Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2352

Kristín íþróttamaður Ísafjarðarbæjar fjórða árið í röð

Kristín Þorsteinsdóttir var valin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar fjórða árið í röð

 

Í gær fór fram útnefning á íþróttamanni Ísafjarðarbæjar árið 2016 í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði og var þar sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir valin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar úr hópi framúrskarandi íþróttafólks sveitarfélagsins. Er þetta fjórða árið í röð sem Kristín hampar titlinum, en hún hefur verið ein öflugasta sundkona landsins um árabil og er í sínum flokki ein af fimm bestu sundkonum heims. Í umsögn um Kristínu var meðal annars sagt: (Kristín) hefur með vinnusemi og ástundun náð markmiðum sínum, hún hefur verið fremsti sundmaður í sínum flokki undanfarin ár. Afrek á árinu eru Evrópumet í 50metra skriðsundi og 25m  baksundi, Evrópu og heimsmet í 25m skriðsundi. Kristín tók  þátt í DSISO í Flórens í 50metra laug og var þar í 4 sæti í 100 skrið, þar hampaði hún 2.sæti í úrslitum í 50m flugsundi og 5.sæti í úrslitum í 50m baksundi. Einnig tók Kristín þátt í Íslandsmóti IF og kom hún heim með 9 gull og eitt Evrópumet í 50 metra skriðsundi.

Kristín Þorsteinsdóttir hefur stundað sundæfingar hjá Ívari í 16 ár og ávallt gert það af miklum áhuga og einbeitingu er segir í tilnefningu félagsins. Þar segir jafnframt: Kristín er létt í lund, góður liðsfélagi og er ávalt prúð í framkomu. Undanfarin ár hefur þessi áhugi og einbeiting á æfingunum skilað henni góðum árangri á mótum bæði heima og erlendis og er hún í dag fremsti íslenski sundmaðurinn í sínum flokki og ein af topp fimm bestu á alþjóðavísu. Með íþróttamiðað lífsmottó að leiðarljósi „Æfingin skapar meistarann en gleði og samvera er gulls ígildi“ er Kristín þannig fyrirmynd annarra íþróttamanna og verðugur fulltrúi Ívars.

Í hófinu var einnig valinn efnilegasti íþróttamaður ísafjarðarbæjar 2016 og var þar fyrir valinu blakkonan Auður Líf Benediktsdóttir. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Auður Líf stundað blak um árabil, en hún hefur æft og spilað íþróttina frá 7 ára aldri. Hún á fjölmarga Íslandsmeistaratitla í yngri flokkum og er nú lykilleikmaður með meistaraflokki Vestra í blaki. Á árinu 2016 var hún valin í U17 landsliðið í blaki þar sem hún stóð sig sérlega vel. Þar að auki spilaði hún og keppti í strandblaki á Möltu síðasta sumar með góðum árangri.

Þá voru einnig veitt hvatningarverðlaun og voru þau veitt Körfuboltabúðum Vestra. Körfuboltabúðirnar hafa verið starfræktar frá árinu 2009, fyrst undir nafni KFÍ en eftir sameiningu Íþróttafélaga árið 2016 undir nafni Vestra.

Í umsögn segir að síðastliðin 3 ár hafi körfuboltabúðirnar verið  rómaðar fyrir faglegt og frábært starf. Að búðum hafi komið tugir manna sem hafa  séð um skipulagningu og uppsetningu þeirra. Körfuboltabúðirnar fá gífurlega góða einkunn meðal þátttakenda, foreldra og forráðamanna um allt land og síðustu ár hafa færri komist að en vildu, sem er merki um gæði og vinsældir búðanna.

 

 

Auður Líf Benediktsdóttir var valin efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2016
Guðfinna Hreiðarsdóttir og Birna Lárusdóttir tóku við hvatningarviðurkenningu sem körfuboltabúðir Vestra hlutu

annska@bb.is

 

 

Viðræðum sjómanna og útvegsmanna slitið

Stál í stál í kjaraviðræðum sjómanna.

 

Samningarnefndir sjómanna og útgerðar hittust á samningafundi hjá sáttasemjara kl.13 í dag. Eftir frekar stuttar viðræður var ljóst að ekki væri lengra komist og viðræðurnar væru járn í járn þar sem hvorugur aðilinn ætlar að gefa tommu eftir af kröfum. Á vef Verkalýðsfélags Vestfirðinga er greint frá að eftir stutt fundarhlé lögðu samningsaðilar sjómanna og útgerðar fram bókanir um stöðuna og í kjölfarið lýsti sáttasemjari viðræðurnar árangurlausar. Nýr fundur hefur ekki verið boðaður en samkvæmt lögum ber sáttasemjara að kalla deiluaðila til fundar innan 2ja vikna frá því viðræðum er slitið.

 

smari@bb.is

Vestfirskt björgunarsveitarfólk leitaði Birnu

Leitarfólk að störfum í hrauninu við Herdísavík í Selvogi

 

Vestfirskt björgunarsveitarfólk lá ekki á liði sínu við þá miklu leit sem fram fór um helgina af Birnu Brjánsdóttur. Í leitina fóru rúmlega tuttugu leitarmenn, tveir aðgerðastjórar, tæki, drónar og tveir leitarhundar af svæði 7 sem til heyra björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum, einnig fór leitarfólk og tæki af svæði 6, sunnanverðum Vestfjörðum.

Leitin var umfangsmesta aðgerð sem framkvæmd hefur verið á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hin síðari ár. Jón Arnar Gestsson sem er svæðisstjóri svæðis 7 var í aðgerðastjórnunarteyminu og segir hann aðgerðina hafa verið þaul skipulagða og framkvæmdina snurðulausa. Segir hann að þrátt fyrir að svo viðamikil og fjölmenn leit hafi ekki verið framkvæmd áður sé heilmikil fagþekking til staðar sem hafi sýnt sig þar og sannað í beru verki.

Alls komu um 775 sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar að leitinni að Birnu, þar af voru 685 leitarmenn, 40 aðgerðastjórnendur og 50 frá slysavarnadeildum félagsins. Við leitina var notast við 11 hunda, dróna, fjórhjól og nánast allan bílaflota björgunarsveitanna. Leitarfólk úr 71 björgunarsveit víðsvegar að af landinu tók þátt í leitinni og slysavarnafólk úr fimm deildum félagsins.

Eftir að þyrla með sérhæfðu leitarfólki úr björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar fann lík Birnu við Selvogvita eftir hádegi í gær var leitarskipulagi breytt. Þá héldu yfir 300 björgunarsveitamenn leitarstörfum áfram, en áhersla var þá lögð á að finna vísbendingar sem tengst gætu málinu, svo sem ummerki eftir mannaferðir, jarðrask eða hluti sem tengst gert málinu. Skipulagðri leit hefur nú verið hætt.

annska@bb.is

 

Stefnir á 8 þúsund tonna eldi í Djúpinu

Staðsetningar eldiskvía Arctic Sea Farm.

 

Matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum á 8.000 tonna laxeldi Arctic Sea Farm í Ísafjarðardjúpi er nú í kynningu hjá Skipulagsstofnun. Fyrirtækið er í dag með 200 tonn laxeldisleyfi í Djúpinu og starfsleyfi fyrir 4.000 tonna framleiðslu á regnbogasilungi við Sandeyri á Snæfjallaströnd. Gangi áform Arctic Sea Farm eftir, verður horfið frá áætlunum um eldi á regnbogasilungi við Snæfjallaströnd og lax alinn í staðinn. Umsókn fyrirtækisins beinist að þremur staðsetningum í Ísafjarðardjúpi, við Sandeyri, Laugavík í Skötufirði og rétt út af mynni Skutulsfjarðar.

Arctic Sea Farm – áður Dýrfiskur – er eitt þriggja laxeldisfyrirtækja sem eru með áform um laxeldi í Ísafjarðardjúpi, hin fyrirtækin eru Arnarlax og Háafell, dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífdal. Arnarlax vinnur að því að fá leyfi fyrir 10.000 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi og sama magni í Jökulfjörðum. Háafell er með leyfi fyrir 6.800 tonna eldi á regnbogasilungi í Djúpinu en vinnur nú að því að breyta því leyfi í laxeldisleyfi.

Kynningartími stendur frá 23. janúar til 8. febrúar 2017 og er tillagan aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar.

 

smari@bb.is

Vestri komst áfram í Kjörísbikarnum

 

Karlalið Vestra í blaki tekur nú í fyrsta sinn þátt í bikarkeppni Blaksambands Íslands, Kjörísbikarnum. Liðið lék fið Hrunamenn á Flúðum í gær og Vestri sigraði nokkuð örugglega 3-0 í leiknum og eru því komnir áfram í næstu umferð. Dregið verður í næstu umferð í þessari viku.

smari@bb.is

 

Dýrfinna valin Skagamaður ársins

Dýrfinna Torfadóttir Skagamaður ársins ásamt Ólafi Adolfssyni formanni bæjarráðs Akraness.

 

Ísfirðingurinn, gullsmiðurinn og nú Skagapían Dýrfinna Torfadóttir var á á þorrablóti Skagamanna síðasta laugardagskvöld útnefnd Skagamaður ársins 2016. Um Dýrfinnu segir á vef Akraneskaupstaðar að hún hafi um árabil verið einn dyggasti stuðningsmaður kvennaknattspyrnunnar á Akranesi og stutt stelpurnar með margvíslegum hætti. Hún hefur  eflt tengsl listamanna og knattspyrnunnar, með því að færa besta leikmanni hvers leiks í efstu deild karla og kvenna, verk eftir listafólk af Skaganum. Hún er öflugur listamaður og hélt tvær sýningar á Akranesi á árinu 2016. Aðra sýninguna hélt hún í garðinum heima hjá sér á Írskum dögum og sýndi þar nýjustu verk sín. Seinni sýningin var haldin í safnaskálanum á Byggðasafninu í Görðum á Vökudögum en þar sýndi Dýrfinna skart og skó. Dýrfinna er einn af þessum litríku einstaklingum sem er sífellt boðin og búin að aðstoða aðra og taka þátt í verkefnum til að auðga menningar- og íþróttalíf á Akranesi. Hún var kjörin bæjarlistamaður Akraness árið 2010. Dýrfinna er gift Guðjóni Brjánssyni alþingismanni.

Dýrfinna er af góðu kunn á heimaslóðunum, hún starfaði hér sem gullsmiður um árabil áður en hún flutti til Akraness árið 2001 og seldi hún lengi vel skart sitt í verslun sinni Gullauga sem lokaði á síðasta ári. Dýrfinna hefur í gegnum tíðina verið helsti samverkamaður Bæjarins besta við útnefningu á Vestfirðingi ársins er hún gefur bæði eignar- og farandverðlaunagripi þá er viðkomandi hlýtur.

Sem Skagamaður ársins fékk Dýrfinna styttu eftir Skagakonuna Gyðu Jónsdóttur Wells að gjöf og veglegan blómvönd. Það var Ólafur Adolfsson formaður bæjarráðs sem kynnti Skagamann ársins með eftirfarandi stökum sem Heiðrún Jónsdóttir starfsmaður bæjarskrifstofu Akraness orti af þessu tilefni:

 

Skagamaður ársins er

afar flottur karakter.

Hæfileika í bunkum ber,

en býsn af hógværð líka.

Sínum kostum síst því er að flíka.

 

Unir smíðar iðinn við

allt er fágað handverkið.

Fótboltanum leggur lið

á leikjum stuðning veitir.

Aðferðunum ýmsum við það beitir.

 

Vestfirðingur uppalinn

ei það skaðar ferilinn.

Er í mörgu ákveðinn

eins til sókna og varnar.

Manni á alþing kom við kosningarnar.

 

Eins og gull af eiri ber

um þá segja mætti hér,

sem þekkt af iðngrein sinni er.

Aldrei mælt hún kvarti.

Hugfangin er bæði af skóm og skarti.

annska@bb.is

 

 

Eðlilegt að eldisfyrirtækin greiði auðlindagjald

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra er flutningsmaður frumvarpsins.

 

„Mín sýn á alla framleiðslu og atvinnuuppbyggingu, hvort sem það er laxeldi eða eitthvað annað, er að starfsemi geti aðeins verið leyfð ef hún stenst kröfur um verndun umhverfis og náttúru,“ segir Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra í fréttaskýringu Fréttatímans um laxeldi á Íslandi.

Ráðherranum þykir eðlilegt að laxeldisfyrirtækin greiði auðlindagjald í ríkissjóð. „Það er líka ljóst að vegna aukinnar kröfu um burðarþol fjarða, að það eru ekki margir staðir eða firðir hér við land þar sem hægt er að stunda fiskeldi í stórum stíl og þannig setur umhverfið slíku eldi náttúrulegar skorður.

En einmitt vegna þess að laxeldi við Ísland verður alltaf takmarkað á þennan hátt finnst mér mjög eðlilegt að ríkið taki auðlindagjald fyrir þessi takmörkuðu gæði, það er þessa fáu firði sem eru nógu djúpir við Ísland til að bera fiskeldið.“

smari@bb.is

Hvassviðri eða stormur í dag

 

Veðurstofa Íslands spáir suðaustan hvassviðri eða stormi, 15-23 m/s og talsverðri rigningu á Vestfjörðum í dag, hvassast verður syðst. Sunnan 8-13 m/s og úrkomuminna síðdegis. Hiti verður á bilinu 3 til 7 stig. Sunnan 5-10 m/s og rigning eða slydda með köflum á morgun og kólnar. Á Vestfjörðum er víða hálka eða hálkublettir og snjóþekja.

annska@bb.is

Fagnar yfirlýsingu ráðherra um Reykjavíkurflugvöll

 

Bæjarráð Bolungarvíkur fagnar yfirlýsingu Jóns Gunnarssonar samgöngunráðherra um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og að miðstöð innanalandsflugs verði í Vatnsmýri til framtíðar. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs. Í gegnum árin hefur Jón verið ötull stuðningsmaður Reykjavíkurflugvallar og strax á fyrstu dögum hans í samgönguráðuneytinu kom berlega í ljós að hann hyggst beita sér fyrir áframhaldandi veru flugvallar í Vatnsmýri.

„Það er engin önnur lausn í stöðunni. Það er auðvitað áhugavert að skoða allar framtíðarpælingar um eitthvað annað, en það er eitthvað sem er komið svo stutt á veg að það mun í mínum huga taka mörg ár að koma niðurstaða í. Á meðan getum við ekki búið við einhverja óvissu um Reykjavíkurflugvöll,“ sagði Jón í Fréttablaðinu fyrr í mánuðinum, aðspurður hvort hann vilji flugvöllinn áfram í Vatnsmýri.

Jón vill ráðast í uppbyggingu á vellinum, sér í lagi á flugstöðinni. „Reykjavíkurflugvöllur gegnir gríðarlega veigamiklu hlutverki í okkar samgöngum. Aðstæður þar eru algerlega óviðunandi, bæði fyrir starfsfólk og farþega. Það verður að ná saman um einhverja framtíðarsýn þannig að hægt sé að ráðast í eðlilega uppbyggingu og horfa til lengri tíma. Við getum ekki búið við þessa stöðugu óvissu.“

smari@bb.is

Ísland fórnarlamb eigin velgengni

 

Ísland er fórnarlamb eigin velgengni, segir í úttekt breska dagblaðsins Independent á sex áfangastöðum sem ferðaþjónustan er að eyðileggja, eins og það er orðað í úttektinni.  Indenpendent vitnar í Justin Francis, framkvæmdastjóra Responsible Travel. Hann segir að ferðaþjónustan hafi endurreist efnahaginn á Íslandi eftir hrun en bendir á að stundum vaxi ferðaþjónustuna hraðar en innviðirnir. „Árið 2009 voru ferðamennirnir 250 þúsund og fyrra voru þeir 1,6 milljónir. Landið þolir ekki þennan fjölda,“ segir Francis og minnist á Gullna hringinn þar sem erfitt er fyrir ferðamenn að komast að.

Hann ráðleggur fólki að ferðast til óheðfbundnari staða á Íslandi. „Þú sérð ekki muninn á frægasta fossinum á Íslandi og þeim næstfrægasta, þeir eru alveg jafn magnaðir.“

Hann mælir einnig með að þeir sem hafi áhuga á Íslandi fari frekar til Svalbarða.

 

smari@bb.is

Nýjustu fréttir