Miðvikudagur 30. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2341

Gefa frá sér unglingameistaramótið

Skíðasvæðið í Tungudal.

Unglingameistaramót Íslands á skíðum verður ekki haldið á Ísafirði. „Við treystum okkur ekki til að halda það vegna snjóleysis og neyðumst til að gefa það frá okkur. Það eru frábærar aðstæður á gönguskíðasvæðinu en það vantar talsverðan snjó til að halda mót í alpagreinum og snjóbrettum,“ segir Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, formaður Skíðafélagsins. Hólmfríður Vala segir þetta vissulega vera leiðinlega niðurstöðu því undirbúningur var kominn vel af stað og hugur í fólki. „Við erum búin að sækja um að halda landsmót á næsta ári og geri ráð fyrir að við sækjum um unglingameistaramót 2019,“segir hún.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Telja sig vita hvaðan fiskurinn slapp

Regnbogasilungur veiddist í ám víða Vestfjörðum síðasta sumar og fram á haust.

Matvælastofnun hefur rökstuddan grun um hvaðan regnbogasilungur slapp úr kvíum síðasta sumar, en fiskur veiddist í ám víða á Vestfjörðum. Matvælastofnun telur að regnbogasilungurinn hafi ekki sloppið í gegnum göt á netum kvía. „Við höfum grun um hvaðan fiskurinn sem veiddist í sumar er ættaður en bíðum slátrunar úr kvíum til að fá haldbærari niðurstöður,“ segir Soffía Katrín Magnúsdóttir, eftirlitsmaður Matvælastofnunar með búnaði og kvíum eldisfyrirtækja í samtali við blaðamann Vísis. Málið er enn til rannsóknar hjá Matvælastofnun og er beðið átekta eftir því að fyrirtæki slátri fiski, þá koma afföll í kvíum í ljós.

Matavælastofnun telur ósennilegt að fiskurinn hafi sloppið í gegnum göt á kvíum. Ef stór göt væru á kvíum regnbogasilungs telur Matvælastofnun nær öruggt að það kæmi fram þegar kafarar kanna kvíarnar. „Við teljum frekar að einhvers konar handvömm starfsmanna hafi verið valdur þess að regnbogi slapp í sumar,“ segir Soffía Katrín.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Norðaustanáttin ræður ríkjum næstu daga

Veðurstofa Íslands spáir norðaustan 8-15 m/s á Vestfjörðum í dag, en mun hægari vindi í kvöld og nótt. Á morgun verður veður með svipuðum hætti er gert er ráð fyrir norðaustan 8-13 m/s, en bætir í vind yfir daginn og annað kvöld má búast við 10-15 m/s. Það verða él og hiti í kringum frostmark. Svipaða sögu er að segja af spánni fyrir miðvikudag er spáin kveður á um norðaustan 10-15 m/s og snjókomu á Vestfjörðum.

Á vegum á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir. Eitthvað er um éljagang á fjallvegum og snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Reiðin kraumar í fólki

Flutningabílar lenda oft í vanda á Hjallahálsi í Gufudalssveit.

Niðurskurður ríkisstjórnarinnar á samgönguáætlun er áfall fyrir fyrirtæki og almenning á sunnanverðum Vestfjörðum. Niðurskurðurinn kemur langharðast niður á Vestfjörðum þar sem 1.200 milljónir króna sem voru á þessu ári eyrnamerktar Vestfjarðavegi um Gufudalssveit eru skornar niður að fullu, auk þess sem slegnar eru út af borðinu 400 milljónir króna sem fara áttu í vegbætur í Dynjandisheiði.

„Slegnar eru af framkvæmdir sem full sátt var um að þyrfti að ráðast í, og beðið hefur verið eftir árum saman, vegna Vestfjarðavegar,“ segir í ályktun Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar segir einnig að samfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum kraumi af reiði.

„Þótt 95 prósent af leiðinni til sunnanverðra Vestfjarða  sé malbikuð, þá eru þau 5 prósent sem út af standa í raun ófær og útiloka nánast flutninga með fólk og vörur. Helst mætti líkja þeim hluta við Kjalveg eins og hann var fyrir 30 árum síðan. Þannig eru þær vegbætur sem beðið hefur verið eftir alvarlegur þröskuldur í vegi áframhaldandi uppbyggingar og viðgangs bæði atvinnulífs og mannlífs á svæðinu,“ segir í ályktuninni.

Að mati Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum skýtur það skökku við að ríkisvaldið ætli að draga lappirnar í vegagerð í landshluta sem er einn af fáum á landsbyggðinni þar sem ríkt hefur uppgangur eftir langvarandi stöðnun og íbúum hefur tekið að fjölga að nýju. „Íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum láta ekki bjóða sér þessa niðurlægingu,“ segir í lok ályktunarinnar.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Meðalnemandinn kostar 1.750 þúsund

Meðal­rekstr­ar­kostnaður á hvern nem­anda í grunn­skól­um árið 2015 var 1.651.002 krón­ur og veg­in meðal­verðbreyt­ing rekstr­ar­kostnaðar frá 2015 til mars 2017 er áætluð 6,3%. Þetta kem­ur fram í út­reikn­ing­um Hag­stofu Íslands. Niður­stöður út­reikn­ings­ins eru því þær að áætlaður ár­leg­ur rekstr­ar­kostnaður á hvern nem­anda í grunn­skól­um, sem rekn­ir eru af sveit­ar­fé­lög­um, sé 1.755.187 krón­ur í mars 2017.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Samþykkir ekki eigin tillögu

Daníel Jakobsson.

Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, studdi ekki eigin breytingartillögu við samning Ísafjarðarbæjar og Hestamannafélagsins Hendingar. Samningur við Hendingu var samþykktur af meirihluta Í-listans á fundi bæjarstjórnar fyrir helgi. Breytingartillaga Daníels var studd af Kristínu Hálfdánsdóttur (D), Jónasi Þór Birgissyni (D) og Marzellíusi Sveinbjörnssyni (B).

Breytingartillaga Daníels hljóðaði upp á að ganga til samninga við hestamenn um byggingu reiðskemmu og leggja til verksins 30 milljónir kr. auk jarðefnis undir bygginguna. Til viðbótar kæmi 20 milljóna kr. framlag Vegagerðarinnar vegna bóta fyrir skerðingu á aðstöðu félagsins í Hnífsdal. Að þessu leyti er tillagan nokkuð samhljóma samningi Í-listans við Hendingu. Það sem greinir tillöguna frá er að Daníel lagði til að skipa byggingarnefnd sem meðal annars gerði þarfagreiningu og skilalýsingu fyrir bygginguna og nákvæma kostnaðaráætlun.

Nefndin myndi einnig koma sér saman um verkframgang og áfangskiptingu reiðskemmunnar, sem er algjör forsenda svona framkvæmda, að mati Daníels samkvæmt breytingartillögunni. Þá átti nefndin að ákveða hvenær og að loknum hvaða verkþáttum greiðslu bæjarins til Hendingar væru inntar ef hendi.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

„Samgönguráðherra svíkur landsbyggðina“

Gunnar Bragi Sveinsson.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi, hefur óskað eftir því að þingmenn kjördæmisins hittist hið fyrsta ákvörðunar Jóns Gunnarsonar samgönguráðherra um niðurskurð til samgöngumál sem mikið hefur verið rætt um í fjölmiðlum. Gunnar Bragi er í umhverfis- og samgöngunefnd og hefur einnig óskað eftir því að ráðherran verði kallaður fyrir nefndina. „Samgönguráðherra svíkur landsbyggðina,“skrifar Gunnar Bragi á Facebook.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Veitustofnun Strandabyggðar stofnuð

Ljósleiðari plægður í jörð á Ströndum. Mynd: strandir.is

Sveitarstjórn Strandabyggðar áformar að stofna fyrirtækið Veitustofnun Strandabyggðar til að annast lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu. Sveitarstjórnin telur aðgang íbúa sveitarfélagsins að háhraða nettengingu vera þjónustu sem hefur almenna og  efnahagslega þýðingu. Veitustofnun Strandabyggðar verður rekin sem deild innan sveitarfélagsins – svokölluð b-hluta fyrirtæki – og því alfarið á ábyrgð sveitarfélagsins.

Inntak hinnar opinberu þjónustu sem Veitustofnun Strandabyggðar er ætlað að framkvæma og veita, er að tengja heimili, fyrirtæki og sumarhús í sveitarfélaginu, sem svo kjósa, við ljósleiðaranet (FTTH, e. Fiber To The Home) og mun gera öllum íbúum sveitarfélagsins mögulegt að hafa aðgang að háhraða ljósleiðaratengingu a.m.k. næstu 25 árin. Það svæði sem verkefnið tekur til skal vera afmarkað við sveitarfélagið Strandabyggð. Ljósleiðarakerfið verður alfarið í eigu sveitarfélagsins.

Strandabyggð fékk nýverið 11 milljóna kr. styrk úr Fjarskiptasjóði vegna ljósleiðaratenginga í sveitarfélaginu.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Vefur fyrir aðstandendur aldraðra

Bolvíkingurinn Fjóla Bjarnadóttur hefur opnað nýjan vef sem heitir adstandandi.is en vefurinn er hugsaður sem hjálpartæki aðstandenda sem standa frammi fyrir því að ástvinir þeirra þurfa á meiri aðstoð og breyttum áherslum að halda eftir því sem árin færast yfir.  Auk Fjólu hefur Eygló Valdimarsdóttir umsjón með vefnum, en þær eru báðar hjúkrunarfræðingar að mennt. Þær hafa starfað mikið með öldruðum og verið leiðbeinandur fyrir aðstandendur þeirra.  Margvíslegar spurningar  eru bornar upp daglega af aðstandendum og kviknaði sú hugmynd að gera aðgengilega síðu, einskonar miðlæga upplýsingaveitu, hvar finna mætti svör við hugðarefnum aðstandenda aldraðra, til að auðvelda fólki að auka lífsgæði ástvina og aðstoða þá við að mæta breytilegum þörfum.

Það er von umsjónarmanna vefsins að aðstandendur geti leitað svara við þeim spurningum sem helst brenna á þeim og geti einnig haft samband við þær ef frekari upplýsinga er þörf.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Óvænt, óbilgjarnt og óskiljanlegt útspil ráðherra

Dynjandisheiði.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga segir ákvörðun Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra að skera niður öll fjárframlög til vegagerðar í Gufudalssveit vera pólitískt útspil sem er allt í senn: óvænt, óbilgjarnt og óskiljanlegt. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar sambandsins. „Barátta Vestfirðinga um eðlilegt vegstæði um Gufudalssveit, hefur staðið í áratug. Sú baráttan hefur fyrst fremst verið á skipulagsgrundvelli, þar sem tekist hefur verið á um umhverfissjónarmið. Um framkvæmdina hefur hinsvegar verið nokkuð breið pólitísk sátt og fjármögnun hennar ekki deiluefni. Nú hillir, vonandi, undir lok þeirra vinnu og baráttu. Þá kemur þetta óvænta og óbilgjarna pólitíska útspil ráðherra um niðurskurð á fjármagni til vegaframkvæmda. Óskiljanlegt,,“ segir í ályktuninni.

Stjórnin bendir á að Vestfjarðavegur 60 var opnaður árið 1959 og þó talsvert hafi áunnist í vegagerð á leiðinni á síðustu árum séu enn í notkun vegakaflar sem voru lagðir um miðja síðustu öld.

Samgönguráðherra sló einnig út af borðinu 400 milljóna kr. fjárframlag sem átti að fara í framkvæmdir á Dynjandisheiði. Í ályktuninni er bent á að hönnun vegar um Dynjandisheiði er langt kominn og  nauðsynlegt að hefja framkvæmdir sem fyrst til að verklok þar verði á svipuðum tíma og verklok Dýrafjarðarganga.

Ályktuninni lýkur svo:

„Í gildi er samgönguáætlun sem kveður skýrt á um þessar löngu tímabæru framkvæmdir á þjóðvegi 60. Skilaboð ráðherra er að plaggið sé marklaust. Við þetta verður ekki unað. Vestfirðingar mótmæla allir!​“

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir