Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2345

Þegar árið og jólin voru kvödd

Hér má nálgast upptökur af brennunni á Ísafirði á gamlárskvöld, þá var fjöldi fólks samankomin að kveðja árið, fallegur söngur og stórkostleg flugeldasýning.

Þingeyringar skemmtu sér saman á þrettándanum, sumir klæddir í búninga en hefð er fyrir því að börn gangi í hús á þrettándanum og þiggi góðgæti. Með þessari frétt fylgir myndband af skemmtun þeirra Dýrfirðinga og stutt myndbrot sem sýnir hvað gerist þegar drukkinn, miðaldra karlmaður hefur flugelda undir höndum. Má það teljast mikil lukka að ekki hlaust af stórtjón.

Og að lokum er upprifun úr BB sjónvarpi, upptaka af blysgöngu Flateyringa á gamlárskvöld 2012.

Brennan á Ísafirði

https://vimeo.com/201542449

 

Hættuspil á Þingeyri

https://vimeo.com/201668517

 

Úr safni BB sjónvarps, gamlárskvöld á Flateyri 2012

https://vimeo.com/56649613

 

bryndis@bb.is

 

338 þúsund íbúar

Alls bjuggu 338.450 manns á Íslandi, 171.110 karl­ar og 167.330 kon­ur, í lok síðasta árs. Lands­mönn­um fjölgaði um 840 á fjórða árs­fjórðungi. Á höfuðborg­ar­svæðinu bjuggu 216.940 manns en 121.500 utan þess, seg­ir í frétt á vef Hag­stofu Íslands.

Á 4. árs­fjórðungi 2016 fædd­ust 940 börn, en 590 ein­stak­ling­ar lét­ust. Á sama tíma flutt­ust 470 ein­stak­ling­ar til lands­ins um­fram brott­flutta, af þeim voru flest­ir á þrítugs­aldri (160). Aðflutt­ir ein­stak­ling­ar með ís­lenskt rík­is­fang voru 60 um­fram brott­flutta og var ald­urs­skipt­ing þeirra nokkuð jöfn. Aðflutt­ir er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar voru 410 fleiri en þeir sem flutt­ust frá land­inu og voru 150 af þeim á þrítugs­aldri.

Dan­mörk var helsti áfangastaður brott­fluttra ís­lenskra rík­is­borg­ara en þangað flutt­ust 140 manns á 4. árs­fjórðungi. Til Dan­merk­ur, Nor­egs og Svíþjóðar flutt­ust 300 ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar af 570 alls. Af þeim 1.700 er­lendu rík­is­borg­ur­um sem flutt­ust frá land­inu fóru flest­ir til Pól­lands, 690 manns.

Flest­ir aðflutt­ir ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar komu frá Dan­mörku (210), Nor­egi (170) og Svíþjóð (70), sam­tals 450 manns af 640. Pól­land var upp­runa­land flestra er­lendra rík­is­borg­ara en þaðan flutt­ust 800 til lands­ins af alls 2.110 er­lend­um inn­flytj­end­um. Lit­há­en kom næst, en þaðan flutt­ust 210 er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar til lands­ins. Í lok fjórða árs­fjórðungs bjuggu 30.380 er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar á Íslandi.

smari@bb.is

Brandari hjá Viðskiptaráði

Hrafnseyrarkirkja.

Viðskiptaráð bauð upp á brandara dagsins þegar það lagði til í síðustu viku að ríkið seldi kirkjuna á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Í bréfi sem Hreinn Þórðarson, formaður sóknarnefndar og Hallgrímur Sveinsson, fv. formaður sóknarnefndar, skrifa á Þingeyrarvefinn kemur fram að ríkissjóður eigi ekkert í krikjunni, „hvorki spýtu né nagla!“

Þá kemur einnig fram að kirkjan hafi verið í eigu Hrafnseyrarsafnaðarins frá því síðla árs árið 1910, þegar séra Böðvar Bjarnason sóknarprestur og kirkjuhaldari á Hrafnseyri afhenti söfnuðinum kirkjuna til eignar og varðveislu. Söfnuðurinn hafi síðan þá alfarið séð um kirkjuna og kirkjugarðinn sjálfur. Hrafnseyrarnefndin hafi stundum lagt hönd á plóg með viðhald á kirkju og garði á meðan hún starfaði.

smari@bb.is

Hvurra manna er Óttar Proppe

Óttar Proppe Mynd: Alþingi

Fyrst er innt eftir nafni en í kjölfarið eftir starfi og ætterni og ekki þykir okkur verra ef hægt er að tengja fyrirmenni vestur á firði. Það er skemmst að minnast fréttar um að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir innanríkisráðherra ætti ættir sínar að rekja á Vestfirði. Nú hefur vefur Reykhólasveitar rakið ættir Óttars Proppe heilbrigðisráðherra og komið hefur í ljós að Pétur afi Óttars var bróðir Kalla á Kambi. En Kalli á Kambi var landpóstur á leiðinni milli Króksfjarðarness og Brjánslækjar 1931-1946 og 1946-1952. Og á Kambi býr enn Kalli á Kambi, barnabarn landpóstsins Karls Árnasonar

Nánar má fræðast og ættir og uppruna Óttars á vef Reykhólahrepps.

bryndis@bb.is

Aron Ottó sigraði í Vox Domini

Aron Ottó að keppni lokinni með kennara sínum Ingunni Ósk Sturludóttur

Hinn ungi og efnilegi bassasöngvari Aron Ottó Jóhannsson bar sigur úr býtum í miðstigsflokki söngkeppninnar Vox Domini sem fram fór um helgina. Keppnin sem haldin er af FÍS, Félagi íslenskra söngkennara hófst á föstudag með forkeppni, á laugardag fóru svo fram undanúrslit og þeir söngvarar sem komust upp úr þeim kepptu í úrslitakeppninni sem fram fór í gær. Fjöldi fólks mætti á úrslitakeppnina sem fram fór í Salnum í Kópavogi þar sem keppt var í þremur flokkum; miðstigsflokki, framhaldsflokki og opnum flokki.

Aron Ottó sigraði sinn flokk þar sem öttu kappi söngnemendur sem lokið hafa grunnprófi. Í opnum flokki sigraði Gunnar Björn Jónsson, í framhaldsflokki sigraði Ari Ólafsson og þá var Rödd ársins valin, sem er Marta Kristín Friðriksdóttir. Aron Ottó stundar söngnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar undir handleiðslu Ingunnar Óskar Sturludóttur.

annska@bb.is

Einstakur refilsaumur í Laugarborg

Einstök sýning á yfir 300 refilsaumuðum veggmyndum verður opnuð í Tónlistarhúsinu Laugarborg í Eyjafjarðarsveit á laugardag. Meðal þeirra sem að sýningunni koma er dýrfirski rithöfundurinn Vilborg Davíðsdóttir. Sýningin sem ber yfirskriftina Scottish Diaspora Tapestry segir sögu Skota sem hafa flust til annarra landa í gegnum aldirnar og afrekum þeirra. Veggmyndirnar eru saumaðar af afkomendum skoskra innflytjenda í 33 löndum og hefur sýningin verið á ferð á milli þeirra sl. tvö ár. Við hana munu nú bætast fimm myndir frá Íslandi sem segja sögu systranna Þórunnar hyrnu og Auðar djúpúðgu Ketilsdætra sem komu hingað til lands með fjölskyldur sínar frá Skotlandi á níundu öld.

Íslenska verkefninu er stýrt af Bryndísi Símonardóttur fjölskylduþerapista og handverkskonu í Eyjafjarðarsveit. Bryndís teiknaði altarisdúk fyrir Hóladómkirkju og óf, teiknaði og saumaði altarisdúk í Saurbæjarkirkju. Myndirnar fimm eru teiknaðar af Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur teiknara og rithöfundi sem hannaði og teiknaði Njálurefilinn, hannaði og stjórnaði teiknivinnu við Vatnsdælu á refli og leiddi refilverkefni um Darraðarljóð í Caithness á Skotlandi. Sögulegur ráðgjafi við hönnun veggmyndanna er Vilborg Davíðsdóttir þjóðfræðingur og rithöfundur sem skrifað hefur um líf landnámskonunnar Auðar djúpúðgu í tveimur skáldsögum, Auði og Vígroða, og vinnur nú að þeirri þriðju sem kemur út í haust.

Gestir á sýningunni í Laugarborg geta fengið að sjá hvernig saumaskapurinn fer fram. Allar veggmyndir Scottish Diaspora Tapestry eru saumaðar af fjölda fólks í hinum ýmsu löndum og munu fimm konur í Eyjafirði sauma landnámskvennamyndirnar. Að verki loknu bætast myndirnar af Þórunni og Auði við heildarsýninguna sem mun hafa fast aðsetur í sérsmíðuðu sýningarhúsnæði í bænum Prestonpans í Skotlandi en þar var háð söguleg orrusta í uppreisn Jakobíta gegn ensku konungsvaldi árið 1745.

Sýningin í Laugarborg stendur yfir alla daga 4.-26. febrúar, opið er daglega frá klukkan 14 til 18.

annska@bb.is

Elfa Svanhildur Hermannsdóttir nýr forstöðumaður FRMST

Stjórn Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða hefur valið Elfu Svanhildi Hermannsdóttur úr hópi tólf umsækjenda í starf  forstöðumanns stofnunarinnar og stefnt er að því að ganga frá ráðningu hennar síðar í vikunni. Elfa Svanhildur er þjónustustjóri hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Hún er með B.ed próf frá Kennaraháskóla Íslands, MPM meistaragráðu í verkefnastjórnun og diplómagráður í sérkennslufræðum blindra og sjónskertra nemenda og stjórnun menntastofnana.

Efla Svanhildur er fædd árið 1979. Hún er í sambúð með Frey Heiðari Guðmundssyni og eiga þau þrjár dætur, fæddar 2010, 2012 og 2016.

annska@bb.is

Sameinast um eitt vörumerki

Starfsstöð Skagans 3X á Ísafirði.

Fyrirtækin Skaginn, 3X Technology og Þorgeir & Ellert verða hér eftir kynnt undir einu sameiginlegu vörumerki, Skaginn 3X. Fyrirtækin, sem eru staðsett á Akranesi, Ísafirði og Reykjavík, hafa verið í miklum vexti á síðustu árum og verið áberandi með tækninýjungar á sviði matvælaiðnaðar, sérstaklega í sjávariðnaði.

„Þessar breytingar eru fyrst og fremst hugsaðar til þess að einfalda og sameina markaðsstarf fyrirtækjanna og auðvelda samskipti við viðskiptavini. Undir einu merki skapast sterkari vitund um starf okkar og þær vörur sem við framleiðum. Þannig getum við hagrætt í markaðsstarfi og gert það enn árangursríkara, ásamt því að styrkja stöðu og sérkenni starfsstöðvanna“ segir Ingólfur Árnason framkvæmdarstjóri Skaginn 3X í fréttatilkynningu.

Þær vörur sem Þorgeir og Ellert selur á erlendum mörkuðum hafa lengi verið markaðssettar undir nafni Skagans. Samstarf milli Skagans og 3X Technology efldist árið 2014 þegar eignarhald fyrirtækjanna sameinaðist að hluta.

„Samvinna okkar hefur gefist vel og við horfum björtum augum til framtíðar. Okkar bíða stór og spennandi verkefni á alþjóðavísu, mörg hver byltingarkennd fyrir markaðinn. Þó starfsemi fyrirtækjanna verði sameinuð undir einu merki, þá viljum við halda í sérþekkingu og einkenni hverrar starfstöðvar fyrir sig og fyrirtækin þrjú munu áfram starfa sem sjálfstæðar rekstrareiningar“ segir Karl Ásgeirsson, rekstrarstjóri Skaginn 3X á Ísafirði.

Í tilefni af sameinuðu merki félaganna, þá var ný sameiginleg heimasíða sett í loftið til að kynna betur vörur félaganna og auðvelda samskipti við markaðinn, http://skaginn3x.com/.

smari@bb.is

Hvassviðri í nótt

Það verður hægt vaxandi austanátt á Vestfjörðum í dag og dregur úr frosti. Það bætir í vind þegar líður á daginn og seint í kvöld verður norðaustan 10-18 m/s og lítilsháttar snjókoma, en hvassviðri eða stormur, 15-23 m/s og rigning eða slydda í nótt. Hægari og úrkomuminna á morgun, 5-13 m/s seint annað kvöld. Hiti verður á bilinu 2 til 6 stig.

Hálka er á flestum vegum á Vestfjörðum

annska@bb.is

MÍ mætir VA í Gettu betur

Lið MÍ sem komst í sjónvarpshluta Gettu betur á síðasta ári. Kolbeinn (lengst t.v.) er einnig í liðinu sem keppir í kvöld

Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna hefst á Rás 2 í kvöld og er það lið Menntaskólans á Ísafirði sem ríður á vaðið í fyrstu viðureigninni þar sem lið skólans mætir liði Verkmenntaskóla Austurlands. Lið MÍ skipa þau Ína Guðrún Gísladóttir, Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson og Veturliði Snær Gylfason. Útsending á Rás 2 hefst klukkan 19:25. Spyrill er Björn Bragi Arnarson, spurningahöfundar og dómarar eru þau Bryndís Björgvinsdóttir og Steinþór Helgi Arnsteinsson.

Þetta er í þrítugasta og annað sinn sem Gettu betur er haldin. Tuttugu og fimm skólar taka þátt að þessu sinni en átta lið fara áfram í lokakeppnina sem hefst í sjónvarpi þann 24.febrúar nk. Liði MÍ hefur aldrei gengið jafn vel í keppninni og á síðasta ári er það komst áfram í lokaumferðina í sjónvarpinu en lét það þar í minni pokann fyrir liði Menntaskólans við Hamrahlíð. Liðið í ár stefnir að sjálfsögðu að því marki að komast í lokaumferðina.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir