Síða 2344

Frístundaferðir milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar

Rútan stoppar m.a. við Árbæ í Bolungarvík.

Í gær hófst akstur frístundarútu milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Ferðirnar eru eingöngu ætlaðar börnum og unglingum frá Bolungarvík og Ísafirði vegna þátttöku þeirra í skipulögðu tómstundastarfi. Ferðirnar eru ekki ætlaðar almenningi, og ræður þar m.a. gildandi sérleyfi á leiðinni og að um almenningssamgöngur gilda ákveðnar reglur. Stoppistöðvar eru við Íþróttamiðstöðina Árbæ í Bolungarvík, Íþróttahúsið á Torfnesi á Ísafirði og aðal stoppistöð strætó á Ísafirði í Pollgötu.

Fargjald verður ekki innheimt að svo stöddu en frístundarútan er tilraunaverkefni sem mun standa út maí 2017 og verður verkefnið þá endurskoðað fyrir næsta vetur. Uppsetning stundaskráa í frístundastarfi í Bolungarvík og á Ísafirði verður þá einnig endurskoðuð með hliðsjón af ferðum frístundarútu.

„Markmiðið með frístundarútu er að bæta þjónustu við börn og unglinga sem stunda íþróttir og aðrar tómstundir í Bolungarvík og á Ísafirði og minnka álag á foreldra og aðstandendur. Ef vel gengur verður frístundarútan afar hagkvæm frá samfélagslegu sjónarmiði, sparar tíma og óþægindi meðal iðkanda og aðstandenda þeirra og minnkar akstur verulega, segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar í tilkynningu

Vestfirskar ævintýraferðir ehf. annast aksturinn samkvæmt samningi en Bolungarvíkurkaupstaður og Ísafjarðarbær standa að verkefninu.

Áætlun rútunnar

smari@bb.is

Engar uppsagnir í verkfallinu

Finnbogi Sveinbjörnsson

Vestfirskar fiskvinnslur hafa ekki sagt upp starfsfólki vegna sjómannaverkfallsins að sögn Finnboga Sveinbjörnssonar, formanns Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Hann segir stöðuna í verkfallinu grafalvarlega. „Við höfum ekki fengið neinar tilkyninngar um uppsagnir í skilningi laganna. Tvö fyrirtæki, Íslenskt sjávarfang á Þingeyri og Oddi á Patreksfirði, tóku starfsfólk af launaskrá samkvæmt undanþáguheimild sem Vinnumálastofnun veitti. Þetta heimildarákvæði gerir fólki kleift að skrá sig beint á atvinnuleysisbætur,“ segir Finnbogi.

Önnur fyrirtæki hafa að sögn Finnboga haldið starfsfólk á launaskrá. „Hraðfrystihúsið – Gunnvör sem er stærsta fyrirtækið í vestfirskum sjávarútvegi hefur náð að halda út einhverri starfsemi með vinnslu á eldisfiski og verktöku fyrir önnur eldisfyrirtæki. Fyrirtækið hefur einnig verið með sitt starfsfólk á námskeiðum og það er mjög virðingarvert framtak hjá þeim í Hnífsdal. Sömuleiðis hefur Íslandssaga á Suðureyri verið með sitt fólk á námskeiðum.“

Finnbogi segir að einu uppsagnirnar sem félagið hefur fengið inn á borð til sína eru uppsagnir hjá Klofningi á Barðaströnd. „Þær uppsagnir eru ekki tengdar sjómannaverkfallinu heldur hafa með erfiðar markaðsaðstæður í Nígeríu að gera.“

Eins og fram hefur komið er lítill gangur í viðræðum sjómanna og útvegsmanna. „Málið er komið í mjög sérstaka stöðu og það vekur mikla furðu að ríkisstjórnin segi það trekk í trekk að hún ætli ekki að koma að lausn deilunnar.“

Finnbogi segir að ríkið geti komið að málinu með öðrum hætti en með beinni lagasetningu á verkfallið. „Það er til dæmis sanngjörn krafa að ríkisvaldið viðurkenni rétt sjómanna á skattfrjálsum dagpeningum. Þeir eiga rétt á þeim eins og aðrir sem starfa fjarri heimilum sínum. Þetta yrði sennilega einn af þeim lyklum sem þarf að snúa til að leysa deiluna,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson.

Smari@bb.is

Síbrotahundur á ferð

Það skal tekið fram að myndin er ekki af umræddum síbrotahundi

Eitt umferðaróhapp varð í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum í síðastliðinni viku. En þá missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Hjallahálsi. Bifreiðin rann út af veginum og valt a.m.k. eina veltu. Ökumaður, sem var einn í bifreiðinni, var fluttur til skoðunar á heilsugæslustöðina á Hólmavík. Áverkar hans reyndust minni háttar.

Skemmtanahald fór vel fram en víða voru haldin þorrablót.

Tíðarfarið hefur verið með eindæmum gott og greiðfært verið víðast hvar. Oftar en ekki hefur það haft í för með sér að ökumenn gleymi sér og aki hraðar en ella. Lögreglan fylgist vel með og eru ökumenn minntir á að aka með varúð þó svo vegur sé auður og hindrunarlaus.

Í síðustu viku bárust lögreglunni á Vestfjörðum tvær tilkynningar frá íbúum í miðbæ Ísafjarðar um lausan hund. Um var að ræða sama hundinn í báðum tilvikum sem virtist ganga laus og í öðru tilvikinu fór hundurinn inn um ólæstar íbúðardyr. Enginn var heima og þegar íbúar komu heim var hundurinn búinn að éta ýmislegt matarkyns í eldhúsinu. Eigendum hundsins hefur verið gerð grein fyrir ákvæðum samþykktar Ísafjarðarbæjar um hundahald. Auk þess sem viðkomandi sviði Ísafjarðarbæjar hefur verið gerð grein fyrir þessu.

smari@bb.is

Hvassviðri eða stormur fram á morgundaginn

Á Vestfjörðum er vaxandi suðaustanátt og upp úr hádegi má búast við 15-23 m/s og rigningu með köflum. Heldur áfram að bæta í vind og verða 18-25 m/s í nótt og á morgun, en dregur úr vindi síðdegis. Hiti verður á bilinu 2 til 7 stig. Í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að næstu tvo sólarhringa gangi á með sunnan- og suðaustanhvassviðri eða -stormi, jafnvel roki við vesturströndina um tíma á morgun. Vætusamt verður á sunnanverðu landinu, en þurrt að kalla fyrir norðan. Dregur síðan talsvert úr vindi og úrkomu og kólnar og má þá vænta élja á vestanverðu landinu. Um helgina hvessir svo af suðvestri, hlýnar og fer aftur að rigna.

Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir á flestum fjallvegum en greiðfært á láglendi, hálkublettir eru norður í Árneshrepp.

annska@bb.is

Plast getur tekið aldir að brotna niður

Pokarnir sem fundust innan í gáshnallinum í Noregi, skjáskot úr fréttum RÚV.

Sífellt verður háværari umræðan um hverslags skaðvaldur plastúrgangur getur verið umhverfinu og lífríki jarðar. Í síðustu viku rataði í fréttir hér á landi sem víðar frétt sem sagði af rúmlega sex metra löngum gáshnalli sem synti ítrekað á land við Björgvin í Noregi. Hvalurinn var á endanum aflífaður og þá  kom í ljós að hann hafði innbyrt meira en þrjátíu plastpoka. Fjallað var um málið í kvöldfréttum RÚV á sunnudag þar sem sagði að plastmengun í hafi væri víða mikið vandamál og væri Ísland ekki undanskilið þó ekki hefði komið upp álíka mál hér á landi.

Í fréttinni var sagt frá hreinsunarátökum sem farið hefur verið í hér á landi og þar tekin dæmi um hreinsun á Hornströndum sem og á Rauðasandi, en hreinsunarferðir eru farnar árlega á Hornstrandir og þá komast yfirleitt færri með en vilja í þá leiðangra sem iðulega skila af sér gífurlegu magni af rusli.

Sigríður Kristinsdóttir sérfræðingur í haf- og vatnsstreymi hjá Umhverfisstofnun hvatti í fréttinni fólk til þess að minnka plastnotkun og flokka rusl, sem hún sagði afar mikilvægt í ljósi þess að það tekur plast langan tíma að brotna niður í náttúrunni – allt að hundruðum ára.

Einn liður í aukinni meðvitund fólks um málið er að hafna plastumbúðum hvarvetna sem því verður við komið. Verslunarfólk er að verða meðvitaðra um þetta líkt og sagt var frá í viðtali við fisksalann Kára Jóhannsson í Fiskbúð Sjávarfangs.

annska@bb.is

Mikilvægur sigur í 1. deildinni

Nökkvi Harðarson fyrirliði Vestra í baráttunni gegn Terrence Motley á Selfossi. Ljósmynd: Jóhannes Eiríksson.

Vestri sigraði FSu á Selfossi um helgina, 70-80. Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur í baráttunni um laust sæti í úrslitakeppninni. Með sigrinum standa lið Vestra og Hamars jöfn að stigum í 5.-6. sæti með 14 stig. Þessi tvö lið mætast svo á Jakanum í næstu umferð, föstudaginn 17. febrúar kl. 19:15. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess leiks því innbyrðis viðureignir Vestra og Hamars geta vegið þungt þegar upp er staðið.

Vestri lék tvo leiki í körfunni um helgina því á föstudagskvöld var tekið á móti Fjölni í íþróttahúsinu á Torfnesi. Skemmst er frá því að segja að gestirnir fóru með sigur af hólmi 68-86. Afar góður þriðji leikhluti gestanna skar í raun út um leikinn eftir jafnan fyrri hálfleik. Lið Vestra var hálf vængbrotið í leiknum, Yima Chia-Kur varla stiginn upp úr veikindum auk þess sem Adam Smári Ólafsson var meiddur og Magnús Breki Þórðarson var kallaður heim í til Þórs í Þorlákshöfn vegna meiðsla þar á bæ.

smari@bb.is

Sætur sigur Vestra

Kampakátar eftir góðan sigur

Eftir hörkuspennandi fimmhrinu leik Vestrakvenna á laugardaginn í blaki gegn Fylkiskonum, vannst sætur sigur. Fyrsta hrinan var æsispennandi og endaði í 25-27 fyrir Fylki en Vestri girti sig heldur betur í brók í næstu tveimur og vann þær með 25-17 og 25-23, sigur í fjórðu hrinu féll svo Fylki í skaut 18-25 en í oddahrinu náði Vestri yfirhöndinni naumlega og sigraði 15-13.

Vestri er því enn í fjórða sæti deildarinnar með 12 stig en á tvo leiki til góða. Afturelding B og HK B eru að því er virðist geirnegld í fyrsta og annað sætið með 25 og 24 stig en aðeins sex stig skilja að liðin í þriðja – áttunda sæti og þar getur allt gerst.

Ágæt mæting var á bekkina en stuðningur heimamanna er ómetanlegur á leikjum sem þessum. Næstu helgi á Vestri útileiki við Stjörnuna B og ÍK en laugardaginn 25. febrúar mætir topplið deildarinnar Afturelding B og þá er eins gott að vera búin að taka lýsið.

bryndis@bb.is

Meðalneminn kostar 1,7 milljón

Meðal­rekstr­ar­kostnaður á hvern nem­anda í grunn­skól­um lands­ins, sem eru rekn­ir af sveitarfélögunum, er 1.749.062 krón­ur í fe­brú­ar 2017. Þetta kem­ur fram í nýj­um töl­um Hag­stofu Íslands. Hag­stof­an hef­ur áætlað meðal­rekstr­ar­kostnað á hvern nem­anda í öll­um grunn­skól­um undanfar­in ár en meðalrekstr­ar­kostnaður á hvern nem­anda í grunn­skól­um árið 2015 var 1.651.002 krón­ur og veg­in meðal­verðbreyt­ing rekstr­ar­kostnaðar frá 2015 til fe­brú­ar 2017 er áætluð 5,9%.

smari@bb.is

Vilja setja sundlaugarmál í íbúakosningu

Tillaga Kanon arkitekta hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppninni.

Í-listinn vill vinna að því að íbúar Ísafjarðarbæjar geti með rafrænni íbúakosningu tekið þátt í ákvörðun um hvort farið verði í endurbyggingu Sundhallar Ísafjarðar. Fram að kosningu ætlar bærinn að kynna betur vinningstillögu Kanon arkitekta sem kunngjörð var í síðustu viku og hvaða atriði í tillögunni mætti gera með öðrum hætti.  Einnig þurfi að liggja fyrir hver annar kostnaður verður vegna Sundahallarinnar sem ekki tengjast vinningstillögunni með beinum hætti. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, skrifar á Facebook að kostnaður við viðhald á ytra byrði Sundhallarinnar sé dæmi um þetta. „Viðhald á ytra byrði þarf hvort eð er að fara fram ef ekki á að rífa Sundhöllina. Það virðist nokkuð ljóst að almenningur vilji alls ekki rífa þessa merkilega byggingu,“ skrifar Gísli Halldór.

Þá liggur fyrir að skoða þarf kostnað við endurnýjun á laugarbúnaði og bæjarstjórinn segir það ótvírætt að annaðhvort þurfi að enurnýja laugarbúnað eða loka sundlauginni.

Gísli Halldór segir að mikill þrýstingur sé á Ísafjarðarbæ að finna framtíðarhúsnæði fyrir líkamsræktaraðstöðu og þriðja hæð Sundhallarinnar gefur vissulega möguleika á því en þá þurfi að útfæra hvort það verkefni verði selt út í heilu lagi til einkaaðila eða hvort bærinn taki með einhverjum hætti þátt í því.

„Ef ekki á að rífa Sundhöllina og ekki á heldur að endurnýja laugarbúnað og búningsklefa þá þarf að finna byggingunni annað hlutverk og gera breytingar til að aðlaga hana að því hlutverki. Það mun áreiðanlega líka kosta mikinn pening,“ skrifar bæjarstjórinn að lokum.

smari@bb.is

Nemendur og foreldrar takast á um hvort djammið sé snilld

Emmsjé Gauti daginn eftir djamm. Samsett mynd: nutiminn.is

Foreldrar menntaskólanema mæta ræðuliði Menntaskólans á Ísafirði í spennandi æfingaviðureign í gryfju MÍ á miðvikudagskvöldið. Þar mun væntanlega reyna á bæði lið er þau takast á um umræðuefnið „Djammið er snilld, þynnkan er lífsstíll!“ Þar sem foreldrar tala fyrir því, en nemendur gegn.

Ræðulið skólans skipa þau Hákon Ernir Hrafnsson, Ingunn Rós Kristjánsdóttir, Veturliði Snær Gylfason og Þórður Alexander Úlfur Júlíusson og voru þau öll að Hákoni undanskildum í ræðuliði skólans síðasta vetur. Það eru engir aukvisar fengnir til að reyna á getu nemendanna, en í foreldraliðinu eru séra Fjölnir Ásbjörnsson, Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir, sjúkraþjálfari og framkvæmdastjóri HSV og Svavar Þór Guðmundsson, kerfisstjóri.

Ræðukeppnin fer fram í gryfju MÍ klukkan 20 á miðvikudagskvöldið og eru nemendur skólans og foreldrar sérstaklega hvattir til að mæta. Á meðfylgjandi mynd sem birtist á Nútímanum má sjá samansafn af þynnkumyndum af rappstjörnunni Emmsjé Gauta þar sem hann hafði tekið saman lífið eftir djamm.

Ræðulið M.Í. undirbýr sig fyrir keppni í 8 liða úrslitum Morfís og mun skólinn mæta Menntaskólanum að Laugarvatni í heimaleik þann 16.febrúar.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir