Síða 2344

Reykjanes gæti misst neysluvatnið

Kannski verður laugin í Reykjanesi bráðum heit aftur.

Hótel Reykjanes í Ísafjarðardjúpi stendur frammi fyrir því að geta misst allt neysluvatn vegna þess að eigandi jarðarinnar Reykjafjarðar hótar að skrúfa fyrir vatnslögnina. Reykjanes hefur um áratugaskeið fengið neysluvatn úr vatnsbóli í landi Reykjafjarðar. „Vegna þessa máls lítum við svo á að okkar rekstur sé uppnámi og geti fyrirvaralaust stöðvast. Stór hluti bókana fyrir sumarið 2017 hefur þegar átt sér stað og því óhugsandi að lenda í rekstrarstöðvun,“ segir í bréfi Jóns Heiðars Guðjónssonar, eiganda Ferðaþjónustunnar í Reykjanesi, til Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps þar sem hann óskar eftir aðstoð sveitarfélaganna.

Í bréfi sínu til sveitarfélaganna lét Jón Heiðar fylgja með tvö bréf sem Salvar Hákonarson, eigandi Reykjafjarðar, sendi Ferðaþjónustunni í Reykjanesi. Salvar segir í bréfi frá því í síðasta mánuði að bann sem hann hafi sett í maí 2015 við framkvæmdum á vatnsverndarsvæðinu hafi ekki verið virt. Hann hafi því ákveðið að öllum utanaðkomandi aðilum séu óheimil vatnsafnot í landi Reykjarfjarðar og taki sú ákvörðun strax gildi.

„Því miður hefur Ferðaþjónustan Reykjanesi ehf. haft með höndum framkvæmdir og jarðrask á svæðinu sem hvorki hefur verið leyfi fyrir eða samþykki landeigenda,“ segir í bréfi Salvars og ennfremur að eigendur Reykjaness séu að færa sér í nyt eigur og landgæði annarra og valda óbætanlegu tjóni á viðkvæmu svæði.

Jón Heiðar hafnar því að hafa lagst í framkvæmdir í óleyfi.

Í erindi Jóns Heiðars kemur fram að þegar ríkið seldi Reykjanesskóla hafi honum verið sagt frá samkomulagi við föður Salvars, þáverandi eiganda Reykjafjarðar, um um gjaldfrjáls afnot af neysluvatninu gegn því að heimilisfólkið í Reykjarfirði fengi endurgjaldslaus afnot af heitum böðum og sundlaug í Reykjanesi.

smari@bb.is

Lestrarhestar í Strandabyggð

Petsamo eftir Arnald Indriðason er vinsælasta bókin í keppninni.

Íbúar Strandabyggðar taka lestur alvarlega og hafa tekið afgerandi forystu í landsleiknum Allir lesa. Þriðji landsleikurinn er haldinn nú á þorranum, frá 27. janúar til konudagsins 19. febrúar 2017. Keppt er í liðum og/eða sem einstaklingur og mældur sá tími sem varið er í lestur. Nú þegar nokkrir dagar eru liðnir af keppninni mælist lestur Strandamanna 22 klst. og næst á eftir þeim koma íbúar Dalabyggðar með 7,3 klst.

Í lok þorra verða sigurlið heiðruð með verðlaunum og viðurkenningum, svo og sá einstaklingur sem ver mestum tíma í lestur á þessu tímabili. Einstaklingskeppnin er nýbreytni í ár svo nú verður í fyrsta sinn ljóst hver er aðal lestrarhestur landsins. Hver þátttakandi getur keppt bæði sem einstaklingur og í liði, eða valið aðeins annan kostinn.

Allar tegundir bóka eru gjaldgengar. Það skiptir ekki máli hvernig bækur þú lest eða hvort þú lest prentaðan texta, rafbók eða hljóðbók. Hér er átt við allar bækur sem innihalda til dæmis skáldskap, fræði, skýrslur eða eitthvað allt annað. Lestu þér til ánægju um leið og þú keppir í lestri.

Allir geta myndað lið, til dæmis á vinnustaðnum, í saumaklúbbnum, vinahópnum eða með fjölskyldunni. Foreldrar sem lesa fyrir ung börn sín eru sérstaklega hvattir til að mynda lið með börnunum og skrá lesturinn. Einn aðili, liðsstjórinn, stofnar lið inni á vefnum og bætir öðrum liðsmönnum í liðið. Aðrir geta einnig fundið liðið og gengið í það. Þau lið sem verja mestum tíma í lestur standa uppi sem sigurvegarar.

smari@bb.is

Aukagreiðslur til þingmanna lækkaðar

Forsætisnefnd Alþingis leggur til að aukagreiðslur þingmanna vegna starfs- og ferðakostnaðar verði lækkaðar á móti þeim miklu launahækkunum sem þingmenn og aðrir kjörnir fulltrúar fengu á kjördag. Greiðslurnar sem lagt er til að verði lækkaðar hafa verið gagnrýndar í gegnum tíðina. Þær eru að hluta skattfrjálsar og þingmenn hafa fengið þær greiddar án þess að þurfa að sýna fram á nokkurn kostnað á móti.

Nefndin leggur til að skattfrjálsar ferðakostnaðargreiðslur verði lækkaðar um 54 þúsund krónur á mánuði og starfskostnaðargreiðslur um 50 þúsund krónur. Sé tekið tillit til skattlagningar jafngildir þetta 150 þúsund króna lækkun fyrir skatt samkvæmt útreikningum forsætisnefndar og greiðslur til þingmannna, þ.e. þingfararkaup og fastar mánaðarlegar greiðslur, eiga að vera innan þeirrar launaþróunar  sem orðið hefur frá því að kjararáð hóf að úrskurða um þingfararkaup árið 2006.

smari@bb.is

Áhugaverður þáttur um Ragnar H.

Ragnar H. Ragnar.

Á laugardaginn var fluttur á Rás 1 áhugaverður útvarpsþáttur Finnboga Hermannssonar um líf og starf Ragnars H. Ragnar tónlistarfrömuðs á Ísafiðri. Hann var fyrsti skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar 1948 og stjórnaði skólanum til ársins 1984. Skólinn varð strax þekktur undir hans stjórn og hann mótaði þær hefðir sem margar hverjar enn eru hafðar í heiðri og við skólann og frá honum er kominn sá mikli metnaður og hái standard sem jafnan ríkir í starfi skólans. Auk brots úr viðtali við Ragnar er í þættinum rætt við nokkra samferðamenn hans og einnig má heyra hann sjálfan leika eitt af sínum uppáhaldslögum í upphafi og lok þáttarins.

Þátturinn er aðgengilegur í Sarpi RÚV.

smari@bb.is

Skemmdarverk unnin á sumarbústað

Í liðinni viku barst tilkynning um skemmdarverk á sumarbústað í Valþjófsdal í Önundarfirði til Lögreglunnar á Vestfjörðum og er málið í rannsókn. Þá var einnig tilkynnt um minniháttar skemmdarverk á tveim bílum á Ísafirði. Þetta kemur fram í helstu verkefnum Lögreglunnar. Þá var einn aðili á Ísafirði var grunaður um meðferð fíkniefna í vikunni og ökumaður stöðvaður vegna gruns um að aka undir áhrifum fíkniefna. Eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglu í liðinni viku í Bolungarvík og var það minniháttar. Fjórir ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur, tveir í nágrenni Hólamvíkur og tveir við Ísafjörð. Þorrablót voru haldin víða í umdæminu um liðna helgi og fóru vel fram og án teljandi afskipta lögreglu.

Lögregla vill koma því á framfæri til ökumanna/umráðamanna bifreiða og þeir hugi að því þegar farið er af stað á morgnana að hreinsa vel af rúðum ökutækja sinna þannig að snjór hindri ekki útsýni.

annska@bb.is

Framtíðarhúsnæði fyrir söfnin uppfyllir ekki kröfur

Byggðasafn Vestfjarða hefur sagt upp samningi við Ísafjarðarbæ um leigu á geymsluhúsnæði í Norðurtanganum á Ísafirði. „Það meðal annars vantar brunavarnarkerfi, það er enginn neyðarútgangur og þetta eru algjörar vanefndir á því sem talað var um og fullnægir því ekki kröfum safnsins,“ segir Jón Sigurpálsson, forstöðumaður Byggðasafnsins en einungis lítill hluti af eigum safnsins var kominn í geymslu í Norðurtanganum.

Sumarið 2015 gerði Ísafjarðarbær samkomulag við fyrirtækið,Hraðfrystihúsið Norðurtanga ehf. um 10 ára leigu á Norðurtanganum undir geymslur fyrir skjala- ljósmynda og listaverkasöfn bæjarins auk Byggðasafnsins.

Jóni er ekki kunnugt um hvort hin söfnin flytji inn í húsið.

Ákvörðun um 10 ára leigusamning Ísafjarðarbæjar við Hraðfrystihúsið Norðurtanga ehf. var tekin í miklum ágreiningi milli meiri- og minnihluta bæjarstjórnar, líkt og flestum er líklega í fersku minni.

smari@bb.is

 

Söngur hefur gríðarlega góð áhrif á sálina

Aron Ottó vann til fyrstu verðlauna í Vox Domini

Aron Ottó Jóhannsson nemandi við Menntaskólann á Ísafirði sigraði á sunnudag í miðstigsflokki í söngkeppninni Vox Domini líkt og greint var frá hér á vefnum í gær. Aron Ottó segist í sjöunda himni með sigurinn, hann segir þó byrjun síðustu umferðar í keppninni hafa verið eilítið taugatrekkjandi: „Ég var með fyrsta atriðið og steig fyrstur á svið í síðustu umferð keppninnar. það var frekar stressandi að vera fyrstur á svið. en ég hugsaði um það frekar eins og að rífa af sér plástur, betra að ljúka því sem fyrst af.“

Aron Ottó hefur náð gríðarlega góðum árangri í söngnum og þykir hann hafa einstaklega fallega bassarödd, en einungis er um eitt og hálft ár frá því er hann hóf söngnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Vox Domini, var nú haldin í fyrsta sinn en það er FÍS, Félag íslenskra söngkennara sem fyrir henni stendur og er ætlunin að keppnin verði haldin árlega. Aron Ottó ber keppninni vel söguna: „Þátttakan í keppninni var skemmtileg upplifun. Þetta var eitthvað algjörlega nýtt fyrir mig, og ólíkt öllu því sem ég hef gert áður. Baksviðs var að finna allskonar frábæra söngvara frá öllum landshornum; bassa,  tenóra og sópran söngkonur, söngvara af öllu stærðum og gerðum.“

Aðspurður um hvað söngurinn geri fyrir hann stendur ekki á svari hjá bassasöngvaranum unga: „Ég myndi segja að söngur hafi gríðarlega góð áhrif á sálina, söngur er frelsandi.“

annska@bb.is

Fjögur þúsund tonna útskipun

Fyrsta útskipun ársins fór fram í gær hjá Íslenska kalkþörungafélaginu á Bíldudal þegar fjögur þúsund tonnum af kalkþörunngum var skipað um borð í flutningaskipið Wilson Huelva. Héðan sigldi skipið áleiðis til hafnarborgarinnar Castletownbere á Írlandi þar sem hluta farmsins verður skipað á land, áður en skipið heldur áfram til Lorient í Bretáníu í Frakklandi þar sem restinni verður skipað upp.

smari@bb.is

Dregist um rúma öld að þinglýsa

Hrafnseyrarkirkja.

Viðskiptaráð áréttar að skráður eigandi Hrafnseyrarkirkju sé samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Ríkissjóður Íslands. Hrafnseyrarnefnd er skráð sem umráðandi kirkjunnar en þinglýstur eigandi hennar er íslenska ríkið. Tilefni tilkynningar Viðskiptaráðs er yfirlýsing fyrrverandi og núverandi formanns sóknarnefndar Hrafneyrarkirkju um tillögu Viðskiptaráð um að ríkið selji tuttugu kirkjur, þar á meðal Hrafnseyrarkirkju. „Þetta verður að kalla brandara dagsins, því ríkissjóðurinn okkar á ekkert í Hrafnseyrarkirkju og hefur aldrei átt. Hvorki spýtu né nagla,“ segir í bréfi formannanna.

Á vef Viðskiptaráðs segir:

„Í tilkynningu formannanna er fullyrt að árið 1910 hafi sóknarpresturinn á Hrafnseyri afhent Hrafnseyrarsöfnuði kirkjuna til eignar og varðveislu. Þessari afhendingu hefur ekki ennþá verið þinglýst. Því má spyrja sig hvort hinn eiginlegi brandari sé sá að Hrafnseyrarsöfnuður hafi á 107 árum ekki haft tíma til að ganga frá þessari þinglýsingu.“

Fyllsta öryggis gætt á flugeldasýningu

Í gær birtist frétt á bb.is um áramóta og þrettándagleði og því miður fór fréttamaður með fleipur sem er bæði rétt og skylt að leiðrétta. Í myndbrotinu af brennunni á Ísafirði sést þegar flugeldi springur í haffletinum og dró fréttamaður þá röngu ályktun að um mistök hefðu verið að ræða. Nú hafa forsvarsmenna Björgunarfélags Ísafjarðar sem sáu um flugeldasýninguna upplýst að um var að ræða flugelda sem skotið er meðfram haffleti og springa þar, svokallaðar vatnabombur.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir