Þriðjudagur 13. maí 2025
Heim Blogg Síða 2351

Bolungarvíkurhöfn í öðru sæti í verkfallinu

Löndun í Bolungarvík.

Landaður afli í Bolungarvík fyrstu sjö vikur ársins eða þar til verkfalli sjómanna lauk 19. febrúar var 1.572 tonn og var Bolungarvík önnur stærsta löndunarhöfn landsins á þessum tíma. Þetta kemur fram á vefnum vikar.is. Aðeins Ólafsvík var með meiri landaðan afla eða 1.895 tonn. Fyrir sama tímabil í fyrra var landaður afli i Bolungarvík 1.987 tonn og því um 20% samdrátt að ræða milli ára.

Landaður afli í höfnum á Vestfjörðum fyrstu 7 vikur ársins 2017 var eftirfarandi:

Bolungarvík: 1.572 tonn
Tálknafjörður: 509 tonn
Suðureyri: 396 tonn
Patreksfjörður: 201 tonn
Flateyri: 201 tonn
Drangsnes: 191 tonn
Hólmavík: 181 tonn
Bíldudalur: 162 tonn
Ísafjörður: 118 tonn
Brjánslækur: 2 tonn
Súðavík: 2 tonn

smari@bb.is

Auglýsing

Bjóða til hljóðainnsetningar í ljósaskiptunum

Útsýnið frá Hnífsdalsvegi 10. Mynd: glamakim.is

Á fimmtudaginn kemur bjóða listakonurnar Ulla Juske og Ella Bertilsson gestum að upplifa hljóðinnsetninguna Órætt efni/Uncertain Matter á Ísafirði. Innsetningin fer fram í ljósaskiptunum í Króknum á heimili Kjartans Árnasonar arkitekts og fjölskyldu hans að Hnífsdalsvegi 10.

Órætt efni er frásagnarkennd hljóðinnsetning sem veltir því upp hvernig skynja má og skilgreina tíma. Í verkinu eru könnuð mörk staðreynda og skáldskapar þar sem skynjunin á tíma er skoruð á hólm sem og staðsetning okkar í alheiminum og framtíð okkar innan hans. Allt frá iðnbyltingu hefur fólk verið háð klukkum og tímavörslu. Við skiljum öll tíma af praktískum ástæðum, en upplifunin af honum getur einnig verið huglæg. Mínútur geta verið sem klukkustundir og mánuðir geta liðið svo hratt að hönd fær vart á fest.

Hljóðverkið byggir á fjölda viðtala við áhuga-stjörnufræðinga, stjarneðlisfræðinga og grasafræðinga frá Reykjavík og nágrenni. Sagan sem er sögð gefur innsýn í hugarheim viðmælendanna. Verkið var unnið er listamennirnir dvöldu um þriggja mánaða skeið í listavinnustofum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM).

Órætt efni er samstarfsverkefni þeirra Ellu og Ullu. Í samstarfi sínu leitast þær við að vera með frásagnarmiðaða túlkun sem lýsir huglægri reynslu af tíma í tengslum við ákveðin samfélög, stað eða umhverfi. Samtöl við fólk sem tengist viðfangsefni þeirra hverju sinni eru þar mikilvægasti hlekkurinn sem setur stefnuna við þróun hvers verks.

Viðburðurinn, sem hefst klukkan 18, er skipulagður af Gallerí Úthverfu í samvinnu við Kjartan Árnason arkitekt og fjölskyldu sem opna heimili sitt fyrir kynninguna á verkinu sem tekur 22 mínútur í flutningi. Listakonurnar verða á staðnum og boðið verður upp á léttar veitingar og spjall á eftir.

annska@bb.is

Auglýsing

Rigning eða slydda síðdegis

Í dag verður norðaustan 3-8 m/s og skýjað á Vestfjörðum samkvæmt spá Veðurstofu Íslands, en 8-13 m/s og rigning eða slydda norðan til síðdegis. Á morgun kveður spáin á um norðaustan 8-15 m/s og slyddu eða snjókomu, einkum á svæðinu norðanverðu. Hiti verður á bilinu 0 til 5 stig. Á fimmtudag er gert ráð fyrir norðan eða norðaustan 8-13 m/s með slyddu eða rigningu á landinu, en léttskýjuðu á suðvesturhorninu. Hiti verður um eða yfir frostmarki við suður- og austurströndina en annars vægt frost.

Víða er hálka eða snjóþekja á fjallvegum á Vestfjörðum en mikið autt á láglendi.

annska@bb.is

Auglýsing

Góðar samgöngur eru lífæð hverrar byggðar

Dynjandisheiði.

Verkalýðsfélag Vestfirðinga leggur sérstaka áherslu á að tengja norður- og suðursvæði Vestfjarða í einni framkvæmd með jarðgöngum og vegabótum. Í ályktun stjórnar félagsins kemur fram að á meðan ástand vegamála á svæðinu er svo dapurlegt sem raun ber vitni, sé einfaldlega ekki hægt að bjóða íbúum og atvinnulífi á suðurfjörðum Vestfjarða upp á að standa í eðlilegri samkeppni við aðra landshluta vegna vanþróaðra samgangna. „Í þeim efnum eru vestfirskir vegir mörgum áratugum á eftir í uppbyggingu og þróun. Verkalýðsfélag Vestfirðinga ítrekar að bættar samgöngur eru ein af undirstöðunum þess að tryggja og viðhalda byggð á Vestfjörðum,“ segir í ályktuninni og enn fremur að krafa Vestfirðinga sé skýr:

„Góðar samgöngur eru lífæð hverrar byggðar, bæði hvað varðar atvinnu og menningu, sem og öryggi og þróun byggðar. Vegir á Vestfjörðum standast ekki þær kröfur sem gerðar eru til nútíma þjóðvega og uppfylltar hafa verið hjá öðrum. Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga skorar á samgönguráðherra og þingmenn kjördæmisins að tafarlaust verði ráðist í gerð heilsárs vegbóta við alla þéttbýlisstaði á Vestfjörðum.“

smari@bb.is

Auglýsing

Allir fá eitthvað – enginn fær ekkert!

Nú er orðið ljóst hvaða tónlistarfólk treður upp á stóra sviðinu á Aldrei fór ég suður 2017, en að vanda fer hátíðin fram á Ísafirði um páskana. Annað árið í röð verður rokkað og rólað í skemmu rækjuverksmiðjunnar Kampa við Ásgeirsgötu. „Aldrei fór ég suður heldur áfram að fylgja þeirri sérstöðu að blanda saman straumum og stefnum í tónlist, konum og köllum, gömlum sem ungum, frægum og efnilegum og allt þar á milli. Þarna sjáum við indípopp, blús, pönk, lúðrastuð, þungarokk, gleðipopp, rapp, köntrí, dramatík og dans. Allir fá eitthvað, enginn fær ekkert, einn fær ekki allt,“ segir í tilkynnningunni.

Í myndbandinu sem fylgir fréttinni boða Ísfirðingar og nærsveitungar gesti velkomna til Ísafjarðar um páskana ásamt því að lyfta hulunni af safaríku prógrammi hátíðarinnar.

smari@bb.is

Auglýsing

Verðhrun á ýsu

Smábátaeigendur jafnt og aðrir í sjávarútveginum eru flemtri slegnir vegna hríðlækkandi verðs á fiski, að því er segir á vef Landssambands smábátaeigenda. Á fyrstu tveim dögum í mars birtast tölur sem eiga sér enga líka hvað verðlækkun snertir. Fyrsta og annan mars 2016 var meðalverð á óslægðri ýsu á fiskmörkuðum 298 kr/kg. Nú ári síðar seldist ýsa á 187 kr/kg.  Mismunurinn er 111 kr/kg, verðlækkunin nemur 37%.

Verðhækkun á erlendum mörkuðum fyrir ferskan fisk er ekki nægjanleg á móti styrkingu krónunnar gagnvart evru, pundi og dollar, segir á vef Landssambandsins.

smari@bb.is

Auglýsing

Efstu bekkir þreyta samræmd próf

Samræmdu prófin í efstu bekkjum grunnskóla landsins hefjast í dag.  Nemendur í níunda og tíunda bekk taka prófin að þessu sinni í samræmi við breytta reglugerð og verða prófin rafræn. Þetta verður í eina skiptið sem tveir árgangar taka prófið á sama tíma. Framvegis verða samræmd könnunarpróf lögð fyrir að vori í níunda bekk í stað haustprófa í tíunda bekk.

Prófin verða með breyttu sniði í samræmi við lagabreytingar á grunnskólalögum og lögum um Menntamálastofnun. Í tilkynningu á vef Menntamálastofnunar kemur fram að með því að færa 10. bekkjar könnunarprófið í 9. bekk gefist nemendum, forráðamönnum þeirra og kennurum meira svigrúm til þess að nýta sér niðurstöðurnar til að bregðast við og móta áherslur í námi í 10. bekk.

smari@bb.is

Auglýsing

Sveinn tekinn við Reykhólavefnum

Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli.

Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli í Geiradal hefur tekið við sem vefstjóri Reykhólahrepps. Hann tekur við af Hlyni Þór Magnússyni sagnfræðingi sem sagði starfinu lausu í haust en hefur aðstoðað sveitarstjóra með vefinn allt til þessa dags. Sveinn tekur við vef sem notið hefur vinsælda, þá sérstaklega fyrir vönduð vinnubrögð fyrrum vefstjóra.

Heima á Svarfhóli rekur Sveinn verkstæði. Hann er fyrrverandi sveitarstjórnarmaður, fyrrverandi og núverandi göngugarpur og annálaður áhugaljósmyndari, allavega í heimabyggð og líka þó víðar væri leitað.

smari@bb.is

Auglýsing

16,8% minna aflaverðmæti

Í nóvember 2016 var aflaverðmæti íslenskra skipa 10,2 milljarðar króna sem er samdráttur um 16,8% samanborið við nóvember 2015. Verðmæti botnfiskafla nam 7,7 milljörðum og dróst saman um 14,2% frá fyrra ári. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar. Uppistaðan í verðmæti botnfiskaflans var þorskur en verðmæti hans nam 5,5 milljörðum sem er 2,6% minna en í nóvember 2015. Verðmæti uppsjávarafla dróst einnig saman á milli ára, nam tæpum 1,9 milljörðum sem er 21,2% minna en í nóvember 2015. Verðmæti flatfiskafla dróst saman um 25,5% og nam 522 milljónum króna í nóvember. Aflaverðmæti skelfisks dróst saman um 50,8% og nam um 88 milljónum samanborið við tæpar 179 milljónir í nóvember 2015.

Á 12 mánaða tímabili frá desember 2015 til nóvember 2016 var aflaverðmæti 134,9 milljarðar króna sem er 10,5% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr. Verðmæti botnfiskafla dróst saman um 7,4 milljarða á milli tímabila. Verðmæti uppsjávartegunda dróst einnig saman á milli þessara 12 mánaða tímabila, vegur þar þyngst 7,7 milljarða samdráttur á verðmæti loðnuafla.

smari@bb.is

Auglýsing

Vildi kyngja upphæðinni í skiptum fyrir betri vinnubrögð

Ætlaði að bæta málið, segir Daníel.

„Ég setti þessa tillögu fram til að bjarga því sem bjargað varð,“ segir Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, um breytingartillögu við samning Ísafjarðarbæjar við Hestamannafélagið Hendingu. Daníel lagði tillöguna fram á fundi bæjarstjórnar fyrir helgi og þegar til atkvæðagreiðslu kom um tillöguna sat Daníel hjá.

„Ég var að reyna að búa til leið fyrir Í-listann að bæta málið en það kom fljótlega í ljós að Í-listinn vildi ekki styðja breytingarnar og því sat ég hjá,“ segir Daníel sem hefur talað eindregið gegn samningnum og finnst hann meðal annars vera allt of dýr. „Ég hefði verið til í að kyngja upphæðinni í skiptum fyrir betri vinnubrögð.“ Samflokksmenn hans í Sjálfstæðisflokknum studdu breytingartillöguna auk bæjarfulltrúa Framsóknarflokks. Tillagan var felld með atkvæðum Í-listans.

Ísafjarðarbær lætur í té 30 milljónir kr. til að reisa reiðskemmu í Engidal og til viðbótar koma 20 milljóna kr. bætur frá Vegagerðinni fyrir aðstöðumissi Hendingar á Búðartúni í Hnífsdal.

„Þetta er allt of opinn samningur og of margt sem er óljóst,“ segir Daníel. Ísafjarðarbær og Hending ætla að stofna með sér einkahlutafélag um byggingu reiðskemmunnar. „Það er ekki búið að ákveða hvernig hús á að byggja. Engin þarfagreining liggur fyrir og hvað þá skilalýsing. Það liggur ekki fyrir hvernig það á að koma sjálfboðavinnu hestamanna inn í einkahlutafélag því hún er skattskyld. Verður stofnuð byggingarnefnd eða mun stjórn einkahlutafélagsins ráða för er annað sem vekur upp spurningar. Ég óttast að bærinn sé að skrifa upp á óútfylltan tékka,“ segir Daníel.

smari@bb.is

 

Auglýsing

Nýjustu fréttir