Síða 2341

Verkfall sjómanna veldur víðtæku tjóni

Teitur Björn Einarsson alþingismaður

Teitur Björn Einarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er áhyggjufullur yfir verkfalli sjómanna enda valdi það víðtæku tjóni, ekki bara fyrir sjómenn og útgerðarmenn heldur á ýmis þjónustufyrirtæki, starfsfólk í fiskvinnslu, sveitarfélög og ríkissjóð. Í facebook færslu Teits kemur fram að þrátt fyrir að höfuðborgarsvæðið hafi ekki enn fundið á eigin skinni fyrir afleiðingum verkfallsins sé alvarleiki málsins mikill og brýnir hann samflokksmenn sína og þá sérstaklega Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra að vinna efnahagsgreiningu á áhrifum verkfallsins og viðbragðsáætlun. Fjörugar umræður hafa skapast um færslu Teits og fann Helgi Seljan sig knúin til að birta mynd af tvíti Þorgerðar með yfirlýsingu hennar um að vinna við kortlagningu á áhrifum verkfallsins sé hafin.

Teitur segir í samtali við bb að hann sé ekki að hvetja til lagasetningar á kjaradeiluna. Hann segist vænta þess og þykist vita að stjórnvöld vinni nú hratt og örugglega að sviðsmyndagreiningu á áhrifum verkfallsins.  Teitur er ósáttur við að fiskvinnslufólk sé í stórum stíl beitt í atvinnuleysistryggingarsjóð og segir það geta dregið deiluna á langinn. Þetta ákvæði sem nú er beitt hafi verið hugsað til dæmis vegna náttúruhamfara, ekki til að létta fyrirtækjum að halda lengur út í verkföllum.

Á kjaradeilur sjómanna voru sett lög 1994, 1998 og 2001 og hafa nú verið samningslausir í 6 ár. Á Vísindavefnum kemur fram að á tímabilinu 1985-2015 hafi löggjafinn stöðvað 14 vinnudeilur með lagasetningu.

bryndis@bb.is

Miklir möguleikar fyrir hendi segir bæjarstjóri

Tillaga Kanon arkitekta hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppninni.

Vinningstillaga Kanon arkitekta sýnir að miklir möguleikar eru fyrir hendi í Sundhöll Ísafjarðar að sögn Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar og formanns dómnefndar hugmyndasamkeppninnar. „Það er ljóst að miklir möguleikar eru fyrir hendi varðandi bætta aðstöðu og aðgengi, meðal annars möguleiki á 700 fermetra líkamsrækt á efstu hæðinni.“

Hann segir að nú þurfi að fara vandlega yfir tillögurnar og ákveða næstu skref. Tæknideild Ísafjarðarbæjar hefur áætlað að kostnaður við vinningstillögun gæti verið 408 milljónir kr. og minnsti hlutinn af því eru framkvæmdir við útisvæði og potta , eða 80 milljónir kr., en umræður meðal bæjarbúa hafa fyrst og fremst snúist um pottana.

Gísli Halldór leggur áherslu á að að nú sé komið að því að bærinn verði að taka ákvörðun um hvað skuli gera við Sundhöllina, hún standist ekki þær kröfur sem gerðar eru til sundstaða – hvort sem um er að ræða aðgengismál, búningsklefa eða starfsmannaaðstöðu.

Hann segir bæinn í stakk búinn að ráða við þessa framkvæmd. „Í ljósi allra annarra framkvæmda þá tæki þetta vel í. Þetta er því spurning um forgangsröðun. Ef þetta væri eina framkvæmdin þá væri auðvelt að ráðast í verkið, en mikilvægu verkefnin eru mörg og bæjarsjóður sem betur fer betur í stakk búinn til að takast á við þau en verið hefur í áratugi.“

Hér má sjá niðurstöður hugmyndasamkeppninnar

smari@bb.is

Blossi aflahæstur

Janúarmánuður var gjöfull fyrir smábátinn Blossa ÍS frá Flateyri. Vefurinn aflafrettir.com greinir frá að í janúar var Blossi aflahæstur báta undir 13 brúttotonnum. Blossi fiskaði 50,6 tonn í 11 róðrum og mestur afli í róðri var 7,9 tonn. Skipstjóri á Blossa er Birkir Einarsson og báturinn er gerður út af Hlunnum ehf.

Í öðru sæti listans er annar vestfirskur bátur, Svalur BA sem landar ýmist á Patreksfirði eða á Bíldudal. Svalur fiskaði 40,6 tonn í 8 róðrum.

smari@bb.is

62% hækkun á fimm árum

Gjaldskrá fyrir bréfapóst hjá Íslandspósti hækkað í verði um 11 prósent í síðustu viku vegna fækkunar bréfa og launahækkana starfsfólks. Póst og fjarskiptastofnun samþykkti hækkunina skömmu fyrir síðustu mánaðamót. Íslandspóstur á einkarétt á þjónustu bréfapósts en á í samkeppni um fjölpóst.

Félag atvinnurekenda gagnrýnir hækkunina á verðskrá Íslandspósts og segir hana þá sjöundu á tæpum fimm árum. Þjónustan hafi hækkað í verði um 62,5 prósent frá því í júlí 2012.

Í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda er það gagnrýnt að gjaldskrá fyrirtækisins fyrir bréfapóst þar sem Íslandspóstur hefur enga keppninauta er hækkuð en verðskrá fyrir fjölpóst þar sem er samkeppni sé óbreytt þrátt fyrir launahækkanir. Keppinautar fyrirtækisins neyðist hinsvegar til að hækka sína gjaldskrá vegna mikilla launahækkana samkvæmt kjarasamningum.

smari@bb.is

Minnsta langtímaatvinnuleysi frá Hruni

Atvinnnuleysi var 2,5% á Íslandi á síðasta fjórðungi ársins 2016, samkvæmt Hagtíðindum sem Hagstofa Íslands birti í dag. Atvinnuleysi hefur minnkað jafnt og þétt síðustu ár og atvinnuþátttaka aukist. Á síðasta ársfjórðungi 2015 var atvinnuleysi 3,1%; á síðasta fjórðungi 2014 var það 4,1%; og 4,5% á síðasta fjórðungi 2013.

Alls voru 191.700 starfandi á íslenskum vinnumarkaði síðustu þrjá mánuði ársins 2016. Fimm þúsund manns voru án vinnu og í atvinnuleit.

Langtímaatvinnuleysi hefur minnkað. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í ár eða lengur hefur fækkað úr 900 á síðasta ársfjórðungi 2015, í 300 á síðasta ársfjórðungi í fyrra. Langtímaatvinnuleysi mælist nú 0,2% og hefur ekki verið álíka lítið síðan í lok árs 2008, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.

smari@bb.is

Færðu björgunarsveitinni Erni góðar gjafir

Harpa Rögnvaldsdóttir frá slysavarnadeild kvenna færir Sigurjóni Sveinssyni hjá bs. Erni gjafirnar. Mynd af Fésbókarsíðu Ernis

Slysavarnadeild kvenna í Bolungarvík færði Björgunarsveitinni Erni á dögunum veglegar gjafir. Gjafirnar eru eitthvað sem nýtist afar vel í starfi björgunarsveitarinnar; 5 Víking flotgallar, 5 hjálmar og einnig tvær spjaldtölvur sem settar voru í bíla sveitarinnar. Kvennadeildin hefur allar götur frá því er sveitirnar voru stofnaðar á sjöunda áratug síðustu aldar verið öflugur bakhjarl björgunarsveitarinnar og segir í frétt á Fésbókarsíðu Ernis að sveitin sé þeim ævinlega þakklát og þakkar kærlega góðar gjafir.

annska@bb.is

Ólöglegt að ráða sjálfboðaliða

Dæmi um auglýsingu á vefsíðunni Workaway.

Bændur sem ráða til sín sjálfboðaliða til vinnu brjóta lög. Þetta er mat Alþýðusambands Íslands og formanns Bændasamtakanna og greint er frá í Fréttablaðinu. Þar segir að á vefsíðunni Workaway séu 180 auglýsingar þar sem Íslendingar óski eftir sjálfboðaliðum til vinnu. Í flestum tilvikum er um að ræða störf í landbúnaði. Á annarri síðu, Helpx, eru 76 íslenskar auglýsingar.

Alþýðusambandið hefur með Starfsgreinasambandinu og Samtökum atvinnulífsins skorið upp herör gegn sjálfboðavinnu í landbúnaði. „Um störf í landbúnaði gilda kjarasamningar og því í trássi við lög og kjarasamninga að ráða ólaunað vinnuafl í þessi störf,“ er haft eftir Dröfn Haraldsdóttur, sérfræðingi hjá ASÍ.

smari@bb.is

Blautt í veðri

Veðurstofa Íslands spáir norðaustan 8-13 m/s og slyddu eða snjókomu á Vestfjörðum í dag, en suðvestan 8-13 m/s og skúrum eða éljum síðdegis. Á morgun er gert ráð fyrir norðaustan 8-13 m/s og rigningu eða slyddu. Hiti verður á bilinu 0 til 4 stig. Í nótt hefur snjóað á Vestfjörðum og er snjóþekja, krap eða nokkur hálka á vegum í fjórðungnum.

annska@bb.is

Anna Lind kynnir meistararitgerð sína í Vísindaporti

Anna Lind Ragnarsdóttir, skólastjóri Súðavíkurskóla er gestur Vísindaportsins þessa vikuna

Skólamál verða í brennidepli í Vísindaporti vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða. Anna Lind Ragnarsdóttir, skólastjóri Súðavíkurskóla, flytur erindi sem byggir á spánýrri meistararitgerð hennar frá Háskóla Íslands. Þar varpar hún ljósi á uppeldisstefnuna Uppeldi til ábyrgðar í skólum og skoðar hvort hún geti verið leiðbeinandi fyrir samstarf við heimilin og samfélagið.

Undanfarin ár hafa grunnskólar leitast við að innleiða ýmsar uppeldisstefnur eða aðferðir til að betrumbæta allt skólastarf. Hvort sem vinna á með betri samskipti, agamál, starfshætti, líðan eða námsáhuga þá eru ýmsar leiðir færar og af nógu að taka. Meginniðurstöður Önnu Lindar benda til þess að stefnan Uppeldi til ábyrgðar sé vel til þess fallin að styrkja samstarf heimila, skóla og samfélags, einkum með stuðningi við foreldra í uppeldishlutverkinu og til þess að hafa jákvæð áhrif á gildi í samfélaginu. Þó má styrkja það enn frekar með því að leggja aukna áherslu á þátttöku foreldra í skólastarfinu og í ákvarðanatöku þeirra um nám barna sinna.

Anna Lind er fædd og uppalin í Súðavík, yngst sex systkina. Hún stundaði nám í unglingadeild Héraðsskólans í Reykjanesi og var eitt ár við Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki en gerði þá hlé á skólagöngu. Hún lauk svo stúdentsprófi í kvöldskóla Menntaskólans á Ísafirði árið 1991. Hún útskrifaðist með kennarapróf úr fjarnámi við Kennaraháskóla Íslands árið 1996 og var það í fyrsta sinn sem KÍ útskrifaði nema úr fjarnámi á Vestfjörðum. Anna Lind tók við stöðu skólastjóra Súðavíkurskóla árið 1998 og hefur gegnt því starfi allar götur síðan. Þar fer fram kennsla jafnt á leikskóla- sem grunnskólastigi. Anna Lind lauk diplómanámi í stjórnun menntastofnana árið 2008 og mun í febrúar útskrifast með M.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands.

Vísindaportið stendur frá kl. 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og er öllum opið. Fyrirlestur vikunnar fer fram á íslensku.

annska@bb.is

Hagstætt tíðarfar og hlýtt í veðri

Tíðarfar í janúar var lengst af hagstætt og samgöngur greiðar. Fremur hlýtt var í veðri og með snjóléttara móti á láglendi. Úrkoma var ekki fjarri meðallagi. Minna var um illviðri en venjulegt er á þessum tíma árs. Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar um tíðarfar í janúar.  Meðalhiti í Bolungarvík  mældist 0,2 stig og er það 1,4 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.  Á Akureyri var meðalhitinn 0,2 stig, 2,4 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhiti í Reykjavík mældist 1,4 stig og er það 2,0 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,8 stig og 1,8 stig á Höfn í Hornafirði.

Að tiltölu var hlýjast inn til landsins á Norðaustur- og Austurlandi og sums staðar suðvestanlands, 1,0 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára við Upptyppinga. Kaldast að tiltölu var norðan til á Vestfjörðum. Vék hiti á Hornbjargsvita þar mest frá meðallagi síðustu tíu ára og var -0,9 stigum neðan þess.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir