Síða 2345

Meðalneminn kostar 1,7 milljón

Meðal­rekstr­ar­kostnaður á hvern nem­anda í grunn­skól­um lands­ins, sem eru rekn­ir af sveitarfélögunum, er 1.749.062 krón­ur í fe­brú­ar 2017. Þetta kem­ur fram í nýj­um töl­um Hag­stofu Íslands. Hag­stof­an hef­ur áætlað meðal­rekstr­ar­kostnað á hvern nem­anda í öll­um grunn­skól­um undanfar­in ár en meðalrekstr­ar­kostnaður á hvern nem­anda í grunn­skól­um árið 2015 var 1.651.002 krón­ur og veg­in meðal­verðbreyt­ing rekstr­ar­kostnaðar frá 2015 til fe­brú­ar 2017 er áætluð 5,9%.

smari@bb.is

Vilja setja sundlaugarmál í íbúakosningu

Tillaga Kanon arkitekta hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppninni.

Í-listinn vill vinna að því að íbúar Ísafjarðarbæjar geti með rafrænni íbúakosningu tekið þátt í ákvörðun um hvort farið verði í endurbyggingu Sundhallar Ísafjarðar. Fram að kosningu ætlar bærinn að kynna betur vinningstillögu Kanon arkitekta sem kunngjörð var í síðustu viku og hvaða atriði í tillögunni mætti gera með öðrum hætti.  Einnig þurfi að liggja fyrir hver annar kostnaður verður vegna Sundahallarinnar sem ekki tengjast vinningstillögunni með beinum hætti. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, skrifar á Facebook að kostnaður við viðhald á ytra byrði Sundhallarinnar sé dæmi um þetta. „Viðhald á ytra byrði þarf hvort eð er að fara fram ef ekki á að rífa Sundhöllina. Það virðist nokkuð ljóst að almenningur vilji alls ekki rífa þessa merkilega byggingu,“ skrifar Gísli Halldór.

Þá liggur fyrir að skoða þarf kostnað við endurnýjun á laugarbúnaði og bæjarstjórinn segir það ótvírætt að annaðhvort þurfi að enurnýja laugarbúnað eða loka sundlauginni.

Gísli Halldór segir að mikill þrýstingur sé á Ísafjarðarbæ að finna framtíðarhúsnæði fyrir líkamsræktaraðstöðu og þriðja hæð Sundhallarinnar gefur vissulega möguleika á því en þá þurfi að útfæra hvort það verkefni verði selt út í heilu lagi til einkaaðila eða hvort bærinn taki með einhverjum hætti þátt í því.

„Ef ekki á að rífa Sundhöllina og ekki á heldur að endurnýja laugarbúnað og búningsklefa þá þarf að finna byggingunni annað hlutverk og gera breytingar til að aðlaga hana að því hlutverki. Það mun áreiðanlega líka kosta mikinn pening,“ skrifar bæjarstjórinn að lokum.

smari@bb.is

Nemendur og foreldrar takast á um hvort djammið sé snilld

Emmsjé Gauti daginn eftir djamm. Samsett mynd: nutiminn.is

Foreldrar menntaskólanema mæta ræðuliði Menntaskólans á Ísafirði í spennandi æfingaviðureign í gryfju MÍ á miðvikudagskvöldið. Þar mun væntanlega reyna á bæði lið er þau takast á um umræðuefnið „Djammið er snilld, þynnkan er lífsstíll!“ Þar sem foreldrar tala fyrir því, en nemendur gegn.

Ræðulið skólans skipa þau Hákon Ernir Hrafnsson, Ingunn Rós Kristjánsdóttir, Veturliði Snær Gylfason og Þórður Alexander Úlfur Júlíusson og voru þau öll að Hákoni undanskildum í ræðuliði skólans síðasta vetur. Það eru engir aukvisar fengnir til að reyna á getu nemendanna, en í foreldraliðinu eru séra Fjölnir Ásbjörnsson, Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir, sjúkraþjálfari og framkvæmdastjóri HSV og Svavar Þór Guðmundsson, kerfisstjóri.

Ræðukeppnin fer fram í gryfju MÍ klukkan 20 á miðvikudagskvöldið og eru nemendur skólans og foreldrar sérstaklega hvattir til að mæta. Á meðfylgjandi mynd sem birtist á Nútímanum má sjá samansafn af þynnkumyndum af rappstjörnunni Emmsjé Gauta þar sem hann hafði tekið saman lífið eftir djamm.

Ræðulið M.Í. undirbýr sig fyrir keppni í 8 liða úrslitum Morfís og mun skólinn mæta Menntaskólanum að Laugarvatni í heimaleik þann 16.febrúar.

annska@bb.is

Endurmenntun í verkfallinu

Skipstjórnarmenn HG kampakátir með prófskírteinin.

