Íslendingarnir komust ekki áfram
Albert Jónsson, skíðagöngumaður frá Ísafirði, hafnaði í 123. sæti í sprettgöngu á heimsmeistaramótinu í norrænum greinum í Lathi í Finnlandi í dag. Sævar Birgisson kom fyrstur í mark af íslensku keppendunum og hafnaði í 92. sæti og gekk hann vegalengdina á 3:47,30 mínútum en þrjátíu efstu komust í úrslit og til að ná því þurfti tímann 3:22,09 mínútur.
Brynjar Leó Kristinsson hafnaði í 115. sæti á 4:00,98 mínútum og Albert varð í 123. sæti á 4:08,33 mínútum.
Besta tímann fékk Sergei Ustiugov frá Rússlandi en hann vann gönguna á 3:11,72 mínútum og var tæpum þremur sekúndum á undan næsta manni, Finn Haagen Krogh frá Noregi.
smari@bb.is
Gamlir leikir og leikföng
Í dag kl. 17:00 á Sauðfjársetrinu mun Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðinemi segja frá gömlum leikjum og leikföngum sem gátu breyst í ótrúlegustu verur. Fyrirlestur Dagrúnar er í tengslum við sýninguna Sumardvöl í sveit sem nú stendur yfir á Sauðfjársetrinu. Fyrirhugaðir eru fleiri viðburðir og segir í frétt á strandir.is að búast megi við huggulegu síðdegi þar sem börn og foreldrar njóta sín saman í leik og borðað saman grjónagraut eftir leikina.
Sýningin Sumardvöl í sveit var opnuð í byrjun nóvember í fyrra og fjallar hún um reynslu þeirra sem fóru í sveit og þeirra sem tóku á móti sumardvalabörnum, einkum á Ströndum.
bryndis@bb.is
Atvinnuleysi mældist 4,1% í janúarmánuði
Atvinnuleysi hér á landi í janúarmánuði 2017 var 4,1% samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands og sýnir samanburður mælinga fyrir janúar 2016 og 2017 að atvinnuþátttaka dróst saman um 1,3 prósentustig á milli ára. Á landinu voru að jafnaði 193.100 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í janúar 2017, sem jafngildir 80,3% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 185.300 starfandi og 7.900 án vinnu og í atvinnuleit. Fjöldi starfandi jókst um 1.400 manns á milli mánaða en hlutfall starfandi af mannfjölda lækkaði hins vegar um 2,1 stig. Atvinnulausum fjölgaði um 2.600 manns og hlutfall þeirra af vinnuaflinu hækkaði um 1,3 prósentustig.
Þegar horft er til síðustu sex mánaða þá sýnir leitni vinnuaflstalna að atvinnuleysi stendur í stað, en á síðustu tólf mánuðum hefur það lækkað lítillega eða um 0,2 prósentustig. Hlutfall starfandi síðustu sex mánuði hefur lækkað lítillega eða um 0,3 stig, en aftur á móti aukist um 0,7 stig þegar horft er til þróunar síðustu tólf mánaða.
Albert í sprettgöngu HM í dag
Ísfirski gönguskíðakappinn Albert Jónsson er nú staddur í Lahti í Finnlandi þar sem hann tekur þátt í HM í skíðagöngu. Í gær fóru fram undankeppnir og í flokki karla þar sem 10 komust áfram máttu íslensku keppendurnir þrír, sem auk Alberts eru þeir Brynjar Leó Kristinsson og Sævar Birgisson bíta í það súra epli að komast ekki áfram, en Albert, sem er að keppa á sínu fyrsta heimsmeistaramóti var í 18.sæti. Eini keppandi Íslands í kvennaflokki, Elsa Guðrún Jónsdóttir gerði sér hins vegar lítið fyrir og sigraði undakeppni kvenna með yfirburðum. Í dag verður keppt í sprettgöngu og hefst keppni klukkan 15 að staðartíma eða 13 að íslenskum tíma þar sem Íslendingarnir fjórir keppa allir, Elsa Guðrún ræsir númer 67, Sævar nr. 89, Albert nr. 107 og Brynjar Leó nr. 114.
Grease í Bolungarvík
Hápunktur allra vinnustaða er árshátíðin og alla jafna talsverð vinna lögð í að gera hana sem eftirminnilegasta. Vinnustaðir barnanna eru þar engin undantekning og í kvöld er árshátíð Grunnskóla Bolungarvíkur og þemað að þessu sinni er hin eftirminnilega og sígilda kvikmynd Grease þar sem Olivia Newton-John og John Travolta slógu í gegn sem Sandra og Danny. Undirbúningur hátíðarinnar er af flottara taginu og hafa nemendur búið til kynningarmyndband um hátíðina.
bryndis@bb.is
Oddi hf fagnar fimmtíu ára afmæli
Það eru nú liðin fimmtíu ár frá því að Jón Magnússon, Lilja Jónsdóttir, Hjalti Gíslason, Helga Pálsdóttir og Sigurgeir Magnússon stofnuðu Odda hf á Patreksfirði og má því telja að fyrirtækið sé sem með þeim elstu í þessari atvinnugrein. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að félagið hafi gengið í gegnum margan öldudalinn en hefur ávallt reynt að halda uppi stöðugri starfsemi og þannig tryggt stöðuga vinnu og tekjuöflun. Félagið var stofnað sem fiskvinnsla og hélt því allt til ársins 1990 er félagið hóf sína fyrstu útgerð. Eftir það hefur félagið verið lykilfyrirtæki á Patreksfirði en í dag starfa þar um 75 manns.
Í mars ætla starfsmenn og eigendur að halda upp á afmæli fyrirtækisins og skella sér með manni og mús til Tenerife, í för verða bæði makar og börn og er gert ráð fyrir að í ferðina fari um 140 manns.
Fyrirtækið fyrirhugar að fagna tímamótunum síðar á árinu og gefa þar með bæjarbúum, starfsmönnum og viðskiptavinum félagsins tækifæri til að fagna með þeim.
bryndis@bb.is
Rassar skemmta á Ísafirði
Hljómsveitin Rassar gleður Ísfirðinga og nærsveitunga með tónum og tali í kvöld og annað kvöld, en hljómsveitin á rætur sínar að rekja til Héraðsskólans að Núpi þar sem hljómsveitarmeðlimir voru við nám veturinn 1969-1970. Sveitin starfaði einungis þetta eina skólaár, en segja má að hún hafi haft visst spádómsgildi fólgið í sér er tveir meðlima hennar; Egill Ólafsson og Ísfirðingurinn Rúnar Þór Pétursson lögðu báðir fyrir sig atvinnumennsku í tónlist, en þriðji félaginn Benedikt Helgi Benediktsson gerðist rannsóknarlögreglumaður.
Hátt í 50 ár eru liðin frá því þeir félagar trylltu lýðinn að Núpi og óhætt er að segja að líkt og sannra poppara er siður hafi þeir ekki alltaf fylgt settum reglum út í hörgul. Eitt sinn gerðu Rassarnir plakat þar sem þeir beruðu á sér afturendann, sem varð þess valdandi að félagarnir voru reknir úr skólanum í viku og eftir það hafði sveitin ekki leyfi til að leika utan skólalóðarinnar. Það kannski skýrir að hluta til að frægðarsólin hafi ekki risið hærra á sínum tíma, en minningin um stórgott skólaband lifði meðal Núpsverja og komu þeir félagar aftur saman undir merkjum Rassa á skólamóti á Núpi árið 2014. Þá notuðu þeir einnig tækifærið og spiluðu á Ísafirði við góðar undirtektir. Nú endurtaka þeir leikinn og spila á Húsinu í kvöld á tónleikum sem hefjast klukkan 21:15 og annað kvöld er þeir hefja leika klukkan 21:45. Von er á skemmtilegri dagskrá þar sem félagarnir leggja áherslu á að spila tónlistina sem þeir fíluðu á yngri árum ásamt því sem góðar sögur fá gjarnan að fylgja.
Saurgerlamengun: Trassaskapur eða ófullnægjandi innra eftirlit
Á síðasta fundi Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða var tekin fyrir fyrirspurn frá eftirlitsstofnun EFTA um saurgerlamengun sem upp kom á Flateyri á síðasta ári og í kjölfarið sköpuðust umræður um vatnsmál á Vestfjörðum. Heilbrigðiseftirlitið hefur tekið saman niðurstöður sýnatöku fyrir árin 2013-2016, en nokkur tilvik hafa komið upp síðastliðin ár þar sem saurmengun hefur mælst í neysluvatni á Vestfjörðum og segir Heilbrigðiseftirlitið að í flestum tilfella hafi verið um trassaskap að ræða eða að innra eftirlit vatnsveitu ekki verið í lagi.
Vatnsveitur eru stærstu matvælafyrirtæki hvers byggðarlags og undirstaða þess að hægt sé að starfrækja önnur matvælafyrirtæki. Vatnsveitur er ábyrgar fyrir heilnæmi neysluvatns og eru þær eftirlits- og starfsleyfisskyldar og þurfa að uppfylla reglugerð um neysluvatn sem byggir á Evróputilskipun um gæði ef hún þjónar fleirum en 50 manns, eða 20 heimilum/sumarbústöðum eða matvælafyrirtækjum. Vatnsveitum er skylt að hafa virkt innra eftirlit til að tryggja neytendum öruggt neysluvatn og er vatnsveitan í raun ábyrg fyrir því að afhenda ógallaða vöru líkt og önnur matvælafyrirtæki.
Reglubundið opinbert eftirlit með vatnsveitum er á hendi heilbrigðisnefnda sveitafélaga. Í reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn er kveðið á um lágmarkstíðni sýnatöku og er tekið mið af þeim íbúafjölda sem veitan þjónar. Neysluvatn í þéttbýli á Íslandi á að vera 100% í lagi, og er það í langflestum byggðarlögum að sögn Antons Helgasonar heilbrigðisfulltrúa. Veitur sem þjóna 93% af íbúum landsins eru gæðin fullnægjandi í 99.9% tilvika sem er eins og best gerist í Evrópu og segir Anton því flokkast sem trassaskapur eða innra eftirliti er ekki sinnt nægjanlega vel ef fram koma sýni í reglubundnu eftirliti sem ekki standast kröfur.
Flestar veitur eru með niðurgrafna brunna, en í miklum leysingum og vatnsveðri getur yfirborðsvatn komist að og mengað. Til að koma í veg fyrir að það hafi áhrif á gæði neysluvatnsins er vatnið geislað með UV geislum, við það drepast bakteríur en hefur að öðru leiti ekki áhrif á vatnið. UV geislun er svipuð ljósaperum. Perurnar endast bara ákveðinn tíma sem framleiðandi gefur upp og það þarf að fylgjast með að það sé kveikt á tækjum. Tækin eru eins og önnur rafmagnstæki viðkvæm fyrir rafmagnstruflunum og geta slegið út. Því þarf að fylgjast með að tækin séu virk og varaperur á staðnum ef perurnar gefa sig. Mjög víða hafa verið sett upp geislunartæki þar sem neysluvatn er lýst með útfjólubláu ljósi. Í flestum tilfellum dugar það sem sóttvörn. Anton segir þó að þurfi að vera kveikt á tækjunum til að þau virki og hafa þurfi í huga að perurnar hafi einungis ákveðin líftíma, þannig að ef þessi lausn er notuð þá þarf að fylgjast vel með.
Í öllum stærri vatnsveitum á Vestfjörðum er sjaldgæft að sýni standist ekki kröfur. Í minni vatnsveitum, sér í lagi þeim sem ferðaþjónustufyrirtæki hafa yfir að ráða er oft mikilla úrbóta þörf. Niðurstöður sýnatöku áranna 2013 – 2016 hjá vatnsveitum þéttbýlisstaða sýna að 93% þeirra stóðust kröfur. Hjá kúabændum eru 80% sýna í lagi og hjá ferðaþjónustuaðilum í dreifbýli þ.e. gisting og tjaldstæði stóðust einungis 71% sýna kröfur með tilliti til E.coli. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða hefur sent öllum vatnsveitum á svæðinu lokafrest til að koma á innra eftirliti með úrbótalista þar sem meðal annars þarf að skrá eftirlit með vatnsverndarsvæði, peruskipti í búnaði, viðhald og eftirlit með búnaði og hafa þær vatnsveitur sem eitthvað kann upp á að vanta hjá þrjá mánuði til úrbóta.
Háskólanámsferðir og áhrif þeirra í Vísindaportinu
Í Vísindaporti vikunnar hjá Háskólasetri Vestfjarða fjallar Brack Hale, prófessor í umhverfisfræði við Franklin University í Sviss, um rannsóknarverkefni sitt þar sem hann kannar áhrif háskólanámsferða erlendis á umhverfi. Á síðustu áratugum hafa tvær stefnur verið að ryðja sér mjög til rúms í æðri menntastofnunum víða um heim; annarsvegar er það sjálfbærni, þar sem unnið er að því að gera jafnt háskólaumhverfi sem námsefni umhverfisvænna, hinsvegar eru það námsferðir, þ.e. námskeið þar sem nemendur ferðast til annarra landa, en þeim fjölgar stöðugt. Því miður hafa þessar stefnur fest sig í sessi óháðar hvor annarri. Kannanir benda til þess nemendur njóti góðs af slíkum ferðum til langs tíma en ekki er ljóst hvaða áhrif heimsóknirnar hafa á áfangastaðina og umhverfi þeirra. Brack tekur Vestfirði sem dæmi í rannsóknarverkefni sínu til að skilja betur áhrif slíkra ferða á umhverfið.
Brack Hale er um þessar mundir í rannsóknarleyfi við Háskólasetur Vestfjarða. Hann er dósent í umhverfisfræði við Franklin University í Sviss þar sem hann er einnig forstöðumaður Sjálfbærnimiðstöðvarinnar við skólann. Hann kemur regulega með nemandahópa frá Franklin til Íslands og Vestfjarða. Brack lauk M.E.M. frá Nicholas School of Environment við Duke University í Bandaríkjunum og hann er með doktorspróf frá Nelson Institute for Environmental Studies við University of Wisconsin-Madison.
Vísindaportið öllum opið og stendur frá 12.10-13.00. Að þessu sinni fer fyrirlesturinn fram á ensku.