Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2346

Sýnir Gretti á Hjaltlandseyjum

Kappinn Grettir í meðförum Elfars Loga Hannessonar leggst nú í víking að nýju, er einleikurinn verður sýndur á Hjaltlandseyjum um helgina. Þar á bæ fer fram um helgina málþing sem kallast Follow the Vikings. Það er Evrópuverkefni þar sem aðilar víðsvegar úr álfunni, sem eiga það sameiginlegt að vinna á einn eða annan hátt með víkingaarfinn, koma saman til að kynna sig og kynnast öðrum.

„Þegar svona spennandi boð eins og það að fá að fara til Hjaltlandseyja með list sina þá segir maður náttlega ekki nei – svo við leggjum bara í hann og hlökkum mikið til.“ Segir Elfar Logi, en með honum í för verður eiginkona hans Marsibil Kristjánsdóttir og verða þau bæði einnig með erindi á málþinginu. Elfar logi verður með erindi fyrir hönd Kómedíuleikhússins, þar sem hann segir frá því hvernig nýta má Íslendingasögurnar við listsköpun og þá einkum hvernig breyta má þeim í leikrit. Marsbil mun kynna Gíslasögu-verkefni þeirra hjóna er þau eru að vinna að í gamla félagsheimilinu í Haukadal, en fyrsti áfangi þess opnar í sumar.

Von er á um 50 manns á málþingið, þar á meðal eru nokkrir íslenskir ferðaþjónar. Elfar Logi segist spenntur fyrir ferðinni og þá sér í lagi því tengslaneti sem þátttaka í málþingi sem þessu kann að veita: „Það mikilvægasta er þetta mingl á milli manna svo úr verður samstarf millum víkinga og landa, við vonumst til að geta bæði stolið hugmyndum fyrir okkar verkefni sem og myndað góð tengsl við aðra, fara jafnvel í samstarf, allt getur gerst á eyjum eins og við vitum, og hvað þá þegar víkingar koma saman.“

Hér má lesa meira um Follow the Vikings.

annska@bb.is

Íþróttaandinn

Hrafnhildur Hanna skiptir um treyju við Huldu Dís, systur sína, undir lok leiksins gegn Haukum. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Á dögunum mættu Haukar á Selfoss til að etja þar kappi í handknattleik en laut í parket fyrir heimamönnum með 25 mörkum gegn 28. Það væri ekki á frásögur færandi nema fyrir það að rétt fyrir lok leiks rífur Haukastúlkan María Karlsdóttir keppnistreyju Selfossstúlkunnar Hrafnhildar Hönnu Þrastardóttir sem brá á það ráð að skýla nekt sinni með nýrri treyju þessar tvær mínútur sem eftir lifðu leiks.

Flestum þætti nú mannasiðir að Haukastúlkur bæðu afsökunar á hegðun sinni en það er öðru nær, þær hafa kært Selfossliðið vegna þess að áðurnefnd Hrafnhildur Hanna hafi spilað í tvær mínútur í treyju númer þrjú en ekki fjögur, eins og stendur á leikskýrslu !!

Þetta kemur fram í frétt hjá Sunnlenska fréttablaðinu og þar kemur sömuleiðis fram að kæra Hauka hafi komið Magnúsi Matthíassyni, formanni handknattleiksdeildar Selfoss, í opna skjöldu og á hann bágt með að sjá að treyjuskiptin hafi haft áhrif á gang leiksins.

bryndis@bb.is

 

Skartaði glæsilegum bolvískum búningi í forsetaboði

Svanborg í góðum félagsskap með forseta vorum Guðna Th. Jóhannessyni

Bolvíkingurinn Svanborg Þóra Kristinsdóttir var sérlega glæsileg í boði sem forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og kona hans Eliza Reid buðu til í menningarhúsinu við Norðurbryggju í Kaupmannahöfn í fyrrakvöld. Svanborg skartaði þar fallegum íslenskum upphlut og vakti mikla athygli fyrir glæsileika, en hún var eina konan sem var í íslenskum þjóðbúningi í samkvæminu. Búningurinn á sér langa sögu, hann kemur upphaflega frá langömmu Svanborgar Ingunni Guðlaugu Valmaríu Jóhannsdóttur frá Bolungarvík. Hún ætlaði búninginn svo sonardóttur sinni, Ingunni Hávarðardóttur og var amma Svanborgar, Sóley Magnúsdóttir búin að ákveða að Svanborg fengi síðan búninginn, en íslenskir búningar hafa í gegnum tíðina oft verið einhverjir dýrmætustu erfðagripirnir innan fjölskyldna.

Elstu hlutar búningsins nálgast brátt 150 ára aldur, en gullið og beltið er frá árinu 1870. Búningurinn hefur verið notaður af konum í ættinni en síðustu ár hefur hann verið í vörslu Svanborgar sem búsett er í Danmörku. Hún segist þar hafa fengið mörg tækifæri til að skarta búningnum en hún starfar sem upplýsingafulltrúi og verslunarstjóri í Nordatlantisk Hus í Óðinsvéum, meðal annars er hún var eitt sinn fjallkona í Óðinsvéum á 17.júní.

Svanborg segir í spjalli við Smartland að hinn nýi forseti Íslendinga hafi átt kvöldið og heillað alla upp úr skónum og geti Íslendingar sannarlega verið stoltir af honum. Segir hún aðkomu hans hafa staðið upp úr öðru þetta kvöld og nefnir sértaklega hversu vel máli farinn forsetinn sé og góður ræðumaður.

Svanborg var sérlega glæsileg í íslenskum upphlut. Mynd: mbl.is/Golli

annska@bb.is

Allir lesa hefst í dag

Allir lesa – landsleikur í lestri, hefst í dag. Átakið sem haldið er af Miðstöð íslenskra bókmennta og Reykjavík Bókmenntaborg Unesco, í samstarfi við Heimili og skóla, Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, gengur út á það að skrá lestur á einfaldan hátt. Er þetta í þriðja sinn sem landsleikurinn er haldinn og stendur hann frá og með deginum í dag til 19. febrúar. Keppt er í liða – og einstaklingskeppni og er þetta í fyrsta sinn sem keppt er í hinu síðarnefnda, en einstaklingar geta þó bæði skráð sig til leiks undir þeim flokki sem og með hópi. Í keppninni er mældur sá tími sem varið er í lestur og í lokin eru sigurlið heiðruð með verðlaunum og viðurkenningum, svo og sá einstaklingur sem ver mestum tíma í lestur á tímabilinu.

Allar tegundir bóka eru gjaldgengar. Það skiptir ekki máli hvernig bækur þú lest eða hvort þú lest prentaðan texta, rafbók eða hljóðbók. Hér er átt við allar bækur sem innihalda til dæmis skáldskap, fræði, skýrslur eða eitthvað allt annað.

Allir geta myndað lið, til dæmis vinnustaðir, saumaklúbbar, vinahópar eða fjölskyldur. Foreldrar sem lesa fyrir ung börn sín eru sérstaklega hvattir til að mynda lið með börnunum og skrá lesturinn. Einn aðili, liðsstjórinn, stofnar lið inni á vefnum og bætir öðrum liðsmönnum í liðið, eða aðrir liðsmenn bætt sér í liðið sjálfir.

Skráning fer fram inn á http://allirlesa.is/

annska@bb.is

Ekki kom til verkfalls

Ef að veður leyfir verður flogið á milli landshluta í dag og næstu daga, en útlit var fyrir að það gæti orðið röskun á flugi er fyrirhugað var að verkfall flugfreyja hæfist í dag og stæði fram á mánudag, hefði það haft áhrif á flugferðir um 1500 farþega. Á tólfta tímanum í gærkvöldi var skrifað undir kjarasamning á minni Flugfreyjufélags Íslands og Flugfélags Íslands og fer sá samningur í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum í næstu viku. Flugfreyjur hafa verið samningslausar í rúmt ár og á þeim tíma í tvígang fellt kjarasamninga, en Sturla Bragason, formaður samninganefndar Flugfreyjufélagsins, segir í samtali við RÚV bjartsýnn á að nýi samningurinn verði samþykktur.

annska@bb.is

Víða slæm færð

Færðarkort Vegagerðarinnar sem sýnir færð á vegum á Vestfjörðum upp úr klukkan tíu í morgun

Hálka og éljagangur er víðast hvar á Vestfjörðum en þæfingsfærð og skafrenningur er á Þröskuldum, Hálfdán og Mikladal. Þungfært og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði og ófært og stórhríð á Klettshálsi og Kleifaheiði og beðið með mokstur samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Á Vestfjörðum er nú allhvöss norðaustanátt með snjókomu eða éljum, og má búast við erfiðum akstursskilyrðum, sérílagi á fjallvegum. Veðurspá dagsins kveður á um norðaustan 10-18 m/s og snjókomu, einkum á Vestfjörðum norðanverðum, með vægu frosti í fjórðungnum. Á morgun snýr í hreina norðanátt 8-13 m/s með éljum, en hægara verður og úrkomulítið síðdegis. Frost á bilinu 2 til 7 stig.

annska@bb.is

Ungt fólk vill hafa áhrif

Landsþing ungmennahúsa var haldið á Hólmavík um síðustu helgi. Ungt fólk á aldrinum 16-25 ára og starfsfólk ungmennahúsa komu víða að af landinu ásamt stjórn Samfés. Markmið landsþingsins var að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að hittast, móta starfsemi ungmennahúsa landsins, skiptast á hugmyndum, efla samstarfið og ræða málefni ungs fólks á Íslandi og hvað hægt sé að gera til að bæta starfið og tryggja að öll ungmenni á aldrinum 16-25 ára hafi jafnan aðgang að ungmennahúsi í sinni heimabyggð.

Stjórn Samfés segir landsþingið hafi gengið vonum framar og þátttaka ungmennahúsa nokkuð góð, sér í lagi í ljósi þess að búið er að loka fimm ungmennahúsum í Reykjavík. Hrósar stjórnin ungmennunum í hástert og segir að þau hafi sýnt gott frumkvæði, meðal annars með því að skipa nefnd ungmenna sem ætla í samvinnu með Samfés að skipuleggja næsta landsþing.

Á landsþinginu var rætt hversu mikilvægt það er að taka vel á móti flóttafólki, koma í veg fyrir fordóma með kynningu og fræðslu og tryggja aðgengi fólks að námskeiðum og öðrum nauðsynlegum úrræðum. Segja ungmennin að bæta þurfi alla fræðslu um andlega heilsu ungs fólks á öllum skólastigum og að andleg veikindi verði viðurkennd, sérstaklega með aðkomu ríkisins með niðurgreiðslu á kostnaði. Ungmennin voru sammála um að bæta þurfi enn frekar alla fræðslu um vinnuréttindi ungs fólks og Barnasáttmálann þar sem margir unglingar viti ekki ef brotið er á réttindum þeirra. Einnig vilja þau að íslenska ríkið virði það að börn og unglingar eigi að koma að ákvörðunartöku í öllum málefnum sem snerta ungt fólk.

Dagskrá helgarinnar var fjölbreytt og tóku þátttakendur þátt í hópefli, fræðslu, umræðuhópum, smiðjum og skemmtilegum kvöldvökum. Hópurinn heimsótti Galdrasafnið og heitu pottana á Drangsnesi. Hjálmar Karlsson frá Rauða krossi Íslands og Anna G. Ólafsdóttir framkvæmdarstjóri Geðhjálpar héldu fyrirlestra um hjálparsíma Rauða krossins 1717 og herferðina Útmeða sem beinist að sjálfsvígum og sjálfsskaða.

Sammældust þátttakendur um að raddir ungs fólks skipti mjög miklu máli! Það vilji hafa áhrif og sé ekki sama um samfélagið og framtíð landsins.

annska@bb.is

Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins í kvöld

Oft er mikið fjör á Sólarkaffinu, líkt og þessi mynd frá 2013 ber með sér

Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins verður haldið í kvöld á Grand Hótel Reykjavík. Stjórnin lofar sérlega glæsilegu kvöldi þar sem Ísfirðingar og gestir þeirra koma saman og gera sér glaða stund. Tvírétta matseðillinn innifelur vestfirskt lambalæri og að sjálfssögðu verður einkenni Sólarkaffisins, Kaffi og rjómapönnukaka í eftirrétt. Sérstakir gestir á Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins 2017 verða heiðurshjónin  Siggi Jóh. og Sæa sem hafa verið einstakir stuðningsmenn Ísfirðingafélagins í gegnum árin.

Sólarkaffið er afar vinsæll viðburður meðal brottfluttra Ísfirðinga og sannast það til að mynda á því að seldur er hver einasti miði sem í boði var fyrir kvöldið, en hægt er að koma á ballið. Húsið opnar klukkan 17 og hefst dagskráin klukkan 19. Veislustjóri er Dagný Björk danskennari dóttir Péturs Valdimarssonar og Stefaníu (Nínu) Guðmundsóttur. Mugi-feðgar skemmta báðir gestum. Muggi eða Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarhafna er ræðumaður kvöldsins og sonur hans Örn Elías Guðmundsson eða Mugison spilar og syngur nokkur af sínum bestu lögum. Happdrætti Sólarkaffisins verður á sínum stað og eftir mat og skemmtun verður brostið í dans undir hressum tónum Hússins á sléttunni, með Halldór Smárason og þá Olgeirs bræður úr Bolungarvík í framlínunni.

annska@bb.is

Sinna síður fjarskiptakerfum á landsbyggðinni

Truflunum í almennum radíókerfum hefur fjölgað mjög hér á landi en slíkar truflanir geta haft alvarlegar afleiðingar, jafnvel gert hluta farneta ónothæf og haft áhrif á stóran hóp notenda. Ef um útbreidda truflun er að ræða getur hún haft áhrif á tugi eða hundruð notenda. Póst- og fjarskiptastofnun vaktar slíkar truflanir og grípur til aðgerða þegar þörf er á.

Á vef Póst- og fjarskiptastofnunar kemur fram að fjöldi truflana hefur verið það mikill á undanförnum árum að þrátt fyrir að mannafli og tækjabúnaður í truflanavakt PFS hafi verið aukinn umtalsvert getur stofnunin ekki sinnt viðbrögðum við radíótruflunum að fullu og neyðist til að forgangsraða tilkynningum vegna truflana með tilliti til mikilvægis þeirra kerfa sem fyrir truflun verða. Öryggiskerfi, s.s. vegna flugs, eru t.d. alltaf í forgangi.

Skortur á mannafla og tækjum kemur fyrst og fremst niður á landsbyggðinni. Á vef stofnunarinnar kemur fram að lagfæring á truflun í fjarskiptakerfum úti á landi getur þurft að bíða talsverðan tíma ef hún telst ekki í forgangsflokki.

Það þarf varla að fjölyrða um að radíókerfi eru undirstaða samskipta í nútíma samfélagi og nútímamaðurinn tekur því sem sjálfsögðum hlut að kerfin virki. Þau eru ekki eingöngu notuð í samskiptum milli manna heldur ekki síður í ýmsum samskiptakerfum sem stjórna búnaði, s.s. við flugumsjón, vöktun, boðun (t.d. í heilbrigðisþjónustu og í náttúruvá) og í framleiðslufyrirtækjum. Truflanir í slíku umhverfi geta valdið hættuástandi eða fjártjóni. Það getur því valdið verulegum óþægindum og jafnvel hættu ef ekki er brugðist við truflunum í tæka tíð.

smari@bb.is

Aukafjármagn í ljósleiðaravæðingu

Frá lagningu ljósleiðara á Ströndum. Mynd: strandir.is

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur ákveðið með vísan til markmiða byggðaáætlunar og umsagnar stjórnar Byggðastofnunar að verja allt að 100 milljónum króna úr fjárveitingu byggðaáætlunar til að styrkja sérstaklega uppbyggingu ljósleiðarakerfis í strjálbýlum sveitarfélögum. Þessi fjárveiting kemur til viðbótar 450 m.kr. úthlutun fjarskiptasjóðs til verkefnisins Ísland ljóstengt 2017. Nítján sveitarfélög eiga kost á þessum fjármunum og mest getur komið í hlut Borgarbyggðar, eða 12 milljónir kr. Ísafjarðarbær getur fengið hæsta styrk vestfirskra sveitarfélaga, eða 4,1 milljón kr.

Haraldur Benediktsson, alþingismaður og formaður fjarskiptasjóðs, kynnti verkefnið í samgönguráðuneytinu í dag ásamt Karli Björnssyni, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Ólafi E. Jóhannssyni, aðstoðarmanni ráðherra.

Í ljósi þess að fjárhagur sveitarfélaga er mismunandi hefur verið ákveðið að styrkja samkeppnisstöðu tiltekinna sveitarfélaga gagnvart umsóknum í samkeppnispott fjarskiptasjóðs. Þetta er gert í þeim tilgangi að gera strjálbýlum sveitarfélögum hægara um vik að hefja ljósleiðarauppbyggingu.

Helstu forsendur við úthlutun styrkjanna voru þéttleiki styrkhæfra svæða, hlutfall staða sem eru ótengdir, þróun íbúafjölda árin 2005 til 2015, ferðatími til þjónustukjarna og samgöngur, fjárhagsstaða sveitarfélags og meðaltekjur þess á íbúa. Gefin voru stig út frá þessum forsendum og sveitarfélög með fæst stig lentu efst í forgangsröðun. Óráðstafaður byggðastyrkur getur flust milli ára.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir