Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2350

Metrostav og Suðurverk buðu lægst í Dýrafjarðargöng

Teikning af munna Dýrafjarðarganga við Rauðsstaði í Arnarfirði.

Tilboð tékkneska fyrirtækisins Metrostav a.s. og Suðurverks hf. í gerð Dýrafjarðarganga nam tæpum 8,7 milljörðum króna eða rúmum 93 prósentum af kostnaðaráætlun og var um 630 milljónum króna lægra en næstu boð sem bæði voru nánast það sama og kostnaðarætlunin. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist síðar á árinu en fara þarf yfir tilboðin og semja við verktakann sem iðulega tekur nokkrar vikur.

Tilboðin voru opnuð hjá Vegagerðinni í dag. Áður hafði farið fram forval þar sem sjö sýndu því áhuga. Fimm skiluðu að lokum inn tilboði, allt verktakar sem reynslu hafa af jarðgangagerð á Íslandi utan ítalski verktakinn C.M.C. di Ravenna.

Metrostav og Suðurverk vinna nú við gerð Norðfjarðarganga sem verða opnuð á þessu árinu.

 Tilboðin eru sem hér segir:

  • Metrostav a.s., Tékklandi og Suðurverk hf., Íslandi
    • 8.687.208.080,-
    • 93,21 %
  • C.M.C. di Ravenna, Ítalíu
    • 9.316.632.535,-
    • 99,97 %
  • ÍSTAK hf., Íslandi og  Per Aarsleff A/S, Danmörku
    • 9.322.252.133,-
    • 100,03 %
  • ÍAV hf., Íslandi og  Marti Contractors Ltd., Sviss
    • 0.538.586.652,-
    • 113,08 %
  • LNS Saga ehf., Íslandi og Leonhard Nilsen & Sönner AS, Noregi
    • 10.864.596.942,-
    • 116,57 %

Frávikstilboð:

ÍSTAK hf., Íslandi og  Per Aarsleff A/S, Danmörku, 9.250.778.500,-

Kostnaðaráætlun:   9.319.890.000,-

smari@bb.is

Veður og samgöngur á nýjum vef

Betrumbætur á nýjum vef

Smátt og smátt er nýr vefur bb.is betrumbættur og aðlagaður að lesendum. Nú er komin flipi fyrir veður og samgöngur en ábendingar lesenda voru einróma á þann veg að við héldum þessum hluta inni.

Enn er vandamál að halda linkum á gamlar fréttir en það leysist innan tíðar.

Almennt hefur nýjum vef verið vel tekið og lesendum hans á farsíma fjölgar dag frá degi. Ábendingar um það sem betur má fara eru áfram vel þegnar.

bryndis@bb.is

Áfengi í formi matreiðsluvíns í Samkaupum

Matreiðsluvín í hillum Samkaupa

Matreiðsluvín með áfengisstyrkleika allt að 40% má kaupa í verslunum Samkaupa á Ísafirði. Þar eru fjórar tegundir að finna í hálfs lítra flöskum: Koníak sem hefur áfengisstyrkleika 40%, púrtvín 20%, rauðvín og hvítvín sem er 11%. Matarvín er ólíkt áfengi sem nálgast má í verslunum ÁTVR að því leiti að búið er að krydda vínið og telst það því ekki drykkjarhæft.

Ingólfur Hallgrímsson, verslunarstjóri Samkaupa á Ísafirði, segir að kvartanir hafi ekki borist vegna sölu verslunarinnar á þessum varningi en hann fái þó reglulega spurningar um vínið. Þessar vörur hafa verið í sölu í 4 ár í yfir 20 verslunum Samkaupa víðsvegar um landið. Ingólfur segir almennt ekki mikla sölu á víninu, en það hafi þó vakið athygli að síðsumars á síðasta ári hafi salan rokið upp og segir hann það megi mögulega rekja til þess að erlendir ferðamenn hafi haldið að þarna væri um áfengi að ræða, en flöskunum svipar mikið til þeirra sem drykkjarhæft vín kemur í.

Ingólfur segir jafnframt að salan hafi dottið niður að nýju með haustinu og í desembermánuði hafi hún verið afar lítil. Það vekur þó athygli að minnst selst af rauðvíninu og hvítvíninu, jafnvel bara flaska á mánuði en mun meira af þeim tegundum sem hafa hærra áfengismagn, sem mun þó yfirleitt minna notað til matargerðar en léttvínin.

Talsvert var fjallað um sölu á áfengum matreiðsluvínum í fjölmiðlum árið 2014, en þá ákváðu lögregluyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu að aðhafast ekkert í málinu, þar sem lögum samkvæmt teldist vínið ekki neysluhæf vara. Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Ísafirði segir að til Lögreglunnar á Vestfjörðum hafi verið að berast ábendingar um að í matvöruverslun á Ísafirði sé vara til sölu sem hafi háan áfengisstyrkleika, hann segir að málið sé í skoðun, en svo virðist sem þessi vara flokkist undir matvöru en ekki áfengi.

annska@bb.is

Þrjár tilnefningar til íþróttamanns ársins

Íþróttamiðstöðin Árbær.

 

Íþróttamaður ársins 2016 í Bolungarvík verður útnefndur laugardaginn næsta. Þrír íþróttamenn eru tilnefndir að þessu sinni. Það eru kylfingurinn Chatchai Phorthiya, hestamaðurinn Guðmundur Bjarni Jónsson og knattspyrnumaðurinn Nikulás Jónsson. Hóf vegna útnefningar íþróttamanns ársins verður haldið sameiginlega með 40 ára afmælishófi Sundlaugar Bolungarvíkur. Dagskráin fyrir útnefninguna hefst kl. 14.30 í íþróttasal Árbæjar.

smari@bb.is

Auglýsa styrki vegna atvinnumála kvenna

Frá afhendingu styrkja í fyrra

Vinnumálastofnun/velferðarráðuneytið auglýsir styrki til atvinnumála kvenna árið 2017 lausa til umsóknar. Til að eiga kost á styrkveitingu þarf verkefni að vera í meirihluta eigu konu/kvenna (51%) og stjórnað af konu, það þarf að fela í sér nýnæmi eða nýsköpun af einhverju tagi og atvinnusköpun til frambúðar. Þá þarf viðskiptahugmynd að vera vel útfærð.

Veittir eru styrkir til gerðar viðskiptaáætlunar, til markaðssetningar og gerðar markaðsáætlunar, vöruþróunar, hönnunar og efniskostnaðar. Ennfremur geta konur sem hafa fullmótaða viðskiptaáætlun og hafa hug á því að stofna fyrirtæki á næstunni eða hafa stofnað fyrirtæki en ekki hafið rekstur, sótt um styrk til að hrinda henni í framkvæmd.

Heildarfjárhæð styrkja að þessu sinni eru kr. 35.000.000 og er hámarksstyrkur 4.000.000. Ekki eru veittir lægri styrkir en kr. 600.000. Umsóknarfrestur er frá 20.janúar til og með 20.febrúar og má sækja um rafrænt hér.

Á síðasta ári fengu tvö vestfirsk verkefni styrk úr sjóðnum; Skóbúðin á Ísafirði og verkefni Kristínar Hálfdánardóttur, Flateyri.

annska@bb.is

Krónan ekki styrkst eins mikið frá því í kreppunni miklu

Styrking krónunnar á síðasta ári var sú mesta á mælikvarða gengisvísitölu síðan Seðlabankinn hóf að birta slíkar vísitölur árið 1991, að því er fram kemur í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Gengisvísitalan mælir breytingar á gengi krónunnar að teknu tilliti til vægis einstakra gjaldmiðla í inn- og útflutningi.

Á síðasta ári lækkaði gengisvísitala krónunnar um 10,6%, en vísitölulækkun samsvarar hækkun á gengi krónunnar. Áður hafði krónan styrkst hlutfallslega mest milli áranna 2004 og 2005 þegar gengisvísitalan lækkaði um 10,1% á milli ársmeðaltala.

Landsbankinn vísar til þess að líta þurfi allt aftur til kreppunnar miklu á fjórða áratugnum til að finna meiri styrkingu krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum, en á þeim tíma var þó einungis til skráð gengi krónu gagnvart dollar. Árin 1933 og 1934 lækkaði gengi dollarans að meðaltali um 16,7% gagnvart krónu.

smari@bb.is

Ásakanir ganga á víxl

 

Samninganefndir sjómanna, Sjómannasambands Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Sjómannafélags Íslands lýsa í yfirlýsingu yfir vonbrigðum með að slitnað hafi upp úr viðræðunum og vísa því til föðurhúsanna að það sé á ábyrgð sjómanna. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafi ekki treyst sér til „að koma til móts við sanngjarnar og réttlátar kröfur sjómanna til lausnar deilunni,“ að því er fram kemur í yfirlýsingu samtaka sjómanna.

Þar segir jafnframt að samskipti milli samninganefndanna hafi verið til fyrirmyndar og þær hafi náð ágætlega saman. Góður árangur hafi náðst í nokkrum kröfum að mati samninganefndanna. „Útvegsbændur eru ekki tilbúnir að koma til móts við meginkröfur sjómanna og þess vegna er málið komið á það stig að viðræður eru strand,“ segir í yfirlýsingu samtaka sjómanna.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja að sjómenn víkist undan ábyrgð í kjaradeilunni. Sjómannasamband Íslands, Sjómannafélag Íslands og VM, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, hafi ákveðið að slíta viðræðunum eftir rúmlega klukkustundar fund í gær.

SFS telur ábyrgð þeirra ríka og miklir hagsmunir séu undir. Menn geti ekki leyst sig undan því verkefni að ná ásættanlegum samningi með því að ganga frá samningaborði.

smari@bb.is

Harðverjar nældu í fern verðlaun í Bikarglímunni

Stígur Berg Sophusson og Margrét Rún Rúnarsdóttir er þau tóku við verðlaunum á föstudagskvöldið

 

Tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun komu í hlut Harðverja á Bikarglímu Íslands sem fram fór síðastliðið föstudagskvöld í íþróttahúsi Kennaraháskólans í Reykjavík. Á mótið mættu til keppni 38 keppendur frá 6 löndum, Íslandi, Skotlandi, Frakklandi, Svíþjóð, Hollandi og Ítalíu. Voru það Margrét Rún Rúnarsdóttir og Stígur Berg Sophusson sem kepptu fyrir hönd Harðar.

Það fór fram mikil og hörð barátta hjá glímuköppunum á mótinu og landaði Margrét Rún bronsi í +65kg flokki kvenna og silfri í opnum flokki. Stígur vann silfur í þungavigtinni +90kg karlar og brons í opnum flokki. Til marks um harða baráttu gat Margrét Rún ekki tekið þátt í Íslandsmeistaramóti í backhold sem fram fór á laugardag eftir að hafa meiðst á framhandlegg í úrslitaglímu föstudagsins. Þá komst Stígur þar í undanúrslit í sínum flokki, en sleit í þeirri glímu liðbönd í öxl og varð frá að hverfa.

Glímusamband Íslands hefur valið keppendur í landslið Íslands í glímu, sex karla og fimm konur sem munu keppa á Evrópumeistaramótinu í keltneskum fangbrögðum sem fer fram í Austurríki dagana 7.-11.apríl næstkomandi og er Margrét Rún meðal þeirra landsliðsmanna sem þar munu keppa.

annska@bb.is

 

Opið í Árneshrepp

 

Í dag verður suðaustan kaldi eða stinningskaldi 8-13 m/s á Vestfjörðum, með rigningu eða skúraveðri. Miðað við árstíma verður áfram hlýtt í veðri í dag með hita á bilinu 2 til 7 stig, en það kólnar  á morgun og verður þá vindur austlægari og búist við éljagangi samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Það kólnar áfram í veðri þegar líður á vikuna og má búast við talsverðu frosti.

Á Vestfjörðum er á köflum hálka eða hálkublettir, einkum á fjallvegum er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Öllu meiri hálka er á Ströndum. Opið er norður í Árneshrepp.

annska@bb.is

Ekki ákært í Hornvíkurmálinu

Þremenningarnir í fjörunni í Hornvík.

 

Lögreglan á Vestfjörðum ætlar ekki að ákæra fyrir meint brot í friðlandi Hornstranda í júní í fyrra.  Fréttastofa RÚV greinir frá að rannsókn sé lokið og verður málinu lokið með sekt þar sem ekki var hægt að tengja mennina við nema hluta brotanna með óyggjandi hætti. Málið snýst um meint brot þremenninga á reglum friðlandsins um meðferð skotvopna í friðlandinu, um ólöglegar skotveiðar í friðlandinu, veiðar á fuglum utan veiðitíma og að hafa hreiðrað um sig í neyðarskýli Landsbjargar án leyfis. Málið komst í hámæli þegar starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækis á Ísafirði komu að þeim í neyðarskýlinu í Hornvík og lýstu upplifun sinni á samfélagsmiðlum.

Á vef RÚV er haft eftir Karli Inga Vilbergssyni lögreglstjóra á Vestfjörðum að mennirnir hljóti sektina fyrir að hafa ekki tilkynnt ferðir sínar í friðlandið sem stangist á við ákvæði um friðland Hornstranda og fyrir meðferð skotvopna í friðlandinu sem er óheimil öðrum en landeigendum. Ekki er hægt tengja önnur brot við mennina með óyggjandi hætti.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir