Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2347

Greina rannsóknatækifæri á strandsvæðum

Mynd: Háskólasetur Vestfjarða.

Í síðustu viku fór fram vinnustofa í Háskólasetri Vestfjarða þar sem rannsakendur frá John Moores háskólanum í Liverpool, Southern Connecticut háskólanum og Háskólasetrinu komu saman. Tilgangur vinnustofunnar var sá að stilla saman strengi og greina rannsóknartækifæri sem tengjast sjálfbærum breytingum strandsvæða.

Vinnistofan er styrkt af Regional Studies Association og markar fyrstu skrefin í samstarfsverkefni stofnanna þriggja. Einkum var lögð áhersla á fræðilegan grunndvöll rannsókna á sjálfbærum breytingum strandsvæða. Í umræðum fengist við fjölda viðfangsefna sem varða strandsvæðis, skipulag hafsvæða, græna orku og vöxt atvinnugreina á borð við sjávareldi og ferðamennsku. Þátttakendur skipulögðu frekari vinnu stofnannanna þriggja og lögðu drög að rannsóknarverkefnum og frekara samstarfi.

smari@bb.is

Ferðamannapúlsinn aldrei lægri

Ferðamannapúls Gallup lækkar um 2,1 stig milli mánaða og hefur aldrei mælst lægri. Púlsinn í desember er 80,6 stig af 100 mögulegum en var 82,7 stig í október. Í desember var ferðamannapúlsinn hæstur meðal ferðamanna frá Spáni eða 85,9 stig. Þar á eftir komu Frakkar með 83,8 stig og þá Bandaríkjamenn, Þjóðverjar og Kanadamenn. Ferðamannapúlsinn er lægstur meðal ferðamanna frá Malasíu, Singapúr og Írlandi. Ferðamannapúls Gallup byggir á svörum ferðamanna við spurningum að Íslandsferð lokinni.

Allir undirþættir ferðamannapúlsins lækka milli mánaða en mest lækka þættir sem snúa að því hvort Íslandsferðin hafi uppfyllt væntingar, hvort ferðin hafi verið peninganna virði sem og heildaránægja með Íslandsferðina en einkunn á heildaránægjuþættinum fer í fyrsta sinn undir 80 stig.

Þeir ferðamenn sem dvöldu hér á landi yfir jól og/eða áramót voru spurðir hvort það hafi uppfyllt væntingar þeirra að eyða jólunum/áramótunum á Íslandi. Um 21% sagði að það að eyða jólunum á Íslandi hafi að öllu leyti uppfyllt væntingar og tæplega 37% sögðu það hafa að miklu leyti uppfyllt væntingar þeirra. Naumlega 28% sögðu það hafa uppfyllt væntingar þeirra að einhverju leyti en tæp 15% sögðu að það hafi að litlu eða engu leyti uppfyllt væntingar þeirra.

Hins vegar sögðu rúm 48% það hafa að öllu leyti uppfyllt væntingar sínar að eyða áramótunum á Íslandi og tæplega 34% sögðu það hafa að miklu leyti uppfyllt væntingar. Rúmlega 11% sögðu það hafa að einhverju leyti uppfyllt væntingar þeirra en naumlega 6% sögðu að það hafi að litlu eða engu leyti uppfyllt væntingar þeirra.

smari@bb.is

Stjórnarandstaðan vill nefnd um stöðu landsbyggðarfjölmiðla

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,

Þingmenn úr öllum flokkum stjórn­ar­and­stöð­unnar vilja að Krist­ján Þór Júl­í­us­son, mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra, skipi starfs­hóp til að gera úttekt á starf­semi fjöl­miðla utan höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra. Þrettán þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna standa að þings­á­lykt­un­ar­til­lögu þess efnis á Alþing­i.

Sam­kvæmt til­lög­unni á starf­hóp­ur­inn að leggja fram til­lögur sem fela í sér aðferðir og leiðir til að efla og tryggja stöðu lands­byggð­ar­fjöl­miðla „þannig að þeir fái gegnt lýð­ræð­is-, menn­ing­ar-, upp­lýs­inga- og fræðslu­hlut­verki sín­u.“ Hóp­ur­inn eigi að skila skýrslu og til­lögum eigi síðar en 1. nóv­em­ber næst­kom­and­i.

„Fáum blandast hugur um mikilvægi frjálsrar fjölmiðlunar enda er þekking almennings á umheiminum og skilningur á honum að miklu leyti kominn undir fréttum miðlanna og annarri umfjöllun þeirra. Staðbundnir fjölmiðlar og fjölmiðlar á landsvísu sem starfræktir eru utan höfuðborgarsvæðisins gegna hlutverki við að tryggja nauðsynlega fjölbreytni lýðræðislegrar umræðu og skoðanaskipta þar sem margvísleg sjónarmið njóta sín og verða grundvöllur afstöðu og ákvarðanatöku,“ segir í greinargerð með tillögunni.

smari@bb.is

Bæjarins besta 4. tbl. 34. árgangur 2017

Kaupa nýjan götusóp

Núverandi götusópur áhaldahússins.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt tillögu bæjartæknifræðings um að ganga að tilboði Krafts. hf. um nýjan götusóp. Tvö tilboð bárust, en tilboð Öskju ehf. stóðst ekki kröfur bæjarins um útbúnað götusópsins. Tilboð Krafts hljóðar upp á 26,6 milljónir kr. Gamli sópurinn hefur þjónað hlutverki sínu vel í gegnum árin en er farinn að láta á sjá.

smari@bb.is

Verkfall hefst á morgun

Farþegar í áætluðu inn­an­lands­flugi Flug­fé­lags Íslands næstu þrjá daga hafa verið látn­ir vita af þeim mögu­leika, að verk­fall Flugfreyjufélags Íslands geti skollið á í fyrra­málið. Þetta seg­ir Árni Gunn­ars­son fram­kvæmda­stjóri fé­lags­ins, í sam­tali við mbl.is.

Hafa farþeg­arn­ir ým­ist verið látn­ir vita með texta­skila­boðum í síma eða tölvu­pósti, eft­ir þeim upp­lýs­ing­um sem þeir gáfu upp við bók­un.

„Við höf­um und­ir­búið okk­ar farþega og látið þá vita af þess­um mögu­leika, og boðið þeim val­kosti til að bregðast við þessu,“ er haft eftir Árna.

Allt flug Flugfélags Íslands felur niður klukkan sex í fyrramálið ef samningar nást ekki fyrir þann tíma. Samkvæmt verkfallsboðun Flugfreyjufélagsins þá er einnig gert ráð fyr­ir ótíma­bundnu verk­falli, sem hefjast mun klukk­an sex að morgni sjötta fe­brú­ar.

smari@bb.is

Áhrif umhverfis á þróun smábleikju í Vísindaporti

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða þessa vikuna mun líffræðingurinn, doktorsneminn og Ísfirðingurinn Sigurður Halldór Árnason fjalla um rannsókn sína á íslenskum dvergbleikjustofnum. Erindið ber titilinn: Hvernig mótar umhverfið svipfarsbreytileika á meðal dvergbleikjustofna í ferskvatnslindum á Íslandi?

Í erindinu mun Sigurður fjalla um doktorsverkefni sitt en í því er hann að skoða áhrif umhverfis á þróun smábleikju á Íslandi. Hann mun ræða um það hvernig umhverfið getur haft bein áhrif á þróun stofna og þær breytingar sem geta orðið á umhverfinu í kjölfar slíkra breytinga. Einnig mun hann kynna aðferðir sem hann notar til að skoða hvort og hvernig mismunandi umhverfisaðstæður leiða til þróunar á mismunandi svipfari meðal smábleikjustofna hér á Íslandi. Að lokum mun hann kynna brot af niðurstöðum sínum og ræða hvaða þýðingu þær geta haft fyrir skilning okkar á því hvernig samspil vist- og þróunarferla móta líffræðilegan fjölbreytileika.

Sigurður Halldór er Ísfirðingur að uppruna en fluttist ungur til Bandaríkjanna. Hann er með MSc gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands þar sem hann sérhæfði sig í frumerfðafræði og stofnerfðafræði plantna. Hann lauk BS nám við Háskólann í Hawaii á Honolulu þar sem hann sérhæfði sig í vist- og þróunarfræði og vann við verndun einlendra landsnigla á Hawaii. Hann býr nú á Ísafirði ásamt konu sinni og tveimur börnum þar sem hann vinnur við að ljúka doktorsnámi í vatnalíffræði við Háskólann á Hólum í samstarfi við Háskóla Íslands.

Vísindaportið er að vanda öllum opið og stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólasetursins í Vestrahúsinu. Fyrirlesturinn að þessu sinni fer fram á ensku.

annska@bb.is

Atvinnuleysið 2,6%

Að jafnaði voru 197.000 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í desember 2016 en það jafngildir 83 prósenta atvinnuþátttöku. Af þeim voru 191.900 starfandi og 5.100 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 80,8 prósent og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 2,6 prósent, samkvæmt nýrri vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands.

Í rannsókninni segir að samanburður mælinga fyrir desember 2015 og 2016 sýni að atvinnuþátttakan hafi aukist um tvö prósentustig. Fjöldi starfandi um 7.000 og hlutfallið af mannfjölda hækkað um 1,4 stig. Atvinnulausum hafi fjölgað um 1.500 manns og hlutfall þeirra af vinnuaflinu hækkað um 0,7 prósentustig.

smari@bb.is

42 fengu samfélagsstyrk frá Orkubúinu

Afhending samfélagsstyrkja Orkubús Vestfjarða fór fram í gær á þremur stöðum samtímis; á Ísafirði, Patreksfirði og á Hólmavík. Orkubúinu bárust alls 82 styrkumsóknir og að þessu sinni voru veittir 42 styrkir að fjárhæð 3.425.000 kr. Styrkupphæðirnar eru frá 50 þúsund kr. og upp í 150 þúsund kr. Orkubúið vill með styrkjunum sýna stuðning í verki við þá aðila og félög sem sinna ýmsum samfélagsmálum á Vestfjörðum. Og eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan, getur verið um að ræða ýmiskonar starfsemi eða félagasamtök, svo sem björgunarsveitir, íþrótta- og æskulýðsstarf, menningarstarfsemi og listir, eða einhver önnur áhugaverð verkefni sem skipta máli fyrir vestfirskt samfélag.

Eftirtalin félagasamtök fengu styrk að þessu sinni:

  • Björgunarsveitin Heimamenn: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.
  • Ungmennafélagið Afturelding Reykhólum: Ungmennfélagsstarfsemi 50 þús. kr.
  • Björgunarfélag Ísafjarðar: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.
  • Blakdeild Vestra: Blak- búnaðarkaup 50 þús. kr.
  • Edinborgarhúsið ehf: Hljóðkerfi 100 þús. kr.
  • Golfklúbbur Ísafjarðar: Golf – unglingastarf 50 þús. kr.
  • Handknattleiksdeild Harðar: Handknattleikur fámennar byggðir 50 þús. kr.
  • Harmonikufélag Vestfjarða: Landsmót harmonikkuunnenda 50 þús. kr.
  • Héraðssamband Vestfjarða 3 umsóknir: Fjölmenning (1), fámennar byggðir (2), barnastarf skíði (3) alls 200 þús. kr.
  • Hollvinir skíðasvæðisins í Tungudal: Skíðasvæði fyrir byrjendur – töfrateppi 50 þús. kr.
  • Knattspyrnudeild Vestra – yngri flokkar: Samstarf íþróttafélaga 50 þús. kr.
  • Kvennakór Ísafjarðar: Landsmót kvennakóra 50 þús. kr.
  • Rauða kross deildirnar á n Vestfjörðum: Búnaður til skyndihjálpar 100 þús. kr.
  • Samgöngufélagið: Útvarpsendingar í jarðgöngum 50 þús. kr.
  • Skíðafélag Ísafjarðar: Unglingalandsmót Íslands 100 þús. kr.
  • Sunnukórinn: Kórstarf 50 þús. kr.
  • Sæfari,félag áhugamanna um sjósport á Ísafirði: Námskeið fyrir unglinga 50 þús. kr.
  • Tónlistarskóli Ísafjarðar: Hljóðfærakaup 75 þús. kr.
  • Golfklúbbur Bolungarvíkur: Golf – unglingastarf 50 þús. kr.
  • Heilsubærinn Bolungarvík: Körfuboltavöllur – útisvæði 100 þús. kr.
  • Rafstöðin, félagasamtök: Rafminjasafn – uppbygging rafstöðvar 100 þús. kr.
  • Sunddeild UMFB: Sunddeild – unglingastarf 50 þús. kr.
  • Verslun Bjarna Eiríkssonar – Háaver ehf: Skipulag sýningar – saga verslunar 50 þús. kr.
  • VáVest: Forvarnir 50 þús. kr.
  • Björgunarsveitin Sæbjörg: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.
  • Íþróttafélagið Grettir á Flateyri: Fimleikadeild – búnaður 50 þús. kr.
  • Björgunarsveitin Björg Suðureyri: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.
  • Íþróttafélagið Stefnir á Suðureyri: Útihreystitæki 50 þús. kr.
  • Kvenfélagið Ársól: Varðveisla sögu Sóleyjar 100 þús. kr.
  • Björgunarsveitin Blakkur: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.
  • Golfklúbbur Patreksfjarðar: Golf – unglingastarf 50 þús. kr.
  • Tónlistarskóli Vesturbyggðar: Hljóðfærakaup 75 þús. kr.
  • Ungmennafélag Tálknafjarðar: Frjálsíþróttasvæði – uppbygging 75 þús. kr.
  • Björgunarsveitin Kópur, Bíldudal.: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.
  • Höfrungur leikdeild: Dýrin í Hálsaskógi 50 þús. kr.
  • Kómedíuleikhúsið: Uppsetning á leikriti 50 þús. kr.
  • Sjálfseignarstofnun Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar: Eldsmíði – varðveisla þekkingar 50 þús. kr.
  • Björgunarsveitin Dagrenning Hólmavík: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.
  • Geislinn: Samstarf íþróttafélaga 50 þús. kr.
  • Sauðfjársetur á Ströndum: Náttúrubarnaskóli 50 þús. kr.
  • Skíðafélag Strandamanna: Gönguskíðaaðstaða 50 þús. kr.
  • Björgunarsveitin Björg: Björgunarstarf – búnaðarkaup 150 þús. kr.

smari@bb.is

Söngkeppni framhaldsskólanna lifi

Benedikt Sigurðsson

 

Sem sérlegur áhugamaður um góða og sterka menningu sló það mig að lesa það í fjölmiðlum að söngkeppni framhaldsskólanna verði ekki haldin í ár. Mér finnst það miður. Áratuga hefð fyrir þessari frábæru keppni má ekki lognast útaf.

Ástæða þess að keppnin verður ekki haldin í ár er peningalegs eðlis og hefur ekki staðið undir sér. Getum við ekki sniðið stakk eftir vexti og reynt hvað við getum til þess að viðhalda þessari hefð?

Í nýlegum rannsóknum kemur það fram að vanlíðan meðal ungmenna sé að aukast. Kvíði, þunglyndi, félagsfælni og skortur á samskiptahæfni. Síma og tölvunotkun hefur æ færst í aukana og sífellt fleiri ungmenni falla í þá gryfju að vera háð þessum sýndarheimi sem að vissu leyti samskipti í gegnum tölvu eru. Það hafa allir það svo gott í tölvuheiminum er virðist, en er það svo? Líf fólks út á við gefur ekki alltaf rétta mynd af hinu raunverulega. Þetta verða ungmenni að skilja. Það hafa það ekki allir svona gott og æðislegt nema þú. Í grunninn erum við eins og öll höfum við okkar vandamál. Ekki halda það að þið séuð verri en aðrir. Okkur skortir meira af raunverulegum samskiptum. Raunverulegri samveru.

Söngkeppni framhaldsskólanna hefur alla tíð snúist um heilbrigða samveru ungmenna og verið mjög jákvætt fyrir skóla landsins. Það er mín skoðun.

Á hverju ári fylgist maður með sínu fólki og stendur og fellur með því. Auðvitað eru atriðin misjöfn. Lífið er misjafnt. Þarna eru ungmenni mörg hver að stíga sín fyrstu skref og hjá einhverjum er þetta stökkpallur inní atvinnumennsku í tónlist.

Í grunninn snýst þetta ekki aðallega um hver vinnur. Þetta snýst um heilbrigða samveru unglinganna okkar. Þau eru framtíðin og okkur ber að kenna þeim á lífið. Raunverulega lífið.

Ef einhver les þetta sem hefur komið að skipulagningu söngkeppni framhaldsskólanna sl ár eða ráðamenn þjóðarinnar, þá hvet ég ykkur eindregið til þess að setjast niður og finna þessari frábæru keppni farveg. Strax.

Ég veit að fólk almennt hlýtur að vera sammála þessu. Kæmi mér ekki á óvart að meira að segja meistari Överby styðji mig í þessu máli.

Söngkeppni framhaldsskólanna lifi!

Benni Sig

 

Nýjustu fréttir