Síða 2349

Ólöglegt að ráða sjálfboðaliða

Dæmi um auglýsingu á vefsíðunni Workaway.

Bændur sem ráða til sín sjálfboðaliða til vinnu brjóta lög. Þetta er mat Alþýðusambands Íslands og formanns Bændasamtakanna og greint er frá í Fréttablaðinu. Þar segir að á vefsíðunni Workaway séu 180 auglýsingar þar sem Íslendingar óski eftir sjálfboðaliðum til vinnu. Í flestum tilvikum er um að ræða störf í landbúnaði. Á annarri síðu, Helpx, eru 76 íslenskar auglýsingar.

Alþýðusambandið hefur með Starfsgreinasambandinu og Samtökum atvinnulífsins skorið upp herör gegn sjálfboðavinnu í landbúnaði. „Um störf í landbúnaði gilda kjarasamningar og því í trássi við lög og kjarasamninga að ráða ólaunað vinnuafl í þessi störf,“ er haft eftir Dröfn Haraldsdóttur, sérfræðingi hjá ASÍ.

smari@bb.is

Blautt í veðri

Veðurstofa Íslands spáir norðaustan 8-13 m/s og slyddu eða snjókomu á Vestfjörðum í dag, en suðvestan 8-13 m/s og skúrum eða éljum síðdegis. Á morgun er gert ráð fyrir norðaustan 8-13 m/s og rigningu eða slyddu. Hiti verður á bilinu 0 til 4 stig. Í nótt hefur snjóað á Vestfjörðum og er snjóþekja, krap eða nokkur hálka á vegum í fjórðungnum.

annska@bb.is

Anna Lind kynnir meistararitgerð sína í Vísindaporti

Anna Lind Ragnarsdóttir, skólastjóri Súðavíkurskóla er gestur Vísindaportsins þessa vikuna

Skólamál verða í brennidepli í Vísindaporti vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða. Anna Lind Ragnarsdóttir, skólastjóri Súðavíkurskóla, flytur erindi sem byggir á spánýrri meistararitgerð hennar frá Háskóla Íslands. Þar varpar hún ljósi á uppeldisstefnuna Uppeldi til ábyrgðar í skólum og skoðar hvort hún geti verið leiðbeinandi fyrir samstarf við heimilin og samfélagið.

Undanfarin ár hafa grunnskólar leitast við að innleiða ýmsar uppeldisstefnur eða aðferðir til að betrumbæta allt skólastarf. Hvort sem vinna á með betri samskipti, agamál, starfshætti, líðan eða námsáhuga þá eru ýmsar leiðir færar og af nógu að taka. Meginniðurstöður Önnu Lindar benda til þess að stefnan Uppeldi til ábyrgðar sé vel til þess fallin að styrkja samstarf heimila, skóla og samfélags, einkum með stuðningi við foreldra í uppeldishlutverkinu og til þess að hafa jákvæð áhrif á gildi í samfélaginu. Þó má styrkja það enn frekar með því að leggja aukna áherslu á þátttöku foreldra í skólastarfinu og í ákvarðanatöku þeirra um nám barna sinna.

Anna Lind er fædd og uppalin í Súðavík, yngst sex systkina. Hún stundaði nám í unglingadeild Héraðsskólans í Reykjanesi og var eitt ár við Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki en gerði þá hlé á skólagöngu. Hún lauk svo stúdentsprófi í kvöldskóla Menntaskólans á Ísafirði árið 1991. Hún útskrifaðist með kennarapróf úr fjarnámi við Kennaraháskóla Íslands árið 1996 og var það í fyrsta sinn sem KÍ útskrifaði nema úr fjarnámi á Vestfjörðum. Anna Lind tók við stöðu skólastjóra Súðavíkurskóla árið 1998 og hefur gegnt því starfi allar götur síðan. Þar fer fram kennsla jafnt á leikskóla- sem grunnskólastigi. Anna Lind lauk diplómanámi í stjórnun menntastofnana árið 2008 og mun í febrúar útskrifast með M.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands.

Vísindaportið stendur frá kl. 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og er öllum opið. Fyrirlestur vikunnar fer fram á íslensku.

annska@bb.is

Hagstætt tíðarfar og hlýtt í veðri

Tíðarfar í janúar var lengst af hagstætt og samgöngur greiðar. Fremur hlýtt var í veðri og með snjóléttara móti á láglendi. Úrkoma var ekki fjarri meðallagi. Minna var um illviðri en venjulegt er á þessum tíma árs. Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar um tíðarfar í janúar.  Meðalhiti í Bolungarvík  mældist 0,2 stig og er það 1,4 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.  Á Akureyri var meðalhitinn 0,2 stig, 2,4 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhiti í Reykjavík mældist 1,4 stig og er það 2,0 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,8 stig og 1,8 stig á Höfn í Hornafirði.

Að tiltölu var hlýjast inn til landsins á Norðaustur- og Austurlandi og sums staðar suðvestanlands, 1,0 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára við Upptyppinga. Kaldast að tiltölu var norðan til á Vestfjörðum. Vék hiti á Hornbjargsvita þar mest frá meðallagi síðustu tíu ára og var -0,9 stigum neðan þess.

smari@bb.is

Fyrstu bikarúrslitin í 19 ár

Leikmenn 9. flokks Vestra og Yngvi Gunnlaugsson þjálfari liðsins eftir frækilegan sigur á Fjölni í undanúrslitum bikarkeppni KKÍ.

Það dró til tíðinda í vestfirsku körfuboltalífi í sunnudaginn þegar Vestradrengir í 9. flokki lögðu Fjölni í undanúrslitum bikarkeppni Körfuknattleikssambandsins. Leikurinn fór fram í Rimaskóla í Reykjavík og endaði 56 : 49 Vestra í vil.  Vestri mun því leika til úrslita um bikarmeistaratitilinn aðra helgina í febrúar í Laugardalshöll. Þetta er í fyrsta sinn síðan 1998 sem Vestfirðingar leika til úrslita um bikarmeistaratitil en þá mætti meistaraflokkur KFÍ Grindvíkingum.

Seinni undanúrslitaleiknum er á föstudaginn þegar Valur og ÍR mætast og kemur þá í ljós hvort liðið verður mótherji Vestra.

Á vefsíðu Vestra segir að ef til vill hafi fáir átt von á sigri Vestra í þessum leik því Vestri tefldi aðeins fram sex leikmönnum. En þótt liðið sé fámennt er þar að finna frábæra körfuboltamenn og umfram allt góðan liðsanda sem á stærstan þátt í velgengni liðsins.

Lið Vestra er skipað Hilmi og Huga Hallgrímssonum, Agli Fjölnissyni, Blessed og James Parilla auk Friðriks Vignissonar frá Hólmavík. Þjálfari er Yngvi Gunnlaugsson.

smari@bb.is

Tvö tilboð í viðlegustöpul

Viðlegustöpullinn mun styðja við skut stórra skipa sem leggjast upp að Mávagarði.

Á þriðjudag voru opnuð tilboð í gerð viðlegustöpuls á Mávagarði í Ísafjarðarhöfn. Tvö tilboð bárust. Annað frá Ísar ehf. upp á 46,2 milljónir kr. og hitt frá Geirnaglanum ehf. upp á 69,9 milljónir kr. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 46,7 milljónir kr. Stór olíuflutningaskip hafa átt örðugt með að liggja við Mávagarð í vissum vindáttum, þar sem hætta er á að skutur skipanna reki upp í grjótgarðinn. Allt frá því að hafnarmannvirkið á Mávagarði var tekið í notkun hefur hafnarstjórn lagt þunga áherslu á að leysa þetta brýna vandamál með gerð viðlegustöpuls.

smari@bb.is

Skynsamlegra að slíta viðræðum við hestamenn

Samkvæmt samningnum er stefnt á byggingu reiðskemmu á þessu ári. Mynd úr safni.

Það er algjörlega ótækt að semja við Hestamannafélagið Hendingu á þeim grunni sem núverandi samkomulag Hendingar og Ísafjarðarbæjar situr á, að mati Daníels Jakobssonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ. „Ég hef ekki fengið að sjá kostnaðaráætlun fyrir reiðskemmuna. Mér er sagt að hún sé til en ég hef ekki fengið að sjá hana. Það hefur ekki verið lögð fram skilalýsing fyrir skemmuna,“ segir Daníel. Hann segir ofangreind atriði þó ekki endilega ráð úrslitum hjá sér – heldur sé lýsandi um vinnubrögð Í-listans í málinu. „Það á að samþykkja stór fjárútlát án þess að menn átti sig á hvað þeir ætla að fá í staðinn.“

Hann segir erfitt að meta nákvæmlega kostnað bæjarins við samninginn sem meirihlutinn vill gera við Hendingu. „Það hefur verið talað um 50 milljónir en vegna þess hversu óljóst er um kostnaðaráætlun reiðskemmunnar er erfitt að fullyrða nokkuð um það.“

Hending ekki sýnt samningsvilja

Hann er harðorður í garð forsvarsmanna Hendingar og segir að þeir hafi árum saman lagt stein í götu samkomulags. „Í minni bæjarstjóratíð náðum við samningi við Vegagerðina um 20 milljóna króna bætur, þetta var um áramótin 2013-14. Þá sendum við Hendingu tilboð upp á 27 milljóna króna eingreiðslu eða að bærinn gerði reiðvöll í Engidal sambærilegan við þann sem var í Hnífsdal. Þessu tilboði var ekki svarað en á sama tíma hefur lögfræðingur Hendingar samband við Vegagerðina og tilkynnir um málshöfðun gegn Vegagerðinni,“ segir Daníel og bætir við að vegna hótunar um málshöfðun hafi Vegagerðin haldið að sér höndum og bærinn ekki getað lokið sínum málum við Vegagerðina. „Þetta lýsir ekki miklum samningsvilja af hálfu forsvarsmanna Hendingar.“

Betra að slíta viðræðum

Daníel er enginn nýgræðingur þegar kemur að þessi tiltekna máli, enda kom það oftar en einu sinni á borð hans í fjögurra ára bæjastjóratíð hans. Aðspurður hvað hann myndi vilja gera að svo stöddu segir hann ljóst að bænum ber engin lagaleg skylda að bæta reiðvöll Hendingar í Hnífsdal „En að því sögðu, þá finnst mér sjálfsagt að koma til móts við hestamenn og mér þykir boð bæjarins um sambærilegan völl í Engidal mjög sanngjarnt en skilyrði fyrir slíkum samningi er að hestamannafélagið geri bænum kleift að semja við Vegagerðina. Það hafa þeir ekki viljað og vilja ekki enn og á meðan að svo er á ekki að halda þessum viðræðum áfram.“

Félagið varla með lífsmarki 

Hann vill einnig skoða þetta mál í víðara ljósi og bendir á að hestamennska er síður en svo fjölmennt sport á Ísafirði og menn verða að þora velta fyrir sér hvort það eigi að vera ofarlega á forgangslistanum að byggja upp aðstöðu fyrir hestaíþróttir. „Mun fjölmennari og virkari íþróttafélög hafa setið á hakanum í fjölda ára og Í-listinn ætlar að rjúka til og gera einn rausnarlegasta samning sem bærinn hefur gert við íþróttafélag sem er varla með lífsmarki. Menn verða að átta sig á að það er ekki hlutverk bæjarins að styðja við hestamannafélagið, það er hlutverk hestamannafélagsins að vera með virkt og gott félag sem við viljum styðja,“ segir Daníel.

smari@bb.is

Fyrstu verðlaun til Kanon arkitekta

Tillaga Kanon arkitekta hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppninni.

Kanon arkitektar ehf. voru hlutskarpaðist í hugmyndaamkeppni vegna breytinga á Sundhöll Ísafjarðar. Niðurstöður keppninnar voru kynntar í dag. Tíu tillögu bárust. Í öðru sæti var tillaga arkitektanna Arnhildar Pálmadóttur og Brynhildar Sólveigardóttur og í þriðja sæti var tillaga VA arkitekta. Dómnefnd var skipuð þeim Gísla Halldór Halldórssyni bæjarstjórar, Elísabetu Gunnarsdóttur arkitekt og Kristínu Hálfdánsdóttur bæjarfulltrúa en þau voru öll tilnefnd af Ísafjarðarbæ. Arkitektafélagið tilnefndi í dómnefnd þau Helga Stein Helgason og Olgu guðrúnu Sigfúsdóttur.

Í umsögn dómefndar um vinningstillögu Kanon arkitekta segir að tillagan beri af öðrum innsendum tillögum, heildaryfirbragð er gott, hún er vel útfærð og nýtur þess að höfundar hafa næma tilfinningu fyrir starfseminni og gott innsæi í þarfi notenda.

Aðgengi hreyfihamlaðar um bygginguna er til fyrirmyndar. Ný og rúmgóð lyfta tengir saman allar hæðir hússins, allt frá inngagni upp í ris.

Verðlaunafé skiptist svo:

  1. verðlaun, þrjár milljónir kr.
  2. verðlaun, tvær milljónir kr.
  3. verðlaun, ein milljón kr.
Gísli Halldór bæjarstjóri með höfundum vinningstillögunnar á athöfn í Sundhöll Ísafjarðar í dag.

smari@bb.is

Lífshlaupið hafið að nýju

Skrá má alla hreyfingu í Lífshlaupinu

Lífshlaupið, landskeppni í hreyfingu, sem er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, hófst á nýjan leik í dag, en þetta er í tíunda sinn sem landsmenn huga að hreyfingu fyrir tilstuðlan verkefnisins. Í Lífshlaupinu eru landsmenn hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. Stuðst er við ráðleggingar Embætti landlæknis um hreyfingu, þar sem börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag.

Lífhlaupið skiptist niður í vinnustaðakeppni, sem stendur yfir í þrjár vikur í febrúar, framhaldsskólakeppni 16 ára og eldri og grunnskólakeppni fyrir 15 ára og yngri sem standa í tvær vikur og einstaklingskeppni þar sem allir geta tekið þátt og skráð sína daglegu hreyfingu allt árið. Skrá má alla hreyfingu sem nær minnst 30 mínútum samtals á dag hjá fullorðnum og minnst 60 mínútum samtals á dag hjá börnum og unglingum. Tímanum má skipta upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn s.s. 10 til 15 mín í senn.

Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega. Hægt er að skrá sig til leiks á heimasíðu verkefnisins, lifshlaupid.is

annska@bb.is

Albert valinn til þátttöku á HM

Albert við keppni á Ólympíudögum æskunnar í Lichtenstein

Ísfirðingurinn Albert Jónsson er einn af þeim keppendum sem Skíðasamband Íslands hefur valið á heimsmeistaramótið í norrænum greinum, sem fram fer í Lahti í Finnlandi og stendur frá 22.febrúar til 5.mars. Fyrir Íslands hönd voru auk Alberts valin: Elsa Guðrún Jónsdóttir, Brynjar Leó Kristinsson, Snorri Einarsson og Sævar Birgisson. Allir keppendur eru valdir til þátttöku í skíðagöngu en einnig er keppt í skíðastökki og norrænni tvíkeppni. Einungis hefur einn keppandi náð lágmörkum fyrir lengri vegalengdir en það er Snorri Einarsson. Hinir Íslendingarnir fara í undankeppnina þann 22.febrúar ef þau hafa ekki náð lágmarkinu fyrir þann tíma. Hópurinn mun dvelja í HM þorpinu frá 20.feb til 2.mars. Daginn eftir undankeppnina verður keppt í sprettgöngu og þann 25. febrúar í skiptigöngu og daginn þar á eftir í liðaspretti. 10km ganga kvenna verður þann 28.febrúar og mótinu lýkur á 15km göngu karla.

Albert Jónsson sem verður tvítugur á árinu er einn af sterkari gönguskíðamönnum Íslands og er hann í B-landsliði Íslands í greininni. Á síðasta ári varð hann bikarmeistari í hópi 18-20 ára og í öðru sæti í karlaflokki og kom hann til að mynda fyrstur Íslendinga í mark í 50km keppni Fossavatnsgöngunnar. Albert æfir hjá Skíðafélagi Ísfirðinga undir handleiðslu Steven Gromatka.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir