Þriðjudagur 18. mars 2025
Síða 2347

Söngkeppni framhaldsskólanna lifi

Benedikt Sigurðsson

 

Sem sérlegur áhugamaður um góða og sterka menningu sló það mig að lesa það í fjölmiðlum að söngkeppni framhaldsskólanna verði ekki haldin í ár. Mér finnst það miður. Áratuga hefð fyrir þessari frábæru keppni má ekki lognast útaf.

Ástæða þess að keppnin verður ekki haldin í ár er peningalegs eðlis og hefur ekki staðið undir sér. Getum við ekki sniðið stakk eftir vexti og reynt hvað við getum til þess að viðhalda þessari hefð?

Í nýlegum rannsóknum kemur það fram að vanlíðan meðal ungmenna sé að aukast. Kvíði, þunglyndi, félagsfælni og skortur á samskiptahæfni. Síma og tölvunotkun hefur æ færst í aukana og sífellt fleiri ungmenni falla í þá gryfju að vera háð þessum sýndarheimi sem að vissu leyti samskipti í gegnum tölvu eru. Það hafa allir það svo gott í tölvuheiminum er virðist, en er það svo? Líf fólks út á við gefur ekki alltaf rétta mynd af hinu raunverulega. Þetta verða ungmenni að skilja. Það hafa það ekki allir svona gott og æðislegt nema þú. Í grunninn erum við eins og öll höfum við okkar vandamál. Ekki halda það að þið séuð verri en aðrir. Okkur skortir meira af raunverulegum samskiptum. Raunverulegri samveru.

Söngkeppni framhaldsskólanna hefur alla tíð snúist um heilbrigða samveru ungmenna og verið mjög jákvætt fyrir skóla landsins. Það er mín skoðun.

Á hverju ári fylgist maður með sínu fólki og stendur og fellur með því. Auðvitað eru atriðin misjöfn. Lífið er misjafnt. Þarna eru ungmenni mörg hver að stíga sín fyrstu skref og hjá einhverjum er þetta stökkpallur inní atvinnumennsku í tónlist.

Í grunninn snýst þetta ekki aðallega um hver vinnur. Þetta snýst um heilbrigða samveru unglinganna okkar. Þau eru framtíðin og okkur ber að kenna þeim á lífið. Raunverulega lífið.

Ef einhver les þetta sem hefur komið að skipulagningu söngkeppni framhaldsskólanna sl ár eða ráðamenn þjóðarinnar, þá hvet ég ykkur eindregið til þess að setjast niður og finna þessari frábæru keppni farveg. Strax.

Ég veit að fólk almennt hlýtur að vera sammála þessu. Kæmi mér ekki á óvart að meira að segja meistari Överby styðji mig í þessu máli.

Söngkeppni framhaldsskólanna lifi!

Benni Sig

 

Dropi ferðast um víða veröld

Svanur Þór Mikaelsson taekwondo-kappi og Sigrún Sigurðardóttir frá True Westfjords

Þorsklifrarolían Dropi sem framleidd er af True Westfjords í Bolungarvík fæst nú í þremur heimsálfum, eða nánar tiltekið í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Bretlandi, Hollandi, Danmörku og Slóvakíu og segir Sigrún Sigurðardóttir að söluaðilar vörunnar á hverjum stað séu mjög ánægðir með þær viðtökur sem varan hefur verið að fá. Salan innanlands hefur einnig gengið vel en Dropi er seldur í heilsuvöruverslunum og apótekum víða um land, einnig fæst Dropi í fríhöfninni.

Um síðustu áramót hóf True Westfjords styrktarsamstarf við ungan og efnilegan taekwondokappa frá Keflavík, Svan Þór Mikaelsson. Svanur er margfaldur Íslands og bikarmeistari og auk þess Norðurlandameistari í sinni íþrótt. Hann var kjörinn taekwondomaður ársins á Íslandi 2016 og einnig var hann kjörinn taekwondomaður Reykjanesbæjar og Keflavíkur.

Sigrún segir helstu verkefni True Westfjords á þessu ári vera að auka markaðshlutdeild Dropa, þróun og nýir markaðir. Þróunarvinna með Dropa heldur áfram og segir Sigrún nýjungar á teikniborðinu en of snemmt er að segja frá þeim á þessari stundu.

annska@bb.is

Gengur í hvassa norðaustanátt með snjókomu

Hæg breytileg átt og úrkomulítið verður á Vestfjörðum í dag. Gengur í hvassa norðaustanátt 13-18 m/s undir kvöld með snjókomu, einkum norðantil. Í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands í má búast við erfiðum akstursskilyrðum í kjölfarið, sérílagi á fjallvegum. Veðrið verður með svipuðu móti fram eftir degi á morgun og annað kvöld er spáð norðaustan 10-15 m/s með éljum. Frost verður á bilinu 0 til 5 stig.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er Snjóþekja, hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Snjóþekja er á Bröttubrekku, Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði. Þæfingur er á Kleifarheiði.

annska@bb.is

Grunnvíkingar og Sléttuhreppingar halda sameiginlegt blót

Átthagafélögin norðan Djúps hafa haldið þorrablót í áratugi.

 

Í ár ætla átthagafélög Sléttuhreppinga og Grunnvíkinga að sameinast um þorrablót og verður það haldið í Félagsheimilinu Hnífdal 11. febrúar. Félögin hafa í áratugi staðið fyrir þorrablótum sitt í hvoru lagi og hafa þau verið vettvangur fyrir brottflutta Grunnvíkinga og Sléttuhreppinga og afkomendur þeirra til að hittast og skemmta sér saman. Blótin hafa yfirleitt verið vel sótt en síðustu ár þegar sú kynslóð sem bjó í Sléttuhreppi og Grunnavíkurhreppi er mikið til horfin og farið að fækka í annarri kynslóð þá hefur dregið nokkuð úr aðsókn. Til þess að mæta því hefur sú hugmynd verið viðruð undanfarin ár að hafa sameiginlegt þorrablót félaganna tveggja, enda eiga þau margt sameiginlegt og margir sem eiga ættir að rekja í báða hreppana.  Nú hafa stjórnir og skemmtinefndir félagana tekið þá ákvörðun að prófa nýtt fyrirkomulag og sameinast eina kvöldstund.

Þeir sem eiga rætur sínar að rekja norður fyrir Djúp og á Hornstrandir hafa sterkar tilfinningar til upprunans og átthaganna, sem fóru í eyði er forfeður þeirra þurftu flytja búferlum á mölina þar sem lífið var auðveldara og uppbyggingin hröð. Lífsbaráttan á Hornströndum og í Jökulfjörðum var erfið og það var ekki vilji stjórnvalda á þeim tíma að leggja fé í uppbyggingu á svæðinu, svo auðvelda mætti fólki að búa þar áfram. Margir afkomendur þessa fólks eiga athvarf í eyðibyggðunum fyrir norðan og dvelja þar á sumrin. Afkomendur og vinir þeirra er þurftu að yfirgefa heimahagana, um miðja síðustu öld, ætla nú að skemmta sér á sameignlegu þorrablóti.

smari@bb.is

Óásættanlegt að loka neyðarbrautinni

 

Bæjarráð Vesturbyggðar tekur undir með þeim sveitarfélögum sem undanfarið hafa ályktað gegn lokun NA/SV flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli, svokallaðrar neyðarbrautar. „Það hefur sýnt sig að það er algjörlega óásættanlegt að brautin sé lokuð meðan ekki er boðið upp á aðrar lausnir til að sinna sjúkraflugi við þau tilteknu skilyrði sem brautinni er ætlað að sinna,“ segir í ályktun bæjarráðs og áréttað að ekki verði beðið eftir óafturkræft tjón eigi sér stað áður en gripið verði til aðgerða. Bæjarráð Vesturbyggðar bendir á að íbúar landsbyggðarinnar þurfa að hafa óskert aðgengi að sjúkrahúsi allra landsmanna í Reykjavík.

smari@bb.is

Segir eftirlitið ekki slælegt

Einar K. Guðfinnsson.

Landssamband fiskeldisstöðva (LF) leggur áherslu á að fyrirtæki í fiskeldi fari varlega í sinni starfsemi og lágmarki umhverfisáhrif, að sögn Einars K. Guðfinnssonar, formanns LF. Landssamband veiðifélaga hefur kært til lögreglu slysasleppingu á regnbogasilungi í fyrra. Í haust veiddist regnbogasilungur í ám víða á Vestfjörðum og fregnir bárust af eldisfiski í ám í öðrum landshlutum. Í tilkynningu frá Landssambandi veiðifélaga segir að slysasleppingin í fyrra sé annaðhvort saknæmur atburður eða „alvarleg birtingarmynd á slælegu eftirliti með sjókvíaeldi á Ísland og lýsir þungum áhyggjum af skeytingarleysi stjórnvalda í þeim efnum.“

Einar segir alls ekki rétt að eftirlit með fiskeldi sé slælegt. „Lögin eru mjög skýr og Matvælastofnun hefur eftirlitshlutverkið og hefur eins og lög gera ráð fyrir verið með þetta mál til rannsóknar og ég treysti Matvælastofnun til að fara með þetta vald,“ segir Einar. Ekki er ljóst hvenær niðurstaða fæst í rannsókn Matvælastofnunar á slysasleppingunni í fyrra.

Hann bendir á að Landssamband fiskeldisstöðva hafi sent frá sér yfirlýsingu eftir að regnbogasilungurinn veiddist síðasta haust þar sem fram kom að fiskeldisstöðvarnir leggi kapp á að komast að því hvaðan regnbogasilungurinn kemur. Regnbogasilungur er alinn í fjórum fjörðum á Vestfjörðum, í Önundarfirði, í Dýrafirði, í Tálknafiðri og í Ísafjarðardjúpi. Eldi á regnbogasilungi er á undanhaldi og eldisfyrirtækin einblína í meiri mæli á laxeldi.

smari@bb.is

Vill að umhverfisnefnd geri frumkvæðisathugun á fiskeldi

Fiskeldi er stórt mál, segir Kolbeinn Óttarsson Proppé. Mynd: mbl.is/Árni Sæberg

 

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG og nefndarmaður í umhverfisnefnd Alþingis, vill að nefndin geri að eigin frumkvæði athugun á stöðu fiskeldi á Íslandi, sér í lagi þá sjókvíaeldi. Á vefsíðu sinni segir Kolbeinn að fiskeldi sé stórt mál þar sem að mörgu er að hyggja og „eins og í öllu á þar umhverfið að njóta vafans,“ skrifar Kolbeinn. Nefndarmenn tóku ágætlega í tillöguna, að sögn Kolbeins.

Í október ákvað Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, að ráðast í stefnumótun fyrir allt fiskeldi á Íslandi. Í þeirri vinnu átti meðal annars að fjalla um umhverfisþætti, stjórnsýslu, gjaldtöku, útgáfu rekstrarleyfa, menntunarmál ásamt efnahags- og samfélagslegum þáttum.

smari@bb.is

Hlýjasta ár á Vestfjörðum frá upphafi mælinga

Árið 2016 var sérlega hlýtt hér á landi. Við Breiðafjörð og á Vestfjörðum var árið það hlýjasta frá því að mælingar hófust og í hópi þeirra hlýjustu í öðrum landshlutum. Hiti fyrstu tvo mánuðina var þó nærri meðallagi en haustið sérlega hlýtt. Vindar voru með hægara móti. Fremur þurrt var um tíma, frá því síðla vetrar og fram á sumar, en haustið óvenju úrkomusamt, sérstaklega um landið sunnanvert.

Meðalhiti í Reykjavík var 6,0 stig og er það 1,7 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Er þetta 21. árið í röð með hita yfir meðallagi og næsthlýjast þeirra 146 ára sem samfelldar mælingar ná til ásamt 2014. Í Stykkishólmi var ársmeðalhitinn 5,5 stig, 2,0 stigum yfir meðallagi. Þetta er hlýjasta ár frá upphafi mælinga í Stykkishólmi 1846. Á Akureyri var meðalhitinn 4,9 stig, 1,7 stigi ofan meðallags. Þar var nokkru hlýrra árið 2014. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 6,0 stig, 1,2 stigum ofan meðallags. Á landsvísu var hitinn 1,7 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, og en 0,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Á vef Veðurstofu Íslands má sjá yfirlit yfir tíðarfar ársins 2016, hita og úrkomu. Einnig má það sjá það sem bar helst til tíðinda í veðurfari á landinu hvern mánuð fyrir sig.

annska@bb.is

Tugir krakka á Hamraborgarmótinu

Yngsta hollið á Hamraborgarmótinu í fyrra með meistaraflokki Vestra.

 

Hátt í 80 krakkar í 1.-6. bekk létu ljós sitt skína á fyrsta Hamraborgarmótinu sem körfuknattleiksdeild Vestri stóð fyrir á Torfnesi á mánudag. Mótið var boðsmót meistaraflokks karla og Hamraborgar en meistaraflokkur sá um allt skipulag undir stjórn Yngva Gunnlaugssonar yfirþjálfara. Ofursjoppan Hamraborg bauð síðan allri hersingunni í glæsilega pizzuveislu í mótslok.

Mótið  er liður í því að undirbúa yngstu iðkendur félagsins fyrir stóra Nettómótið sem fram fer í Reykjanesbæ í byrjun mars, en það er stærsta körfuboltamót landsins. Löng hefð er fyrir þátttöku körfuboltabarna af norðanverðum Vestfjörðum á því móti og árið í ár verður þar engin undantekning. Nettómótið er ætlað börnum í 1.-5. bekk og ófáir körfuboltamenn hafa stigið sín fyrstu keppnisskref á því móti.

smari@bb.is

Byrja að grafa í Arnarfirði

Teikning af munna Dýrafjarðarganga við Rauðsstaði í Arnarfirði.

„Lægsta tilboðið er um 93-94 prósent af okkar áætlun þannig að þetta er allt innan þeirra marka sem við höfum verið að miða við,“ sagði Hreinn Haraldsson vegamálastjóri í viðtali við Stöð 2 í gær. Tilboð í Dýrafjarðargöng voru opnuð í göng. Tékkneska fyrirtækið Metrostav og Suðurverk áttu lægsta tilboðið, 8,7 milljarða króna. Vestfirðingar eru margbrenndir þegar kemur að loforðum um Dýrafjarðargöng en nú þurfa þeir ekki að óttast lengur að sögn Hreins vegamálstjóra. „Ég held að það sé alveg 110 prósent öruggt að nú verður ekki aftur snúið. Enda hef ég ekki heyrt neinar áætlanir um það frá stjórnvöldum. Nú verður bara sett í gang síðar á þessu ári og framkvæmdir hefjast þá,“ sagði Hreinn í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Fyrirtækin Metrostav og Suðurverk eru þaulkunnug jarðgangagerð á Íslandi og klára í ár Norðfjarðargöng.

Forstjóri Suðurverks, Dofri Eysteinsson, segir henta vel að fara beint í Dýrafjarðargöng og þeir byrji á því að koma sér fyrir í Arnarfirði og áætlað að byrja á tímabilinu júlí til september.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir