Samninganefndir sjómanna, Sjómannasambands Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Sjómannafélags Íslands lýsa í yfirlýsingu yfir vonbrigðum með að slitnað hafi upp úr viðræðunum og vísa því til föðurhúsanna að það sé á ábyrgð sjómanna. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafi ekki treyst sér til „að koma til móts við sanngjarnar og réttlátar kröfur sjómanna til lausnar deilunni,“ að því er fram kemur í yfirlýsingu samtaka sjómanna.
Þar segir jafnframt að samskipti milli samninganefndanna hafi verið til fyrirmyndar og þær hafi náð ágætlega saman. Góður árangur hafi náðst í nokkrum kröfum að mati samninganefndanna. „Útvegsbændur eru ekki tilbúnir að koma til móts við meginkröfur sjómanna og þess vegna er málið komið á það stig að viðræður eru strand,“ segir í yfirlýsingu samtaka sjómanna.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja að sjómenn víkist undan ábyrgð í kjaradeilunni. Sjómannasamband Íslands, Sjómannafélag Íslands og VM, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, hafi ákveðið að slíta viðræðunum eftir rúmlega klukkustundar fund í gær.
SFS telur ábyrgð þeirra ríka og miklir hagsmunir séu undir. Menn geti ekki leyst sig undan því verkefni að ná ásættanlegum samningi með því að ganga frá samningaborði.
Stígur Berg Sophusson og Margrét Rún Rúnarsdóttir er þau tóku við verðlaunum á föstudagskvöldið
Tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun komu í hlut Harðverja á Bikarglímu Íslands sem fram fór síðastliðið föstudagskvöld í íþróttahúsi Kennaraháskólans í Reykjavík. Á mótið mættu til keppni 38 keppendur frá 6 löndum, Íslandi, Skotlandi, Frakklandi, Svíþjóð, Hollandi og Ítalíu. Voru það Margrét Rún Rúnarsdóttir og Stígur Berg Sophusson sem kepptu fyrir hönd Harðar.
Það fór fram mikil og hörð barátta hjá glímuköppunum á mótinu og landaði Margrét Rún bronsi í +65kg flokki kvenna og silfri í opnum flokki. Stígur vann silfur í þungavigtinni +90kg karlar og brons í opnum flokki. Til marks um harða baráttu gat Margrét Rún ekki tekið þátt í Íslandsmeistaramóti í backhold sem fram fór á laugardag eftir að hafa meiðst á framhandlegg í úrslitaglímu föstudagsins. Þá komst Stígur þar í undanúrslit í sínum flokki, en sleit í þeirri glímu liðbönd í öxl og varð frá að hverfa.
Glímusamband Íslands hefur valið keppendur í landslið Íslands í glímu, sex karla og fimm konur sem munu keppa á Evrópumeistaramótinu í keltneskum fangbrögðum sem fer fram í Austurríki dagana 7.-11.apríl næstkomandi og er Margrét Rún meðal þeirra landsliðsmanna sem þar munu keppa.
Í dag verður suðaustan kaldi eða stinningskaldi 8-13 m/s á Vestfjörðum, með rigningu eða skúraveðri. Miðað við árstíma verður áfram hlýtt í veðri í dag með hita á bilinu 2 til 7 stig, en það kólnar á morgun og verður þá vindur austlægari og búist við éljagangi samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Það kólnar áfram í veðri þegar líður á vikuna og má búast við talsverðu frosti.
Á Vestfjörðum er á köflum hálka eða hálkublettir, einkum á fjallvegum er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Öllu meiri hálka er á Ströndum. Opið er norður í Árneshrepp.
Lögreglan á Vestfjörðum ætlar ekki að ákæra fyrir meint brot í friðlandi Hornstranda í júní í fyrra. Fréttastofa RÚV greinir frá að rannsókn sé lokið og verður málinu lokið með sekt þar sem ekki var hægt að tengja mennina við nema hluta brotanna með óyggjandi hætti. Málið snýst um meint brot þremenninga á reglum friðlandsins um meðferð skotvopna í friðlandinu, um ólöglegar skotveiðar í friðlandinu, veiðar á fuglum utan veiðitíma og að hafa hreiðrað um sig í neyðarskýli Landsbjargar án leyfis. Málið komst í hámæli þegar starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækis á Ísafirði komu að þeim í neyðarskýlinu í Hornvík og lýstu upplifun sinni á samfélagsmiðlum.
Á vef RÚV er haft eftir Karli Inga Vilbergssyni lögreglstjóra á Vestfjörðum að mennirnir hljóti sektina fyrir að hafa ekki tilkynnt ferðir sínar í friðlandið sem stangist á við ákvæði um friðland Hornstranda og fyrir meðferð skotvopna í friðlandinu sem er óheimil öðrum en landeigendum. Ekki er hægt tengja önnur brot við mennina með óyggjandi hætti.
Víkingur Gunnarsson framkvæmdastjóri Arnarlax á Bíldudal segir að samfélagslegu áhrifin af laxeldinu séu nú þegar orðin talsverð á sunnanverðum Vestfjörðum. 110 starfsmenn vinna hjá Arnarlaxi á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði. Þetta kemur fram í viðtali við Víking í Fréttatímanum sem kom út á laugardag. „Á þessum stöðum þar sem er fiskeldi í gangi, bæði í þorpum hér á Íslandi og annars staðar, er fjölgun á barnafólki, það er fjölgun í barnaskólunum og svo framvegis. Á Bíldudal og Patreksfirði er þetta augljóst: Fjölgun íbúa, hærra húsnæðisverð, tekjur sveitarfélagsins hafa aukist,“ segir Víkingur.
Hann telur þó að byggðarökin stjórni ekki ákvörðunum fjárfesta í laxeldi. Á endanum snúist eldið eins og annar rekstur um það hvort það gangi vel eða ekki, en ekki hvar það sé stundað.
„Ég held að við þurfum aðeins að taka umræðuna um laxeldið á vitrænt stig. Það gengur vel að reka þessi fyrirtæki; fjárfestar eru ekki að leggja peninga í laxeldið út af byggðasjónarmiðum og til að hafa atvinnu úti á landi. Þetta skapar störf, þetta skapar fjölbreytt störf og þetta skapar störf sem krefjast alls kyns menntunar. Og það er eitt í þessu sem er afar skemmtilegt: Þetta skapar bæði karla- og kvennastörf“.
Fasteignamat Þjóðskrár hækkar að jafnaði um 8,6% í Ísafjarðarbæ milli ára sem hefur í för með sér hækkun á fasteignagjöldum af eignum í sveitarfélaginu. Hækkunin er mjög misjöfn eftir hverfum. Mest er hækkunin í eldri byggð á Ísafirði þar sem hún er að jafnaði 13,1%, en einnig er talsvert mikil á Flateyri eða um 12,3% og á Þingeyri um 12,7%. Í nýrri byggð Ísafjarðar er hækkunin að jafnaði um 9,5% og á Suðureyri 8,6%. Minnst er hækkunin í Hnífsdal þar sem hún er 0,8%.
Ísafjarðarbær sendir ekki út greiðslu- og álagningarseðla á pappírsformi vegna fasteignagjalda 2017. Greiðslu- og álagningarseðlar verða þó sendir til íbúa fædda 1946 og fyrr. Greiðendur geta flett álagningarseðlum upp á vefsíðunni www.island.is eða með því að smella á hnappinn „Bæjardyr – reikningar“ á forsíðu heimasíðu Ísafjarðarbæjar. Umsóknum félaga- og félagasamtaka um styrk til greiðslu á fasteignagjöldum og umsóknum vegna fráfalls maka elli- og örorkulífeyrisþega á árinu 2016 skal skilað fyrir lok febrúar 2017 til skrifstofu Ísafjarðarbæjar. Umsóknareyðublöð fást á vef Ísafjarðarbæjar eða hjá þjónustuveri bæjarins, Hafnarstræti 1.
