Síða 2347

Vextir áfram 5 prósent

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5%. Í tilkynningu Peningastefnunefndar segir að áætlað sé að hagvöxtur hafi verið 6% í fyrra. Það er heilu prósentustigi meiri vöxtur en spáð var í nóvemberhefti Peningamála, sem skýrist einkum af meiri fjárfestingu atvinnuveganna og þjónustuútflutningi á fyrstu níu mánuðum ársins. Spáð er að hagvöxtur verði áfram ör, 5,3%  í ár og á bilinu 2,5 -3% á næstu tveimur árum. Í yfirlýsingu Peningastefnunefndar segir: Störfum fjölgar hratt, atvinnuleysi er komið niður fyrir 3% og atvinnuþátttaka orðin meiri en hún var mest á þenslutímanum fyrir fjármálakreppuna. Þrátt fyrir að innflutningur erlends vinnuafls vegi á móti fer spenna í þjóðarbúinu vaxandi og verður meiri en áður var áætlað.

smari@bb.is

Fyrirliðatreyjan fór á 1,2 milljónir

Andvirði treyjunnar var afhent í vikunni.

Á Kútmagakvöldi Lionsklúbbs Patreksfjarðar 15. október 2016 gerðist það að boðin var upp treyja Arons Einars Gunnarssonar fyrirliða íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Leitað hafði verið til Arons að fá treyjuna í þeim tilgangi og varð hann góðfúslega við því en vísaði málinu til starfsfólks KSÍ til úrlausnar. Þau skilaboð bárust að treyjan yrði send vestur með mikilli gleði og árituð af leikmönnum landsliðsins. Það skilyrði fylgdi afhendingunni að andvirði treyjunnar skyldi renna til uppbyggingar á knattspyrnustarfi á sunnanverðum Vestfjörðum. „Það er skemmst frá að segja að treyjan var boðin upp á hátíðinni með tilgreindum skilmálum. Hátíðargestir allt karlar sýndu uppboðinu mikinn áhuga og mikil stemming myndaðist. Skjöldur Pálmason forstjóri Odda á Patreksfirði stóð fyrir uppboðinu af alkunnri röggsemi. Fljótlega hlupu boðin á hundruðum þúsundum og tilboðsgjafarnir hvattir ákaflega. Öflugir aðilar tókust á um treyjuna og hver um sig ætlaði sér hana,“ segir Úlfar B Thoroddsen, ritari Lionsklúbbs Patrekfjarðar. Svo fór að treyjan var slegin hæstbjóðanda á kr. 1.200.000 við mikil fagnaðarlæti.

Þann 7. febrúar  fóru  Eiður B Thoroddsen formaður Lionsklúbbs Patreksfjarðar, Úlfar B Thoroddsen ritari og Gunnar Sean Eggertsson gjaldkeri í íþróttahúsið á Patreksfirði á fund Páls Vilhjálmssonar íþróttafulltrúa á sunnanverðum Vestfjörðum og færðu honum  andvirði treyjunnar dýru eða kr. 1.200.000 til eflingar knattspyrnustarfs á svæðinu. Tók Páll við gjöfinni umkringdur ungum knattspyrnuiðkendum. Páll er jafnframt framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Hrafnaflóka og skólastjóri íþróttaskóla sambandsins sem starfræktur er í öllum þéttbýlum á sunnanverðum Vestfjörðum.

Kútmagakvöld hafa verið haldin hvert ár á vegum Lionsklúbbs Patreksfjarðar frá 17. mars 1979 fram til þessa.

smari@bb.is

Mögulega fjörulalli

Cristian Gallo starfsmaður Nave skoðar beinagrindina með hinum áhugasömu rannsóknarmönnum. Mynd af Fésbókarsíðu NAVE

Vinsælt getur verið hjá þeim sem sækja Vestfirði heim að kíkja í heimsókn á Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík og ekki hefur síður heimafólk gaman af heimsókn þangað, þá sér í lagi yngri kynslóðin. Í gær kom þangað í áhugasamur hópur úr Grunnskólanum í Bolungarvík og komu krakkarnir með tvær beinagrindur sem þeir höfðu fundið í fjöruferð við Bug og vildu fá greiningu á. Beinagrindurnar sem þau fundu voru annarsvegar af tjaldi og svo var þar stærri, heilleg beinagrind sem ungu rannsóknarmennirnir töldu nokkuð víst að væri af hinum sjaldséða fjörulalla, en einnig kom til greina að þar væri um að ræða kind.

Á vefsíðu tileinkaðri íslenskum kynjaskepnum sem nemendur í Laugarlækjarskóla unnu, segir að fjörulalla sé að finna víða með fram ströndum landsins, þó ekki hafi hans verið vart alls staðar og algengastur sé hann við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Fjörulalla er ekki að mörgu getið í fornum ritum en kemur fyrst fram á 19.öld. Þá var það 13 ára strákur sem sá hann þegar hann fór út í sker á Breiðafirði. Lýsing hans á Fjörulalla hljóðar svo: „Það var á stærð líkt og meðalstór hundur en þó öllu digurra, lágfætt og lubbalegt með rófu líkt og kind. Ekki kvaðst hann hafa getað greint hvort út úr haus þess stóðu eyru eða lítil horn og eigi gat hann heldur greint lögun á skoltum þess því alltaf sneri það afturhlutanum að honum. Þess var getið til að þarna hefði verið fjörulalli.“

Ekki eru allir allir sannfærðir um tilvist fjörulalla fremur en annarra furðuskepna, en stundum er ágætt að hafa það sem ævintýralegra reynist.

Cristian Gallo starfsmaður Nave skoðar beinagrindina með hinum áhugasömu rannsóknarmönnum. Mynd af Fésbókarsíðu NAVE

annska@bb.is

MÍ úr leik

Á síðasta ári komst lið MÍ í sjónvarpshluta Gettu betur í fyrsta sinn, ekki gekk það þetta árið þrátt fyrir góða baráttu

Keppnislið Menntaskólans á Ísafirði mætti liði Fjölbrautarskólans í Garðabæ í annarri umferð spurningakeppninnar Gettu betur í gærkvöldi. Lið MÍ háði þar drengilega baráttu en leit að lokum í minni pokann fyrir sterku liði FG sem sigraði með 35 stigum gegn 21 stigi MÍ. Það er því ljóst að MÍ birtist ekki á skjánum þetta árið en næstu stig keppninnar undanúrslit og úrslit fara fram í Sjónvarpinu og hefst keppnin þar föstudaginn 24.febrúar. Undanúrslit fara fram 23. og 25.mars og úrslitakeppnin verður í Háskólabíó föstudaginn 31.mars.

annska@bb.is

Vinnsla fallið niður í átta daga frá áramótum

Smábátasjómenn á sunnanverðum Vestfjörðum hafa sótt sjóinn af hörku í sjómannaverkfallinu, en þeir eru ekki í verkfalli eins og kunnugt er. Oddi hf. hefur keypt hráefni af þeim bátum sem eru að róa frá Tálknafirði og Patreksfirði. Fiskeríið hefur verið með allra besta móti og það, auk harðrar sjósóknar, hefur gert að verkum að allt fiskvinnslufólk Odda hefur haft vinnu í 19 daga af 27 mögulegum vinnudögum frá áramótum. Er það annar veruleiki en flestar fiskvinnslur á landinu búa við í verkfallinu.

Sjómannaverkfallið veldur verulegu raski í byggðalögum allt landið um kring með tekjutapi sjómanna, verkafólks, útgerða og fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn og samfélagslegt tjón verður seint metið til fullnustu. Með sjósókn smábáta á sunnanverðum Vestfjörðum hefur í það minnsta verið hægt að lágmarka það tjón sem landverkafólk verður fyrir.

smari@bb.is

Umferðarslysum erlendra ferðamanna fjölgað

Tveir erlendir ferðamenn létust í umferðinni í fyrra, samanborið við fimm árið áður. 47 slösuðust hins vegar alvarlega sem var töluverð fjölgun frá árinu áður, þegar 26 slösuðust alvarlega. Í nýjum tölum Samgöngustofu um slys á erlendum ferðamönnum í umferðinni á Íslandi kemur fram að tveir erlendir ferðamenn létust í umferðinni í fyrra, samanborið við fimm árið áður. 47 slösuðust hins vegar alvarlega sem var töluverð fjölgun frá árinu áður, þegar 26 slösuðust alvarlega.

Tveir erlendir ferðamenn létust í umferðinni í fyrra, samanborið við fimm árið áður. 47 slösuðust hins vegar alvarlega sem var töluverð fjölgun frá árinu áður, þegar 26 slösuðust alvarlega.

Í fyrra slösuðust flestir á Vesturlandi og næstflestir á Suðurlandi. Flestir þeirra erlendu ferðamanna sem lentu í umferðarslysum hér á landi í fyrra voru Kínverjar, næstir komu Bandaríkjamenn og svo Frakkar. Útafakstur eða bílvelta var langalgengasta tegund umferðarslysa meðal erlendra ferðamanna, rúmlega 70% allra umferðarslysa. Algengast var að ökumaðurinn sjálfur væri valdur að slysi, en næstalgengasta orsökin var slæm færð.

smari@bb.is

Sigurvon efnir til listaverkauppboðs

Verk Péturs Guðmundssonar sem boðið verður upp hjá krabbameinsfélaginu Sigurvon í mars

Krabbameinsfélagið Sigurvon rær á nýstárleg mið í fjáröflun  í marsmánuði er það verður með uppboð á verkum eftir vestfirska listamenn. Síðustu ár hefur félagið tekið þátt í mottumars með einum eða öðrum hætti en í ár verður listaverkauppboðið í brennidepli. Fimm listamenn leggja Sigurvon lið og gefa verk á uppboðið, hafa þeir verið kynntir einn af öðrum á Fésbókarsíðu félagsins þar sem búið að segja frá þremur og verða hinir tveir kynntir á næstu vikum.

Fyrstur var kynntur til leiks ísfirski myndlistarmaðurinn Pétur Guðmundsson, þar sem segir: …Hann lærði í Myndlistar og handíðaskóla Íslands 1972 til 1976. Síðan þá hefur hann stundað myndlist af ýmsu tagi. Verkið sem Pétur gefur í þetta verkefni er ótrúlega fallegt og mjög svo vestfirskt ef svo má segja.

Næst var kynnt hin bolvíska Berglind Halla Elíasdóttir: …Hún er 24 ára leiklistarnemi við Listaháskóla Íslands. Berglind Halla er alin upp í Bolungarvík og hefur búið þar meirihluta ævi sinnar en flutti suður árið 2012 til að fara í nám. Berglind Halla hefur teiknað frá því hún man eftir sér og byrjaði snemma að reyna að herma eftir því sem fyrir augum bar. Aðeins 5 ára gömul sagðist hún ætla að verða listmálari eða leikkona þegar hún yrði stór og virðast þau plön vera að ganga vel eftir. Verkið sem Berglind gefur er teikning eftir ljósmynd eftir hana sjálfa.

Þá var kynnt hin vestfirska Ólafía Kristjánsdóttir: Ólafía er listamaður, húðflúrari og eigandi húðflúrstofunnar IMMORTAL art í Reykjavík. Ólafía fæddist í Bolungarvík en ólst upp á Ísafirði og á ættir að rekja úr Ísafjarðardjúpi, faðir hennar er frá Látrum og móðir hennar frá Vatnsfirði. Ólafía hefur alltaf verið mjög upptekin og heilluð af myndlist.

Hægt er að fylgjast með verkefninu á Fésbókarsíðu Sigurvonar, þar sem meðal annars er búið að birta myndir af tveimur verkanna sem boðin verða upp.

annska@bb.is

Orkuöryggi minnkar

Hálslón á Austurlandi.

Haldi almennur vöxtur í raforkunotkun áfram hér á landi á næstu árum án þess að fjárfest verði í frekari orkuframleiðslu munu Íslendingar standa frammi fyrir mögulegum vanda varðandi orkuöryggi á komandi árum. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var af sérfræðingum frá háskólastofnununum MIT í Bandaríkjunum og IIT Comillas á Spáni um orkuöryggi fyrir Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsnet. Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á fundi í húsnæði Orkustofnunar á mánudag.

Í kynningunni kom meðal annars fram að vandamálið á Íslandi felst í rafmagnskerfi sem sé einangrað og gæti þar af leiðandi lent í vandræðum ef upp kæmu vandamál við orkuframleiðslu, til dæmis ef vetur væri hlýr og lítið væri um vatn til að fylla miðlunarlón. Þá er dreifikerfið ekki nægjanlega gott þar sem stífla gæti myndast á milli vestur- og austurhluta landsins.

smari@bb.is

250 unglingar skemmtu sér saman á Hólmavík

Díana Jórunn Pálsdóttir og hljómsveit voru skrautlega klædd er þau fluttu lagið Ég mun ekki gefast upp.

Í lok síðustu viku var mikil gleði hjá vestfirskum og vestlenskum unglingum á Hólmavík þegar SamVest fór þar fram í félagsheimilinu. Þar fór fram söngkeppni félagsmiðstöðva á Ströndum, Reykhólum og  öllu Vesturlandi og mættu nær 250 unglingar á staðinn. Ellefu atriði tóku þátt í keppninni, eða eitt til tvö frá hverri félagsmiðstöð, og voru þau hvert öðru glæsilegra. Með sigur af hólmi fór Bára Sara frá félagsmiðstöðinni Óðal í Borgarbyggð og flutti hún lagið We don’t need to take off our clothes með Ella Eyre. Í öðru sæti var heimafólk úr félagsmiðstöðinni Ozon á Hólmavík þar sem heil hljómsveit, með Díönu Jórunni Pálsdóttur í fararbroddi, flutti lagið Radioactive með Imagine Dragons. Þessi tvö atriði hafa nú tryggt sér keppnisrétt á söngkeppni Samfés sem fer fram í Laugardalshöllinni þann 25. mars.

Kristbergur Ómar Steinarsson, meðlimur í ungmennaráði, var kynnir keppninnar og í dómnefnd sátu Andrea Kristín Jónsdóttir, sveitastýra Strandabyggðar, Kristín Lilja Sverrisdóttir, söngkona og meðlimur í ungmennaráði Strandabyggðar og Íris Björg Guðbjartsdóttir, tónlistarkona og bóndi.

Að keppni lokinni var svo blásið til balls þar sem enginn annar en rapparinn víðfrægi GKR kom fram ásamt því sem DJ Dagur þeytti skífum. Að sögn Estherar Aspar Valdimarsdóttur, tómstundafulltrúa Strandabyggðar fór allt saman afar vel fram og segir hún það ekki síst að þakka vinnuframlagi unglinga í félagsmálavali í Strandabyggð.

annska@bb.is

Lægir er líður á daginn

Stormur ríkir frameftir degi á Vestfjörðum með suðaustan 18-25 m/s, en það dregur úr vindi síðdegis. Rigning verður með köflum og hiti 2 til 7 stig. Suðaustan 8-15 m/s og úrkomulítið seint í kvöld, en hægari á morgun. Kólnar og hiti verður á bilinu 0 til 4 stig á morgun.

Á vef Veðurstofu Íslands er varað við suðaustan roki eða ofsaveðri um landið vestanvert er búist er við vindstyrk allt að 30 m/s fram eftir degi. Hvassast verður við Breiðafjörð og á Norðurlandi Vestra kringum hádegi, en síðdegis lægir talsvert.

Á Vestfjörðum er hálka á Steingrímsfjarðarheiði en hálkublettir á Þröskuldum,  Kleifaheiði og Hálfdáni og einnig á köflum á Ströndum. Óveður er á Kleifaheiði og Ennishálsi.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir