Margir vilja flytja aftur heim
Í Vísindaporti vikunnar flytur Jónína Hrönn Símonardóttir, kennari og náms- og starfsráðgjafi, erindi sem byggir á meistararitgerð hennar um náms- og starfsferil fólks sem útskrifast hefur úr fámennum skóla á landsbyggðinni. Ritgerðin var unnin upp úr megindlegri rannsókn sem fram fór veturinn 2015.
Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna náms- og starfsferil einstaklinga sem allir eiga það sameiginlegt að hafa útskrifast úr 10. bekk Grunnskólans á Þingeyri á árabilinu 1994-2012. Einnig var viðhorf þeirra til heimabyggðarinnar kannað og ástæður núverandi búsetu.
Niðurstöður sýndu að mikill meirihluti þátttakenda fór í framhaldsskóla að loknum grunnskóla og fóru flestir í skóla í heimabyggð. Flestir sem voru í eða höfðu lokið framhaldsskóla völdu námsbrautir til stúdentsprófs, þrátt fyrir að margir hefðu meiri áhuga á verklegum greinum í grunnskóla. Flestir eru stoltir af því að kallast Dýrfirðingar og finnst þeir fara „heim“ þegar þeir fara þangað. Margir myndu flytja aftur á heimaslóðir ef atvinnutækifæri væru til staðar fyrir þá og maka þeirra.
Jónína Hrönn er Skagfirðingur að uppruna og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra árið 1989. Hún lauk B. Ed. gráðu í fjarnámi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1996 og var í hópi þeirra fyrstu sem það gerðu á Vestfjörðum. Hún lauk Dipl.Ed. í sérkennslu frá KHÍ árið 2008 ásamt því að ljúka viðbótarnámi í íslensku árið 2010. Hún útskrifaðist með M.A. í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands haustið 2016. Jónína flutti frá heimahögunum í Skagafirði til Þingeyrar fyrir aldarfjórðungi og hefur starfað sem kennari á öllum skólastigum við Grunnskólann á Þingeyri um langt árabil auk þess að stunda sérkennslu. Hún starfar einnig sem náms- og starfsráðgjafi í grunnskólunum á Þingeyri, Suðureyri og í Önundarfirði.
Vísindaportið stendur að vanda frá 12.10-13.00 og er öllum opið. Erindi þessarar viku fer fram á íslensku.
smari@bb.is
Umhverfisnefnd GÍ tekur matarsóun fyrir

Í Grunnskólanum á Ísafirði er starfandi umhverfisnefnd sem sex nemendur á unglingastigi ásamt sex kennurum skipa. Fyrr í vetur stóð umhverfisteymið fyrir fræðsluverkefni um matarsóun. Verkefnið hófst með því að kennarar í umhverfisteyminu gerðu leynilega könnun í mötuneyti skólans þar sem fylgst var með því hversu miklum mat nemendur í fjórum yngstu bekkjunum hentu í lok máltíðar. Mælingarnar stóðu yfir í eina viku og voru allar niðurstöður skráðar. Að því loknu tóku unglingarnir í umhverfisnefndinni til starfa. Þau settu saman fræðsluefni og fóru skipulega í alla bekki á yngsta stigi. Fræðslan miðaði að því að útskýra fyrir yngri börnunum hvernig hægt væri að minnka eða jafnvel koma alveg í veg fyrir matarsóun. Einnig komu unglingarnir aðeins inn á skynsamlega notkun á pappír og sápu.
Eftir fræðslu unglinganna var gert samkomulag við starfsfólk mötuneytisins og var þá nákvæmlega sami matseðill hafður í eina viku og hafði verið er könnunin var gerð. Aftur voru allar matarleifar mældar og nú með vitneskju nemenda. Fræðsla unglinganna virðist hafa skilað sér vel því mikill munur var á niðurstöðum milli mælinganna í öllum árgöngum. Í gær kynntu svo unglingarnir niðurstöðurnar fyrir yngri börnunum og hengdu þær upp fyrir framan stofur barnanna. Í dag er foreldradagur í skólanum og fá börnin þá tækifæri til að sýna foreldrum sínum árangurinn. Frá þessu var greint á heimasíðu Grunnskólans á Ísafirði.

Deilt um þjóðerni eldislaxins
Það er ótækt að laxeldisfyrirtæki markaðsetji afurðir sínar sem íslenskar þar sem eldislaxinn sé ekki af íslenskum uppruna heldur norskum. Þetta segir Haraldur Eiríksson, markaðsstjóri Hreggnasa Angling Club og einn ódeigasti baráttumaður gegn sjókvíaeldi á Íslandi. „Hingað er komið norskt sjókvíaeldisfyrirtæki, elur upp norskan lax í sjókvíum og selur hann og markaðssetur sem íslenskan. Meira að segja er íslenskur fáni settur á vöruna í Asíu og á Indlandi,“ segir Haraldur í Fréttblaðinu í dag og bendir á að íslenskur lax hafi í áratugi verið markaðssettur erlendis með þeirri ímynd að þar fari hreina afurð úr villtri íslenskri náttúru.
Kristian B. Matthíasson, forstjóri Arnarlax, er Haraldi ósammála. „Þetta er í grunninn lax sem var fluttur til Íslands fyrir tveimur áratugum. Við kaupum hann frá innlendu fyrirtæki og köllum hann íslenskan lax. Þeir sem eru síðan á móti laxeldinu segja að hann sé norskur lax,“ segir Kristian.
smari@bb.is
Nóróveira í frosnum jarðarberjum
Matvælastofnun hefur borist tilkynning frá hraðviðvörunarkerfi Evrópu um matvæli og fóður (RASFF) um nóróveirumengun í frosnum jarðarberjum frá COOP. Innflytjandi jarðarberjanna, Samkaup hf, hefur í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja innkallað jarðarberin af markaði, þau koma í 400gr pokum og eru með best fyrir merkinguna: 06/04/2018, strikamerki: 7340011459514.
Matvælastofnun varar við neyslu vörunnar og ráðleggur neytendum að farga vörunni eða skila henni til þeirrar verslunar sem hún var keypt í. Viðvörunin varðar eingöngu ofangreinda vöru. Nóróveirur valda sýkingu í smágirni. Sýkingin leiðir til kviðverkja, ógleði, uppkasta og niðurgangs og eru veirurnar í miklu magni, bæði í niðurgangi og uppköstum. Veirurnar eru mjög smitandi því að örfáar veirur geta valdið sýkingu.
Nánari upplýsingar um vöruna veitir Björn Björnsson, innkaupastjóri hjá Samkaupum.
100 skemmtiferðaskip í sumar
Hvorki meira né minna en eitt hundrað skemmtiferðaskip hafa staðfest komu sína til Ísafjarðar og nágrannahafna í Ísafjarðarbæ næsta sumar. „Hundraðasta skipið bókaði sig í gær en það var Sea Spirit sem kemur í september,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar. Fjölgun skemmtiferðaskipa hefur verið ævintýraleg á síðustu árum. Fyrir áratug komu 24 skip til hafna Ísafjarðarbæjar og þeim hefur fjölgað ár frá ári síðan. Í fyrrasumar voru skipakomurnar 82 og er þeim því að fjölga um 22% milli ára.
Guðmundur segir ekki miklar líkur á skipakomum í ár fjölgi frekar. „Venjulega eru ekki breytingar á listanum þegar komið er fram á þennan tíma.“
Hann segir komur skemmtiferðaskipa kærkomnar fyrir hafnarsjóð. „Sérstaklega í tekjuleysinu núna. Það hefur ekki komið mikið í kassann síðan sjómannaverkfallið hófst,“ segir Guðmundur.
smari@bb.is
Sjómenn og útvegsmenn funda í dag
Ríkissáttasemjari hefur boðað samninganefndir sjómanna og útvegsmanna til fundar kl. 14 í dag. Síðasti fundur nefndanna var á föstudag fyrir viku og var hann árangurslaus með öllu. Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins, segir í samtali við blaðamanna mbl.is að hann telji jákvætt að menn ræði saman en hann viti ekki til þess að miklar breytingar hafi orðið á afstöðu deilenda til einstakra samningsatriða.
„Það er auðvitað fínt að menn tali saman en eftir því sem ég best veit eru okkar menn enn harðir á þeim atriðum sem hafa ekki fengið hljómgrunn hingað til,“ sagði Valmundur.
smari@bb.is
Stöku él eða skúrir
Öllu rólegra verður yfir veðri dagsins miðað við þann hasar sem gekk yfir landið í gær. Á það við um alla landshluta nema Austurland þar sem hvassviðri og helliregn mun dynja áfram á íbúum. Á Vestfjörðum verður suðaustan 5-13 m/s samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Stöku él eða skúrir og hiti á bilinu 0 til 4 stig. Á morgun blæs vindur úr suðvestri 10-18 m/s og verður slydda og síðar rigning síðdegis. Það er hálka eða hálkublettir á fjallvegum á Vestfjörðum en að mestu greiðfært á láglendi.
Knattspyrnupiltar til Finnlands
Í sumar stefna tuttugu piltar úr fjórða flokki Vestra til Finnlands til að taka þátt í Helsinki Cup knattspyrnumóti. Til að fjármagna ferðina söfnuðu þeir áheitum fyrir fólboltamaraþon sem fór svo fram frá kl. 21:00 á föstudaginn var til klukkan 9:00 á laugardagsmorgni. Piltarnir eru sjálfsagt mörgum þekktir því þeir gengu nánast í hvert einasta fyrirtæki og hús á Ísafirði og Bolungarvík að safna áheitum og voru þeir afar sáttir við árangurinn.
Strákarnir óskuðu eftir því við bb.is að kærum þökkum fyrir stuðninginn væri komið til skila og gjörist það hér með.
Móttaka veikra og slasaðra á HVEST utan dagvinnu
Tvær fréttir hafa birst í BB af móttöku veikra/slasaðra einstaklinga sem leita beint til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða (HVEST) á Ísafirði utan dagvinnutíma. Þar er því lýst, hvernig viðkomandi skjólstæðingar HVEST og fylgdarmenn þeirra upplifa svörun og afgreiðslu starfsmanna legudeildar HVEST, starfsmanna „1700“ og neyðarvarða „112“ á erindum þeirra. Tilefni fréttanna er að vekja athygli á meintri slæmri, eða rangri móttöku, að mati viðmælenda blaðamanns. Það þykir okkur á HVEST mjög leitt og biðjumst velvirðingar á þeirri upplifun. Skýringa HVEST var því miður ekki leitað í fréttunum.
Almenningur er vanur skjótri og góðri þjónustu hjá starfsmönnum HVEST, bæði á heilsugæslunni og á sjúkrahúsinu og hefur biðtími á henni verið lítill, ef nokkur, um áratuga skeið. Því bregður fólki við þegar það upplifir annað, eða að breytingar verða á því hvert skal leita eftir læknishjálpinni. Vill HVEST gera hér grein fyrir þessum breytingum, ef það mætti útskýra betur hvernig standa skal að því að fá læknishjálp á HVEST á Ísafirði utan dagvinnutíma.
Starfsemin á HVEST utan dagvinnu
Á virkum dögum kl. 16 og til kl. 8 næsta morgun lokar skiptiborðið, heilsugæslustöðin, slysastofan og flestar aðrar sjúkratengdar deildir sjúkrahússins á Ísafirði, nema legudeildin, sem er alltaf opin. Þannig er það líka allan sólarhringinn um helgar og á helgidögum. Á kvöldvöktum á legudeildinni eru 3 starfsmenn, stundum 2 og af þeim ansi oft aðeins 1 hjúkrunarfræðingur. Á næturvöktum eru tveir starfsmenn, hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði. Mönnunin miðast við meðalálag við umönnun sjúklinga á 15 rúma deild. Ef fleiri eru inniliggjandi, eða ef erfið veikindi hrjá sjúklingana, er álagið meira og erfiðara að fara af deildinni, eða annast símsvörun.
Eftir að starfsemi öldrunardeildar hætti, hefur legudeildin, sem annast alla bráðveika inniliggjandi sjúklinga, ekki möguleika á að leita þangað eftir hjálparhönd utan dagvinnutíma, þegar síminn eða sjónvarpsdyrasíminn biður um aðstoð hjúkrunarfræðings. Það kallar á breytt vinnubrögð, þó neyðarhjálp hafi auðvitað alltaf forgang.
Læknir er á bakvakt heima hjá sér og hann annast móttöku á HVEST vegna veikinda og slysa utan dagvinnu. Ef brýn þörf er á, biður hann legudeildina um aðstoð, eða kallar út hjúkrunarfræðinga og/eða lækna á bakvakt.
Vaktlæknir og beint samband
Til að ná eyrum bakvaktarlæknisins utan dagvinnu gat almenningur til skamms tíma hringt beint í hann um kvöld, nætur og helgar, eða hringt í 450 4500, sem starfsmenn legudeildar svara utan dagvinnu og beðið þau um að bjarga sér um hvaðeina sem á bjátaði. Ansi oft var um að ræða erindi, sem áttu heima á dagvinnutíma og jafnvel hjá öðru starfsfólki, eða deildum. Átti þetta einnig við um beinar komur á HVEST í þann margumrædda sjónvarpsdyrasíma. Tilkoma símanr. 1700 var þess vegna mikilvæg aðstoð fyrir vansvefta bakvaktarlækni og starfsmenn legudeildarinnar og fríaði þá frá stöðugum símhringingum um hin ýmsu málefni.
Hvernig orðar maður hlutina?
Þegar hringt er eftir hjálp, þá skiptir miklu máli hvernig viðkomandi lýsir þörf sinni fyrir aðstoð. Dæmi: Er um að ræða einstakling, sem er kannski með lungnabólgu og þarf að hitta lækni, eða fannst hann meðvitundarlaus úti á götu, en hefur nú rankað við sér og bankar uppá? Þetta gæti þess vegna verið sama manneskjan, allt eftir orðavali viðmælandans. Ef sá fyrrnefndi hringdi í dyrasímann, 450 4500 eða 112, yrði honum bent á að hringja í 1700. Hinn síðarnefndi fengi bráðaaðstoð og hjúkrunarfræðingurinn af legudeildinni væri líklega nærri dottin í stiganum í flýtinum við að hjálpa honum.
1700 eða 112
Af framansögðu er ljóst, að sá sem þarf að ná sambandi við HVEST vegna veikinda og slysa utan dagvinnu, þarf fyrst að tala við 1700, eða 112.
Einstaklingar utan úr bæ hringja í 1700, ef um er að ræða tilfallandi veikindi og slys sem þarfnast ekki sjúkrabíls (t.d. flensa, hausverkur síðan í gær, kviðverkir, tognaður ökkli, spurning um handleggsbrot, eða skurður á fingri). Hjúkrunarfræðingur svarar og metur þörfina fyrir aðstoð. Ef hjálpin getur ekki beðið dagvinnutíma, er viðkomandi gefið beint samband við síma læknisins. Læknirinn og sjúklingurinn mæla sér svo mót á slysastofu, heilsugæslustöð, eða leysa málið á annan hátt.
Ef um er að ræða alvarlegri slys og veikindi með áverkum og einkennum sem gætu þarfnast bráðahjálpar og sjúkrabíls (t.d. meðvitundarminnkun, öndunarerfiðleikar, krampar, slæmur brjóstverkur, hjartastopp, fótbrot, liðhlaup o.s.frv.) er hringt í 112. Þeir leiðbeina, kalla á sjúkrabílinn, ef með þarf og senda vaktlækninum og legudeildinni SMS um málið. Læknirinn ákveður strax, hvort hann mætir beint á staðinn, eða tekur á móti viðkomandi á spítalanum. Hjúkrunarfræðingurinn gerir þær ráðstafanir sem þarf, eftir alvarleika málsins.
Ef einhver bið er eftir sambandi við 1700 á mesta álagstíma og viðkomandi telur sig ekki geta beðið, þá er líklega um neyð að ræða og rétt að hringja í 112. Ef óvissa er um, hvort hringja skuli í 1700 eða 112, þá er betra að hringja í 112 fyrst. Þeir meta stöðuna og beina manni á 1700, ef svo ber undir.
„Æ, ég fer bara beint uppá spítala!“
Ef viðkomandi sneiðir framhjá 1700 og 112 og mætir beint að dyrasímanum á HVEST, þá bendir hjúkrunarfræðingurinn á legudeildinni honum á 1700, ef hann metur erindið þannig, en hringir strax á vaktlækninn, ef um bráðatilvik er að ræða. Í báðum tilfellum á hann að opna fyrir viðkomandi og vísa á sæti við afgreiðsluna, eða á biðstofu slysadeildar.
Komist hjúkrunarfræðingurinn frá deildinni, gætir hann að viðkomandi sjálfur, ef þess er þörf. Ef um alvarlegt bráðatilfelli er að ræða fer hann undantekningarlaust strax til viðkomandi, fer með hann á slysastofu, gerir viðeigandi ráðstafanir og bíður komu vaktlæknisins, eða kallar út hjúkrunarfræðing á bakvakt skurð- og slysadeildar til að leysa sig af.
Aldrei er hægt að komast hjá því að meiningarmunur um alvarleika geti orðið á milli heilbrigðisstarfsmanns og þess, sem þarfnast aðstoðar. Þar takast á faglegt mat, upplifun sjúklings á meini sínu og hvernig hann orðar ástand sitt. Mjög gott er samt að fá ábendingar frá viðskiptavinum HVEST um það sem betur má fara og er fólk hvatt til þess að láta í sér heyra og fá skýringar beint frá okkur. Blaðafrétt segir alltof oft bara aðra hlið sögunnar.
Hörður Högnason
framkvæmdastjóri hjúkrunar á HVEST