Mánudagur 28. október 2024
Síða 235

Strandabyggð: sameining sveitarfélaga ekki lausnin

Þorgeir Pálsson er oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð.

Þorgeir Pálsson oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð segir í áramótakveðju sinni að sameining sveitarfélaga sé ekki lausnin sem tryggi framtíð sveitarfélagsins. Með sameiningu fáist fjármagn en það dugi aðeins í skamman tíma. Eftir standi að auknar tekjur séu eina leiðin til eflingar sveitarfélagsins. 

„Mikið er rætt um sameiningar sveitarfélaga sem vissa lausn.  Og það er vissulega rétt að með sameiningu fæst opinbert fjármagn til skuldajöfnunar og innviðauppbygginar, sem getur sannarlega hjálpað í vissan tíma.  En, það sem ekki fæst með sameiningu, eru þær forsendur sem framtíð sveitarfélagsins þarf að byggja á.  Sameinignarfjármagnið klárast og þá eru eftir sömu tekjuliðir og áður, sömu gjaldaliðir, nánast sama fámennið og sama innviðaskuldin, sjálfsagt eitthvað lægri.  Sameining sameiningarinnar vegna er því ekki lausnin.  Það er ekkert betra að berjast í bökkum í eitt til tvö þúsund manna samfélagi eða nokkur hundruð manna samfélagi.“

Þorgeir segir að það komi engar töfralausnir, enginn bjargvættur eða einskiptis lausn.  „Við verðum að finna lausnina sjálf.  Við verðum að ákveða hvernig samfélag við viljum í Strandabyggð og vinna síðan markvisst og samstíga að því að raungera þá mynd.  Það gerir það enginn fyrir okkur.“

Hann vísar málinu til stjórnvalda og segir það hafa legið á borði þeirra lengi.

„Hvernig á landsbyggðin að lifa af, eflast og stækka?  Hvernig á að fá fagfólk út á land til kennslu?  Hvernig á að efla ferðaþjónustu ef ekki koma til nauðsynlegar vegaframkvæmdir?  Hvernig á að tryggja öryggi þeirra sem vilja búa úti á landi, ef vetrarþjónusta á vegum, fjarskiptamál og heilbrigðisþjónusta er ekki í samræmi við þarfir íbúa?“

 

Bolungavíkurhöfn: 13.677 tonna afli á síðasta ári

Frá Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í desember sl. var landað 1.513 tonnum af bolfiski í Bolungavíkurhöfn.

Togarinn Sirrý ÍS var aflahæst með 596 tonn í sjö veiðiferðum.

Þrír snurvoðabátar lönduðu í mánuðnum samtals 480 tonnum. Ásdís ÍS var með 123 tonn, Þorlákur ÍS kom með 106 tonn og Bárður SH aflaði 251 tonn.

Þrír línubátar lögðu upp í Bolungavíkurhöfn í desember. Fríða Dagmar ÍS var með 212 tonn eftir 18 sjóferðir, Jónína Brynja ÍS 215 tonn en eftir 19 róðra og Indriði Kristins BA landaði 11 tonnum eftir eina útilegu.

22 þúsund tonn í heildina

Á árinu 2023 var samkvæmt tölum Fiskistofu landað 13.677 tonnum af bolfiski. Auk þess var landað um 8.000 tonnum af eldislaxi til slátrunar í Drimlu, sláturhúsi Arctic Fish. Tölur fyrir desember liggja ekki fyrir svo endanleg tala fyrir laxinn er ekki tiltæk.

Í heildina er þó ljóst að meira en 20 þúsund tonn af afla og eldisfiski var landað í Bolungavíkurhöfn á síðasta ári, líklega nálægt 22 þúsund tonn.

Orkubú Vestfjarða: brennir 3,4 milljónir lítra af olíu á árinu

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri.

Vegna orkuskorts stefnir í að Orkubú Vestfjarða muni brenna 3,4 milljónum lítra af olíu á þessu ári. Orkubúið er með samninga við Landsvirkjun um orkukaup. Landsvirkjun er heimilt að skerða afhendingu á rafmagni vegna lágrar stöðu vatns í uppistöðulónum, á móti fær Orkubúið rafmagnið á lægra verði. Nú hefur Landsvirkjun tilkynnt um að gripið verði til þessa ákvæðis. Orkubúið verður þá að framleiða rafmagn með því að brenna olíu og ber kostnað af því.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri greinir frá því í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær að fyrirsjáanlegt sé að olíunotkunin fari í 3,4 milljónir lítra á nýbyrjuðu ári en í fyrra var hún 220 þúsund lítrar. Aukning í
losun gróðurhúsalofttegunda verður þá 9.200 tonn segir Elías. Það jafngildi ársnorkun 4.000 fólksbifreiða sem aka 15 þús. km/ári og eyða 5,5 l/100 km.

Útlit er fyrir að 20-30% orkunnar í hitaveitum á Vestfjörðum muni eigi uppruna sinn í olíu, en í venjulegu árferði sé hlutfallið um 3%.

520 m.kr. aukakostnaður

Elías segir að það stefni í skerðingar á afhendingu orku frá Landsvirkjun frá og með 19. janúar 2024, sem geti staðið til 30. apríl eða í 103 sólarhringa.

Kostnaður Orkubúsins vegna skerðingarinnar stefni í um 520 milljónir króna, sem jafngildir 74 þús. krónum á hvern Vestfirðing.

Elías Jónatansson segir þetta ástand algerlega óviðunandi og segir að að taka þurfi ákvarðanir um virkjanir fljótlega.

Þuríður sundafyllir ÍS 452

Línuveiðarinn Þuríður sundafyllir ÍS 452 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1922 fyrir Pickering & Haldane Steam Trawling Co Ltd í Hull. 98 brl, 38 nt. 200 ha. 2 þenslu gufuvél.

Hét áður Coutea. 26,9 x 5,80 x 2,92 m. Smíðanúmer 763. Eigendur voru Sigurður Þorvarðsson og Þorvarður Sigurðsson í Hnífsdal frá 25 apríl 1925.

Þuríður var einn þriggja línuveiðara sem keyptir voru af Pickering & Haldane í Hull vorið 1925. Hinir voru Fróði ÍS 454 ex Myrica og var í eigu Jóhanns J. Eyfirðings & Co á Ísafirði og Hafþór ÍS 453 ex Silene og var í eigu Magnúsar Thorberg í Reykjavík.

Skipið var selt 28 maí 1927, Ludvig C Magnússyni og Ingvari Benediktssyni í Reykjavík, hét þá Þuríður sundafyllir RE 271. Selt 31 desember 1930, h/f Fjölni í Reykjavík, skipið hét Fjölnir RE 271. Skipið var selt 7 mars 1933, h/f Fjölni á Þingeyri, hét Fjölnir ÍS 7.

Skipið var lengt og endurbætt árið 1941, sett var á það hvalbakur, bátapallur og nýtt stýrishús. Mældist þá 123 brl. 30,14 x 5,80 x 2,83 m.

Fjölnir fórst á leið frá Íslandi til Englands fullhlaðinn fiski, hinn 9 apríl árið 1945 eftir árekstur við breskt skip, Lairdsgrove, undan ströndum Írlands. Fimm skipverjar fórust en fimm skipverjum var bjargað um borð í breska skipið.

Af vefsíðunni thsof.123.is

Sex fá styrk vegna vetrarólympíuleikana á Ítalíu 2026. 

Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, Kristrún Guðnadóttir, Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, Dagur Benediktsson og Jónas Egilsson, framkvæmdastjóri Skíðasambands Íslands

Fimmtudaginn 28. desember fór fram undirritun samninga vegna Ólympíusamhjálparinnar við Skíðasamband Íslands og íþróttafólk þeirra vegna undirbúnings fyrir vetrarólympíuleikana í Mílanó og Cortina á Ítalíu 2026. 

Um er að ræða mánaðarlega styrki, að upphæð 1250 USD (Um 170,000 KR) til sex einstaklinga vegna kostnaðar við æfingar, keppnir og ferðalög. 

Styrkþegar Ólympíusamhjálparinnar vegna vetrarólympíuleikanna í Mílanó og Cortina 2026 eru:  

Bjarni Þór Hauksson – keppandi í alpaskíðum
Dagur Benediktsson – keppandi í skíðagöngu
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir – keppandi í alpaskíðum
Kristrún Guðnadóttir – keppandi í skíðagöngu 
Matthías Kristinsson – keppandi í alpaskíðum

Vildís Edwinsdóttir – keppandi í snjóbrettum

Skólinn á Borðeyri til sölu eða leigu

Á fundi sveitarstjórnar Húnaþings vestra var greint frá því að starfshópur um eignir, jarðir og lendur í eigu Húnaþings vestra hafi skilað af sér tillögum 

Þar kom fram að lagt var til að skólahúsnæðið á Borðeyri yrði boðið til sölu eða leigu með eflingu búsetu og atvinnu á svæðinu í huga.

Til að ræða þessa tillögu er boðað til íbúafundar á Borðeyri þar sem farið verður yfir möguleika og kallað eftir hugmyndum heimamanna um hugsanlega ráðstöfun hússins.

Fundurinn verður haldinn í skólahúsinu á Borðeyri þann 9. janúar kl. 20. Á dagskrá fundarins verður kynning á hugmyndum starfshópsins og umræður í kjölfarið.

Land og skógur tekur til starfa

Þann fyrsta janúar 2024, tók ný stofnun við hlutverki og skuldbindingum tveggja eldri stofnana sem um leið heyra sögunni til, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.

Við tekur mótunartími undir stjórn Ágústs Sigurðssonar sem gegnir stöðu forstöðumanns Lands og skógar.

Land og skógur er þekkingarstofnun á sviði gróður- og jarðvegsauðlinda og gegnir mikilvægu rannsókna-, eftirlits-, og fræðsluhlutverki við að vernda, endurheimta og bæta þessar auðlindir Íslands og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra. 

Ný stofnun sprettur ekki fullsköpuð fram fyrsta janúar 2024. Nú tekur við mótunartímabil en þegar er tilbúið skipurit fyrir stofnunina. Skipað hefur verið í stöður sviðstjóra og starfsfólk beggja eldri stofnananna heldur störfum sínum. Hjá stofnuninni munu starfa um 130 manns.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga úthlutaði 37,8 milljörðum króna

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga úthlutaði í fyrra 37,8 milljörðum króna til sveitarfélaga samkvæmt yfirliti sem birt hefur verið. Hæsta fjárhæðin fer til sveitarfélaga á Suðurlandi 6,7 milljarðar króna og á Norðurlandi eystra en þangað fóru 6,1 milljarður króna. Til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur fóru 5,3 m.kr. og á Suðurnesjum 5,0 milljarðar krónur. Til Vesturlands voru greiddir 4,1 milljarðar króna.

Til sveitarfélaga á Vestfjörðum fóru 2,9 milljarðar króna, sama fjárhæð til Austurlands og 2,6 milljarðar króna voru greiddar til sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Á Vestfjörðum fór langhæsta fjárhæðin til Ísafjarðarbæjar eða 1.162 m.kr. Vesturbyggð fékk næsthæstu upphæðina 462 m.kr., Bolungavíkurkaupstaður 363 m.kr. og Strandabyggð 335 m.kr. Framlög til Súðavíkurhrepps voru 161 m.kr., til Reykhólahrepps 272 m.kr., til Tálknafjarðarhrepps 105 m.kr., Kaldrananeshrepps 50 m.kr. og 14 m.kr. til Árneshrepps.

Um er að ræða greiðslur til ýmissa verkefna. Hæstu fjárhæðirnar eru 12,8 milljarðar króna til almennrar jöfnunar útgjalda , 12,7 milljarðar króna til reksturs grunnskóla og 6,2 milljarðar króna til jöfnunar tekna af fasteignaskatti.

Fiskeldisgjaldið hækkar um 23%

Eldiskvíar.

Alþingi afgreiddi lagabreytingu fyrir jólin um fiskeldisgjald og hækkaði það úr 3,5% í 4,3% af verði eldislax á alþjóðlegum markaði. Hækkunin nemur 23%. Tekjur ríkissjóðs af gjaldinu eru áætlaðar verða 2,1 milljarður króna á þessu ári og hækkar þær um 630 m.kr. vegna hækkunarinnar.

Upphaflega lagði fjármálaráðherra til að gjaldið yrði 5% en meirihluti fjárlaganefndar Alþingis dró úr hækkuninni og lagði til að það yrði 4,3%, sem var svo samþykkt.

Þrátt fyrir það voru tekjur ríkissjóðs af gjaldinu ekki lækkaðar frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Segir í áliti meirihluta fjárlaganefndar að það sé vegna þess að talsverður munur sé á áætlaðri framleiðslu samkvæmt tölum frá MAST annars vegar og fiskeldisfyrirtækjum hins vegar. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta gerði Mast ráð fyrir að framleiðsla ársins yrði 40.000 tonn af eldislaxi en fiskeldisfyrirtækin áætla að framleiðslan verði 49.000 tonn.

Með hækkun gjaldsins í 4,3% og framleiðslumagn 49.000 tonn er gert ráð fyrir þeim tekjum af fiskeldisgjaldinu sem upphaflega tillagan um 5% átti að skila í ríkissjóð.

Vestfjarðastofa: orkuskortur hamlar uppbyggingu

Í áramótapistli Sigríðar Ólafar Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu, sem birtist á Bæjarins besta á gamlársdag segir hún að mikill uppgangur sé á Vestfjörðum og fjárfestingar umtalsverðar, bæði af hálfu hins opinbera og einkaaðila. Hins vegar þurfi bæði meiri orkuframleiðslu á Vestfjörðum og jafnvel að tvöfalda Vesturlínu. Hið opinbera hafi „þrátt fyrir hillumetra af skýrslum hefur hið opinbera engin raunveruleg svör.“ Sigríður segir að taka þurfi ákvarðanir um næstu skref strax til að svæðið geti tekið þátt í orkuskiptunum framundan og haldið áfram uppbyggingu atvinnulífs og samfélags.

íbúðaskortur

Annað sem þrengir að uppbyggingunni á Vestfjörðum er að mati Sigríðar skortur á íbúðahúsnæði sem standi „þróun samfélags og atvinnulífs fyrir þrifum á svæðinu.“ Þrátt fyrir mikinn skort er verð á íbúðahúsnæði enn víða vel undir byggingarkostnaði sem skýri hversu lítið hafi verið byggt síðustu áratugina. Bendir Sigríður á að fjölgun hafi orðið í þeim byggðakjörnum og sveitarfélögum sem hefur náðst að byggja nýtt íbúðahúsnæði.

vegur um Teigskóg og brýr

Á síðasta ári hafi orðið gleðileg uppbygging í samgöngumannvirkjum og nefnir Sigríður sérstaklega nýja brú yfir Þorskafjörð, sem vígð var með viðhöfn og nokkru síðar opnaði vegurinn marg umræddi um Teigskóg í Þorskfirði.Auk þess séu framkvæmdir í gangi við 12 km langan nýjan veg á Dynjandisheiði og um helmingur hans hafi þegar verið tekinn í notkun.

Nýjustu fréttir