hinni þekktu Worldlopper mótaröð. Í dag eru um 500 keppendur í 50 km göngunni og hefur þurft að beita fjöldatakmörkunum.

Undanfarna mánuði hafa forsvarsmenn Fossavatnsgöngunnar unnið að uppbyggingu á Fossavatnsleiðinni með merkingum og lagningu keppnisbrauta með styrk frá Uppbyggingarsjóði ferðamannastaða, sem vonast er til að nýtist skíðafólki, göngufólki eða hjólreiðafólki allan ársins hring.

smari@bb.is

Hamrarborgarmótið – nýtt mót á vetrardagskránni

Brugðið á leik í minniboltanum í fyrra.

Meistaraflokkur körfuknattleiksdeildar Vestra og Hamraborg sameina krafta sína í stórskemmtilegu minniboltamóti á Torfnesi mánudaginn 23. janúar. Mótið hefur hlotið heitið Hamraborgarmótið 2017 og eru vonir bundnar við að mótið sé komið til að vera á fjölbreyttri vetrardagskrá Vestra.

Öll börn í 1.-6. bekk eru velkomin á mótið, en keppt verður í þremur aldurshópum. Körfuboltaiðkendur í Vestra eru hvattir til að fjölmenna á mótið og taka vini sína með. Mótið stendur frá 16-19 og lýkur með glæsilegri pizzaveislu í boði Hamraborgar.

Hamraborgarmótið er tilvalin upphitun fyrir hið stóra Nettómót í Reykjanesbæ sem fram fer fyrstu helgina í mars en það er stærsta minniboltamót landsins ætlað börnum í 1.-5. bekk.

smari@bb.is

Aldarfjórðungur frá því ratsjárstöðin hóf rekstur

 

Um þessar mundir eru liðin 25 ár frá því að rekstur ratsjárstöðvarinnar á Bolafjalli ofan Stigahlíðar hófst og frá því er greint á vef Bolungarvíkurkauptaðar. Rekstur stöðvarinnar hófst þann 18. janúar 1992. Leigusamningur um 7 hektara land undir stöðina var gerður 20. júní 1985 milli Bolungarvíkurkaupstaðar og utanríkisráðuneytisins og var hann samþykktur í bæjarstjórn 23. júní 1985. Vegavinna hófst 1986 en bygging stöðvarinnar hófst vorið 1987.

Ákvörðun um að reisa ratsjárstöð á Bolafjalli var síður en svo óumdeild og var byggingu stöðvarinnar mótmælt harðlega. Stöðin var rekin fyrir bandaríska varnarliðið og reist fyrir fé úr mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Andstæðingar ratsjárstöðvarinnar á Bolafjalli litu á stöðina sem hernaðarmannvirki og var það grundvöllur andstöðunnar. Í Þjóðviljanum 31. mars 1985 stóð meðal annars:

„Á Vestfjörðum er áformað að koma ratsjárstöðinni fyrir á Stigahlíðarfjalli, en heimamenn telja margir réttara að tala um Bolafjall í námunda við Bolungarvík. Vestfirðingar hafa lagt mikla vinnu í andstöðuna við ratsjárstöðvar, einstaklingar úr öllum flokkum. Í fyrra var samþykkt ályktun á Prestastefnu Vestfjarða gegn hernaðarmannvirkjum í fjórðungnum og prestar hafa að mörgu leyti staðið fremst í fylkingu efasemdarmanna um ratsjárstöðina vestra.

100 nafnkunnir Vestfirðingar sendu bænarskrá sl. haust um að ekki yrði komið upp ratsjárstöð í héraðinu. Upp úr því var stofnaður 1. demshópurinn sem vann að gerð

blaðsins Ratsjá sem borið var út inná hvert heimili á Vestfjörðum. Á Bolungarvík var farin blysför í desember mánuði, haldnir hafa verið fundir á ísafirði og svo mætti lengi telja.“

smari@bb.is

„Vá! Ég lifði“

Katrín Björk Guðjónsdóttir

Vestfirðingur ársins 2016 Katrín Björk Guðjónsdóttir er í vikuviðtali Bæjarins besta sem borið er í hús á norðanverðum Vestfjörðum í dag. Katrín Björk hefur bloggað um leið sína að bata eftir stóreflis heilablæðingu sem hún fékk einungis 21 árs að aldri á vefsíðunni https://katrinbjorkgudjons.com/ Katrín hefur sannarlega hrifið fólk með skrifunum og nefndu margir til aðdáun sína á styrk hennar og lífsviðhorfum sem ástæðu fyrir vali sínu er þeir kusu hana Vestfirðing ársins. Það er ekki hægt annað en að heillast af þessari ungu konu sem sannarlega glímir við önnur verkefni í lífinu en flestar jafnöldrur hennar.

Katrín Björk er með einstakt minni og man hún vel er hún fann fyrir því að hún væri að fá heilablæðingu að nýju, en það hafði áður gerst um hálfu ári fyrr. Hún man líka vel tímann eftir að hún vaknaði upp að nýju: „Katrín Björk með sitt ótrúlega minni man kristaltært eftir dvölinni á gjörgæslunni eftir aðgerðina. Hver sagði hvað og hver gerði hvað. Mamma hennar segir að tíminn sé nú meira og minna í móðu hjá henni, en öðru máli gegni um Katrínu sem muni allt í smáatriðum og segir um fyrstu minninguna þegar hún vaknaði á gjörgæsludeild: „Ég man þegar mamma sat hjá mér og horfði í augun á mér og sagði að ég hefði fengið aðra heilablæðingu og ég væri að vakna eftir aðgerð þá hugsaði ég: „Vá! Ég lifði.“

Eftir heilablæðinguna sem Katrín fékk árið 2014 fylgdi erfiður tími í kjölfarið, hún fann fyrir miklum kvíða og reiði. En hún segir að sú ró sem hana hafi vantað hafi komið í kjölfar stóru heilablæðingarinnar árið 2015: „Fyrir mig var þetta óeðlileg hegðun og ég sé eftir því. Þegar ég lít til baka þá var ég í eilífum feluleik það mátti til dæmis enginn sjá að höndin mín væri ónothæf. Ég hefði þurft að „knúsa” sjálfa mig og róa mig niður og ekki vera svona ofboðslega kvíðin og ósátt yfir því að ná ekki fyrri færni aftur. Þegar ég vaknaði eftir stóru blæðinguna þá var róin sem mig hafði vantað komin. Í dag er ég sátt við þennan ótímabæra þroska sem mér hefur verið gefin, þetta kraftlitla andlit segir sögu sem ég mun aldrei nokkurn tímann skammast mín fyrir. Ég nýt þess að finna styrkinn aukast með hverjum degi sem líður.“

Blogg Katrínar Bjarkar birtir líka vel önnur hugðarefni hennar og áhugamál, svo sem: tísku, áhuga á bloggum, snyrti- og húðvörum, næringarríkum mat, heilsu og innanhúshönnun. Allt er fallega framsett há henni og bloggin prýða flottar ljósmyndir sem Katrín fær vini og ættingja til að taka eftir kúnstarinnar reglum og svo vinnur hún myndirnar áður en hún birtir þær.

Í viðtalinu, sem má lesa í heild sinni hér, kemur glögglega í ljós að þar er mikil kjarnakona á ferð, sem tekst á við verkefnin sem lífið færir henni af einstökum styrk og æðruleysi.

annska@bb.is

 

Bæjarins besta 3. tbl. 34. árgangur 2017

Nýjustu fréttir