Síða 2345

250 unglingar skemmtu sér saman á Hólmavík

Díana Jórunn Pálsdóttir og hljómsveit voru skrautlega klædd er þau fluttu lagið Ég mun ekki gefast upp.

Í lok síðustu viku var mikil gleði hjá vestfirskum og vestlenskum unglingum á Hólmavík þegar SamVest fór þar fram í félagsheimilinu. Þar fór fram söngkeppni félagsmiðstöðva á Ströndum, Reykhólum og  öllu Vesturlandi og mættu nær 250 unglingar á staðinn. Ellefu atriði tóku þátt í keppninni, eða eitt til tvö frá hverri félagsmiðstöð, og voru þau hvert öðru glæsilegra. Með sigur af hólmi fór Bára Sara frá félagsmiðstöðinni Óðal í Borgarbyggð og flutti hún lagið We don’t need to take off our clothes með Ella Eyre. Í öðru sæti var heimafólk úr félagsmiðstöðinni Ozon á Hólmavík þar sem heil hljómsveit, með Díönu Jórunni Pálsdóttur í fararbroddi, flutti lagið Radioactive með Imagine Dragons. Þessi tvö atriði hafa nú tryggt sér keppnisrétt á söngkeppni Samfés sem fer fram í Laugardalshöllinni þann 25. mars.

Kristbergur Ómar Steinarsson, meðlimur í ungmennaráði, var kynnir keppninnar og í dómnefnd sátu Andrea Kristín Jónsdóttir, sveitastýra Strandabyggðar, Kristín Lilja Sverrisdóttir, söngkona og meðlimur í ungmennaráði Strandabyggðar og Íris Björg Guðbjartsdóttir, tónlistarkona og bóndi.

Að keppni lokinni var svo blásið til balls þar sem enginn annar en rapparinn víðfrægi GKR kom fram ásamt því sem DJ Dagur þeytti skífum. Að sögn Estherar Aspar Valdimarsdóttur, tómstundafulltrúa Strandabyggðar fór allt saman afar vel fram og segir hún það ekki síst að þakka vinnuframlagi unglinga í félagsmálavali í Strandabyggð.

annska@bb.is

Lægir er líður á daginn

Stormur ríkir frameftir degi á Vestfjörðum með suðaustan 18-25 m/s, en það dregur úr vindi síðdegis. Rigning verður með köflum og hiti 2 til 7 stig. Suðaustan 8-15 m/s og úrkomulítið seint í kvöld, en hægari á morgun. Kólnar og hiti verður á bilinu 0 til 4 stig á morgun.

Á vef Veðurstofu Íslands er varað við suðaustan roki eða ofsaveðri um landið vestanvert er búist er við vindstyrk allt að 30 m/s fram eftir degi. Hvassast verður við Breiðafjörð og á Norðurlandi Vestra kringum hádegi, en síðdegis lægir talsvert.

Á Vestfjörðum er hálka á Steingrímsfjarðarheiði en hálkublettir á Þröskuldum,  Kleifaheiði og Hálfdáni og einnig á köflum á Ströndum. Óveður er á Kleifaheiði og Ennishálsi.

annska@bb.is

Skýlaus krafa um nýja tekjustofna

Fjórðungssambandið vill að sveitarfélögin fái beinar skatttekjur af fiskeldi.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur samþykkt tillögu um að sambandið taki upp á sína arma umræðu um nýja tekjustofna sveitarfélaga. Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambandsins, segir nauðsynlegt fyrir sveitarfélögin, sem hafa mikla þjónustuskyldu, að þau verji tekjustofna sína og sæki nýja sé þess kostur. „Það er algjörlega borðleggjandi að sveitarfélög eiga rétt á hlutdeild í skattstofnum á fyrirtæki. Enda ekki til það fyrirtæki sem ekki er í sveit sett,“ segir Pétur sem telur eðlilegt að sveitarfélögin fái hlut af fjármagnstekjuskatti. „Það myndi rétta af útsvarsskerðingu vegna ehf-væðingarinnar,“ segir hann.

Það er ekki einvörðungu fjármagnstekjuskattur sem Pétur og stjórn Fjórðungssambandsins telja að sveitarfélögin eigi að fá hlutdeild í. „Það er afar brýnt að sveitarfélögin geri skýlausa kröfu um tekjustofna af eldisuppbyggingunni. Þetta er gott verkefni fyrir Fjórðungssambandið að vinna að enda  miklir hagsmunir í húfi fyrir almenning á Vestfjörðum.“

Stjórnin ætlar að láta vinna minnisblað um þessa nýju tekjustofna og verður minnisblaðið lagt fyrir næsta stjórnarfund. Í framhaldinu ætlar sambandið að taka upp viðræður við stjórnvöld um málið.

smari@bb.is

Hjörtur flutti eigið lag í úrslitaþætti The Voice

Hjörtur á The Voice Ísland sviðinu, skjáskot af mbl.is

Úrslitaþáttur The Voice Ísland fór fram í Atlantic studios á föstudagskvöldið og fylgdust margir með því á skjánum í Sjónvarpi Símans er Karitas Harpa Davíðsdóttir fór með sigur af hólmi í þessari annarri þáttarröð söngkeppninnar. Fyrstu þáttaröðina vann Bolvíkingurinn Hjörtur Traustason og kom hann fram í úrslitaþættinum og söng lag og texta úr eigin smiðju, What a feeling.

Hjörtur segir að hann sé búinn að gera tuttugu útgáfur af laginu sem byrjaði að taka á sig mynd með laglínu árið 2009, er áföll dundu á í lífi Hjartar og segir hann lagið persónulegt og það fjalli um missi og söknuð. Textinn leit svo dagsins ljós á síðasta ári og var lagið frumflutt opinberlega á sviði Atlantic Studios.

Lagið má heyra og sjá flutninginn á því inn á mbl.is. Þar segir Hjörtur jafnframt:  „Þetta lag var það sem ég vildi koma fyrst út. Þetta er búið að vera í hausnum á mér í öll þessi ár og búið að trufla mig að það væri ekki komið út. Svo fór þessi svaðalega vinna af stað, ég vissi ekki að það væri svona mikil vinna að koma út einu lagi!“

annska@bb.is

Flugi aflýst í dag

Ekkert er flogið frá Reykjavíkurflugvelli í morgunsárið vegna þess mikla hvassviðris sem geisar. Búið er að aflýsa bæði morgunflugi sem og síðdegisflugi til Ísafjarðar, en næsta athugun fyrir flug til Akureyrar og Egilsstaða er í athugun klukkan 14:15.

Óveðurslægðin krappa fer hratt hjá skammt fyrir vestan land fyrir og um hádegi. Það hvessir verulega suðvestan- og vestanlands upp úr klukkan 9 og  nær hámarki um hádegi. Reikna má við veðurhæð 23-30 m/s og hviður verða staðbundið allt að 40-50 m/s.  Vestan til á Norðurlandi, allt norður í Skagafjörð  verður einnig foráttuhvasst og verður í hámarki þar á milli kl. 11 og 14.

Á vef vegagerðarinnar er sérstaklega er varað við aðstæðum á Reykjanesbraut á milli kl. 09 og 12, þar sem vindur  þvert á veginn verður 22-25 m/s með hviðum 35 m/s. Slagveðursrigning á sama tíma og vatn í hjólförum.

annska@bb.is

Skíðuðu niður Gullhól

Það var líf og fjör á skíðum um helgina

Á skíðasvæði ísafjarðarbæjar hefur gengið illa að opna brekkur í Tungudal og brugðu starfsmenn á það ráð á laugardag að fara 20 ár aftur í tímann og renna niður frá Gullhól á Seljalandsdal. Brekka sú er frekar löng og hentar öllum aldri að sögn Hlyns Kristinssonar forstöðumanns skíðasvæðisins. Þá voru yngstu iðkendurnir ásamt einhverjum úr eldri hópum SFÍ dregnir upp á sleðum og troðara og haldnar þar tvær æfingar. Það var vel mætt á svæðið og fengu allir kakó eftir að búið var að skíða og milli ferða. Hlynur segir starfsmenn skíðasvæðis hafa verið mjög ánægða með hvernig til tókst og ekki annað að sjá en allir hafi farið sáttir heim með bros á vör eftir þetta ævintýri.

Á skíðagöngusvæðinu á Seljalandsdal var nóg um að vera alla helgina þar sem kvennanámskeiðið „Bara ég og stelpurnar“ fór fram aðra helgina í röð. Veður var gott á svæðinu og margir sem sóttu dalinn sem skartaði sínu fegursta.

Troðarinn hafði í nægu að snúast
Það er alltaf gott að fá sér hressingu að lokinni æfingu

annska@bb.is

Fiskiskipum fækkar

Mynd úr safni

Flest fiskiskip á landinu eru skráð á Vestfjörðum en fiskiskipum á landinu hefur fækkað á milli ára. Á Vestfjörðum voru við lok síðasta árs skráð 396 fiskiskip og hefur þeim fækkað um fimm frá árslokum 2015 er þau voru 401. Alls voru 1.647 fiskiskip á skrá hjá Samgöngustofu í lok árs 2016 og hafði þeim fækkað um 16 frá árinu áður. Fjöldi vélskipa var alls 747 og samanlögð stærð þerra um 94.506 brúttótonn. Vélskipum fækkaði um 9 á milli ára, þar af um tvö á Vestfjörðum, en stærð flotans jókst um 2.439 brúttótonn. Togarar voru alls 43 og fækkaði um þrjá frá árinu á undan, tveir þeirra af Vestfjörðum. Heildarstærð togaraflotans var 52.416 brúttótonn og hefur minnkað um 904 tonn frá árslokum 2015. Opnir fiskibátar voru 857 og 4244 brúttótonn að stærð. Opnum fiskibátum fækkaði um tvo á milli ára og samanlögð stærð minnkaði um 1 brúttótonn.

Flest fiskiskip voru með skráða heimahöfn á Vestfjörðum í árslok 2016, alls 396 skip, en það eru 24% fiskiskipaflotans. Næst flest, alls 294 skip höfðu heimahöfn skráða á Vesturlandi eða 17,8%. Fæst skip voru með skráða heimahöfn á Suðurlandi, 80 alls, en það samsvarar 4,9% af heildarfjölda fiskiskipa. Opnir bátar voru flestir á Vestfjörðum, 232, og á Vesturlandi 167. Fæstir opnir bátar höfðu heimahöfn á Suðurlandi, alls 23. Vélskip voru einnig flest á Vestfjörðum, 160, en fæst á Höfuðborgarsvæðinu, 44 skip. Flestir togarar höfðu skráða heimahöfn á Norðurlandi eystra, alls 9, en 8 togarar á höfuðborgarsvæðinu. Fæstir togarar voru skráðir á Vesturlandi, alls þrír.

Frá þessu var greint á vef Hagstofunnar þar sem nálgast má talnaefni um fiskiskipaflotann.

annska@bb.is

Sveitarfélög fái skatttekjur af fiskeldi

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps leggur mikla áherslu á áform fiskeldisfyrirtækja í Ísafjarðardjúpi hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfi sveitarfélagsins. Í umsögnum sveitarstjórnar um matsáætlanir Háfells ehf., Arnarlax ehf., og Arctic Sea Farm, er farið fram á einstakir viðkvæmir umhverfisþættir verði kannaðir sérstaklega í gerð umhverfismats og leggur sveitarstjórn áherslu á að kanna áhrif laxeldis á laxveiðiár í sveitarfélaginu og að burðarþolsmat Ísafjarðardjúps verði framkvæmt sem fyrst.

Sveitarstjórnin minnir á mikilvægi þess að skipulagsvald sveitarfélaga nái yfir aðliggjandi strandsvæði, firði og flóa og Súðavíkurhreppur telur æskilegt er að skipulag standsjávar nái út að einni sjómílu frá grunnlínu.

Þá vill sveitarstjórn tryggja sveitarfélögum sanngjarna tekjustofna af starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna, hvort sem það er gegnum auðlindargjald eða annað form.

Fyrirtækin þrjú stefna á stórfellt laxeldi í Ísafjarðardjúpi og leyfisumsóknir fyrirtækjanna eru samanlagt upp á 24.400 tonn.

smari@bb.is

Verbúðalífið í máli og myndum

Fábrotið herbergi á verbúð hér í denn.

Fjölmargir Íslendingar kynntust verbúðalífi og verbúðaflakki um og upp úr miðri síðustu öld og fram á níunda áratuginn. Peningalyktin barst úr sjávarplássunum og þangað streymdi unga fólkið, laust og liðugt, í von um skjótan gróða. Á morgun opnar sýning í Gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði um verbúðarlífið. Á sýningunni er verbúðalífi þessa tíma gerð skil með myndum og texta og með hálftíma langri kvikmynd og jafnlöngum útvarpsþætti sem verða endurtekin á hálftíma fresti á heila og hálfa tímanum. Benný Sif Ísleifsdóttir, Fríða Björk Ólafsdóttir og Vala Smáradóttir sáu um gerð sýningarinnar.

„Sumir sáu í fiskvinnslunni tækifæri til að afla á sumarvertíðinni nægilegs fjár til skólans næsta vetur, en aðrir þraukuðu lengur og unnu jafnt sumarvertíðir sem vetrarvertíðir og færðu sig jafnvel milli plássa, frá Eyjum á Eskifjörð og frá Grindavík á Suðureyri. Allt í senn í von um meiri vinnu, meiri pening og meira fjör,“ segir í kynningartexta.

Sýningin verður opnuð á morgun kl. 16. og eru allir velkomnir.

smari@bb.is

9,5% kaupmáttaraukning

Kaup­mátt­ur meðallauna hækkaði um 9,5% árið 2016 miðað við árið á und­an. Kaup­mátt­ar­aukn­ing­in var rúm­lega fimm sinn­um meiri en meðaltal síðasta ald­ar­fjórðungs, sem er 1,8% hækk­un á ári. Þetta kem­ur fram í Hag­sjá hag­fræðideild­ar Lands­bank­ans. Laun í land­inu hækkuðu að meðaltali um 11,4% milli ár­anna 2015 og 2016 og hef­ur launa­vísi­tal­an ekki hækkað meira síðastliðinn ald­ar­fjórðung.

Meðal­hækk­un launa­vísi­tölu á tíma­bil­inu 1990-2016 var 6,5% sem er veru­lega meira en ger­ist í ná­læg­um lönd­um, seg­ir Lands­bank­inn.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir