Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2344

Ásrós Helga og Katla Vigdís sungu til sigurs

Katla Vigdís og Ásrós Helga sungu til sigurs. Mynd af heimasíðu Grunnskólans á Ísafirði.

Samvest undankeppnin fyrir söngkeppni félagsmiðstöðva, fór fram í Grunnskólanum á Ísafirði í síðustu viku. Tólf atriði frá norðanverðum Vestfjörðum kepptu þar um að komast í söngkeppni Samfés sem fram fer í Reykjavík helgina 24. – 26. mars. Sigur úr býtum báru þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir úr Grunnskólunum á Suðureyri og Þingeyri, en þær fluttu lagið Big Jet Plane eftir Angus og Julie Stone. Þessi reynsla, frumsamið rapplag þeirra Dagbjartar Óskar Jóhannsdóttur, Rakelar Damilola Adeleye og Helenu Haraldsdóttur í flutningi þeirra varð í öðru sæti. Í 3. sæti urðu Ólöf Einarsdóttir, Hlynur Ingi Árnason, Árný Margrét Sævarsdóttir og Ísabella Rut Benediktsdóttir úr G.Í. með lagið Little Talks eftir hljómsveitina Of Monsters and Men. Dómarar í keppninni voru Dagný Hermannsdóttir, Málfríður Hjaltadóttir og Benedikt Sigurðsson.

Söngkeppni Samfés hefur verið mikilvægur viðburður í starfi Samfés allt frá stofnun samtakanna árið 1985. Á Söngkeppninni gefst unglingum kostur á að koma fram og syngja fyrir framan jafnaldra sína af landinu öllu og hafa fjölmargir í gegnum tíðina þar stigið sínu fyrstu skref á söngsviðinu. Í núverandi skipulagi komast þrjátíu atriði í lokakeppnina að undangengnum forkeppnum í hverjum landshluta. Veitt eru verðlaun fyrir efstu sætin en sérstök aukaverðlaun eru veitt fyrir besta íslenska textann sem saminn er af unglingi.

annska@bb.is

Fiskeldið snýr við byggðaþróuninni

Einar Kristinn Guðfinnson

Jákvæð áhrif af uppbyggingunni í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum hafa nú þegar  komið glögglega í ljós. Í stað stöðugrar áralangrar fólksfækkunar hefur íbúum fjölgað síðustu árin í kjölfar þeirrar miklu uppbyggingar í fiskeldi sem orðið hefur í Vesturbyggð og á Tálknafirði. Á sama tíma hefur verið fólksfækkun annars staðar á Vestfjörðum, þar sem ekki nýtur álíka fiskeldisuppbyggingar;  – ennþá.

Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar Atvinnutekjur 2008 – 2015 eftir atvinnugreinum og svæðum, sem út kom 19. desember sl.

Fólksfjölgun í stað fækkunar

Frá árinu 1994 til 2011 fækkaði íbúum á Bíldudal um tæp 45%, á Patreksfirði um tæp 27% en minnst á Tálknafirði um tæp 17%. Á sama tíma fækkaði íbúum hægar á norðanverðum Vestfjörðum, t.d. um 16% á Ísafirði. Þetta kemur fram í samantekt Byggðastofnunar.

Nú hefur þetta snúist við. Á árunum 2008 til 2015 fjölgaði íbúum í Vesturbyggð um 9%, en íbúum í Ísafjarðarbæ fækkaði um 8,9%. Alls fækkaði á Vestfjörðum um 4,9%. Þessi viðsnúningur á sunnanverðum Vestfjörðum  á sér stað vegna uppbyggingarinnar í fiskeldi.

Ljóst má vera að án tilkomu fiskeldisins, hefði íbúaþróunin á Vestfjörðum í heild orðið  enn neikvæðari en raunin varð. Þannig má sjá að fyrir daga fiskeldisins fækkaði íbúum hvað mest á sunnanverðum Vestfjörðum. Því má ætla að ef fiskeldið hefði ekki komið til, hefði íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum fækkað a.m.k. hlutfallslega jafn mikið og raunin varð sums staðar annars staðar á Vestfjörðum. Þannig er ekki  ólíklegt, miðað við þróunina fram að fiskeldisuppbyggingunni, hefði á sunnanverðum Vestfjörðum orðið um 10% fækkun. En raunin varð önnur – þökk sé fiskeldinu; það varð nær 10% fjölgun á svæðinu.

Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva

Mikill aðstöðumunur fólginn í fasteignasköttum

Gísli Halldór Halldórsson.

Þrátt fyrir að álagningarprósenta fasteignaskatts sé í hæstu hæðum í Ísafjarðarbæ segir Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri að þegar fasteignaskattar séu bornir saman, komi í ljós að Ísafjarðarbær er í 52. sæti þegar kemur að álagningu fasteignaskatts á hvern íbúa. Fasteignaskattur á hvern á íbúa Ísafjarðarbæjar er kr. 70.049 og er það innan við 50% af meðaltali allra sveitarfélaga landsins, en meðaltalið árið 2016 er kr. 152.322. Í þessum tölum eru allir fasteignaskattar taldir saman, þeir sem eru lagðir á íbúðarhúsnæði, opinbert húsnæði og atvinnuhúsnæði.

Fasteignaskattur er annar stærsti tekjustofn sveitarfélaganna og er lagður árlega á flestar fasteignir í landinu. A-skattur er lagður á íbúðarhúsnæði og getur verið allt að 0,5% af fasteignamati. B-skattur er lagður á ýmsar opinberar byggingar og er 1,32% af fasteignamati. C-skattur er lagður á atvinnuhúsnæði og annað húsnæði sem ekki fellur undir A- eða B-skatt og getur verið allt að 1,32% af fasteignamati.

Ísafjarðarbær innheimtir hæstu leyfilegu fasteignaskatta

Sveitarstjórnum er heimilt að hækka álagningu A- og C-skatta um allt 25%. Hámarksálagning A-skatts er þá 0,625% og C-skatts 1,65%. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur nýtt sér þessa heimild og innheimtir hæstu mögulegu fasteignaskatta og er eitt sjö sveitarfélaga á landinu sem innheimta hámarksskatta á íbúðarhúsnæði – auk Ísafjarðarbæjar er eitt annað sveitarfélag á Vestfjörðum með álagningarprósentuna í botni en það er Árneshreppur.

Fimmtungshækkun

Íbúum Ísafjarðarbæjar brá mörgum í brún er þeir fengu álagningarseðil fasteignagjalda þessa árs. Dæmi eru um að þau hækki um 20% milli ára.

„Mér er kunnugt um fólk sem býr við mikla hækkun fasteignaskatts á þessu ári, hjá sjálfum mér nemur þessi hækkun 19,7% og stafar eingöngu af hækkun fasteignamats. Fasteignaskattur hefur þann galla eins og eignarskattar almennt að þó að verðgildi eignar aukist þarf það ekki að þýða tekjuaukningu fyrir eigandann. Við fólk sem lendir í svona miklum hækkunum er ekkert hægt að segja annað en að eign þeirra hefur aukist að verðgildi á sama tíma. Það eru reyndar góðar fréttir fyrir framþróun sveitarfélagsins að fasteignamat hækki, en það hefur verið lengi verið of lágt til að hægt sé að byggja eða fá sannvirði fyrir eignir fólks,“ segir Gísli Halldór.

Segir margt vinna gegn lægri sköttum

Bænum er að sjálfsögðu frjálst að lækka álagningarprósentuna en Gísli Halldór segir ýmsa þætti vinna gegn því að prósentan sé lægri en raun ber vitni. Hann nefnir lægra fasteignamat í Ísafjarðarbæ en í mörgum sveitarfélögum og langt undir fasteignamati sem tíðkast á suðvesturhorninu. Lítið er um risavaxnar fasteignir og stórfyrirtæki sem borga mikla fasteignaskatta. Þá taki það verulega í að reka sveitarfélag þar sem íbúum fækkar líkt og reyndin hefur verið í Ísafjarðæ og enn er eftirspurn eftir aukinni þjónustu sveitarfélagsins – umfram þá sem nú er veitt. Þannig er t.d. mikill þrýstingur frá foreldrum ungra barna að veitt verði leikskólaþjónusta til barna frá 12 mánaða aldri.

Aðstöðumunur sveitarfélaga mikill

Gísli Halldór segir að aðstöðumunur sveitarfélaga sé afskaplega mikill þegar kemur að fasteignagjöldum og bendir á að Reykjavíkurborg fær 76% meiri fasteignaskatt per íbúa heldur en Ísafjarðarbær. Það skýrist það að stórum hluta af muni á fasteignamati, en einnig af af gríðarlegum umsvifum hins opinbera í Reykjavík sem og  höfuðstöðvum stórra fyrirtækja. En þegar einungis er borin saman fasteignaskattur sem er lagður á einstaklinga dekkist myndin fyrir Ísafjarðarbæ, en álagning fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði er 27.918 kr. per íbúa í Reykjavík en 34.000 kr. í Ísafjarðarbæ.

Gísli Halldór setur stórt spurningarmerki við að fasteignaskattar séu yfirhöfuð burðarstoð í rekstri sveitarfélaga og bendir á sveitarfélög eins og Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp og Fljótsdalshrepp sem eru „svo heppin að fá risavaxin hálfopinber verkefni inn í fámenn sveitarfélög.“

„Munurinn verður síðan enn svakalegri þegar maður skoðar sveitarfélög eins og Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp og síðast en ekki síst Fljótsdalshrepp sem eru svo heppin að fá risavaxin hálfopinber verkefni inn í fámenn sveitarfélög. Það má þess vegna setja stórt spurningarmerki við það að þessi skattur sé yfirhöfuð burðarstoð í rekstri sveitarfélaga,“ segir Gísli Halldór. Fljótsdalshreppur innheimti 1,6 milljón kr. í fasteignaskatta per íbúa á síðasta ári og langstærsti hlutinn kemur vegna fasteignagjalda af Kárahnjúkavirkjun.

smari@bb.is

MÍ hafði betur gegn VA

Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson, Ína Guðrún Gísladóttir og Veturliði Snær Gylfason klár í slaginn

Keppnislið Menntaskólans á Ísafirði vann góðan sigur á liði Verkmenntaskólans á Austurlandi í fyrstu umferð Gettu Betur í gærkvöldi. Liðin tvö voru þau fyrstu sem mættust þetta árið og var MÍ með yfirhöndina allan tímann, en lokatölur voru 24-18. Lið MÍ skipa þau; Ína Guðrún Gísladóttir, Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson og Veturliði Snær Gylfason og þjálfari liðsins er Ingunn Rós Kristjánsdóttir málfinnur skólans. Liðið er nú komið í síðari umferð  keppninnar á Rás 2, sem fer fram dagana 6. og 7.febrúar.

Spyrill Gettu betur er Björn Bragi Arnarson, spurningahöfundar og dómarar eru þau Bryndís Björgvinsdóttir og Steinþór Helgi Arnsteinsson og þeim til aðstoðar er Björn Teitsson.

annska@bb.is

 

Sáttafundur á föstudaginn

Flotinn hefur verið í höfn nærri sjö vikur.

Sáttafundur hefur verið boðaður í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna á föstudaginn. Upp úr viðræðum sjómanna og útvegsmanna slitnaði  mánudaginn 23. janúar, fyrir rúmri viku. Samkvæmt lögum ber ríkissáttasemjara að boða til sáttafundar innan tveggja vikna frá viðræðuslitum. Sjómenn hafa verið í verkfalli síðan 14. desember.

smari@bb.is

Nikulás er íþróttamaður Bolungarvíkur

Nikulás (t.v.) með kylfingnum Chatchai Phorthiya og knapanum Guðmundur Bjarni Jónsson, en þeir voru einnig tilnefndsi sem íþróttamaður ársins.

Knattspyrnumaðurinn Nikulás Jónsson er íþóttamaður Bolungarvíkur árið 2016. Nikulás var tilnefndur af knattspyrnudeild Vestra, en hann lék 20 af 22 leikjum Vestra í 2. deild Íslandsmótsins síðasta sumar og skoraði hann eitt mark. Í umsögn segir að Nikulás hafi undanfarin ár barist við meiðsli og gat lítið æft með meistaraflokki veturinn fyrir síðasta keppnistímabil. Það stöðvaði hann þó ekki í að æfa vel og oft og tíðum einn.

Í umsögn dómefndar segir:

„Í æfingleikjum í vor og fyrstu leikjum sumarsins átti Nikulás ekki fast sæti í liðinu og byrjaði á bekknum. Hann tók því með því að leggja enn meira á sig á æfingum og koma af krafti inn í þá leiki sem hann spilaði. Þegar vantaði bakvörð í liðið stökk Nikulás á þá stöðu og tryggði sér fast sæti í liðinu með góðri frammistöðu og það í stöðu sem hann hafði lítt spilað. Hann var fljótur að aðlagast og átti mjög gott tímabil með liðinu. Þetta lýsir einna best persónugerð Nikulásar, hann eflist við mótlæti og er tilbúinn að taka hagsmuni liðsins fram yfir eigin hagsmuni.

Nikulás hefur spilað 103 leiki fyrir meistaraflokk BÍ/Bolungarvík/Vestra í öllum keppnum frá því að hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2011. Nikulás er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í Bolungarvík. Hann er mikill félagsmaður og ávallt tilbúinn að aðstoða ef eftir því er leitað. Hann er metnaðarfullur, mætir vel á æfingar og æfir aukalega sjálfur. Þá hefur hann sýnt gríðarlegan aga í að æfa einn til að yfirstíga erfið meiðsli sem skilaði sér í kraftmiklum leik hans í sumar með Vestra.“

smari@bb.is

 

Lægir er líður á daginn

Frameftir degi verður austan 13-20 m/s og rigning með köflum á Vestfjörðum. Snýst í minnkandi suðaustanátt með skúrum síðdegis, suðlæg átt, 3-8 m/s og úrkomulítið í nótt. Hiti í dag verður 2 til 7 stig. Á morgun er gert ráð fyrir norðaustan 5-10 m/s og stöku éljum. Hiti verður um frostmark.

Á Vestfjörðum er hálka á flestum fjallvegum en flughált er á Steingrímsfjarðarheiði og krapi á Klettshálsi og Þröskuldum. Mjög hvasst er á Súðavíkurhlíð og í Ísafjarðardjúpi.

annska@bb.is

40 konur tóku þátt í gönguskíðanámskeiði

Glæsilegur hópur á Seljalandsdal

Um helgina fór fram á Ísafirði gönguskíðanámskeið fyrir konur undir yfirskriftinni Bara ég og stelpurnar. Á námskeiðinu, sem hófst á fimmtudag og stóð fram á sunnudag, voru um 40 konur frá Reykjavík og Akureyri og gisti hópurinn saman á Hótel Horni. Kennarar á námskeiðinu voru Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Stella Hjaltadóttir og Daníel Jakobsson. Námskeiðið er ætlað bæði þeim sem eru að stíga sín fyrstu spor í brautinni og þeim sem hafa reynslu af skíðagöngu.

Eina skilyrðið fyrir þátttöku á námskeiðinu var að elska snjó og hafa gaman af að leika sér. Meðal þess sem farið var yfir voru undirstöðuatriði íþróttarinnar, jafnframt því sem konurnar voru kynntar fyrir búnaðinum og snjónum. Þær fræddust um áburðarmál, orðaforða og tækniatriði. Síðan var farið í verklegar æfingar á gönguskíðasvæðinu á Seljalandsdal, með tveimur æfingum á dag, föstudag og laugardag og einni á sunnudag.

Ein aðalhvatamanneskja námskeiðsins er Bolvíkingurinn Hildur Kristín Einarsdóttir, sem búsett hefur verið í höfuðborginni um árabil og mætti hún með vinkonuhópinn. Hún ber námskeiðinu vel söguna: „Þetta var alveg frábært. Vel skipulagt hjá Völu, Danna og Stellu. Þarna var frábær hópur skemmtilegra kvenna samankominn, sem æfði mikið, hló meira og hafði gaman. Hressar, glaðar og flottar konur sem eru í hörku formi eftir helgina.“

Hildur segir það alveg frábært að koma á sínar fornu slóðir sem ferðamaður og gista nokkrar nætur á hótelinu í hópi góðra kvenna: „Ég er búin að geta þetta núna 2 ár i röð og mæli með þessu.“

Leikurinn verður endurtekinn um komandi helgi með öðru námskeiði og eru þá 30 konur skráðar til leiks, sem allar koma frá Reykjavík.

annska@bb.is

 

Aflaverðmæti flotans minnkar milli ára

Í október 2016 var aflaverðmæti íslenskra skipa rétt um 11 milljarðar króna sem er samdráttur um 8% samanborið við október 2015. Verðmæti botnfiskafla nam rúmum 7,8 milljörðum og dróst saman um 16% frá fyrra ári. Uppistaðan í verðmæti botnfiskaflans var þorskur en verðmæti hans nam tæpum 5,4 milljörðum sem er tæplega hálfum milljarði minna en í október 2015. Þetta kemur fram í samantekt Hagstofunnar um aflaverðmæti íslenska flotans.

Verðmæti uppsjávarafla jókst hins vegar á milli ára, nam rúmum 2,5 milljörðum sem er 67% meira en í október 2015. Verðmæti flatfiskafla dróst saman um 40,5% og nam 520 milljónum króna í október. Aflaverðmæti skelfisks dróst saman um 50,8% og nam 114 milljónum samanborið við rúmar 231 milljónir í október 2015.

Á 12 mánaða tímabili frá nóvember 2015 til október 2016 var aflaverðmæti 137,1 milljarðar króna sem er 9,4% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr. Verðmæti þorskafla stendur nokkurn veginn í stað á milli tímabila á meðan verðmæti annarra botnfisktegunda dróst saman um 6,5 milljarða. Verðmæti uppsjávartegunda dróst einnig saman á milli þessara 12 mánaða tímabila, vegur þar þyngst 7,8 milljarða samdráttur á verðmæti loðnuafla.

smari@bb.is

 

Segir bæinn verðlauna óbilgirni og ósanngirni hestamanna

Reiðvellir Hendingar (neðst á myndinni) fóru undir framkvæmdasvæði Bolungarvíkurganga.

Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, gagnrýnir harðlega samkomulag Í-listans við Hestamannafélagið Hendingu. Hann segir að með samkomulaginu sé meirihlutinn að „verðlauna óbilgirni og ósanngirni forystumanna félagsins sem hafa staðið í vegi fyrir því að Ísafjarðarbær hafi getað samið við Vegagerðina um bætur fyrir völlinn.“

Á fundi bæjarráðs í morgun voru samþykktir viðaukar við fjárhagsáætlun vegna samkomulagsins sem lækka handbært fé bæjarins um 23 milljónir kr. á þessu ári. Samkomulagið er til komið vegna aðstöðumissis félagsins á Búðartúni í Hnífsdal en þar hafði Hending gert keppnisvelli sem fóru undir framkvæmdasvæði Bolungarvíkurganga.

Daníel lét bóka á fundinum að í desember hafi forsvarsmenn Hendingar neitað að skrifa undir þríhliða samkomulag við bæinn og Vegagerðina sem hefði tryggt bænum og þar með hestamannafélaginu 20 milljóna kr. greiðslu nema umræddur samningur yrði samþykktur jafnframt.

Daníel segir að Hendingarmenn hafi gert það sama árið 2014 þegar Ísafjarðarbær gerði félaginu skriflegt tilboð um að byggja í Engidal sambærilegan völl og var í Hnífsdal en því tilboði var aldrei svarað að sögn Daníels

„Með því að neita því að að greiða götu bæjarins í uppgjöri við Vegagerðina hafa þeir kostað bæinn umtalsvert fjármagn og sýnt óbilgirni sem hefði getað skaðað Ísafjarðarbæ, Hendingu og samfélagið hér. Að semja á þeim nótum sem nú liggur fyrir við forystumenn félagsins er óásættanlegt fyrir íbúa bæjarins og þau íþróttafélög sem fara eftir sameiginlegum reglum HSV og bæjarins.“

Samkvæmt samkomulaginu á að reisa reiðskemmu í Engidal sem verður í eigu Hendingar og Ísafjarðarbæjar. Í bókun Daníels er bent á að eftir sem áður eigi eftir að byggja alla útiaðstöðu félagsins og hann telur að kostnaður bæjarins hlaupi á milljónatugum króna.

„Í dag eru um 10-15 manns sem halda hesta á svæðinu og starfsemi hefur verið afar lítil s.l. ár. Því er ekki aðstöðuleysi einu um að kenna. Það að forgangsraða fjármagni í umrædda framkvæmd á sama tíma og er ekki hægt að fjármagna mörg önnur verkefni er óskynsamleg ráðstöfun skattfjár sem ég get ekki stutt.“

smari@bb.is

Nýjustu fréttir