Síða 2342

Ráðgera diplómunám á Ísafirði

Leikskólinn Eyrarskjól á Ísafirði.

Háskóli Íslands kannar nú möguleikana á betra aðgengi að diplómanámi í leikskólakennarafræðum í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða og Ísafjarðarbæ. Samstarfið felur einna helst í sér að nemendur af svæðinu þurfa ekki að fara í eins margar staðlotur suður og tíðkast, heldur munu kennarar koma vestur og kenna í Háskólasetrinu. Jafnframt mun Ísafjarðarbær auðvelda starfsmönnum sínum að taka þátt í þessum lotum.

Til að hægt sé að fara af stað með verkefnið er gerð krafa frá Háskóla Íslands að hið minnsta 7-8 nemendur séu skráðir. Þeir sem hafa áhuga á náminu eru því hvattir til að hafa samband við kennslustjóra Háskólaseturs sem fyrst.

Um er að ræða 120 ECTS nám (2 ár) sem er bæði fræðilegt og starfstengt. Meginmarkmið námsins er að undirbúa nemendur fyrir starf í leikskóla og samstarf í starfsmannahópi leikskóla. Jafnframt er  áhersla lögð á að nemendur hljóti fræðilega og starfstengda þekkingu á uppeldi og menntun leikskólabarna og þjálfun í að beita henni. Að námi loknu hljóta nemendur starfstitilinn aðstoðarleikskólakennari.

Bent skal á að ekkert er því til fyrirstöðu að halda áfram námi eftir að diplómanáminu lýkur og telja einingarnar inn í bakkalár gráðu í leikskólakennarafræðum.

smari@bb.is

Bollywood-mynd tekin upp í Holti

Holt í Önundarfirði. Mynd: Ágúst Atlason.

Eftir helgina hefst undirbúningsvinna við tökur á Bollywood-mynd, sem verður meðal annars tekin upp vestur á fjörðum. Á bilinu 40-50 manns munu starfa við kvikmyndatökurnar og flestir koma þeir frá Indlandi. Stærsti hluti myndatökunnar verður í Holti í Önundarfirði en einnig verða teknar upp senur á flugvellinum á Ísafirði og á nokkrum öðrum stöðum í grenndinni.

Maðurinn á bak við komu kvikmyndagerðarmanna vestur er Ágúst Atlason, ljósmyndari á Ísafirði með meiru, en framleiðandi myndarinn er Búi Baldvinsson hja Hero Production.

„Snemma á þessu ári hafði Búi Baldvinsson hjá Hero Production samband við mig og sagðist vera að leita að staðsetningu fyrir Bollywood-mynd. Til greina kom að vera á Norðurlandi eða á Vestfjörðum og ég náði að selja þeim Vestfirði og Holt sem tökustað,“ segir Ágúst.

Myndin er ekki dæmigerð Bollywood-mynd þar sem söguhetjur bresta í söng og dans af minnsta tilefni. „Myndin er án dans- og söngatriða og verður í hryllingsmyndastíl og er verið að reyna nýja hluti í Bollywoodsenunni,“ segir Ágúst.

Hluti kvikmyndagerðarmanna gistir í Friðarsetrinu í Holti og hluti á Núpi í Dýrafirði. „Kvikmyndatökuliðið mun vera hérna fyrir vestan í kringum 25 daga. Þetta er annað verkefnið sem ég hef náð hingað vestur, en í fyrra kom hingað lítil teymi ljósmyndara að mynda fyrir Volvo bílana. Ljóst er að þetta er uppgrip á annars rólegum tímum hérna fyrir vestan og ég vonast til að ná fleirum meðalstórum verkefnum hingað í framtíðinni,“segir Ágúst.

smari@bb.is

Vaxandi vindur – stormur á morgun

Átakalítið veður í dag, en hvessir og hlýnar talsvert á morgun. Vindur gæti þá náð stormi á norðvesturhorninu og víða verðu talsverður blástur. Spáin fyrir Vestfirði kveður á um sunnan 5-10 m/s og él, en vaxandi vindur síðdegis og verður suðvestan 10-18 m/s með rigningu í kvöld. Gengur í sunnan stormviðri, 18-25 m/s með talsverðri rigningu upp úr hádegi á morgun, þá hlýnar smám saman og verður hiti á bilinu 4 til 6 stig.

Það er hálka á fjallvegum  á Vestfjörðum, snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði en að mestu greiðfært á láglendi.

annska@bb.is

Stofnfundur félags um lýðháskóla á laugardag

Ný bæjarstjórn leggur áherslu á gott samstarf milli allra. Mynd: Mats Wibe Lund.

Á laugardag verður stofnfundur félags um lýðháskóla á Flateyri haldinn í Félagsbæ. Tilgangur félagsins er að vinna að undirbúningi og stofnun lýðháskóla á Flateyri. Allir eru velkomnir á fundinn og teljast þeir til stofnfélaga sem skrá sig í stofnfélagaskrá sem verður á staðnum. Það er rík lýðháskólahefð á Norðurlöndunum, sérstaklega í Danmörku. Í skólunum er mikil áhersla á mannrækt og að nemendur geti sniðið sér nám til þess að efla sig og kynna sér ólíkar námsgreinar. Ekki er lögð áhersla á próf heldur þátttöku og að nemendur á öllum aldri geti komið og dvalið í eina eða tvær annir, kynnst nýjum stað og fólki, tekist á við ólík viðfangsefni og haft gagn og gaman af.  Á Íslandi er lýðháskóli starfræktur á Seyðisfirði og í undirbúningi er lýðháskóli á Laugarvatni sem mun leggja áherslu á íþróttir.

Fyrir nokkru kviknaði sú hugmynd að stofna lýðháskóla á Flateyri og í nóvembermánuði síðastliðnum kynnti stýrihópur um lýðháskóla hugmyndina fyrir bæjarráði Ísafjarðarbæjar. Dagný Arnalds íbúi á Flateyri er ein þeirra sem skipa stýrihópinn. Hún segir þegar heilmikla greiningarvinnu hafa átt sér stað og það sé niðurstaða hópsins að Flateyri sé mjög heppilegur kostur fyrir lýðháskóla: „Við höfum almennt fengið mjög jákvæð viðbrögð við hugmyndinni og nú vinna t.d. um 30 manns í sjálfboðastarfi við að koma þessum málum áfram, móta námsframboðið og fleira slíkt.

Stefnan er að bjóða upp á nám sem byggir á styrkleikum staðarins og sérstöðu og fá meðal annars til liðs við okkur fólk á svæðinu, sem hefur fjölbreytilega reynslu og þekkingu sem er dýrmæt og við erum fullviss um að eftirspurn er eftir.

Við stefnum á 3-4 brautir sem er verið að móta. Þessar brautir fela t.d. í sér fjallamennsku og umhverfisfræði og verður m.a. samstarf við björgunarsveitir svæðisins, leiðsögufólk, bændur og útgerðarfólk.  Kvikmyndagerð og tónlist yrðu líka á boðstólnum og margir sem eru tilbúnir að koma að því námi. Þar á meðal er t.d.  fólk sem tengist Flateyri sterkum böndum og er öllum hnútum kunnugt í kvikmyndagerð. Tónlistarhefð er líka rík á svæðinu og margt skemmtilegt og áhugavert sem hægt er að vinna með. Þar eru líka margir tilbúnir að leggja hönd á plóg.“

Dagný segir vonir standa til að lýðháskólinn taki til starfa ekki síðar en haustið 2018. Undirbúningsvinna hafi gengið vel og hópurinn bjartsýnn. Enn vantar þó nægilegt fjármagn til þess að geta hafist handa strax næsta haust, en Dagný segir þó dæmi um það í tilverunni að hlutir fari fram úr björtustu vonum og aldrei að vita nema slíkt hendi í tilfelli lýðháskólans.

Ekki liggur alveg ljóst fyrir á þessari stundu hvar lýðháskólinn verður til húsa og segir Dagný margar leiðir færar í þeim efnum: „Það er töluvert af vannýttu húsnæði á Flateyri og mikill velvilji í samfélaginu til þess að verða okkur að liði í þeim efnum. Lýðháskóli þarf ekki að vera í einu húsi með skólabjöllu en það er mikilvægt að nemendur kynnist samfélaginu og fái að vera þátttakendur í því. Húsnæðismálin eru smám saman að skýrast en það verða sjálfsagt námskeið á nokkrum stöðum í þorpinu.“

Hvatinn að efla samfélagið

Dagný segir að lýðháskólinn geti reynst gífurleg lyftistöng fyrir samfélagið á Flateyri: „Það mun efla samfélagið heilmikið ef við fáum kannski 40-50 nemendur og einhverjir þeirra jafnvel með börn. Þá er mikilvægt að við getum boðið góða þjónustu, til að mynda góðan leikskóla og skóla og að vel sé tekið á móti fólkinu. Við erum sannfærð um að okkur takist það ef allir leggjast á eitt.

Við sjáum líka fyrir okkur samstarf við fjölmarga aðila utan Flateyrar og margir þeirra sem eru í undirbúningsvinnunni með okkur og koma til með að taka þátt í starfinu eru búsettir í nágrannabæjunum eða bara víðsvegar um landið. Þegar er verið að skoða möguleika á samstarfi við bændur í nágrenninu í sambandi við umhverfisbrautina og ég held að styrkleiki verkefnisins verði fólginn í því hversu margir eru tilbúnir að leggja því lið. Á Vestfjörðum er þétt og öflugt samfélag þó að við höfum þurft að takast á við ýmsar áskoranir og sumar heldur snúnar. Með því að sameina kraftana getur afraksturinn orðið til þess að efla samfélagið okkar og það er þegar allt kemur til alls leiðarljósið og hvatinn að þessu verkefni.“

Alþingi ályktaði síðastliðið sumar að fela menntamálaráðuneytinu að hefja vinnu við gerð frumvarps til almennrar löggjafar um lýðháskóla á Íslandi. Markmiðið er að gera lýðháskóla að viðurkenndum valkosti í menntun sem njóti lagalegrar umgjarðar og stuðnings hins opinbera. Frumvarpið á að líta dagsins ljós ekki síðar en  á vorþingi 2017.

Stofnfundurinn verður sem áður segir í Félagsbæ (Gunnukaffi/Gamla kaupfélagið) við Hafnarstræti á Flateyri á laugardag og hefst hann klukkan 13.

annska@bb.is

Er friður í boði í viðsjálli veröld?

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Mér gafst kostur á að sækja friðarráðstefnuna „World Summit 2017“ í Seoul í Suður Kóreu í byrjun febrúar. Yfirskrift ráðstefnunnar var: friður,öryggi og jöfnun lífskjara. Að ráðstefnunni standa alþjóðleg friðarsamtök og alþjóðlegt samband þingmanna fyrir friði. SunHak-friðarverðlaunin eru kennd við upphafsmenn þessara samtaka sem eru hjónin Dr. Sun Myung Moon og Dr.Hak Ja Han Moon, eftirlifandi kona hans.

Margt má segja um mikla upphafningu þessara einstaklinga á þeirra heimaslóðum í Suður Kóreu en eitt er víst að friðarboðskapurinn einn og sér er vel þess virði að hafa verið meðal þátttkenda í þessum fjölmenna fundi ólíkra fulltrúa víðsvegar að úr heiminum sem koma saman til að hlusta á sjónarmið hvers annars.

Markmiðið með ráðstefnunni er mjög gott. Það felur í sér samveru og samtal fulltrúa fulltrúa frá ólíkum þjóðum og menningarheimum sem koma saman til þess að leita leiða til að hindra stríðsátök og fátækt og einnig til að berjast saman fyrir bættum lífskjörum fátækra þjóða, aukinni menntun, jöfnuði og jafnrétt kynjanna.

Friðarverðlaun

Friðarverðlaunin í ár fengu 2 einstaklingar sem hafa tileinkað líf sitt lækningum , hjálparstarfi og menntun á stríðshrjáðum svæðum. Dr. Gino Strada skurðlæknir frá Ítalíu sem veitt hefur yfir 4 milljónum einstaklinga læknis- og neyðaraðstoð á stríðsátaka svæðum og Dr. Sakena Yacoobi kennari og baráttukona sem helgað hefur líf sitt réttindum og menntun barna og kvenna í Afganistan. Þegar ég hlustaði á ræður þess tveggja einstaklinga og kynningu á lífsstarfi þeirra veitti það manni trú á að mannkyninu er viðbjargandi og að það góða sigrar það illa að lokum. Fjöldi framsögumanna héldu innihaldsríkar ræður þar sem ræddur var flóttamannavandinn, stríðsátökin og þau sem ná ekki eyrum alþjóðafjölmiðla og fátæktina sem færist á milli kynslóða og bága stöðu kvenna og barna í mörgum löndum.

Mér gafst kostur á að flytja ræðu um frið,stöðu kvenna og jafnrétt á Íslandi á kvöldverðarfundi þingkvenna sem byggja upp tengslanet um frið og stöðu kvenna og fjölskyldna í heiminum.

Margar magnaðar ræður voru fluttar þar sem miklar tilfinningar brutust fram um ástandið í viðkomandi landi eins og allar hörmungarnar í Sýrlandi, flóttamannabúðir í Líbíu, stjórnmálaástandið og átökin í Tyrklandi og í Úkraínu svo eitthvað sé nefnt. Eins var það áhrifaríkt þegar þingmaður Norður Kóreu ávarpaði ráðstefnuna og kallaði eftir friði á milli Norður og Suður Kóreu og sagði að hin miklu mótmæli á götum úti gegn spillingu tengdum ríkisstjórn Suður Kóreu hefðu aldrei verið leyfð í sínu landi þar sem ekkert lýðræði ríkti.

Ekki er friðvænlegt

Ástandið í heiminum er ekki friðvænlegt með stórhættulegan rugludall sem forseta í Bandaríkjunum, valdamesta ríki heims. Forseta sem er spilltur auðjöfur og vill reisa girðingar á milli þjóða,mismuna á grundvelli trúarbragða og haldinn er kvenfyrirlitnigu.

Nýjasta útspil Donalds J. Trump forseta Bandaríkjanna er komubann til Bandaríkjanna á íbúa sjö landa múslimaríkja sem trúlega reynist stjórnarskrábrot. Þar er kynnt undir hatri á grundvelli kynþáttafordóma og trúarbragðaskoðana og kyndir undir stríðsátökum í heiminum.

Ekki má gleyma að minnast á stríðsátökin í hinum fátækari ríkjum Afríku sem vilja oft gleymast þar sem ekki eru undirliggjandi hagsmunir stóveldanna og auðlindir í fátækum ríkjum sem auðhringir hafa sölsað undir sig.. Við hér heima á Íslandi erum svo lánsöm að vera herlaust land og friðsöm þjóð þó sá ljóður sé á að vera enn þá í hernaðarbandalaginu Nató.

Vinstri græn með Steingrím J Sigfússon sem fyrsta flutningmann hafa lagt fram tillögu um kjarnorkufriðlýsingu Norðurslóða og mikilvægt er að við tökum skýlausa afstöðu þar og séum leiðandi í málefnum Norðurslóða en Ari Trausti Guðmundsson er formaður nefndar um Norðurskautsmál .

Ísland á að vera leiðandi í allri friðarumræðu og gera sig gildandi. Þótt lítið land sé þá getum við lagt okkar af mörkum til þess að stuðla að friðvænlegri heimi.

Það er horft til Íslands sem lýðræðisríkis sem hefur náð góðum árangri í mannréttindum,kvenfrelsi og sem velferðar samfélag þó alltaf megi sannarlega gera betur. Við eigum að láta í okkur heyra hvar sem er og hvenær sem er til þess að leggja okkar að mörkum á vogarskál friðar í heiminum.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.

Drengjaliðið sigraði riðilinn

10. flokkur Vestra með þjálfurum.

Um síðustu helgi gerðu ungir körfuboltamenn í í Vestra góða ferð í Þorlákshöfn þar sem keppt var í 10. flokki drengja. Skörð voru höggvin í lið Vestra vegna veikinda og því aðeins 6 leikmenn í liðinu. Auk Vestra tóku lið Snæfells, Tindastóls og Þórs úr Þorlákshöfn þátt í mótinu. Vestramenn sýndu styrk sinn og unnu riðilinn og eru þar með komnir upp í B-riðil.

Lið Vestra skipuðu: Daníel Wale Adeleye, Þorleifur Ingólfsson, Stefán Ragnarsson, Blessed Parilla og Hilmir og Hugi Hallgrímssynir. Þjálfari er Yngvi Páll Gunnlaugsson en honum til aðstoðar voru Magnús Breki Þórðarson og Adam Smári Ólafsson.

smari@bb.is

Launagreiðendum fjölgar

Á síðasta ári var að jafnaði 16.721 launa­greiðandi á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 705 eða 4,4% milli ára. Á síðasta ári greiddu launa­greiðend­ur að meðaltali um 180.100 ein­stak­ling­um laun sem er aukn­ing um 8.400 eða 4,9% sam­an­borið við árið á und­an. Þetta kem­ur fram á vef Hag­stofu Íslands.

Skipt eft­ir at­vinnu­grein­um hef­ur launþegum fjölgað mikið á milli ára hjá launa­greiðend­um í ferðaþjón­ustu og bygg­ing­ariðnaði. Launþegum hef­ur hins veg­ar fækkað í sjáv­ar­út­vegi.

Á ár­inu 2016 voru að meðaltali 1.577 launa­greiðend­ur og um 24.200 launþegar í ein­kenn­andi grein­um ferðaþjón­ustu og hafði launþegum fjölgað um 3.800 eða um 18,7% frá ár­inu á und­an.

Sömu­leiðis voru að meðaltali 2.404 launa­greiðend­ur og um 10.400 launþegar í bygg­inga­starf­semi og mann­virkja­gerð og hafði launþegum fjölgað um 1.400 eða um 15,6% á einu ári.

„Hafa verður í huga að í þess­um töl­um eru ekki upp­lýs­ing­ar um ein­yrkja sem eru með rekst­ur á eig­in kenni­tölu og greiða sjálf­um sér laun, en slíkt rekstr­ar­form er al­gengt í bygg­ing­ariðnaði, land­búnaði, hug­verkaiðnaði og skap­andi grein­um svo dæmi séu tek­in,“ seg­ir á vef Hag­stof­unn­ar.

smari@bb.is

Útilokar ekki að rifta samningi

Norðurtangahúsin

Ísafjarðarbær hefur ekki greitt leigu til Norðurtangans ehf. fyrir geymslupláss fyrir söfnin á Ísafirði. Í ágúst 2015 var undirritaður 10 ára leigusamningur milli Ísafjarðarbæjar og Norðurtangans ehf. um leigu á 408 fermetrum í Norðurtangahúsinu. Samkvæmt ákvæðum samningsins átti bærinn að fá húsnæðið afhent 1. janúar 2016, eða fyrir rúmu ári. „Við féllumst á að fresta því til júní 2016 en það hefur því miður ekki staðist,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Hann segir að bærinn hafi sýnt leigusala skilning á því að ýmislegt óvænt hafi komið upp við framkvæmdir í húsinu en þær eru umtalsverðar svo það verði hæft til að hýsa viðkvæma muni safnanna.

Hann fundaði í gær með forsvarsmanni Norðurtangans ehf. „Það stendur upp á Norðurtangann að gefa okkur dagsetningu sem fyrst og ég vonast til að við getum fengið húsið afhent fljótlega. En það er alveg ljóst að við bíðum ekki út í hið óendanlega,“ segir Gísli Halldór sem útilokar ekki að bærinn rifti samningnum en vonar að til þess komi ekki.

Forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða lýsti því í samtali við BB í síðustu viku að húsið fullnægi ekki kröfum og safnið ætli að rifta leigusamningi við Ísafjarðarbæ. Gísli Halldór segir að Ísafjarðarbær hafi ekki samþykkt að Byggðasafnið dragi sig út úr samningnum. „Okkur hefur ekki borist ákvörðun stjórnar safnsins um þetta þannig að við vinnum málið ennþá þannig að Byggðasafnið taki þátt.“

Samkvæmt samningi er fermetraverð leigunnar 1.500 kr. eða 612 þúsund kr. á mánuði. Eins og áður segir hefur bærinn ekki greitt leigu til Norðurtangans ehf. með einni undantekningu þó. „Vegna þess að forstöðumaður Byggðasafnsins ákvað að flytja hluta af safnmunum inn í húsið þurftum við að greiða leigu í skamma stund. En þar sem húsið er ekki tilbúið er leigan eignfærð hjá Ísafjarðarbæ og er eins og fyrirframgreidd leiga,“ segir Gísli Halldór.

smari@bb.is

Hvernig bera skal sig að ef slys eða veikindi ber að höndum utan dagvinnutíma

Í aðsendri grein sem nú má lesa á vef Bæjarins besta fjallar Hörður Högnason framkvæmdastjóri hjúkrunar við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða ítarlega um fyrirkomulag sem einstaklingum ber að nýta þurfi þeir að nýta þjónustu stofnunarinnar utan dagvinnutíma. Vísar hann í greininni til tveggja frétta sem birst hafa á BB um sjúklinga sem gert var að hringja í 1700 er þeir komu á staðinn til að leita læknishjálpar utan þess tíma. Viðbrögð við fréttunum sýndu að íbúum á svæðinu var almennt brugðið við þá breytingu sem orðið hefur á þjónustu stofnunarinnar og nokkuð ljóst er að flækst hefur fyrir fólki hvernig bera skal sig að eftir að hið nýja kerfi, það er að þurfa að hringja í vaktnúmerið 1700 eða í 112 áður en það getur fengið þjónustu á staðnum. Þá segir Hörður að ekki hafi verið leitað til HVEST eftir skýringum í þeim tilfellum sem sjúklingum var bent á vaktsímann, en í báðum tilfellum ræddi blaðamaður við framkvæmdastjóra lækninga við stofnunina.

Hörður bendir á í greininni að starfsmenn stofnunarinnar sem sinna sjúklingum þar utan almenns opnunartíma eigi ekki hægt um vik með að bregðast við ef sjúklingar koma beint á staðinn án þess að hafa gert boð á undan sér: Á kvöldvöktum á legudeildinni eru 3 starfsmenn, stundum 2 og af þeim ansi oft aðeins 1 hjúkrunarfræðingur. Á næturvöktum eru tveir starfsmenn, hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði. Mönnunin miðast við meðalálag við umönnun sjúklinga á 15 rúma deild. Ef fleiri eru inniliggjandi, eða ef erfið veikindi hrjá sjúklingana, er álagið meira og erfiðara að fara af deildinni, eða annast símsvörun.

Og á öðrum stað segir hann: Ef viðkomandi sneiðir framhjá 1700 og 112 og mætir beint að dyrasímanum á HVEST, þá bendir hjúkrunarfræðingurinn á legudeildinni honum á 1700, ef hann metur erindið þannig, en hringir strax á vaktlækninn, ef um bráðatilvik er að ræða. Í báðum tilfellum á hann að opna fyrir viðkomandi og vísa á sæti við afgreiðsluna, eða á biðstofu slysadeildar.

Komist hjúkrunarfræðingurinn frá deildinni, gætir hann að viðkomandi sjálfur, ef þess er þörf. Ef um alvarlegt bráðatilfelli er að ræða fer hann undantekningarlaust strax til viðkomandi, fer með hann á slysastofu, gerir viðeigandi ráðstafanir og bíður komu vaktlæknisins, eða kallar út hjúkrunarfræðing á bakvakt skurð- og slysadeildar til að leysa sig af.

1700 eða 112

Í greininni segir Hörður að þurfi fólk að ná sambandi við HVEST vegna veikinda og slysa utan dagvinnu, þurfi fyrst að tala við 1700, eða 112 og gefur hann lýsingar á því hvernig meta skuli hvert á að hringja:

Einstaklingar utan úr bæ hringja í 1700, ef um er að ræða tilfallandi veikindi og slys sem þarfnast ekki sjúkrabíls (t.d. flensa, hausverkur síðan í gær, kviðverkir, tognaður ökkli, spurning um handleggsbrot, eða skurður á fingri). Hjúkrunarfræðingur svarar og metur þörfina fyrir aðstoð. Ef hjálpin getur ekki beðið dagvinnutíma, er viðkomandi gefið beint samband við síma læknisins. Læknirinn og sjúklingurinn mæla sér svo mót á slysastofu, heilsugæslustöð, eða leysa málið á annan hátt.

Ef um er að ræða alvarlegri slys og veikindi með áverkum og einkennum sem gætu þarfnast bráðahjálpar og sjúkrabíls (t.d. meðvitundarminnkun, öndunarerfiðleikar, krampar, slæmur brjóstverkur, hjartastopp, fótbrot, liðhlaup o.s.frv.) er hringt í 112. Þeir leiðbeina, kalla á sjúkrabílinn, ef með þarf og senda vaktlækninum og legudeildinni SMS um málið. Læknirinn ákveður strax, hvort hann mætir beint á staðinn, eða tekur á móti viðkomandi á spítalanum. Hjúkrunarfræðingurinn gerir þær ráðstafanir sem þarf, eftir alvarleika málsins.

Ef einhver bið er eftir sambandi við 1700 á mesta álagstíma og viðkomandi telur sig ekki geta beðið, þá er líklega um neyð að ræða og rétt að hringja í 112. Ef óvissa er um, hvort hringja skuli í 1700 eða 112, þá er betra að hringja í 112 fyrst. Þeir meta stöðuna og beina manni á 1700, ef svo ber undir.

annska@bb.is

Bæjarins besta 6. tbl. 34. árgangur 2017

Nýjustu fréttir