Vonast til að reiðskemma hleypi krafti í starf Hendingar segir í texta með þessari mynd frá 2017. Mynd úr safni.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gera alvarlegar athugasemdir við samningsdrög sem meirihlutinn í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur gert við Hestamannafélagið Hendingu um bætur vegna aðstöðumissis sem félagið varð fyrir við gerð Bolungarvíkurganga. Í bókun Jónasar Þórs Birgissonar (D) og Marzellíusar Sveinbjörnsssonar (B) á fundi bæjarráðs í morgun er staldrað við eitt atriði sem flokkarnir gera athugasemd við, en það hvernig rekstri fyrirhugaðrar reiðskemmu verði háttað í framtíðinni. „Það hlýtur að teljast lágmarkskrafa að upplýsingar um framtíðarskuldbindingu sveitarfélagsins séu skýrar áður en lagt er út í miklar fjárfestingar sem íbúar bæjarins þurfa að taka endanlega ábyrgð á,“ segir í bókuninni. Minnihlutinn hvetur meirihluta Í-listans til að fresta gerð samkomulags þar til niðurstaða um rekstur reiðskemmunnar liggur fyrir.
Í gagnbókun Í-listans segir að samkomulag við Hendingu hafi dregist allt of lengi og vonir standi nú til að hestamenn geti byggt upp góða aðstöðu í Engidal og bygging reiðskemmu hleypi vonandi endurnýjuðum krafti í starfsemi Hendingar. „Sjálfsagt er að gefa sér tíma til að gera þær breytingar á samningsdrögunum sem nauðsynlegar teljast og verða þau lögð fram á fundi bæjarstjórnar þann 2. febrúar,“ segir í bókun Örnu Láru Jónsdóttur, Kristjáns Andra Guðjónssonar og Gísla Halldórs Halldórssonar.
Kristín Þorsteinsdóttir var valin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar fjórða árið í röð
Í gær fór fram útnefning á íþróttamanni Ísafjarðarbæjar árið 2016 í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði og var þar sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir valin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar úr hópi framúrskarandi íþróttafólks sveitarfélagsins. Er þetta fjórða árið í röð sem Kristín hampar titlinum, en hún hefur verið ein öflugasta sundkona landsins um árabil og er í sínum flokki ein af fimm bestu sundkonum heims. Í umsögn um Kristínu var meðal annars sagt: (Kristín) hefur með vinnusemi og ástundun náð markmiðum sínum, hún hefur verið fremsti sundmaður í sínum flokki undanfarin ár. Afrek á árinu eru Evrópumet í 50metra skriðsundi og 25m baksundi, Evrópu og heimsmet í 25m skriðsundi. Kristín tók þátt í DSISO í Flórens í 50metra laug og var þar í 4 sæti í 100 skrið, þar hampaði hún 2.sæti í úrslitum í 50m flugsundi og 5.sæti í úrslitum í 50m baksundi. Einnig tók Kristín þátt í Íslandsmóti IF og kom hún heim með 9 gull og eitt Evrópumet í 50 metra skriðsundi.
Kristín Þorsteinsdóttir hefur stundað sundæfingar hjá Ívari í 16 ár og ávallt gert það af miklum áhuga og einbeitingu er segir í tilnefningu félagsins. Þar segir jafnframt: Kristín er létt í lund, góður liðsfélagi og er ávalt prúð í framkomu. Undanfarin ár hefur þessi áhugi og einbeiting á æfingunum skilað henni góðum árangri á mótum bæði heima og erlendis og er hún í dag fremsti íslenski sundmaðurinn í sínum flokki og ein af topp fimm bestu á alþjóðavísu. Með íþróttamiðað lífsmottó að leiðarljósi „Æfingin skapar meistarann en gleði og samvera er gulls ígildi“ er Kristín þannig fyrirmynd annarra íþróttamanna og verðugur fulltrúi Ívars.
Í hófinu var einnig valinn efnilegasti íþróttamaður ísafjarðarbæjar 2016 og var þar fyrir valinu blakkonan Auður Líf Benediktsdóttir. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Auður Líf stundað blak um árabil, en hún hefur æft og spilað íþróttina frá 7 ára aldri. Hún á fjölmarga Íslandsmeistaratitla í yngri flokkum og er nú lykilleikmaður með meistaraflokki Vestra í blaki. Á árinu 2016 var hún valin í U17 landsliðið í blaki þar sem hún stóð sig sérlega vel. Þar að auki spilaði hún og keppti í strandblaki á Möltu síðasta sumar með góðum árangri.
Þá voru einnig veitt hvatningarverðlaun og voru þau veitt Körfuboltabúðum Vestra. Körfuboltabúðirnar hafa verið starfræktar frá árinu 2009, fyrst undir nafni KFÍ en eftir sameiningu Íþróttafélaga árið 2016 undir nafni Vestra.
Í umsögn segir að síðastliðin 3 ár hafi körfuboltabúðirnar verið rómaðar fyrir faglegt og frábært starf. Að búðum hafi komið tugir manna sem hafa séð um skipulagningu og uppsetningu þeirra. Körfuboltabúðirnar fá gífurlega góða einkunn meðal þátttakenda, foreldra og forráðamanna um allt land og síðustu ár hafa færri komist að en vildu, sem er merki um gæði og vinsældir búðanna.
Auður Líf Benediktsdóttir var valin efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2016Guðfinna Hreiðarsdóttir og Birna Lárusdóttir tóku við hvatningarviðurkenningu sem körfuboltabúðir Vestra hlutu
Samningarnefndir sjómanna og útgerðar hittust á samningafundi hjá sáttasemjara kl.13 í dag. Eftir frekar stuttar viðræður var ljóst að ekki væri lengra komist og viðræðurnar væru járn í járn þar sem hvorugur aðilinn ætlar að gefa tommu eftir af kröfum. Á vef Verkalýðsfélags Vestfirðinga er greint frá að eftir stutt fundarhlé lögðu samningsaðilar sjómanna og útgerðar fram bókanir um stöðuna og í kjölfarið lýsti sáttasemjari viðræðurnar árangurlausar. Nýr fundur hefur ekki verið boðaður en samkvæmt lögum ber sáttasemjara að kalla deiluaðila til fundar innan 2ja vikna frá því viðræðum er slitið.
Leitarfólk að störfum í hrauninu við Herdísavík í Selvogi
Vestfirskt björgunarsveitarfólk lá ekki á liði sínu við þá miklu leit sem fram fór um helgina af Birnu Brjánsdóttur. Í leitina fóru rúmlega tuttugu leitarmenn, tveir aðgerðastjórar, tæki, drónar og tveir leitarhundar af svæði 7 sem til heyra björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum, einnig fór leitarfólk og tæki af svæði 6, sunnanverðum Vestfjörðum.
Leitin var umfangsmesta aðgerð sem framkvæmd hefur verið á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hin síðari ár. Jón Arnar Gestsson sem er svæðisstjóri svæðis 7 var í aðgerðastjórnunarteyminu og segir hann aðgerðina hafa verið þaul skipulagða og framkvæmdina snurðulausa. Segir hann að þrátt fyrir að svo viðamikil og fjölmenn leit hafi ekki verið framkvæmd áður sé heilmikil fagþekking til staðar sem hafi sýnt sig þar og sannað í beru verki.
Alls komu um 775 sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar að leitinni að Birnu, þar af voru 685 leitarmenn, 40 aðgerðastjórnendur og 50 frá slysavarnadeildum félagsins. Við leitina var notast við 11 hunda, dróna, fjórhjól og nánast allan bílaflota björgunarsveitanna. Leitarfólk úr 71 björgunarsveit víðsvegar að af landinu tók þátt í leitinni og slysavarnafólk úr fimm deildum félagsins.
Eftir að þyrla með sérhæfðu leitarfólki úr björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar fann lík Birnu við Selvogvita eftir hádegi í gær var leitarskipulagi breytt. Þá héldu yfir 300 björgunarsveitamenn leitarstörfum áfram, en áhersla var þá lögð á að finna vísbendingar sem tengst gætu málinu, svo sem ummerki eftir mannaferðir, jarðrask eða hluti sem tengst gert málinu. Skipulagðri leit hefur nú verið hætt.