Þriðjudagur 18. mars 2025
Síða 2349

Fóðurprammi eins og þeir gerast bestir

Fóðurpramminn fær nafnið Arnarborg.

Arnarlax hefur fest kaup á nýjum fóðurpramma sem fyrirtækið fær afhent í vor. Í haust komu tveir nýir fóðurprammar til fyrirtækisins. „Þessi sem við fáum í vor er mun stærri og í takt við þá þróun sem er að verða í búnaði í laxeldi, þetta er allt að verða stærra og öflugra,“ segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Hann gerir ráð fyrir að nýi pramminn verði staðsettur í Tálknafirði. Prammarnir tveir sem fyrirtækið fékk í haust taka 320 tonn af fóðri en sá sem kemur í vor tekur tvöfalt meira. „Hann er mjög vel útbúinn. Það er hægt að láta mannskap búa um borð og hafa vaktaskipti, en við gerum það reyndar ekki. Honum verður stýrt úr landi. Þetta er fóðurprammi eins og þeir gerast bestir,“ segir Víkingur.

Prammarnir eru smíðir í Póllandi og keyptir af AKVA group í Noregi.

smari@bb.is

Musterið fertugt

Eftir tæpa viku verða 40 ár frá því að fyrstu sundtökin voru tekin í sundlauginni í Bolungarvík – sem í seinni tíð og með seinni tíma uppfærslum hefur fengið viðurnefnið Musteri vatns og vellíðunar. Af því tilefni verður dagskrá í lauginni á laugardaginn næstkomandi. Ber þar helst útnefningu á íþróttamanni ársins í Bolungarvík. „Óhætt er að fullyrða að sundlaugin er glæsilegasta mannvirki sinnar tegundar á Vestfjörðum og þó víðar væri leitað,“ skrifaði Einar K. Guðfinnsson, þáverandi blaðamaður Vísis, í frétt blaðsins af vígslu laugarinnar fyrir 40 árum.

Fyrsta starfsár laugarinnar fór hver Bolvíkingur að meðaltali 26 sinnum í sund. Frá árinu 2007 fjölgar sundlaugarferðum mjög en þá hafði laugin fengið andlitslyftingu og í fyrra voru baðgestir 42..911 sem jafnast á við að hver íbúi hafi farið 47 sinnum í sund á árinu. Eftir að Bolungarvíkurgöng voru tekin í gagnið árið 2011 fjölgaði baðgestum verulega.

bryndis@bb.is

Aðalbláberin í hættu vegna hlýnunar jarðar

Mörgum Vestfirðingum finnst ómissandi að týna aðalbláber á hverju hausti. Átt þú einhverjar hefðir í sambandi við berjatýnslu?

Samkvæmt rannsókn Pawels og Ewu Wasowicz og Harðar Kristinssonar hjá Náttúrufræðistofnun verður Ísland eitt viðkvæmasta vistkerfið þegar kemur að hlýnun jarðar, en spár gera ráð fyrir að loftslag hlýni hlutfallslega meira á norðurhveli á næstu áratugum og plöntur sem hafa aðlagast köldu loftslagi láti undan nýjum tegundum.  Frá þessu er greint í umfjöllun á RÚV.

Þá gætu tegundir eins og aðalbláberin sem Vestfirðingar hafa verið svo lánsamir að geta tínt í lítravís flest síðsumur verið í hættu að sögn Starra Heiðmarssonar, sviðsstjóri í grasafræði hjá Náttúrufræðistofnun, sem segir augljósu gróðurbreytingarnar vera aukinn vöxt. Ágengar plöntur eins og skógarkerfill, lúpína og hin alræmda bjarnarkló sæki í sig veðrið, og plöntur sem eru háðar því að vera huldar snjó allan vetur, eins og aðalbláber, gætu átt undir högg að sækja. „Og þetta eru breytingar sem við gætum séð öllu hraðar heldur en svona langvinnar breytingar sem taka lengri tíma,” segir hann.

Þá er aðfluttum plöntutegundum á Íslandi alltaf að fjölga, enda skilyrðin hér að breytast og ferðamönnum, sem koma óvart með fræ eða litla plöntuhluta, alltaf að fjölga.

Meira um málið má lesa hér, ásamt því sem þar má hlusta á viðtal við Starra.

annska@bb.is

Meiri Byggðastofnunarkvóti til Flateyrar

Fróðlegt málþing á Flateyri um helgina.

 

Byggðastofnun og átta útgerðir á Flateyri hafa gert drög að samkomulagi um samstarf um nýtingu á 199 þorskígildistonna aflamarks á yfirstandandi fiskveiðiári og á 100 þorskígildistonnum á næsta fiskveiðiári. Til viðbótar kemur mótframlag útgerðanna.  Meginmarkmið samnings þessa er að auka við byggðafestu á Flateyri í Ísafjarðarbæ með því að tryggja öruggari hráefnisöflun til Fiskvinnslu Flateyrar og meiri verkefni fyrir þá báta sem koma að samkomulaginu.

Samningurinn er viðbót við samning Fiskvinnslu Flateyrar ehf. og samstarfsaðila sem gerður var í ágúst 2015 um nýtingu á 300 tonna aflmarki Byggðastofnunar á Flateyri.

Framsal á þeim kvóta sem er úthlutað samkvæmta samningnum er óheimilit, en jöfn skipti á aflamarki í þorskígildum talið eru heimil.

smari@bb.is

Metrostav og Suðurverk buðu lægst í Dýrafjarðargöng

Teikning af munna Dýrafjarðarganga við Rauðsstaði í Arnarfirði.

Tilboð tékkneska fyrirtækisins Metrostav a.s. og Suðurverks hf. í gerð Dýrafjarðarganga nam tæpum 8,7 milljörðum króna eða rúmum 93 prósentum af kostnaðaráætlun og var um 630 milljónum króna lægra en næstu boð sem bæði voru nánast það sama og kostnaðarætlunin. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist síðar á árinu en fara þarf yfir tilboðin og semja við verktakann sem iðulega tekur nokkrar vikur.

Tilboðin voru opnuð hjá Vegagerðinni í dag. Áður hafði farið fram forval þar sem sjö sýndu því áhuga. Fimm skiluðu að lokum inn tilboði, allt verktakar sem reynslu hafa af jarðgangagerð á Íslandi utan ítalski verktakinn C.M.C. di Ravenna.

Metrostav og Suðurverk vinna nú við gerð Norðfjarðarganga sem verða opnuð á þessu árinu.

 Tilboðin eru sem hér segir:

  • Metrostav a.s., Tékklandi og Suðurverk hf., Íslandi
    • 8.687.208.080,-
    • 93,21 %
  • C.M.C. di Ravenna, Ítalíu
    • 9.316.632.535,-
    • 99,97 %
  • ÍSTAK hf., Íslandi og  Per Aarsleff A/S, Danmörku
    • 9.322.252.133,-
    • 100,03 %
  • ÍAV hf., Íslandi og  Marti Contractors Ltd., Sviss
    • 0.538.586.652,-
    • 113,08 %
  • LNS Saga ehf., Íslandi og Leonhard Nilsen & Sönner AS, Noregi
    • 10.864.596.942,-
    • 116,57 %

Frávikstilboð:

ÍSTAK hf., Íslandi og  Per Aarsleff A/S, Danmörku, 9.250.778.500,-

Kostnaðaráætlun:   9.319.890.000,-

smari@bb.is

Veður og samgöngur á nýjum vef

Betrumbætur á nýjum vef

Smátt og smátt er nýr vefur bb.is betrumbættur og aðlagaður að lesendum. Nú er komin flipi fyrir veður og samgöngur en ábendingar lesenda voru einróma á þann veg að við héldum þessum hluta inni.

Enn er vandamál að halda linkum á gamlar fréttir en það leysist innan tíðar.

Almennt hefur nýjum vef verið vel tekið og lesendum hans á farsíma fjölgar dag frá degi. Ábendingar um það sem betur má fara eru áfram vel þegnar.

bryndis@bb.is

Áfengi í formi matreiðsluvíns í Samkaupum

Matreiðsluvín í hillum Samkaupa

Matreiðsluvín með áfengisstyrkleika allt að 40% má kaupa í verslunum Samkaupa á Ísafirði. Þar eru fjórar tegundir að finna í hálfs lítra flöskum: Koníak sem hefur áfengisstyrkleika 40%, púrtvín 20%, rauðvín og hvítvín sem er 11%. Matarvín er ólíkt áfengi sem nálgast má í verslunum ÁTVR að því leiti að búið er að krydda vínið og telst það því ekki drykkjarhæft.

Ingólfur Hallgrímsson, verslunarstjóri Samkaupa á Ísafirði, segir að kvartanir hafi ekki borist vegna sölu verslunarinnar á þessum varningi en hann fái þó reglulega spurningar um vínið. Þessar vörur hafa verið í sölu í 4 ár í yfir 20 verslunum Samkaupa víðsvegar um landið. Ingólfur segir almennt ekki mikla sölu á víninu, en það hafi þó vakið athygli að síðsumars á síðasta ári hafi salan rokið upp og segir hann það megi mögulega rekja til þess að erlendir ferðamenn hafi haldið að þarna væri um áfengi að ræða, en flöskunum svipar mikið til þeirra sem drykkjarhæft vín kemur í.

Ingólfur segir jafnframt að salan hafi dottið niður að nýju með haustinu og í desembermánuði hafi hún verið afar lítil. Það vekur þó athygli að minnst selst af rauðvíninu og hvítvíninu, jafnvel bara flaska á mánuði en mun meira af þeim tegundum sem hafa hærra áfengismagn, sem mun þó yfirleitt minna notað til matargerðar en léttvínin.

Talsvert var fjallað um sölu á áfengum matreiðsluvínum í fjölmiðlum árið 2014, en þá ákváðu lögregluyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu að aðhafast ekkert í málinu, þar sem lögum samkvæmt teldist vínið ekki neysluhæf vara. Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Ísafirði segir að til Lögreglunnar á Vestfjörðum hafi verið að berast ábendingar um að í matvöruverslun á Ísafirði sé vara til sölu sem hafi háan áfengisstyrkleika, hann segir að málið sé í skoðun, en svo virðist sem þessi vara flokkist undir matvöru en ekki áfengi.

annska@bb.is

Þrjár tilnefningar til íþróttamanns ársins

Íþróttamiðstöðin Árbær.

 

Íþróttamaður ársins 2016 í Bolungarvík verður útnefndur laugardaginn næsta. Þrír íþróttamenn eru tilnefndir að þessu sinni. Það eru kylfingurinn Chatchai Phorthiya, hestamaðurinn Guðmundur Bjarni Jónsson og knattspyrnumaðurinn Nikulás Jónsson. Hóf vegna útnefningar íþróttamanns ársins verður haldið sameiginlega með 40 ára afmælishófi Sundlaugar Bolungarvíkur. Dagskráin fyrir útnefninguna hefst kl. 14.30 í íþróttasal Árbæjar.

smari@bb.is

Auglýsa styrki vegna atvinnumála kvenna

Frá afhendingu styrkja í fyrra

Vinnumálastofnun/velferðarráðuneytið auglýsir styrki til atvinnumála kvenna árið 2017 lausa til umsóknar. Til að eiga kost á styrkveitingu þarf verkefni að vera í meirihluta eigu konu/kvenna (51%) og stjórnað af konu, það þarf að fela í sér nýnæmi eða nýsköpun af einhverju tagi og atvinnusköpun til frambúðar. Þá þarf viðskiptahugmynd að vera vel útfærð.

Veittir eru styrkir til gerðar viðskiptaáætlunar, til markaðssetningar og gerðar markaðsáætlunar, vöruþróunar, hönnunar og efniskostnaðar. Ennfremur geta konur sem hafa fullmótaða viðskiptaáætlun og hafa hug á því að stofna fyrirtæki á næstunni eða hafa stofnað fyrirtæki en ekki hafið rekstur, sótt um styrk til að hrinda henni í framkvæmd.

Heildarfjárhæð styrkja að þessu sinni eru kr. 35.000.000 og er hámarksstyrkur 4.000.000. Ekki eru veittir lægri styrkir en kr. 600.000. Umsóknarfrestur er frá 20.janúar til og með 20.febrúar og má sækja um rafrænt hér.

Á síðasta ári fengu tvö vestfirsk verkefni styrk úr sjóðnum; Skóbúðin á Ísafirði og verkefni Kristínar Hálfdánardóttur, Flateyri.

annska@bb.is

Krónan ekki styrkst eins mikið frá því í kreppunni miklu

Styrking krónunnar á síðasta ári var sú mesta á mælikvarða gengisvísitölu síðan Seðlabankinn hóf að birta slíkar vísitölur árið 1991, að því er fram kemur í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Gengisvísitalan mælir breytingar á gengi krónunnar að teknu tilliti til vægis einstakra gjaldmiðla í inn- og útflutningi.

Á síðasta ári lækkaði gengisvísitala krónunnar um 10,6%, en vísitölulækkun samsvarar hækkun á gengi krónunnar. Áður hafði krónan styrkst hlutfallslega mest milli áranna 2004 og 2005 þegar gengisvísitalan lækkaði um 10,1% á milli ársmeðaltala.

Landsbankinn vísar til þess að líta þurfi allt aftur til kreppunnar miklu á fjórða áratugnum til að finna meiri styrkingu krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum, en á þeim tíma var þó einungis til skráð gengi krónu gagnvart dollar. Árin 1933 og 1934 lækkaði gengi dollarans að meðaltali um 16,7% gagnvart krónu.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir