Sunnudagur 20. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2341

Lögreglan rak fólk upp úr lauginni

Aðfaranótt sunnudagsins 26. febrúar var lögreglunni á Vestfjörðum tilkynnt um að fólk væri inni á útisundlaugarsvæðinu í Bolungarvík. Þegar lögregluna bar að garði voru alls 8 ungmenni að fara af svæðinu eftir að hafa nýtt sér þessa aðstöðu. Vert er að minna á að stranglega bannað er að fara inn á þetta svæði utan opnunartíma, enda afmarkað með girðingu.

Tilkynnt var um þrjú umferðaróhöpp í liðinni viku. Eitt þeirra varð þann 24. febrúar þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í Mikladal með þeim afleiðingum að hún rann út af veginum og niður bratta hlíð, þó án þess að velta. Töluvert tjón varð á undirvagni bifreiðarinnar og ökumaður, sem var einn í bifreiðinni þegar atvikið átti sé stað, var færður undir læknishendur, þó ekki með alvarlega áverka. Þá rann önnur bifreið út af veginum í Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi þann 20. febrúar. Ekkert tjón varð á ökutækinu og engin meiðsl urðu á ökumanni eða farþegum. Þriðja óhappið varð þann sama dag, 20. febrúar í Vatnsfirði í Vesturbyggð en þá missti ökumaður stjórn á jeppabifreið sinni með þeim afleiðingum að bifreiðin rann út af veginum og valt eina veltu. Ökumaður og farþegi hlutu ekki alvarlega áverka. Ökumenn og farþegar í þessum óhöppum voru allir með öryggisbelti spennt og má telja víst að meiðsl hefðu orðið mun meiri ef svo hefði ekki verið. Rétt er að minna á mikilvægi þessa öryggisþáttar. Snjór og hálka var á yfirborði vega þegar þessi atvik urðu. Þá er rétt að minna ökumenn á að gæta sérstakrar varúðar þegar slíkar aðstæður eru fyrir hendi.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða í vikunni. Báðir ökumennirnir voru stöðvaðir á Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði, þar sem hámarkshraði er 60 km.

Lögreglan vill minna á varhugaverðar aðstæður sem geta skapast á vegum í umdæminu þegar yfirborð vega er þakið snjó og leysingar verða. Þá vill myndast krapi og oft á tíðum láta ökutæki illa að stjórn og renna til. Vert er að haga akstri, sem fyrr, miðað við aðstæður hverju sinni.

smari@bb.is

Auglýsing

Ekki verið tekin afstaða til áfrýjunar

Friðaðað húsið við Aðalstræti 16 í Bolungarvík varð landsfrægt sumarið 2014.

Bolungarvíkurkaupstaður hefur ekki tekið afstöðu hvort dómi Héraðsdóms Vestfjarða yfir Valdimar Lúðvík Gíslasyni verði áfrýjað. Valdimar Lúðvík var dæmdur þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfelld eignarspjöll á friðuðu húsi í Bolungarvík í júlí 2014. Húsið er í eigu Bolungarvíkurkaupstaðar. „Ég geri ráð fyrir að dómurinn verði lagður fyrir bæjarráð eða bæjarstjórn og ákvörðun tekin um næstu skref,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík.

Bolungarvíkurkaupstaður gerði skaðabótakröfu upp á 5,5 milljónir króna en Héraðsdómur vísaði meirihluta kröfunnar frá dómi, eða 4,5 milljónum kr. Var það gert vegna þess að sá hluti kröfunnar studdist við greinargerð byggingarfulltrúa Bolungarvíkurkaupstaðar um kostnað við endurbætur á skemmdunum sem húsið varð fyrir. Dómurinn taldi  greinargerðina ekki fullnægjandi gagn og taldi kröfuna því vera vanreifaða. Dómurinn féllst hins vegar á bótakröfu Bolungarvíkurkaupstaðar upp á eina milljón kr. en þar lagði bótakrefjandi fram reikninga vegna bráðabirgðaviðgerðar á húsinu. Jón Páll segir að hann hafi ekki átt kost á að ræða við lögfræðing bæjarins um þetta atriði dómsins.

smari@bb.is

Auglýsing

Vill skoða kosti sameiningar – Bolvíkingar ekki með

Aukið samstarf eða sameining í kortunum?

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að sækja um fjárframlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að kanna möguleika á sameiningu sveitarfélaga. Bæjarráð hefur ákveðið að óska eftir samstarfi við Súðavíkurhrepp þar sem kannaðir verði kostir og gallar á sameiningu og hvernig þróa megi ríkara samstarf sveitarfélaganna.

Það vekur óneitanlega athygli að Bolungarvíkurkaupstað er ekki boðið að borðinu. „Bolvíkingar vildu ekki vera með. Við hittumst á óformlegum fundi og þar kom í ljós að þeir eru til í frekara samstarf en ekki tilbúnir í að fara í þessa vinnu þar sem á að skoða grundvöll sameiningar,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Hún leggur áherslu á að það sé einungis verið að tala um að fara í könnun á kostum og göllum samstarfs og sameiningar. „Þessi tvö sveitarfélög eru opin fyrir frekara samstarfi og þessi vinna getur leitt tvennt af sér, aukið samstarf eða formlegar sameiningarviðræður,“ segir Arna Lára.

smari@bb.is

Auglýsing

20 veiðidagar á grásleppunni

Fjöldi veiðidaga til bráðabirgða vegna hrogn­kelsisveiða verða 20 í ár. Þetta kem­ur fram í reglu­gerð sem gef­in er út af at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­inu. Þetta er sami fjöldi veiðidaga og áður, að því er kem­ur fram í til­kynn­ingu. Þar seg­ir að eng­ar breyt­ing­ar séu gerðar á reglu­gerðinni fyr­ir utan að ákvæði um upp­hafs- og loka­tíma veiða er breytt í sama horf og var 2015.

„Í byrj­un árs 2016 kom Haf­rann­sókna­stofn­un fram með ráðgjöf til ráðuneyt­is­ins um að svo virt­ist sem skipti máli að draga úr meðafla að veiðin hæf­ist seinna. Brugðist var við þess­um ábend­ing­um sbr. frétt á vef ráðuneyt­is,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

„Í bréfi Haf­rann­sókna­stofn­un­ar sem barst ráðuneyt­inu 24. mars kem­ur fram að reynsl­an af síðustu vertíð sýni ekki að þessi aðgerð hafi heppn­ast. Þvert á móti hefði skráður meðafli 2016 ekki verið meiri um ára­bil.“

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra hvet­ur jafn­framt grá­sleppu­veiðimenn til að skrá all­an meðafla af ýtr­ustu ná­kvæmni á næstu vertíð.

smari@bb.is

Auglýsing

Bryndís ráðin fjármálstjóri Heilbrigðisstofnunarinnar

Bryndís Sigurðardóttir hefur verið ráðin fjármálastjóri við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Hún er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskólanum á Akureyri og hefur auk þess lokið markaðs- og útflutningsnámi frá Endurmenntun HÍ og kerfisfræði frá Tietgenskolen, Odense í Danmörku. Bryndís hefur víðtæka starfsreynslu að baki er snýr að stjórnun, rekstri, fjármálum og bókhaldi. Hún hefur verið ritstjóri og eigandi Bæjarins besta og bb.is frá 2015 og gegndi stöðu framkvæmdastjóra Arctic Odda ehf. og Vestfirðings ehf. og jafnframt stöðu fjármálastjóra Dýrfisks hf. og Arctic Fish ehf.  2013 – 2014. Þá stofnaði Bryndís og rak bókhaldsskrifstofuna Yfirlit ehf. á árunum 2003 – 2013.

Aðeins ein umsókn barst um stöðu fjármálastjóra HVest og uppfyllti Bryndís öll skilyrði auglýsingar. Áætlað er að hún hefji störf 1. apríl.

smari@bb.is

Auglýsing

Mikið blakað um helgina

Einbeittir

Fjórir blakleikir fóru fram í 1. deild karla og kvenna á Torfnesi um helgina og var því sannkölluð blakveisla á Ísafirði.

Karlalið Vestra spilaði tvívegis á móti ungum og sprækum strákum í HK B. Fyrri leikurinn fór 3-1 fyrir Vestra. Vestramenn sýndu ekki sitt rétta andlit í fyrstu hrinunni og HK strákarnir gengu á lagið og unnu hana. Vestri vann síðan næstu þrjár hrinur nokkuð örugglega. Vestri vann svo allar þrjár hrinurnar í seinni leiknum, þar sem sáust góð tilþrif á báða bóga.

Kvennalið Vestra fékk liðin sem eru í efstu tveimur sætum deildarinnar í heimsókn. Á laugardeginum spiluðu Vestrastelpur við Aftureldingu B og töpuðu þeim leik 0-3. Fyrsta hrinan og þriðja hrinan voru jafnar og skemmtilegar en Afturelding vann aðra hrinu nokkuð afgerandi.  Á sunnudeginum spiluðu stelpurnar í Vestra á móti feiknasterku liði HK B sem eru í langefsta sæti 1. deildar. HK B höfðu keyrt langt fram á nótt vegna þess að HK var að keppa í úrvalsdeild á laugardagskvöldinu og sumir leikmanna HK B koma líka við sögu þar. Ekki sást mikil þreyta á HK stelpunum og unnu þær tvær fyrstu hrinurnar nokkuð örugglega. Vestrastelpur komu hinsvegar mjög ákveðnar í 3. hrinu og enduðu á því að vinna hana eftir gífurlega baráttu. Fjórða hrinan var einnig mjög spennandi og sýndu Vestrastelpur áfram sínar bestu hliðar, sem þó dugði ekki og HK vann nauman sigur og þar með leikinn 3-1.

Þetta kemur fram á heimasíðu Vestra.

Auglýsing

Bardagakappinn Bjarki sigraði í Liverpool

Bardagakappinn Bjarki Pétursson í Liverpool. Mynd: Sóllilja Baltasarsdóttir

Ísfirðingurinn Bjarki Pétursson háði sinn fyrsta MMA áhugamannabardaga í Liverpool á laugardaginn. Þar mætti hann Joey Dakin í að 83,9 kílógramma flokki í keppninni, sem var á vegum bardagasamtakanna Shinobi War. Þrátt fyrir að hafa ekki keppt áður sýndi Bjarki strax úr hverju hann er gerður og lagði andstæðing sinn að velli eftir kraftmikinn bardaga þar sem háðar voru þrjár lotur og hafði hann sigur að launum með einróma dómaraákvörðun.

Líkt og greint var frá í frétt Bæjarins besta á dögunum, þá flutti Bjarki suður yfir heiðar frá Ísafirði fyrir um þremur árum síðan til að helga sig enn frekar bardagalistinni og hefur hann æft hjá Mjölni. Hann var valinn í keppnislið þeirra fyrir tveimur árum, en bardaginn í Liverpool var fyrsti alþjóðlegi bardaginn sem Bjarki hlaut. Mótherji hans Joey Dakin er með talsvert meiri reynslu undir beltinu er hann var að keppa sinn fimmta bardaga. Annar Íslendingur, Birgir Örn Tómasson, átti einnig bardaga í Liverpool sama dag og hafði hann einnig betur gegn andstæðingi sínum og snéru því Mjölnismenn heim aftur með fullt hús stiga.

Þegar gengið er til bardaga hljóma lög sem koma eiga köppunum í gírinn fyrir átökin, sem þeir hafa sjálfir valið og vakti athygli að Bjarki gekk inn undir laginu „Stingum af“ með Mugison og sagði Bjarki í viðtali við MMA fréttir að lagið færi með hann í ferðalag aftur heim til Ísafjarðar. „Það fær mig til að muna hver ég er og af hverju ég er að þessu. Þó ég búi í Reykjavík þá verð ég alltaf Ísfirðingur!“

Bjarki er að vonum ánægður með sigurinn og segist hann hafa átt erfitt með að halda aftur af tilfinningaflóðinu sem helltist yfir hann að bardaganum loknum. Hann segist finna vel fyrir stuðningnum að heiman: „Ég vil koma á framfæri þökkum fyrir allan þann ótrúlega stuðninginn sem ég er búinn að fá. Það er virkilega gaman að heyra hversu margir fylgdust með og það gaf mér þvílíka orku að vita af öllum heima að fylgjast með! Ísfirðingar standa greinilega með sínum!“

annska@bb.is

Auglýsing

Listaverkauppboð Sigurvonar að hefjast

Annað þeirra verka sem Reynir Torfason gefur til uppboðs Sigurvonar

Listaverkauppboð Krabbameinsfélagsins Sigurvonar hefst á miðvikudag, en félagið rær á ný mið við fjáröflun í marsmánuði er efnt verður til listaverkauppboðs hjá félaginu. Þar verður hægt að bjóða í 6 listaverk eftir fimm vestfirska listamenn. Áður höfðu þrír listamannanna verið kynntir til leiks í frétt á vef Bæjarins besta en það voru þau Pétur Guðmundsson, Berglind Halla Elíasdóttir og Ólafía Kristjánsdóttir. Hinir tveir eru ljósmyndarinn Ágúst G. Atlason sem gefur innrammaða ljósmynd og listmálarinn Reynir Torfason sem gefur tvö málverk.

Ágúst hefur verið ötull samstarfsmaður Sigurvonar síðustu ár og hefur hann gefið félaginu myndir í jólakort og dagatöl félagsins. Í umfjöllun um hann á Fésbókarsíðu krabbameinsfélagsins segir um hann: Ágúst býr og starfar á Ísafirði. Ágúst útskrifaðist sem ljósmyndari frá Medieskolerne í Viborg, í Danmörku, ágúst 2015. Hann er lærður margmiðlunarhönnuður og hefur lengi fengist við vefhönnun og almenna tölvuhönnun. Allt frá æsku hefur hann stundað ljósmyndun og haft gaman af. Áhugasvið hans er vítt og breytt og höfum við fengið að sjá það vel í verkum eftir hann.

Þá var kynntur til leiks Reynir Torfason en hann hefur í gegnum tíðina glatt íbúa á Ísafirði og gesti með reglulegu sýningum á fallegum og fjölbreyttum verkum sínum. Reynir er sjálfmenntaður í faginu og prýða verk hans veggi víða, en þau eru unnin með akrýl eða olíu á striga. Um Reyni segir í umfjöllun: Reynir byrjaði að teikna og rissa myndir þegar hann var lítill strákur en byrjaði að mála í kringum fimmtugsaldurinn. Reynir hefur ekki málað síðan 2011 og eru því myndirnar hans algjör gersemi. Reynir gefur tvö verk eftir sig til Sigurvonar og verða þau á uppboði hjá okkur nú í mars mánuði.

Stærra verkið sem Reynir gefur er landslagsfantasía, sem Reynir gerði árið 2009. Hún hefur ekki komið fyrir almannasjónir áður þar sem fram til þessa hefur hún verið á heimili Reynis. Minna verkið var gert árið 2010 og er klassískt verk listamannsins af Vestfirsku landslagi.

Uppboðið fer fram í húsakynnum Sigurvonar við Pollgötu 4 á Ísafirði og stendur það allan marsmánuð. Frekari upplýsingar um upphafsboð verður að finna á Fésbókarsíðu Sigurvonar þar sem einnig verður hægt að fylgjast með framvindu mála. Bjóða má í verkin með því að senda tölvupóst á sigurvon@snerpa.is eða senda skilaboð í gegnum fésbókina. Laugardaginn 11. mars verður opið hús þar sem boðið verður upp á kaffi og kökur, þar sem skoða má verkin, sem einnig má reyndar gera á opnunartímum félagsins.

annska@bb.is

Auglýsing

Jón Hákon var ofhlaðinn með viðvarandi stjórnborðshalla

Jón Hákon BA.

Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur lokið rannsókn á skipskaða þegar Jón Hákon sökk á Vestfjarðarmiðum í byrjun júlí 2015. Nefndin telur orsök slyssins vera þá að skipið var ofhlaðið og með viðvarandi stjórnborðshalla. Einn fórst þegar Jón Hákon sökk en þrír skipverjar náðu að komast upp á kjöl skipsins þegar því hvolfdi og halda sér þar þangað til hjálp barst. Þetta kom fram á vef RÚV.

Vegna ofhleðslu og viðvarandi stjórnborðshalla átti sjór greiða leið inn á þilfar skipsins í veltingi, bæði yfir lunningu og um lensport. Vegna óþéttleika á lestarlúgukarmi bættist stöðugt sjór í lestina. Varð þetta til þess að skipið missti stöðugleika og því hvolfdi þegar öldutoppur rann óhindrað yfir lunningu þess. Þá telur nefndin að í aðdraganda slyssins hafi lensibúnaður í lest ekki virkað sem skyldi vegna óhreininda í síu. Þetta átti sinn þátt í því að sjór safnaðist í lest skipsins.

smari@bb.is

Auglýsing

Kalt og fallegt veður í vikunni

Það ætti að viðra ágætlega á maskana sem verða á ferðinni í kvöld

Það verður norðaustanátt 10-15 m/s og él á Vestfjörðum í dag, hiti nálægt frostmarki. Það lægir á morgun og þá léttir til og frystir. Spá Veðurstofu Íslands fram að helgi er með svipuðum hætti og má búast við fallegu og köldu veðri í vikunni en spáin gerir ráð fyrir hægri austlægri eða breytilegri átt á landinu og víða verður léttskýjað. Frost verður á bilinu 1 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

Snjóþekja eða hálka er á vegum á Vestfjörðum og víðast hvar skafrenningur á fjallvegum.

annska@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir