Bæjarráð Vesturbyggðar mótmælir boðuðum niðurskurði samgönguráðherra í vegagerð í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði. „Vestfirðingar hafa um áratugaskeið barist fyrir bættum vegsamgöngum um sunnanverða Vestfirði,“ segir í bókun bæjarráðs sem bendir á ákall Vestfirðinga til stjórnvalda um að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin hafa verið um framkvæmdir í Gufudalssveit. „Það er algjört skilyrði að framkvæmdin verði boðin út um leið og framkvæmdaleyfi liggur fyrir,“ segir ennfremur.
Allt að hundrað þúsund tonna framleiðsla
Forstjóri Norway Royal Salmon sér fram á að tíföldun á ársframleiðslu á eldislaxi á Íslandi á næstu árum og framleitt verði á bilinu 80-100.000 tonn á ári. Fyrirtækið á helmingshlut í Arctic Fish (áður Dýrfiskur), sem hefur um árabil alið regnbogasilung á Vestfjörðum en er nú að færa sig í laxeldi í mun stærri mæli. „Við höfum horfum á að vera fyrst og fremst á Vestfjörðunum“ er haft eftir Charles Høstlund, forstjóra NRS, á norsku vefsíðunni iLaks.no og hann bætir við að loftslagið og hiti sjávar sé svipaður og í Finmörku í Noregi.
Høstlund leggur áherslu á að þessi mikla framleiðsluaukning gerist ekki strax í dag, heldur mun aukast jafnt og þétt. „Það er mikilvægt að við nýtum okkur reynslu annarra þjóða og vöxum ekki of hratt.“
Hann segir Ísland vanti enn upp á grunninnviði fiskeldis og nefnir t.d. brunnbáta, sláturhús, vinnubáta, fóður, seiðaframleiðslu og regluverk stjórnvalda.
Meirihluti andvígur vegtollum
58 prósent Íslendinga eru á móti vegtollum sem notaðir yrðu til uppbyggingar á vegakerfinu en 42 prósent eru með slíkum tollum. Íbúar á Suðurlandi og Reykjanesi eru einna helst á móti slíkum tollum eða 73 prósent en helmingur íbúa höfuðborgarinnar. Kjósendur Pírata eru helstu andstæðingar vegtolla en minnst er andstaðan hjá stuðningsmönnum Bjartrar framtíðar.
Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Maskínu sem birt var í dag. Samkvæmt henni eru 73 prósent þeirra sem lokið hafa grunnskólaprófi á móti vegtollum en 54 til 57 prósent þeirra sem hafa hærri menntun.
Svarendur voru 888 manns sem koma úr þjóðargátt Maskínu en könnunin fór fram dagana 24. febrúar til 6. mars.
Í könnuninni kemur fram að stuðningsmenn Pírata eru mest á móti vegtollum eða 71 prósent. 65 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar og 63 prósent kjósenda Framsóknarflokksins eru andvígir vegtollum. Rúmlega helmingur stuðningsmanna Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins eru sömu skoðunar. Minnsta andstaðan við vegtolla mælist hjá Bjartri framtíð eða 32,3 prósent.
7,2 prósent hagvöxtur í fyrra
Landsframleiðsla jókst að raungildi um 7,2% á árinu 2016 og er nú 10% meiri en hún var árið 2008. Einkaneysla jókst um 6,9%, samneysla um 1,5% og fjárfesting jókst um 22,7%. Árlegur vöxtur einkaneyslu hefur ekki mælst meiri frá árinu 2005 en að árinu 2007 undanskildu hefur einkaneysla ekki mælst meiri að raungildi hér á landi. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands.
Útflutningur jókst um 11,1% á sama tíma og innflutningur jókst um 14,7% og dró utanríkisverslun úr hagvexti þrátt fyrir 158,8 milljarða króna afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum á liðnu ári. Útflutningur þjónustu nam 26,8% af landsframleiðslu á árinu 2016 og er þetta í fyrsta skipti frá því að gerð þjóðhagsreikninga hófst árið 1945 sem tekjur af útfluttri þjónustu mælast hærri en af vöruútflutningi.
Fjárfesting jókst um 22,7% á síðasta ári en árlegur vöxtur fjárfestingar hefur ekki mælst meiri síðan árið 2006. Umtalsverð aukning var í fjárfestingu atvinnuveganna, eða 24,7% og sömuleiðis í íbúðafjárfestingu, eða 33,7%. Á sama tímabili jókst fjárfesting hins opinbera um 2,5%.
Sem hlutfall af landsframleiðslu var samneysla 23,1% á liðnu ári sem er heldur lægra en undanfarin ár. Á árabilinu 2010-2015 var hlutfallið 24,3% að meðaltali en frá árinu 1996 hefur hlutfall samneyslu af landsframleiðslu verið 23,3% að meðaltali.
Landsframleiðslan á 4. ársfjórðungi 2016 jókst að raungildi um 11,3% frá sama ársfjórðungi fyrra árs en það er mesta aukning sem mælst hefur frá því á 4. ársfjórðungi 2007.
Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 8,4%. Einkaneysla jókst um 7,2%, samneysla um 1,7% og fjárfesting um 18,6%. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði á 4. ársfjórðungi 2016 jókst óvenjulega mikið eða um 70,9% að raungildi borið saman við sama tímabil árið áður.
Útflutningur jókst um 14% á sama tíma og innflutningur jókst um 8,8%. Helstu drifkraftar hagvaxtar eru fjármunamyndun og einkaneysla ásamt utanríkisviðskiptum. Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst að raungildi um 2,6% frá 3. ársfjórðungi 2016.
63.000 bækur lesnar
Um mánaðamótin lauk þriðja lestrarátaki Ævars vísindamanns og í gær dró Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, út þá heppnu fimm sem fá að vera persónur í næstu bók Ævars, Gestum utan úr geimnum. Í átakinu voru yfir 63 þúsund bækur voru lesnar á tveimur mánuðum, en það er besti árangur í átakinu hingað til, miðað við mánaðarfjölda. Þá hafa samtals um 177 þúsund bækur verið lesnar í átökunum þremur.
Krakkar um allt land tóku þátt og sendu inn lestrarmiða, en einnig sendu íslenskir krakkar búsettir í útlöndum inn miða; frá Bandaríkjunum, Englandi, öllum Norðurlöndunum, Lúxemborg, Þýskalandi, Belgíu og Perú.
Kanna hvar knattspyrnuhús gæti risið
Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur óskað eftir heimild bæjarstjórnar til að hefja skipulagsvinnu á Torfnesi á Ísafirði. Að sögn Sigurðar Jóns Hreinssonar, formanns nefndarinnar, verður tilgangurinn með skipulagsvinnunni fyrst og fremst að kanna hvar hugsanlegt knattspyrnuhús gæti risið. Meirihlutinn í bæjarstjórn hefur ekki talað fyrir því að reisa yfirbyggðan knattspyrnuhús, en Sigurður segir að Í-listinn sé til í að hlusta á öll góð rök. „Íþróttahreyfingin hefur verið nokkuð skýr í vilja sínum að reisa knattspyrnuhús og ef menn færa góð rök fyrir sínu máli, þá er ekki búið loka neinum dyrum,“ segir Sigurður.
Sigurður segir að á fjárhagsáætlun þessa árs sé gert ráð fyrir 70 milljónum kr. í nýjan aðalvöll og öðru eins á næsta ári og það sé brýnt að fyrir liggi hver stefnan verður til framtíðar á Torfnesi. Fyrr á kjörtímabilinu var gert ráð fyrir fé til að fara í skipulagsvinnu á Torfnesinu, en Í-listinn skar það niður og kaus frekar að standa fyrir hugmyndasamkeppni um breytingar á Sundhöll Ísafjarðar. Þrátt fyrir að skipulagsvinnan á Torfnesi sé í tímapressu hvað varðar framkvæmdir við nýjan aðalvöll, segir Sigurður að það hafi ekki verið mistök að hætta við skipulagsvinnu í Torfnesi og einblína á Sundhöllina. „Það hefur komið út úr hugmyndasamkeppninni að það er hægt að færa Sundhöllina í nútímahorf og gera hana aðlaðandi og þá finnst mér að það þurfi ekki endilega að gera ráð fyrir nýrri sundlaug í skipulagi á Torfnesi. Ég er ekki að segja að það verði niðurstaða skipulagsins, við munum vinna það með opnum huga, en það þurfti að svara þessari spurningu fyrst,“ segir Sigurður.
Stútfullt blað helgað konum
Stútfullt blað helgað konum
Í gær var alþjóðlegum baráttudegi kvenna fagnað og í nýjasta tölublaði Bæjarins besta sem borið er í hús í dag er sjónum beint að vestfirskum konum og því sem þær eru að fást við. Því hefur stundum verið kastað fram að konur taki ekki pláss og einnig að þær fái ekki pláss til jafns við karla, til að mynda er slagorð kvennadagsins á alþjóðavísu í ár „Be bold for change“ þar sem vísað er til þess að konur stígi fram og taki pláss, bæði með tilvísun til þess að breyta því sem hefur verið jafnt því sem verða vill. Í blaðinu fá konurnar plássið og í stað lítils áttblöðungs telja síður blaðsins nú hátt á fjórða tuginn og þó er þarna einungis að finna hluta þeirra kvenna sem stunda atvinnurekstur með einum eða öðrum hætti á Vestfjörðum. Þar má þó lesa um fjölda kvenna í fyrirtækjarekstri og hvað þær eru að fást við; lesa um þann eldmóð, það hugmyndaauðgi, þá framkvæmdagleði – og það úthald sem konurnar sýna.
Í leiðara Bryndísar Sigurðardóttur ritstjóra blaðsins segir meðal annars „Auðlindir okkar felast ekki bara í jarðhita og fallvötnum, hún felst í okkur sjálfum, orkunni í hverjum einstaklingi.“ Það má með sanni segja að blaðið sýni hluta þeirrar gjöfulu auðlindar sem konur í atvinnurekstri eru.
Blaðið má skoða hér.
Kaldi eða stinningskaldi í dag
Veðurstofan spáir norðaustan 8-13 m/s á Vestfjörðum í dag með slyddu eða snjókomu, einkum á svæðinu norðanverðu en léttir svo heldur til í kvöld. Á morgun er gert ráð fyrir norðaustan 13-18 m/s. Hitinn verður í kringum frostmark í dag, en 0 til 5 stig á morgun. Í spá fyrir landið á laugardag er gert ráð fyrir sunnan 10-18 m/s austanlands en hægari vindi suðvestanlands. Rigning í flestum landshlutum en norðaustlægari og slydda á Vestfjörðum. Hiti 1 til 6 stig.
Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir, snjóþekja og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði og snjóþekja er á Hálfdán.
Um fjögur þúsund undirskriftir – efna til bráttufundar
Um fjögur þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að hnekkja ákvörðun samgönguráðherra um að fresta framkvæmdum við nýjan Vestfjarðaveg í Gufudalssveit. Samkvæmt samgönguáætlun áttu 1.200 milljónir að fara til verksins í ár. Enn er beðið eftir áliti Skipulagsstofunar á umhverfismati framkvæmdarinnar. Eins og kunnugt er féll veglínan í gegnum Teigsskóg í umhverfismati fyrir 11 árum. Fyrir tveimur árum fékk Vegagerðin heimild til að endurskoða umhverfismatið.
Að baki undirskriftasöfnuninni stendur Haukur Már Sigurðsson, verslunarmaður á Patreksfirði. Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir honum að áhugamenn um vegabætur á Vestfjörðum hyggjast efna til baráttufundar með íbúum og þingmönnum á næstunni. Fyrir fimm árum var haldinn frægur íbúafundur með Ögmundi Jónassyni, þáverandi innanríkisráðherra. Boðskapur Ögmundar um að hætta við vegagerð í Teigsskógi og einblína heldur á jarðgöng undir hálsana í Gufudalssveit í framtíðinni féll ekki í betri jarðveg en svo að fundarmenn gengu af fundir og skildu ráðherra og fylgdarlið hans eftir.
Tekin með kannabis, kókaín og e-töflur
Lögreglan á Vestfjörðum lagði hald á talsvert magn af fíkniefnum föstudagskvöldið síðasta. Í dagbók lögreglu kemur fram að við almennt eftirlit var fólksbifreið stöðvuð í Súðavík. Ökumaður og tveir farþegar voru þá að koma af höfuðborgarsvæðinu á leið til Ísafjarðar. Við leit í bifreiðinni fundust um 150 grömm af kannabisefnum um 10 grömm af ætluðu kókaíni og 50 stk. ætlaðar e-töflur. Ökumaður og farþegar voru handteknir og voru til yfirheyrslu fram á nótt uns þeim var sleppt lausum er málið var talið upplýst. Í ljósi efnismagnsins má ætla að efnið hafið verið ætlað til dreifingar á norðanverðum Vestfjörðum.
Tíu ökumenn voru kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir voru þeir stöðvaðir í Strandasýslu en einnig á Ísafirði og á Patreksfirði. Ökumenn eru hvattir til að haga akstri í samræmi við gildandi hámarkshraða og eins í samræmi við aðstæður.
Skráningarmerki voru tekin af einu ökutæki í vikunni. En það var vegna vangoldinna tryggingaiðgjalda.
Einn ökumaður var kærður fyrir að aka öfugu megin við umferðareyju sem skilur að tvær akreinar í Hnífsdal. Þetta er hættulegt athæfi og ætti ekki að eiga sér stað.
Þá var einn ökumaður kærður fyrir að tala í farsíma án handfrjálsbúnaðar. Sá var heldur ekki með öryggisbelti spennt. Hér skiptir engu máli hvort ökuferðin sé stutt eða löng, innanbæjar eða utanbæjar. Ökumaðurinn má búast við tveimur sektum vegna þessa.