Skipstjórar og stýrimenn á skipum Hraðfrystihússins-Gunnvarar útskrifuðust fyrir helgi úr 150 stunda námsbraut Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða sem nefnist Sterkari starfsmaður – upplýsingatækni og samskipti“. Skipstjórnarmennirnir nýta þannig tímann í sjómannaverkfallinu á uppbyggilega hátt, en þeir eru ekki í verkfalli ólíkt hásetum.

Sterkari starfsmaður – upplýsingatækni og samskipti er ætlað fólki á vinnumarkaði sem vill auka færni sína til að takast á við breytingar í starfi og stuðla að jákvæðu viðhorfi námsmanna til starfa, nýjunga, upplýsingatækni, samskipta og símenntunar og gera þá eftirsóknarverðari starfsmenn.

 Þetta var yfirgripsmikið og fjölbreytt nám. Upphaflega var megináherslan lögð á aukna tölvufærni í Word, Excel, Outlook. Samhliða því var komið inn á leiðtogafærni, mannauðsstjórnun og vinnustaðamenningu. Farið var yfir virðiskeðjuna þar sem rætt var um meðferð afla og gæðastjórnun. Einnig voru fyrirlestrar frá Hafrannsóknastofnun um veiðarfæri, atferli fiska og hafstrauma í kringum landið.

smari@bb.is

Lokuð kvíakerfi óraunhæf

Eggið sem Marine Harvest er með í skoðun.

Ekki er raunhæft að skilyrða fiskeldisleyfi á Íslandi við lokaðar kvíar eða eldi á geldlaxi. Þar ræður að tæknin er enn á tilraunastigi og ekki komin í notkun í háþróuðustu fiskeldislöndunum. Þetta er mat Höskuldar Steinarssonar, framkvæmdastjóra Landssambands fiskeldisstöðva, en rætt er vði hann í fréttaskýringu Morgunblaðsins í dag. Umhverfisstofnun telur að eldisfyrirtæki ættu í matsáætlunum sínum að fjalla um möguleika á notkun geldfisks og einnig möguleika á notkun lokaðra eldiskvía í mati á umhverfisáhrifum nýrra staðsetninga.

Höskuldur tekur fram að margir fiskeldismenn bindi vonir við þróun nýrrar tækni – eins og lokaðra kvóa. Enn sé þó langt í land með að þær verði raunhæfur kostur.

Í Morgunblaðinu er einnig rætt við Guðmund Val Stefánsson, fiski- og sjávarlíffræðing. Hann telur það misskilning að lokaðar kvíar sem nú eru í þróun erlendis komi í veg fyrir slysasleppingar. Þótt fiskurinn sé í lokuðu kerfi þurfi til dæmis að koma honum í viðkomandi kví og taka hann aftur úr henni til slátrunar. Það er stór aðgerð, að hans sögn. Guðmundur segir að tilgangur með slíkum búnaði sé fyrst og fremst að loka eldislaxinn frá laxalús og kom böndum á sjúkdómum. Lúsin hefur verið mikið vandamál í norsku laxeldi, en enn sem komið er hefur hún lítt látið á sér kræla á Íslandi.

„Ég tel að líkur á slysasleppingum á laxi séu einnig minni en menn vilja vera láta. Orðið hafa tvær umtalsverðar slysasleppingar á laxi. Í báðum tilvikum slapp laxinn úr sláturkvíum en ekki eldiskvíum. Nú eru flestir hættir að nota sláturkvíar en taka fiskinn beint úr eldiskvíum. Þær eru gríðarlega sterkar og mikið þarf til að þær gefi sig,“ segir Guðmundur.

smari@bb.is

MÍ mætir FG í annarri umferð Gettu betur

Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson, Ína Guðrún Gísladóttir og Veturliði Snær Gylfason klár í slaginn

Í kvöld hefst önnur umferð spurningakeppninnar Gettu betur á Rás2. Fyrir helgi var dregið í 16 liða úrslitum og lá þá fyrir að lið Menntaskólans á Ísafirði myndi mæta liði Fjölbrautaskólans í Garðabæ í keppninni annað kvöld í annarri viðureign kvöldsins, en 8 lið keppa í fjórum viðureignum hvort kvöldið. Keppnin hefst á Rás2 klukkan 19:25.

Menntaskólinn á Ísafirði reið á vaðið í keppninni þar sem skólinn mætti Verkmenntaskóla Austurlands og vann MÍ þar öruggan sigur 24-18, stigafjöldi VA dugði þeim þó til að komast í aðra umferð keppninnar. FG tapaði einnig sinni lotu á móti Flensborg, en liðið var með 21 stig sem tryggði þeim áframhaldandi keppni.

Í keppnisliði Menntaskólans á Ísafirði eru þau: Ína Guðrún Gísladóttir, Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson og Veturliði Snær Gylfason og þjálfari liðsins er Ingunn Rós Kristjánsdóttir, málfinnur skólans.

annska@bb.is

Markmiðið að greina sveitarstjórnarstigið

Fyrsti fundurinn var á Hólmavík.

Fundarferð verkefnisstjórnar um greiningu og endurbætur á sveitarstjórnarstiginu er hafin, en fyrsti fundurinn var haldinn á Hólmavík nýverið. Verkefnisstjórnin hefur að markmiði að greina sveitarstjórnarstigið og skilgreina tækifæri og leiðir til að styrkja það. Áhersla er lögð á samráð og samvinnu við fulltrúa sveitarstjórna og samtök sveitarfélaga, en henni til aðstoðar er tuttugu manna hópur sem samanstendur af fulltrúum sem voru sérstaklega kjörnir af landshlutasamtökum, úr ungmennaráðum og úr háskólasamfélaginu auk ýmissa sérfræðinga. Einnig er lögð áhersla á samstarf við íbúa og þegar hefur verið framkvæmd rannsókn á viðhorfum íbúa sveitarfélaga og upplifun þeirra, viðhorf og væntingar sérstaklega höfð að leiðarljósi. Ráðgert er að verkefnið verði kynnt á þingi Sambands íslenskra sveitarfélaga nú í lok mars.

smari@bb.is

Dagur leikskólans í dag

Frá leikskólanum Sólborg á Ísafirði.

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins og er þetta í tíunda sinn sem haldið er upp á daginn. 6.febrúar er merkur dagur í leikskólasögunni hér á landi, því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Út um allt land er haldið upp á daginn með einhverjum hætti, margir leikskólar hafa opið hús og eða vekja athygli á starfi sínu með einum eða öðrum hætti. Hægt er að skoða og setja inn myndir á viðburðasíðu Dags leikskólans á Facebook, myllumerkið er #dagurleikskolans2017.

Samstarfshópur um Dag leikskólans efnir til hátíðarhalda í leikskólanum Hofi við Gullteig í Reykjavík klukkan 13:30. Þar mun Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenda hvatningarverðlaunin Orðsporið, sem veitt hafa verið þeim sem hefur þótt skara fram úr í að efla orðspor leikskólans og eða hefur unnið ötullega í þágu leikskóla. Orðsporið var fyrst veitt árið 2013 og þá fékk Súðavíkurhreppur það fyrir að veita gjaldfrjálsan leikskóla í sveitarfélaginu.

annska@bb.is

Engir samningafundir boðaðir

Ekki er útlit fyrir að samninganefndir sjómanna og útvegsmanna setjist að samningaborðinu á næstunni. Deiluaðilar hittust á fundi hjá Ríkissáttasemjarar á föstudag og í þeirri stöðu sem deilan er í dag er ekki líklegt að samninganefndir hittist aftur fyrr en eftir tæpar tvær vikur, en eins og kunnugt er ber ríkissáttasemjara að boða aðila deilunnar til sáttafundar innan tveggja vikna frá því síðast var funda.

Ákall um ríkisvaldið beiti sér í deilunni verður sífellt háværara. Stjórnmálamenn hafa ekki viljað segja beint út að þeir styðji lagasetningu á verkfallið. Í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins að hann væri ekki talsmaður lagasetningar á deiluna en hins vegar vildi hann ekki útiloka að ríkisvaldið grípi inn í með einhverjum öðrum hætti en lagasetningu. „Stjórnvöld geta ekki látið þessa auðlind þjóðarinnar liggja óbætta hjá garði. Það er bara óraunsæi og ég veit svo sem ekki hvern menn eru að blekkja með því ef þeir eru að halda því fram að það sé hægt eða að staðhæfa það að það verði ekki undir neinum kringumstæðum gripið inn í þessa kjaradeilu,“ sagði Páll í morgun.

smari@bb.is

Hvasst í veðri í vikunni

Það verður allvíða hvassviðri eða stormur næstu daga er fram kemur í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Vindur verður austanstæður í dag, en síðan verða sunnan- og suðaustanáttir ríkjandi með miklu vatnsveðri sunnanlands en mildu veðri. Það nær líklega ekki að lægja og rofa til að ráði fyrr en í lok vikunnar. Það lítur samt ekki út fyrir neina lognmollu næstu helgi því þá kemur önnur bylgja og jafnvel að það endi svo með útsynningi og éljaklökkum ef að líkum lætur.

Spáin fyrir Vestfirði kveður á um vaxandi austanátt og það þykknar upp, 15-20 m/s seint í dag og lítilsháttar rigning. Það léttir til í nótt, en vindur verður suðlægari á morgun og þykknar aftur upp, 18-23 m/s annað kvöld. Hiti á bilinu 2 til 7 stig.

Flughálka er á Hálfdán, Mikladal og Kleifarheiði annars er hálka eða hálkublettir á Vestfjörðum og snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir