Sunnudagur 11. maí 2025
Heim Blogg Síða 2342

Þá var tíðin „óminnilega góð“

Útsýnið frá bryggjunni á Gjögri er ómótstæðilegt.

Veðurfar á Vestfjörðum hefur verið sérlega gott þennan veturinn, óveður fátíð, úrkoma með minna móti og snjóalög létt sem gremur og gleður á víxl. Árið 1929 var einstaklega gott ár veðurfarslega séð hér á landi, ef kannski undan eru taldir síðustu tveir mánuðir ársins. Um þetta má lesa í mánaðarlegu yfirliti Níelsar Jónssonar sem Trausti Jónsson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands tók saman og birti á vef stofnunarinnar fyrir nokkrum árum. Níels var veðurathugunarmaður á Grænhóli við Gjögur á Ströndum á árunum 1921 til 1934.

Er við sem uppi erum árið 2017 upplifum sérlega mildan marsmánuð, er til gamans birt yfirlit Níelsar yfir marsmánuð árið 1929, sem einnig var með eindæmum góður:

„Óminnilega góð tíð. Tveir elstu búhöldar hjer á áttræðisaldri muna engan vetur þessum líkan. Þeir Kristinn Magnússon, Kambi, og Guðm. Pjetursson, Ófeigsfirði, og enginn hjer ungur eða gamall. Tíunda mars kannaði jeg mjög víða klaka eða þýðu í jörð með mjóum stáltein 90 cm löngum. Var þá mjög óvíða að finna klaka í túnum og móum, aðeins lítils háttar þar sem mýrlent var og þó lítilsháttar smáblettir, flestir svo þunnir að teinninn gekk í gegnum þá. Í móum fann jeg klaka tölur í stöku lágum og loðnum börðum. Klakalaus er nú talin jörð öll á láglendi í mánaðarlokin.

Gróður í túnum mikill til að sjá 18. mars og nál lítils háttar í úthaga en þó gráblettótt tún enn í mánaðarlokin en tínir mikið grænt í úthaga. Lambagras sje mikið og víða útsprungið á bersvæði 30. mars og sóleyjahnappar í túnum á stöku stöðum. Öll vinna möguleg til jarðræktar. Frekar ókyrð af og til til sjóar en fiskur talsvert vandhittur, er í ræmum víða í dýpishöllum og svo hnöppum. Fiskreyta 2-300 á 6-8 lóðir fæst hér á firðinum.

Íshús víst flest hjer klaka eða snjólaus og illnáandi í snjó nú, fyrir skip, sagt norður allar strandir. Bagalegur fleyrum en Grænlenskum skrælingjum blíðuveturinn þessi.

Farfuglar. Heiðlóur hjer 28. mars. Tjaldar hjer 8. mars. Svanir á vötnum 10. mars og síðan. Lómar fyr. Af fönnum mínum er nú Skarðagilsskaflinn einn eftir en þó lítill“

Skrif Níelsar fyrir árið 1929 í heild sinni má lesa hér.

Auglýsing

Éljagangur síðdegis

Veðurstofa Íslands spáir vestlægri golu eða kalda á Vestfjörðum og úrkomulitlu veðri fram eftir degi. Síðdegis má gera ráð fyrir suðvestan 5-13 m/s með éljum. Hiti verður nálægt frostmarki. Búast má við heldur hægari vindi á morgun. Á fimmtudag spáir norðan 5-13 m/s með snjókomu norðan- og austanlands, hvassast á annesjum. Þurrt að kalla á sunnanverðu landinu og éljagangur nyrðra um kvöldið. Frost 0 til 5 stig, en frostlaust allra syðst.

Hálka eða hálkublettir eru á vegum á Vestfjörðum og snjóþekja á fjallvegum.

annska@bb.is

Auglýsing

Meiri botnfiskafli á land á Vestfjörðum

Löndun í Bolungarvík.

Á síðasta ári var rúmlega 57 þúsund tonnum af bolfiski landað í vestfirskum höfnum og varð aukningin um 4,9% milli ára. Mest var landað í Bolungarvík og á Ísafirði eða rúmlega 19 þúsund tonnum. Þriðja stærsta löndunarhöfnin á Vestfjörðum er á Patreksfirði en 6.600 tonn af botnfiski bárust þarf á land á síðasta ári. . Reykjavíkurhöfn ber venju samkvæmt höfuð og herðar yfir aðrar löndunarhafnir hér á landi þegar horft er til löndunar á botnfiski og tæplega 90 þúsund tonn af botnfiski var landað í Reykjavík á síðasta ári.

Sú höfn sem kemur næst er Grindavíkurhöfn með 38.374 tonn, en þar varð samdráttur um 17,2% eða tæp átta þúsund tonn. Samdráttur var í afla á einstökum stöðum víða um land, að því er fram kemur á heimasíðu Fiskistofu. Mestur samdráttur í magni talið var í Grindavík og á Ísafirði þar sem hann var um 2,9 þúsund tonn. Mest jókst magnið í Hafnarfirði, um 6,3 þúsund tonn, 24%, og í Bolungarvík um fjögur þúsund tonn eða 26,4%. Aukning var í löndun á botnfiskafla á öllum landsvæðum að Suðurnesjum undanskildum. Afli á Norðurlandi vestra jókst úr tæpum 27 þúsund tonnum í rúm 29,1 þúsund tonn og á Norðurlandi eystra úr 81,8 þúsundum tonna í 88 þúsund tonn. Aukning varð í löndun á botnfiskafla á öllum landsvæðum að Suðurnesjum undanskildum en þar dróst landað magn saman um 10,2% eða um rúm 6,3 þúsund tonn og var 55.762 tonn. Á Reyðarfirði var í fyrra aðeins landað 71 kílói af botnfiski.

 

 

Auglýsing

Baldur leysir Herjólf af

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur fer í reglubundna slipptöku í maí. Breiðafjarðarferjan Baldur mun þá sigla á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar á meðan slipptökunni stendur. Herjólfur mun sigla samkvæmt áætlun til 1. maí næstkomandi og Baldur til 30. apríl.  Sá síðarnefndi mun hefja siglingar frá Vestmannaeyjum 2. maí og er stefnt að því að því að Baldur verði kominn aftur á áætlun í Breiðafirði sunnudaginn 21. maí.
Farþegabáturinn Særún mun þjónusta farþega á leið í og úr Flatey þann tíma sem Baldur verður fjarri vegna þessa verkefnis.

Auglýsing

Taflfélag Bolungarvíkur hafnaði í 5. sæti

Skákmaðurinn Guðmundur Gíslason (t.h.) teflir fyrir Taflfélag Bolungarvíkur.

Fyrstu helgina í mars fór fram seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga í Rimaskóla í Reykjavík. Sem fyrr teflldi Taflfélag Bolungarvíkur í fyrstu deild þar sem félagið hefur verið óslitið í 10 ár. Á vefnum vikari.is segir að árangur liðsins í ár er í samræmi við væntingar og í takt við styrkleikaröðun, en Taflfélag Bolungarvíkur hafnaði í 5. sæti með 34,5 vinninga, en Skákfélagið Huginn bar sigur úr býtum. Íslandsmótið fer þannig fram að fyrri hluti keppninnar fer fram að hausti og seinni hluti á vormánuðum næsta árs.

Auglýsing

Þunglyndiseinkenni algeng á Íslandi

Konur eru líklegri en karlar til að fá þunglyndiseinkenni.

Í evrópsku heilsufarsrannsókninni 2015 var Ísland í fjórða sæti yfir fjölda fólks með þunglyndiseinkenni. Konur eru líklegri en karlar til að hafa slík einkenni. Munur á körlum og konum var mestur í aldurshópnum 15–24 ára og 65 ára og eldri. Þunglyndiseinkenni voru algengari meðal ungra kvenna á Íslandi en í öðrum Evrópulöndum. Greint er frá rannsókninni á vef Hagstofunnar.

Tæp 9% fólks á Íslandi mældist með þunglyndiseinkenni, en það er fjórða hæsta hlutfallið af þeim löndum sem tóku þátt í evrópsku heilsufarsrannsókninni. Þá voru rúm 4% með mikil einkenni og er Ísland þar með næsthæsta hlutfallið.

 

Flestir mældust með þunglyndiseinkenni í Ungverjalandi, rúm 10%, en fæstir í Tékklandi, rúm 3%. Af Norðurlöndunum var þetta hlutfall hæst í Svíþjóð, rúm 9%, en lægst í Finnlandi, rétt undir 5%. Noregur og Danmörk voru á svipuðu róli með rúm 6%.
Konur á Íslandi eru líklegri til að hafa þunglyndiseinkenni en karlar, tæp 11% á móti 7% karla. Hlutfallið var hærra hjá konum í öllum aldurshópum en þó áberandi hærra í yngsta og elsta aldurshópnum. Á aldrinum 15–24 ára mældust 10% karla með einkenni þunglyndis og tæp 18% kvenna. Í aldurshópnum 65 ára og eldri mældust rétt um 4,5% karla með þunglyndiseinkenni en rúm 11% kvenna.

 

Auglýsing

Funduðu með samgönguráðherra

Funduðu með samgönguráðherra

Bæjarstjóri, formaður bæjarráðs og verkefnastjóri samfélagsuppbyggingar í Vesturbyggð, fóru á fund með Jóni Gunnarssyni ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála í gær þar sem farið var yfir þá jákvæðu þróun og uppbyggingu atvinnulífs sem á sér stað á sunnanverðum Vestfjörðum. Á fundinum voru meðal annars ræddar fyrirhugaðar vegaframkvæmdir í Gufudalssveit, en þær eru meðal þeirra vegaframkvæmda á samgönguáætlun sem voru skornar niður þar sem Alþingi fullfjármagnaði ekki eigin samgönguáætlun. Í tilkynningu frá Vesturbyggð kemur fram að ráðherra hafi farið yfir málið frá sinni hlið og var hann jákvæður um hægt verði að bjóða verkið út á þessu ári.

Í tilkynningunni segir að mikilvægt sé að tryggja að fjárveiting verði eyrnamerkt verkefninu þannig að hægt verði að fara af stað innan ársins. Það er samt sem áður háð því að málið komist án frekari tafa í gegnum skipulagsferlið, en innan skamms er von á áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati Vegagerðarinnar. Fulltrúar Vesturbyggðar ítrekuðu mikilvægi þessarar vegaframkvæmdar og að málið verði leitt til lykta með farsælum og skjótum hætti.

Auglýsing

Óvenju illvíg flensa

Grunnskólinn á Ísafirði.

Illvíg flensa hefur herjað á Vestfirðinga sem og aðra landsmenn upp á síðkastið og hefur hún lagt óvenju marga í bólið. Hár hiti fylgir flensunni sem byrjar oft með höfuðkvölum og fylgja henni svo beinverkir og kvef í flestum tilfella þó eitthvað sé um ólík blæbrigði. Þeir sem grípa pestina liggja í flestum tilfellum lengi eða um vikutíma. Hallgrímur Kjartansson, framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, segir að flensan í ár sé skæð og við bætist að virkni bóluefnisins við inflúensu sem margir nýta sér er minni en oft áður. Hann segir bóluefnið þó draga úr einkennum og bjarga þannig því sem bjargað verður.

Talsvert hefur verið um innlagnir á sjúkrahúsið vegna flensunnar og fylgikvilla hennar og þá hafa aðrar pestir verið í gagni í bland sem hefur valdið auknu álagi. Flensan fer ekki í manngreinaálit og hefur starfsfólk HVest einnig fengið að kenna á henni og sama á við um kennara við Grunnskólann á Ísafirði en þar hafa sjaldan sést önnur eins forföll vegna veikinda og nú. Leggst flensan bæði á nemendur og starfsfólk skólans, en sérstaklega slæm hefur hún verið meðal nemenda í 1.-6.bekk.

Á föstudag í síðustu viku voru til að mynda rúmlega 60 nemendur veikir af þeim 340 sem stunda nám við skólann. Í dag eru 45 nemendur fjarverandi vegna veikinda og segir Henný Þorsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur við skólann að það sé engu líkara en þessi flensa ætli bara að fella alla, en hún segist þó vonast til að toppnum sé náð, þó fólk sé enn að veikjast.

 

annska@bb.is

Auglýsing

Óásættanlegt að hætta við framkvæmdir í Gufudalssveit

Veglínurnar sem eru bornar saman í matsskýrslunni. Vegagerðin vill fara leið Þ-H um Teiggskóg.

 

Sveitarstjórn Reykhólahrepps krefst þess að staðið verði að fullu við þau fyrirheit sem gefin eru í nýsamþykktri samgönguáætlun Alþingis. Þetta kemur fram í ályktun sveitarstjórnar og tilefnið er ákvörðun Jóns Gunnarssonar að hætta við framkvæmdir í Gufudalssveit á þessu ári þvert á samgönguáætlun. „Það er óásættanlegt eftir áralanga baráttu, að núna þegar loksins hillir undir að framkvæmdir geti hafist við þjóðveg 60 í Gufudalssveit, skuli óvissa ríkja um fjármögnun verksins,“ segir enn fremur í ályktuninni. Örfáár vikur eru í Skipulagsstofnun gefi álit sitt á umhverfismati nýrrar veglínu í Gufudalssveit en málið hefur eins og alþjóð veit velkst um í kerfinu í á annan áratug og ratað alla leið til Hæstaréttar.

 

Auglýsing

Vestfirska vorið – málþing á Flateyri

Ný bæjarstjórn leggur áherslu á gott samstarf milli allra. Mynd: Mats Wibe Lund.

Málþingið Vestfirska vorið verður haldið á Flateyri dagana 5. – 6. maí. Á málþinginu ætla heimamenn á Flateyri, sem skipuleggja málþingið í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða og Fræðslumiðstöð Vestfjarða, spyrja hvort hægt sé að snúa núverandi byggðaþróun við því sá raunveruleiki blasir við að ef fram fer sem horfir muni margar sjávarbyggðir á Íslandi ekki ná vopnum sínum og jafnvel leggjast af. Á málþinginu verða því bornar fram brennandi spurningar um framtíð íslenskra sjávarbyggða og annarra byggða í dreifbýli og þær krufðar til mergjar.

 

Þrír fræðimenn munu flytja erindi á málþinginu en allir hafa þeir fjallað um byggðaþróun, hver frá sínum fræðasviði. Þeir eru dr. Guðmundur Hálfdánarson, sagnfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, dr. Kristinn Hermannsson, hagfræðingur og lektor við Háskólann í Glasgow og dr. Þóroddur Bjarnason, félagsfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri. Heimamenn á Flateyri munu einnig fjalla um stöðu mála út frá reynslu og rannsóknum og eru það þau Jóhanna G. Kristjánsdóttir, menntunarfræðingur, Kristján Torfi Einarsson, sjómaður og útgerðarmaður og Sæbjörg Freyja Gísladóttir, þjóðfræðingur.

 

Umræðum um efni fyrirlestranna og stöðuna almennt verður gefið gott rými við lok fyrirlestra og í sérstökum pallborðsumræðum enda afar mikilvægt að sem flest sjónarmið og röksemdir komi fram.

Auglýsing

Nýjustu fréttir