Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2352

Fagnar yfirlýsingu ráðherra um Reykjavíkurflugvöll

 

Bæjarráð Bolungarvíkur fagnar yfirlýsingu Jóns Gunnarssonar samgöngunráðherra um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og að miðstöð innanalandsflugs verði í Vatnsmýri til framtíðar. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs. Í gegnum árin hefur Jón verið ötull stuðningsmaður Reykjavíkurflugvallar og strax á fyrstu dögum hans í samgönguráðuneytinu kom berlega í ljós að hann hyggst beita sér fyrir áframhaldandi veru flugvallar í Vatnsmýri.

„Það er engin önnur lausn í stöðunni. Það er auðvitað áhugavert að skoða allar framtíðarpælingar um eitthvað annað, en það er eitthvað sem er komið svo stutt á veg að það mun í mínum huga taka mörg ár að koma niðurstaða í. Á meðan getum við ekki búið við einhverja óvissu um Reykjavíkurflugvöll,“ sagði Jón í Fréttablaðinu fyrr í mánuðinum, aðspurður hvort hann vilji flugvöllinn áfram í Vatnsmýri.

Jón vill ráðast í uppbyggingu á vellinum, sér í lagi á flugstöðinni. „Reykjavíkurflugvöllur gegnir gríðarlega veigamiklu hlutverki í okkar samgöngum. Aðstæður þar eru algerlega óviðunandi, bæði fyrir starfsfólk og farþega. Það verður að ná saman um einhverja framtíðarsýn þannig að hægt sé að ráðast í eðlilega uppbyggingu og horfa til lengri tíma. Við getum ekki búið við þessa stöðugu óvissu.“

smari@bb.is

Ísland fórnarlamb eigin velgengni

 

Ísland er fórnarlamb eigin velgengni, segir í úttekt breska dagblaðsins Independent á sex áfangastöðum sem ferðaþjónustan er að eyðileggja, eins og það er orðað í úttektinni.  Indenpendent vitnar í Justin Francis, framkvæmdastjóra Responsible Travel. Hann segir að ferðaþjónustan hafi endurreist efnahaginn á Íslandi eftir hrun en bendir á að stundum vaxi ferðaþjónustuna hraðar en innviðirnir. „Árið 2009 voru ferðamennirnir 250 þúsund og fyrra voru þeir 1,6 milljónir. Landið þolir ekki þennan fjölda,“ segir Francis og minnist á Gullna hringinn þar sem erfitt er fyrir ferðamenn að komast að.

Hann ráðleggur fólki að ferðast til óheðfbundnari staða á Íslandi. „Þú sérð ekki muninn á frægasta fossinum á Íslandi og þeim næstfrægasta, þeir eru alveg jafn magnaðir.“

Hann mælir einnig með að þeir sem hafi áhuga á Íslandi fari frekar til Svalbarða.

 

smari@bb.is

Strandar á sjómannaafslætti og olíuviðmiði

Flotinn hefur verið bundinn við bryggju í rúman mánuð.

 

Samkomulag hefur svo gott sem tekist um þrjár af fimm helstu kröfum sjómanna. Þau tvö atriði sem standa út af eru olíuviðmið og sjómannaafsláttur. Samninganefndir sjómanna og útgerðarmanna hittast kl. 13 í dag hjá Ríkissáttasemjara. Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands sagði í samtali við fréttastofu RÚV fyrir helgi að menn væru að fara yfir stöðuna. Ákveðin atriði væru komin í hús en þau lúta að fríu fæði um borð, frían vinnufatnað og bókun varðandi fjarskipti. Þar er kveðið á um að sjómenn taki ekki þátt í kostnaði við búnað, en borgi sinn eigin netkostnað. Hinsvegar væri  allt stál í stál varðandi hinar tvær kröfurnar, en þær lúta að þátttöku sjómanna í olíukostnaði og sjómannaafslætti. Olíuviðmiðið segir til hversu mikið af aflaverðmæti fer fram hjá skiptum til að greið fyrir olíukostnað.

Sjómannaafsláttur var lögfestur árið 1957 og var í gildi allt til ársins 2009. Framreiknaður sjómannaafsláttur frá þeim tíma sem hann var afnuminn 1.159 krónur á dag og við það er miðað í kröfum sjómanna. Þetta þýði að útgerðin þurfi að leggja til 2000 krónur á dag til að bæta hann þegar launatengd gjöld eru innifalin.

 

smari@bb.is

Lambakjötsneyslan tók kipp

 

Innanlandssala á lambakjöti var 5,2% meiri 2016 en árið á undan, samkvæmt nýjum tölum Matvælastofnunar. Alls seldust 6.797 tonn innanlands í fyrra, en salan hefur ekki verið meiri síðan hrunárið 2008. Salan dróst saman í þrjú ár þar á undan. Greint er frá þessu í tilkynningu frá Landssamtökum sauðfjárbænda.

Þar er vitnað í Þórarin Inga Pétursson, formann samtakanna, sem fagnar þessum viðsnúningi en bendir á að þetta ger­ist ekki af sjálfu sér. Margir samverkandi þættir hafi stuðlað að þessum góða árangri. Verð á lambakjöti sé mjög hagstætt hér á landi og vöruþróun að komast á skrið.

„Aldrei hefur verið ráðist í öflugra og markvissara kynningarstarf gagnvart erlendum ferðamönnum en núna og árangurinn af því er ótvíræður,“ er haft eftir Þórarni. Íslendingar eru að verða enn meðvitaðri um mikilvægi þess að matvara sé framleidd á hreinan og siðrænan hátt í sátt við samfélag og náttúru.

smari@bb.is

Fyrir öllu að ná sátt við hestamenn

Frá reiðnámskeiði í reiðskemmunni á Söndum í Dýrafirði, einu innanhúsaðstöðu hestamanna á Vestfjörðum.

 

Það hillir undir lok á nærri 10 ára gamalli deilu Hestamannafélagsin Hendingar og Ísafjarðabæjar vegna aðstöðumissis félagsins við gerð Bolungarvíkurganga. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að samingsdrögin sem liggja fyrir séu ásættanleg af bæjarins hálfu en þau verða lögð fyrir bæjarráð á mánudag. „Við stóðum í stafni í samningaviðræðunum, við teljum þetta mjög vel í lagt en fyrir öllu er að ná sátt um málin og hefja uppbyggingu í hestaíþróttum,“ segir Gísli Halldór.

Marinó Hákonarson, formaður Hendingar, sagði í samtali við bb.is fyrr í vikunni að samningsupphæðin megi reikna á bilinu 50-60 milljónir kr.

Vegagerðin greiðir Ísafjarðarbæ 20 milljónir kr. sem bætur fyrir svæðið sem fór undir framkvæmdasvæði Bolungarvíkurganga. Á svæðinu höfðu hestamenn gert bæði hringgerði og skeiðvelli.

Samkvæmt samningsdrögunum stefna Hending og Ísafjarðarbær að byggingu reiðskemmu í Engidal og vonir standa til að hún verði reist strax á þessu ári.

 

smari@bb.is

LL með hugmyndaþing

Myndir frá sögusýningu Litla leikklúbbsins í Safnahúsinu er 50 ára afmæli hans var fagnað

Litli leikklúbburinn á Ísafirði boðar til hugmyndaþings næstkomandi mánudagskvöld. Þar munu rædd og skoðuð verkefni þessa leikárs. Stjórn LL hvetur alla áhugasama til að mæta og hafa áhrif á hver verkefni klúbbsins verða í nánustu framtíð. Þingið verður haldið í Rögnvaldarsal Edinborgarhússins kl 20.

Litli leikklúbburinn er Vestfirðingum að góðu kunnur og er leikárið nú hið 52. í röðinni og hafa margir fetað sín fyrstu spor á leiklistarbrautinni í einhverju af þeim 87 verkum sem félagið hefur sett á svið á þeim tíma. Á síðasta ári var nýstárleg útgáfa af ævintýrinu Rauðhettu, sem Snæbjörn Ragnarsson skrifaði, sett upp og verður gaman að sjá hvaða verkefni verður fyrir valinu í ár.

Í stjórn LL sitja þau: Jóhanna Ása Einarsdóttir, formaður, Helga Sigríður Hjálmarsdóttir, Páll Gunnar Loftsson, Ólafur Halldórsson og Herdís Rós Kjartansdóttir.

annska@bb.is

Íslendingar feitastir og háma í sig sykur

Íslendingar eru gráðugir í gosdrykki sem eru stútfullir af sykri.

 

Íslendingar eru feitastir Norðurlandaþjóða og innbyrða meira af sykurríkum matvælum og borða minna af grænmeti og ávöxtum. Fiskneysla er aftur á móti mest hér á landi. Þetta og margt fleira má lesa um í nýrri skýrslu um heilsuhegðun Norðurlandabúa sem Norræna ráðherranefndin hefur gefið út. Skýrslan byggist á niðurstöðum kannana sem gerðar hafa verið á Norðurlöndunum í samstarfi þjóðanna. Gerðar voru kannanir á þessum þáttum árið 2011 og aftur 2014 og stóð Embætti landlæknis fyrir gerð kanananna hér á landi.

Að meðaltali hreyfa um einn af hverjum þremur fullorðnum Norðurlandabúum sig ekki í samræmi við ráðleggingar um lágmarkshreyfingu árið 2014 líkt og 2011 og á það einnig við um Ísland. Fleiri hreyfa sig ekkert,  en á sama tíma stunda fleiri ákjósanlega hreyfingu. Fleiri fullorðnir flokkast of feitir á Norðurlöndunum 2014 en 2011. Á Íslandi er hærra hlutfall fullorðinna sem teljast of feitir en á hinum Norðurlöndunum. Hlutfall offitu meðal barna á Norðurlöndunum hefur ekki breyst milli ára og ekki er munur á milli landanna.

Hlutfall þeirra sem hreyfa sig ekkert er hæst í Noregi og á Íslandi árið 2014 og hefur aukist hér á landi úr 14% í 17% á tímabilinu. Athygli vekur að hlutfall 18–24 ára Norðurlandabúa sem hreyfa sig ekkert hefur nær tvöfaldast og er nú sambærilegt og í eldri aldurshópum eða um 12% 2014.

Hvað kyrrsetu varðar verja 30% Norðurlandabúa fjórum klukkustundum eða meira við skjá  í frítíma 2014 og hefur það aukist lítillega frá 2011. Þetta hlutfall er lægst meðal Svía og Íslendinga, á við um einn af hverjum fjórum árið 2014. Félagslegur ójöfnuður er enn mikill bæði með tilliti til skjásetu og hreyfingar.

 

smari@bb.is

Allt flug FÍ stöðvast verði ekki samið

 

Flugfélag Íslands er þegar farið að gera ráðstafanir vegna boðaðs verkfalls flugfreyja eftir viku. Allt innanlandsflug á vegum Flugfélagsins leggst niður í þrjá daga ef ekki nást kjarasamningar. Rúmt ár er síðan kjarasamningur Flugfreyjufélags Íslands og Flugfélags Íslands rann út og á þeim tíma hafa samninganefndir tvívegis náð samningum sem félagsmenn í Flugfreyjufélaginu hafa fellt. „Það er ekki hægt að segja að það miði neitt, það hafa verið haldnir þrír fundir síðan samningurinn var felldur síðast og það hefur ekkert verið komið til móts við kröfur okkar síðan þá,“ er haft eftir Sturlu Óskari Bragasyni, varaformanni samninganefndar Flugfreyjufélagsins, á vef Ríkisútvarpsins.

Ef samningar nást ekki skellur verkfallið á föstudaginn 27. janúar og stendur til sunnudags 29. janúar.  Flugfreyjur hafa farið fram á ákveðna kjarabót sökum breyttra aðstæðna í flugi vegna nýrra véla. Flugfreyjur hyggjast leggja niður störf frá og með 8. febrúar náist ekki samningar fyrir þann tíma og hefja ekki vinnu að nýju fyrr en kjarasamningur hefur verið undirritaður. Samningur flugfreyja við Wow Air er einnig útrunninn og hafa þær samninganefndir fundað einu sinni.

 

smari@bb.is

Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja hækkaði

 

Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt sem hlutfall af heildartekjum sjávarútvegs hækkaði milli áranna 2014 og 2015. Í fiskveiðum og -vinnslu hækkaði hlutfallið, án milliviðskipta, úr 24,3% í 27%, í fiskveiðum úr 20,5% árið 2014 í 25,7% af tekjum árið 2015 og lækkaði í fiskvinnslu úr 14,2% í 13,5%.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í Hagtíðindum Hagstofu Íslands um hag veiða og vinnslu sem gefin hafa verið út

Hreinn hagnaður í sjávarútvegi, samkvæmt árgreiðsluaðferð, nam 17,5% árið 2015 samanborið við 15% árið áður. Í fjárhæðum nam hagnaðurinn 45,4 milljörðum króna eftir að gjaldfærð hefur verið árgreiðsla að fjárhæð 24,4 milljarðar. Sé miðað við hefðbundna uppgjörsaðferð er niðurstaðan 18,2% hagnaður 2015 eða 47,1 milljarður, saman­borið við 15,1% hagnað árið 2014.

Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir sjávarútvegs í árslok 2015 tæpir 590 milljarðar króna, heildarskuldir tæpir 370 milljarðar og eigið fé rúmir 220 milljarðar.

smari@bb.is

Vestfirskir sjómenn funda í dag

Fundur verður haldinn í Sjómannadeild Verkalýðsfélags Vestfirðinga klukkan 14 í dag. Fundurinn verður í Fræðslumiðstöð Vestfjarða og verður hann sendur út um fjarfundarbúnað, Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, til Patreksfjarðar og verður þar í Þekkingarsetrinu Skor, Aðalstræti 53.

Á vefsíðu Verk Vest er fundurinn auglýstur sem áríðandi og eru meðlimir Sjómannadeildarinnar sem starfa eftir kjarasamningi Verk Vest og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi eru eindregið hvattir til að mæta, ræða stöðuna og næstu skref í kjaradeilu sjómanna.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir