Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2345

Sameinast um eitt vörumerki

Starfsstöð Skagans 3X á Ísafirði.

Fyrirtækin Skaginn, 3X Technology og Þorgeir & Ellert verða hér eftir kynnt undir einu sameiginlegu vörumerki, Skaginn 3X. Fyrirtækin, sem eru staðsett á Akranesi, Ísafirði og Reykjavík, hafa verið í miklum vexti á síðustu árum og verið áberandi með tækninýjungar á sviði matvælaiðnaðar, sérstaklega í sjávariðnaði.

„Þessar breytingar eru fyrst og fremst hugsaðar til þess að einfalda og sameina markaðsstarf fyrirtækjanna og auðvelda samskipti við viðskiptavini. Undir einu merki skapast sterkari vitund um starf okkar og þær vörur sem við framleiðum. Þannig getum við hagrætt í markaðsstarfi og gert það enn árangursríkara, ásamt því að styrkja stöðu og sérkenni starfsstöðvanna“ segir Ingólfur Árnason framkvæmdarstjóri Skaginn 3X í fréttatilkynningu.

Þær vörur sem Þorgeir og Ellert selur á erlendum mörkuðum hafa lengi verið markaðssettar undir nafni Skagans. Samstarf milli Skagans og 3X Technology efldist árið 2014 þegar eignarhald fyrirtækjanna sameinaðist að hluta.

„Samvinna okkar hefur gefist vel og við horfum björtum augum til framtíðar. Okkar bíða stór og spennandi verkefni á alþjóðavísu, mörg hver byltingarkennd fyrir markaðinn. Þó starfsemi fyrirtækjanna verði sameinuð undir einu merki, þá viljum við halda í sérþekkingu og einkenni hverrar starfstöðvar fyrir sig og fyrirtækin þrjú munu áfram starfa sem sjálfstæðar rekstrareiningar“ segir Karl Ásgeirsson, rekstrarstjóri Skaginn 3X á Ísafirði.

Í tilefni af sameinuðu merki félaganna, þá var ný sameiginleg heimasíða sett í loftið til að kynna betur vörur félaganna og auðvelda samskipti við markaðinn, http://skaginn3x.com/.

smari@bb.is

Hvassviðri í nótt

Það verður hægt vaxandi austanátt á Vestfjörðum í dag og dregur úr frosti. Það bætir í vind þegar líður á daginn og seint í kvöld verður norðaustan 10-18 m/s og lítilsháttar snjókoma, en hvassviðri eða stormur, 15-23 m/s og rigning eða slydda í nótt. Hægari og úrkomuminna á morgun, 5-13 m/s seint annað kvöld. Hiti verður á bilinu 2 til 6 stig.

Hálka er á flestum vegum á Vestfjörðum

annska@bb.is

MÍ mætir VA í Gettu betur

Lið MÍ sem komst í sjónvarpshluta Gettu betur á síðasta ári. Kolbeinn (lengst t.v.) er einnig í liðinu sem keppir í kvöld

Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna hefst á Rás 2 í kvöld og er það lið Menntaskólans á Ísafirði sem ríður á vaðið í fyrstu viðureigninni þar sem lið skólans mætir liði Verkmenntaskóla Austurlands. Lið MÍ skipa þau Ína Guðrún Gísladóttir, Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson og Veturliði Snær Gylfason. Útsending á Rás 2 hefst klukkan 19:25. Spyrill er Björn Bragi Arnarson, spurningahöfundar og dómarar eru þau Bryndís Björgvinsdóttir og Steinþór Helgi Arnsteinsson.

Þetta er í þrítugasta og annað sinn sem Gettu betur er haldin. Tuttugu og fimm skólar taka þátt að þessu sinni en átta lið fara áfram í lokakeppnina sem hefst í sjónvarpi þann 24.febrúar nk. Liði MÍ hefur aldrei gengið jafn vel í keppninni og á síðasta ári er það komst áfram í lokaumferðina í sjónvarpinu en lét það þar í minni pokann fyrir liði Menntaskólans við Hamrahlíð. Liðið í ár stefnir að sjálfsögðu að því marki að komast í lokaumferðina.

annska@bb.is

Vísitala neysluverðs lækkar

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í janúar 2017 er 436,5 stig (maí 1988=100) og lækkar um 0,57% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 388,0 stig og lækkaði hún um 1,20% frá desember 2016. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands og segir þar jafnframt að nú séu vetrarútsölur víða í gangi og hafi verð á fötum og skóm lækkað um 10,0% (áhrif á vísitölu -0,42%), verð á húsgögnum og heimilisbúnaði lækkað um 10,3% (-0,15%) og verð á raftækjum lækkað um 14,9% (-0,11%). Verð á nýjum bílum lækkaði um 3,4% (-0,20%) og flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 12,2% (-0,13%).

Kostnaður við búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði hins vegar um 1,3% (0,22%) og verð á bensíni og olíum hækkaði um 3,8% (0,14%) milli mánaða. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,9% en vísitalan án húsnæðis hefur lækkað um 0,9%.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í janúar 2017, sem er 436,5 stig, gildir til verðtryggingar í mars 2017. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 8.619 stig fyrir mars 2017.

annska@bb.is

Safna fyrir hjartastuðtækjum

Í síðustu söfnun var safnað fyrir sjúkrarúmi á HVEST á Patreksfirði sem afhent var í desembermánuði

Samskotasjóðurinn Stöndum saman Vestfirðir hefur hleypt af stokkunum næstu söfnun sinni og í þetta sinn verður safnað fyrir þremur hjartastuðtækjum. Tækin fara í lögreglubíla á Vestfjörðum, eitt á Hólmavík, annað á Patreksfjörð og Ísafjörð. Á þeim stöðum eru tveir lögreglubílar á hverri stöð en aðeins er hjartastuðtæki í öðrum bílnum. Aðstandendur söfnunarinnar segja aukið öryggi skapast við að hafa alla bíla útbúna hjartastuðtækjum, sem nýtist Vestfirðingum öllum og gestum þeirra.

Þetta er þriðja söfnun sjóðsins, en fyrst var safnað fyrir tækjum fyrir HVEST á Ísafirði og svo safnað fyrir sjúkrarúmi fyrir HVEST á Patreksfirði. Minna aðstandendur á að margt smátt gerir eitt stórt og við höfum fulla trú á því að við getum þetta þegar við stöndum öll saman.

Fyrir áhugasama um að leggja söfnuninni lið eru reikningsupplýsingar félagsins eftirfarandi: Kt. 410216-0190 Banki 156-26-216

annska@bb.is

Sýnir Gretti á Hjaltlandseyjum

Kappinn Grettir í meðförum Elfars Loga Hannessonar leggst nú í víking að nýju, er einleikurinn verður sýndur á Hjaltlandseyjum um helgina. Þar á bæ fer fram um helgina málþing sem kallast Follow the Vikings. Það er Evrópuverkefni þar sem aðilar víðsvegar úr álfunni, sem eiga það sameiginlegt að vinna á einn eða annan hátt með víkingaarfinn, koma saman til að kynna sig og kynnast öðrum.

„Þegar svona spennandi boð eins og það að fá að fara til Hjaltlandseyja með list sina þá segir maður náttlega ekki nei – svo við leggjum bara í hann og hlökkum mikið til.“ Segir Elfar Logi, en með honum í för verður eiginkona hans Marsibil Kristjánsdóttir og verða þau bæði einnig með erindi á málþinginu. Elfar logi verður með erindi fyrir hönd Kómedíuleikhússins, þar sem hann segir frá því hvernig nýta má Íslendingasögurnar við listsköpun og þá einkum hvernig breyta má þeim í leikrit. Marsbil mun kynna Gíslasögu-verkefni þeirra hjóna er þau eru að vinna að í gamla félagsheimilinu í Haukadal, en fyrsti áfangi þess opnar í sumar.

Von er á um 50 manns á málþingið, þar á meðal eru nokkrir íslenskir ferðaþjónar. Elfar Logi segist spenntur fyrir ferðinni og þá sér í lagi því tengslaneti sem þátttaka í málþingi sem þessu kann að veita: „Það mikilvægasta er þetta mingl á milli manna svo úr verður samstarf millum víkinga og landa, við vonumst til að geta bæði stolið hugmyndum fyrir okkar verkefni sem og myndað góð tengsl við aðra, fara jafnvel í samstarf, allt getur gerst á eyjum eins og við vitum, og hvað þá þegar víkingar koma saman.“

Hér má lesa meira um Follow the Vikings.

annska@bb.is

Íþróttaandinn

Hrafnhildur Hanna skiptir um treyju við Huldu Dís, systur sína, undir lok leiksins gegn Haukum. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Á dögunum mættu Haukar á Selfoss til að etja þar kappi í handknattleik en laut í parket fyrir heimamönnum með 25 mörkum gegn 28. Það væri ekki á frásögur færandi nema fyrir það að rétt fyrir lok leiks rífur Haukastúlkan María Karlsdóttir keppnistreyju Selfossstúlkunnar Hrafnhildar Hönnu Þrastardóttir sem brá á það ráð að skýla nekt sinni með nýrri treyju þessar tvær mínútur sem eftir lifðu leiks.

Flestum þætti nú mannasiðir að Haukastúlkur bæðu afsökunar á hegðun sinni en það er öðru nær, þær hafa kært Selfossliðið vegna þess að áðurnefnd Hrafnhildur Hanna hafi spilað í tvær mínútur í treyju númer þrjú en ekki fjögur, eins og stendur á leikskýrslu !!

Þetta kemur fram í frétt hjá Sunnlenska fréttablaðinu og þar kemur sömuleiðis fram að kæra Hauka hafi komið Magnúsi Matthíassyni, formanni handknattleiksdeildar Selfoss, í opna skjöldu og á hann bágt með að sjá að treyjuskiptin hafi haft áhrif á gang leiksins.

bryndis@bb.is

 

Skartaði glæsilegum bolvískum búningi í forsetaboði

Svanborg í góðum félagsskap með forseta vorum Guðna Th. Jóhannessyni

Bolvíkingurinn Svanborg Þóra Kristinsdóttir var sérlega glæsileg í boði sem forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og kona hans Eliza Reid buðu til í menningarhúsinu við Norðurbryggju í Kaupmannahöfn í fyrrakvöld. Svanborg skartaði þar fallegum íslenskum upphlut og vakti mikla athygli fyrir glæsileika, en hún var eina konan sem var í íslenskum þjóðbúningi í samkvæminu. Búningurinn á sér langa sögu, hann kemur upphaflega frá langömmu Svanborgar Ingunni Guðlaugu Valmaríu Jóhannsdóttur frá Bolungarvík. Hún ætlaði búninginn svo sonardóttur sinni, Ingunni Hávarðardóttur og var amma Svanborgar, Sóley Magnúsdóttir búin að ákveða að Svanborg fengi síðan búninginn, en íslenskir búningar hafa í gegnum tíðina oft verið einhverjir dýrmætustu erfðagripirnir innan fjölskyldna.

Elstu hlutar búningsins nálgast brátt 150 ára aldur, en gullið og beltið er frá árinu 1870. Búningurinn hefur verið notaður af konum í ættinni en síðustu ár hefur hann verið í vörslu Svanborgar sem búsett er í Danmörku. Hún segist þar hafa fengið mörg tækifæri til að skarta búningnum en hún starfar sem upplýsingafulltrúi og verslunarstjóri í Nordatlantisk Hus í Óðinsvéum, meðal annars er hún var eitt sinn fjallkona í Óðinsvéum á 17.júní.

Svanborg segir í spjalli við Smartland að hinn nýi forseti Íslendinga hafi átt kvöldið og heillað alla upp úr skónum og geti Íslendingar sannarlega verið stoltir af honum. Segir hún aðkomu hans hafa staðið upp úr öðru þetta kvöld og nefnir sértaklega hversu vel máli farinn forsetinn sé og góður ræðumaður.

Svanborg var sérlega glæsileg í íslenskum upphlut. Mynd: mbl.is/Golli

annska@bb.is

Allir lesa hefst í dag

Allir lesa – landsleikur í lestri, hefst í dag. Átakið sem haldið er af Miðstöð íslenskra bókmennta og Reykjavík Bókmenntaborg Unesco, í samstarfi við Heimili og skóla, Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, gengur út á það að skrá lestur á einfaldan hátt. Er þetta í þriðja sinn sem landsleikurinn er haldinn og stendur hann frá og með deginum í dag til 19. febrúar. Keppt er í liða – og einstaklingskeppni og er þetta í fyrsta sinn sem keppt er í hinu síðarnefnda, en einstaklingar geta þó bæði skráð sig til leiks undir þeim flokki sem og með hópi. Í keppninni er mældur sá tími sem varið er í lestur og í lokin eru sigurlið heiðruð með verðlaunum og viðurkenningum, svo og sá einstaklingur sem ver mestum tíma í lestur á tímabilinu.

Allar tegundir bóka eru gjaldgengar. Það skiptir ekki máli hvernig bækur þú lest eða hvort þú lest prentaðan texta, rafbók eða hljóðbók. Hér er átt við allar bækur sem innihalda til dæmis skáldskap, fræði, skýrslur eða eitthvað allt annað.

Allir geta myndað lið, til dæmis vinnustaðir, saumaklúbbar, vinahópar eða fjölskyldur. Foreldrar sem lesa fyrir ung börn sín eru sérstaklega hvattir til að mynda lið með börnunum og skrá lesturinn. Einn aðili, liðsstjórinn, stofnar lið inni á vefnum og bætir öðrum liðsmönnum í liðið, eða aðrir liðsmenn bætt sér í liðið sjálfir.

Skráning fer fram inn á http://allirlesa.is/

annska@bb.is

Ekki kom til verkfalls

Ef að veður leyfir verður flogið á milli landshluta í dag og næstu daga, en útlit var fyrir að það gæti orðið röskun á flugi er fyrirhugað var að verkfall flugfreyja hæfist í dag og stæði fram á mánudag, hefði það haft áhrif á flugferðir um 1500 farþega. Á tólfta tímanum í gærkvöldi var skrifað undir kjarasamning á minni Flugfreyjufélags Íslands og Flugfélags Íslands og fer sá samningur í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum í næstu viku. Flugfreyjur hafa verið samningslausar í rúmt ár og á þeim tíma í tvígang fellt kjarasamninga, en Sturla Bragason, formaður samninganefndar Flugfreyjufélagsins, segir í samtali við RÚV bjartsýnn á að nýi samningurinn verði samþykktur.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir