Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2349

Segja uppsögn samningssvik

 

Á fundi bæjarráðs Bolungarvíkur í gær var lagt fram bréf frá embætti Sýslumannsins á Vestfjörðum þar sem sagt var upp leigu á skrifstofuhúsnæði í þjónustumiðstöðinni í Bolungarvík. Uppsögninni fylgdi greinargerð sýslumannsins á Vestfjörðum, Jónasar Guðmundssonar, þar sem fram komu ástæður uppsagnarinnar sem hann segir vera mikinn hallarekstur embættisins og séu skýr fyrirmæli Innanríkisráðuneytisins að rétta af þann halla hið fyrsta með vísan til laga um fjárreiður ríkissjóðs.

Frá því er embættum sýslumanns á Vestfjörðum var fækkað um áramótin 2014/2015 hafa tvö stöðugildi verið í Bolungarvík, annað 100%, hitt 85%. Skrifstofan þar er opin frá klukkan 10-15 og hafa íbúar Bolungarvíkur geta sótt þá þjónustu sem embættið veitir í sinni heimabyggð að gerð vegabréfa undanskyldri, en sú þjónusta fluttist yfir á Ísafjörð fyrir nokkrum árum. Starfsmenn hafa einnig sinnt innheimtu vanrækslugjalda og störfum tengdum umboði Tryggingarstofnunar ríkisins.

Segir Jónas í bréfinu að þó leigusamningi sé sagt upp sé ekki þar með sagt að öll þjónusta hverfi frá Bolungarvík, á þessu stigi málsins sé uppsögnin ákveðin öryggisráðstöfun. Hann bendir sjálfur á ákvæði reglugerðar um umdæmi sýslumanna þar sem kveðið er á um að í Bolungarvík skuli vera útibú frá embættinu Sýslumannsins á Vestfjörðum. Þó talar hann á öðrum stað um sameiginlega starfsstöð embættisins á norðanverðum Vestfjörðum og segir það skipta mestu máli að hafa starfmenn undir sama þaki, en hann segir þó að sameinuð starfsstöð þurfi ekki að vera í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Jafnframt segir hann að störfin sem slík hverfi ekki úr höndum Bolvíkinga þó fjarlægð við þjónustuna kunni að aukast, sem mætti lesa sem svo að þjónustan færðist til Ísafjarðar.

Í bréfi sýslumanns kemur fram að starfsmenn embættisins sem verið hafa í Bolungarvík hafi liðið vel á vinnustaðnum og jafnframt að ekki sé hægt að kvarta undan húsaleigukostnaðinum í Bolungavík sem er sá lægsti á hvern starfsmann í öllum starfsstöðvum embættisins. Starfsmennirnir sjálfir gagnrýndu þessa ákvörðun harkalega í bréfi, sem einnig var lagt fram á fundi bæjarráðs, þar sem þeir segja berum orðum að verið sé að leggja niður starfsstöð embættisins í Bolungarvík.

Bæjarráð Bolungarvíkur mótmælir harðlega þessari ákvörðun Sýslumanns og lýsir yfir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna og bókaði það eftirfarandi á fundinum:

Þessi ákvörðun eru svik við hina nýju þjónustumiðstöð í Bolungarvík. Góð sátt var um þjónustumiðstöðina sem sett var á laggirnar sumarið 2016 eftir að mikil áföll dundu á opinberri þjónustu í Bolungarvík með fyrirhugaðri lokun á póst- og bankaþjónustu ásamt því að sýslumannsembættið í Bolungarvík var lagt niður stuttu áður. Það er ótrúleg staðreynd að aðeins nokkrum mánuðum eftir að sýslumannsembættið á Vestfjörðum tók þátt í að opna þjónustumiðstöðina með pompi og prakt skuli embættinu hafa snúist hugur og kjósa að leggja niður útibúið í núverandi mynd.

Farið var í stofnun á þjónustumiðstöð með tilheyrandi kostnaði við breytingar á húsnæði með stuðningi og velvilja stjórnvalda og í trausti þess að þátttakendur í verkefninu væri á þar af fullum heilindum.

Bæjarráð hafnar algjörlega þeim rökum sýslumanns að þessi aðgerð sé nauðsynleg til að draga úr kostnaði. Húsnæðið er eitt hagkvæmasta skrifstofuhúsnæði á landinu og hentar vel til starfseminnar hér í Bolungarvík. Það er óásættanlegt að íbúar Bolungarvíkur skulu einir bera kostnað af framúrkeyrslu embættisins og er í algjöru ósamræmi við fyrri yfirlýsingar embættisins og ráðherra þegar breytingar voru gerðar á sýslumannsembættunum á landinu. En fram kom hjá innanríkisráðherra þegar Sýslumannsembættið á Vestfjörðum var stofnað að „Embættin verða í kjölfar breytinganna öflugri og betur í stakk búin til að taka við verkefnum og tækifæri skapast til að flytja verkefni úr miðlægri stjórnsýslu til þeirra“.

Bæjarráð Bolungarvíkur bendir á skyldu Sýslumanns að hafa opið útbú í Bolungarvík samkvæmt reglugerð innanríkisráðherra nr.1151/2014 um embætti Sýslumanna. Bæjarráð krefur Sýslumanninn á Vestfjörðum svara um hvernig hann hyggst efna þessa skyldu sýna við íbúana svo vel sé.

Bæjarráð Bolungarvíkur krefst þess að Sýslumaðurinn á Vestfjörðum dragi tilbaka ákvörðun um að loka skrifstofunni í Bolungarvík. Jafnframt hvetur bæjarráð Sýslumann til að leita frekar leiða til að fjölga verkefnum í útibúinu í Bolungarvík og efla frekar starfsemi þess í samræmi við vilja ráðherra og tryggja þjónustu við íbúa í byggðalaginu.

annska@bb.is

Sólardagur Ísfirðinga í dag

Sólin gægist yfir Engidalsfjöllin. Mynd tekin í Sólgötu fyrir á sólardegi fyrir nokkrum árum.

 

Í dag er hinn eig­in­legi sól­ar­dag­ur á Ísaf­irði, en í meira en 100 ár hafa Ísfirðing­ar fagnað komu sól­ar með því að drekka sól­arkaffi og pönnu­kök­ur. Sól­ar­dag­ur er miðaður við þann dag er sól sleik­ir Sól­götu við Eyr­ar­tún, ef veður leyf­ir, eft­ir langa vet­ur­setu hand­an fjalla.

Gamli Eyr­ar­bær­inn sem stóð á Eyr­ar­túni er löngu horf­inn en miðað var við dag­inn þegar sól­in skein þar á glugga í fyrsta sinn eft­ir meira en tveggja mánaða fjar­veru.

Enda þótt Eyr­ar­bær­inn sé horf­inn á vit þeirra sem í hon­um bjuggu, þá munu ýms­ir hafa enn í heiðri þann sið, að bjóða upp á sól­arkaffi og rjómapönnu­kök­ur þann dag þegar sól­in skín í fyrsta sinn á ný á stofu­glugg­ann heima hjá þeim. Það er auðvitað mjög mis­jafnt og fer bæði eft­ir því hvar í bæn­um fólk býr og eins eft­ir skýja­fari. Svo eru þeir einnig til sem miða við dagsetninguna í dag, hinn eiginlega sólardag, og skiptir þá veðurfar og staðsetning í bænum engu máli.

smari@bb.is

Ruðst inn á heimili

Í helstu verkefnum Lögreglunnar á Vestfjörðum í liðinni viku kemur fram að tvívegis í síðustu viku hafi ölvaðir menn ruðst í leyfisleysi inn á heimili fólks. Fyrra atvikið átti sér stað á Ísafirði aðfaranótt 20. janúar síðastliðins. Þá ruddist ölvaður maður inn á heimili nágranna síns. Maðurinn var handtekinn og færður í fangageymslu. Honum var sleppt lausum næsta dag eftir að hafa sofið úr sér vímuna. Maðurinn er grunaður um eignaspjöll. Aðfaranótt sunnudags ruddist maður í heimildarleysi inn á heimili fólks á Patreksfirði. Maðurinn var ölvaður og æstur. Hann var færður í fangaklefa og þar látinn sofa úr sér vímuna.

Ökumaður var snemma á sunnudagsmorgun stöðvaður í Hnífsdal og er hann grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Tveir ökumenn voru kærðir, í vikunni, fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Annar þeirra var stöðvaður í Hestfirði en hinn við Hólmavík. Báðir voru þeir að aka á öðru hundraðinu, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90. km.

Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp. Það var á Hnífsdalsvegi um kl.04:30 aðfaranótt 22. janúar sl. Ökumaður fólksbifreiðar missti stjórn á bifreiðinni sem rann út af veginum og hafnaði á ljósastaur. Auk ökumanns voru tveir farþegar í bifreiðinni. Farþegarnir voru fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði til aðhlynningar en þeir reyndust með minni háttar áverka. Bifreiðin var óökufær eftir áreksturinn.

annska@bb.is

Kólnar í veðri

Það verður slydda eða rigning með köflum á Vestfjörðum í dag. Vindur gengur í austan 10-18 m/s síðdegis, hvassast verður nyrst. Það kólnar í veðri og hiti verður frá frostmarki að 5 stigum. Hæg breytileg átt á morgun, þurrt og vægt frost. Gengur svo í norðaustan 13-20 m/s annað kvöld með snjókomu.

Á Vestfjörðum er á köflum hálka eða hálkublettir, einkum á fjallvegum. Snjóþekja er á Steingrímsfjarðarheiði.

annska@bb.is

Nokkrar vikur í verksamning

Frá opnun tilboðanna í gær.

Það eru nokkrar vikur í undirskrift verksamning vegna Dýrafjarðarganga. Tilboð voru opnuð í gær og tilboð Metrostav og Suðurverks var lægst, eða tæpir 8,7 milljarðar króna. Kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar hljóðar upp á 9,3 milljarða króna. „Þetta er viðamikið útboð og það tekur tíma að fara yfir tilboð. Samningar geta líka tekið langan tíma svo þetta eru að lágmarki nokkrar vikur“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Pétur bendir á ekkert hasti á menn við að klára verksamning. „Það er ekki gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fyrr en á seinnihluta þessa árs miðað við það fjármagn sem er úr að spila svo menn geta farið vandlega yfir tilboðin,“ segir hann.

Minnstu mátti muna að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng yrðu slegnar af í ár. Bjarni Benediktsson, þá fjármálaráðherra, lagði fram fjárlagafrumvarp rétt fyrir jól þar sem marglofuðu fjármagni til verksins var skorið inn að beini og ljóst að ekkert yrði af jarðgangagerð í ár að óbreyttu. Í meðferð þingsins var frumvarpið lagfært og fjárlög gera ráð fyrir 1,5 milljarði til verksins í ár.

smari@bb.is

Ekki sjálfgefið að Ísland tolli í tísku

Ferðaþjónustan hefur verið drifkrafturinn í hagkerfinu síðustu ár.

Það er hafið yfir allan vafa að Ísland er í tísku sem ferðamannaland og þegar ferðamenn voru spurðir hversu líklegt er að þeir heimsæki landið aftur, töldu meira en 80% af svarendum það mjög eða frekar líklegt.  Þetta er meðal  þess sem kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar um stöðu og horfur í ferðaþjónustu. Það er ekki sjálfgefið að þessi þróun haldi áfram og margt sem yfirvöld og fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að huga að.

Langtímastefnumótun fyrir ferðaþjónustu á Íslandi er nauðsynleg með tilliti til uppbyggingar innviða, markaðssetningar landsins og sköpunar verðmætra starfa í greininni.

Það er gömul saga og ný að mikil tækifæri felast í því að lengja ferðamannatímann og nýta þar með fjármagn, starfsfólk og tæki betur. Að mati skýrsluhöfunda er þetta stærsta áskorunin sem íslensk ferðaþjónustufyrirtæki standa frammi fyrir, einkum í ferðaþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.

Nokkrar ástæður hafa verið nefndar sem torveldi dreifingu ferðamanna utan háannatíma og sú helsta eru samgöngumál. Álag á samgönguæðar landsins hefur aukist töluvert með auknum ferðamannastraumi,  en fjárveitingar frá ríki hafa ekki verið í samræmi við það. Álagið hefur einnig aukist á Keflavíkurflugvelli. Á árinu 2010 voru 7 flugfélög sem voru með áætlunarflug til landsins en í skýrslunni kemur fram að 25 flugfélög flugu til landsins í fyrra.

Á helstu áfangastöðum ferðamanna hefur álagið einnig aukist gífurlega og vinna þarf markvisst í því að álagið komi ekki niður á stöðunum. Vegakerfið víða um land er ekki tilbúið til að taka við þessari miklu aukningu og þjónusta á vegum er víða af skornum skammti, sérstaklega utan háannatíma.

Tækifæri felast í betra innanlandsflugi, jafnt tíðni ferða og tengingu innanlandsflugsins við millilandaflug og fleiri áfangastaði innanlands.

smari@bb.is

Fóðurprammi eins og þeir gerast bestir

Fóðurpramminn fær nafnið Arnarborg.

Arnarlax hefur fest kaup á nýjum fóðurpramma sem fyrirtækið fær afhent í vor. Í haust komu tveir nýir fóðurprammar til fyrirtækisins. „Þessi sem við fáum í vor er mun stærri og í takt við þá þróun sem er að verða í búnaði í laxeldi, þetta er allt að verða stærra og öflugra,“ segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Hann gerir ráð fyrir að nýi pramminn verði staðsettur í Tálknafirði. Prammarnir tveir sem fyrirtækið fékk í haust taka 320 tonn af fóðri en sá sem kemur í vor tekur tvöfalt meira. „Hann er mjög vel útbúinn. Það er hægt að láta mannskap búa um borð og hafa vaktaskipti, en við gerum það reyndar ekki. Honum verður stýrt úr landi. Þetta er fóðurprammi eins og þeir gerast bestir,“ segir Víkingur.

Prammarnir eru smíðir í Póllandi og keyptir af AKVA group í Noregi.

smari@bb.is

Musterið fertugt

Eftir tæpa viku verða 40 ár frá því að fyrstu sundtökin voru tekin í sundlauginni í Bolungarvík – sem í seinni tíð og með seinni tíma uppfærslum hefur fengið viðurnefnið Musteri vatns og vellíðunar. Af því tilefni verður dagskrá í lauginni á laugardaginn næstkomandi. Ber þar helst útnefningu á íþróttamanni ársins í Bolungarvík. „Óhætt er að fullyrða að sundlaugin er glæsilegasta mannvirki sinnar tegundar á Vestfjörðum og þó víðar væri leitað,“ skrifaði Einar K. Guðfinnsson, þáverandi blaðamaður Vísis, í frétt blaðsins af vígslu laugarinnar fyrir 40 árum.

Fyrsta starfsár laugarinnar fór hver Bolvíkingur að meðaltali 26 sinnum í sund. Frá árinu 2007 fjölgar sundlaugarferðum mjög en þá hafði laugin fengið andlitslyftingu og í fyrra voru baðgestir 42..911 sem jafnast á við að hver íbúi hafi farið 47 sinnum í sund á árinu. Eftir að Bolungarvíkurgöng voru tekin í gagnið árið 2011 fjölgaði baðgestum verulega.

bryndis@bb.is

Aðalbláberin í hættu vegna hlýnunar jarðar

Mörgum Vestfirðingum finnst ómissandi að týna aðalbláber á hverju hausti. Átt þú einhverjar hefðir í sambandi við berjatýnslu?

Samkvæmt rannsókn Pawels og Ewu Wasowicz og Harðar Kristinssonar hjá Náttúrufræðistofnun verður Ísland eitt viðkvæmasta vistkerfið þegar kemur að hlýnun jarðar, en spár gera ráð fyrir að loftslag hlýni hlutfallslega meira á norðurhveli á næstu áratugum og plöntur sem hafa aðlagast köldu loftslagi láti undan nýjum tegundum.  Frá þessu er greint í umfjöllun á RÚV.

Þá gætu tegundir eins og aðalbláberin sem Vestfirðingar hafa verið svo lánsamir að geta tínt í lítravís flest síðsumur verið í hættu að sögn Starra Heiðmarssonar, sviðsstjóri í grasafræði hjá Náttúrufræðistofnun, sem segir augljósu gróðurbreytingarnar vera aukinn vöxt. Ágengar plöntur eins og skógarkerfill, lúpína og hin alræmda bjarnarkló sæki í sig veðrið, og plöntur sem eru háðar því að vera huldar snjó allan vetur, eins og aðalbláber, gætu átt undir högg að sækja. „Og þetta eru breytingar sem við gætum séð öllu hraðar heldur en svona langvinnar breytingar sem taka lengri tíma,” segir hann.

Þá er aðfluttum plöntutegundum á Íslandi alltaf að fjölga, enda skilyrðin hér að breytast og ferðamönnum, sem koma óvart með fræ eða litla plöntuhluta, alltaf að fjölga.

Meira um málið má lesa hér, ásamt því sem þar má hlusta á viðtal við Starra.

annska@bb.is

Meiri Byggðastofnunarkvóti til Flateyrar

Fróðlegt málþing á Flateyri um helgina.

 

Byggðastofnun og átta útgerðir á Flateyri hafa gert drög að samkomulagi um samstarf um nýtingu á 199 þorskígildistonna aflamarks á yfirstandandi fiskveiðiári og á 100 þorskígildistonnum á næsta fiskveiðiári. Til viðbótar kemur mótframlag útgerðanna.  Meginmarkmið samnings þessa er að auka við byggðafestu á Flateyri í Ísafjarðarbæ með því að tryggja öruggari hráefnisöflun til Fiskvinnslu Flateyrar og meiri verkefni fyrir þá báta sem koma að samkomulaginu.

Samningurinn er viðbót við samning Fiskvinnslu Flateyrar ehf. og samstarfsaðila sem gerður var í ágúst 2015 um nýtingu á 300 tonna aflmarki Byggðastofnunar á Flateyri.

Framsal á þeim kvóta sem er úthlutað samkvæmta samningnum er óheimilit, en jöfn skipti á aflamarki í þorskígildum talið eru heimil.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir