Síða 2341

Gengið veldur þungum búsifjum hjá sjómönnum

Árshlutur háseta um borð í Barða NK, sem Síldarvinnslan hf. gerir út, mun lækka um fimm milljónir á þessu ári miðað við 2015, haldist gengi íslensku krónunnar óbreytt. Þetta kemur fram í tölum sem Síldarvinnslan hefur birt á facebooksíðu sinni. Þar eru áhrif gengisbreytinga síðustu missera sett í samhengi við rekstur frystitogarans fyrrnefnda. Barðinn landaði 2.957 tonnum af frystum afurðum árið 2015 að verðmæti 1.653 millj. kr. Að teknu tilliti til gengisþróunar, sem er mismunandi eftir tegundum og þeim mörkuðum sem þær seljast á, mun sami afli skila 1.336 milljónum á gengi dagsins og jafngildir það lækkun um 19,2%. Sé einnig tekið tillit til lækkunar afurðaverðs nemur heildarverðmæti aflans 1.209 milljónum og jafngildir það lækkun upp á 26,84% í íslenskum krónum.

Bendir Síldarvinnslan á að þessi þróun hafi verulega neikvæð áhrif á útgerð skipsins en að hið sama megi segja um skiptahlut skipverja. Þannig hafi árshlutur háseta numið 18,8 milljónum árið 2015 en verði að öllu óbreyttu 13,8 milljónir á þessu ári.

smari@bb.is

Sund og pottaaðstaða – vinningstillaga liggur fyrir.

Daníel Jakobsson

Niðurstaða úr hönnunarsamkeppni um sundhöll liggur nú fyrir. Þetta eru um margt skemmtilegar tillögur en breyta ekki helstu staðreyndum í þessu máli. Almenningi finnst þetta ekki skemmtilegur staður, aðgengi að húsinu er slæmt og breytingarnar eru kostnaðarsamar og fela í sér að ekki verður hægt að byggja nútíma sundlaug í tengingu við pottaaðstöðuna. Ef einhvern tímann ætti að koma 25 metra laug væri ekki hægt að koma henni fyrir þarna. Finna yrði henni annan stað.

Talað er um að kostnaðurinn við þessar breytingar/viðbyggingu séu að lágmarki 450 m.kr. Inn í þeirri tölu er ekki gert ráð fyrir breytingum á sundlauginn sjálfri, hún verður eins. Ekki er heldur gert ráð fyrir nýju klórkerfi eða loftræsingu í húsið. Inn í þeirri tölur eru heldur ekki endurbætur á 3. hæð eða lagfæringar á íþróttasalnum eða utanhúsklæðingu á húsinu.

Mín skoðun er sú, og hefur bara styrkst með því að fá fram kostnaðinn við þessar tillögur, að ef gera á eitthvað í sundlaugarmálum í Skutulsfirði þá ætti að byggja þessa aðstöðu sem nú er rætt um á Torfnesi. Það yrði sennilega ódýrari framkvæmd og betri staður hvað varðar aðgengi og veður. Þar væri hægt að samnýta búningsklefa og starfsfólk og í framtíðinni ef vilji stendur til væri hægt að gera þar 25 metra laug.

Við þurfum líka að þora að velta upp þeim möguleika að sundlauginn okkar sem búum í Skutulsfirði verði í Bolungarvík sem er í 10 mínútna akstursfjarlægð. Þar væru byggð upp sundlaugarmannvirki með 25 metra laug, en hér á Ísafirði kæmi fjölnota (knattspyrnu) íþróttahús og líkamsræktaraðstaða. Þannig myndum við nýta takmarkað fjármagn betur sem gerir okkur kleift að nýta peningana okkar í fleiri skemmtileg verkefni í stað þess að eiga tvær (fimm) sundlaugar á svæðinu.

Því má svo reyndar bæta við að á fundi bæjarráðs með Vestra um fjölnota knattspyrnuhús var því velt upp af meirihlutanum hvort að framtíðarstaðsetning knattspyrnu væri á Torfnesi og ef svo væri hvort að ekki væri heppilegra að staðsetja húsið við íþróttahúsið en ekki vallarhúsið. Það lýsir þeirri stöðu sem var ástæða þess að settar voru 10 m.kr. árið 2014 í að skipuleggja Torfnessvæði hvað ætti að vera hvar. Horfið var frá þeirri skipulagsvinnu og farið í samkeppni um sundhöllina í staðinn. Við stöndum því uppi með það núna þegar fjármagn liggur fyrir í knattspyrnuna að öll skipulagsvinna er eftir og þ.a.l. mun hugsanlega ekki vera hægt að hefja vinnu við uppbygginu á Torfnesi fyrr en á næsta ári.

Daniel Jakobsson

Rigning með köflum

Veðurstofa Íslands spáir norðaustan 10-15 m/s og rigningu með köflum á Vestfjörðum í dag. Vindur snýst í sunnan 8-13 m/s með rigningu um tíma í nótt og fyrramálið. Á morgun er síðan gert ráð fyrir austan 5-10 m/s og björtu veðri. Hiti verður á bilinu 0 til 5 stig. Á sunnudag er spáin fyrir landið austan og síðar sunnan 8-13 m/s og rigning eða slydda með köflum, með hita á bilinu 0 til 7 stig.

Á Vestfjörðum er sums staðar hálka eða snjóþekja, einkum á fjallvegum en á láglendi eru þó víðast aðeins hálkublettir eða jafnvel alveg autt.

annska@bb.is

Litla stund hjá Hansa tilnefnd til Edduverðlauna

Skjáskot úr myndinni

Stuttmyndin Litla stund hjá Hansa eftir Flateyringinn Eyþór Jóvinsson er tilnefnd til Edduverðlaunanna í flokki stuttmynda, en þrjár myndir eru tilnefndar þar: Litla Stund hjá Hansa, sem framleidd er af Eyþóri og framleiðslufyrirtækinu Arcus, Leyndamál sem er framleiðsla Northern Vision, Jakobs Halldórssonar og Stellu Rín Bieltvedt og Ungar sem framleidd er að Askja films, Evu Sigurðardóttur og Nönnu Kristínu Magnúsdóttur.

Litla stund hjá Hansa er gamansöm mynd sem byggir á smásögu eftir Þórarin Eldjárn en Eyþór skrifaði handritið auk þess að leikstýra myndinni. Með aðalhlutverk fer Sveinn Ólafur Gunnarsson og með önnur hlutverk fara þau Elísabet Thea Kristjánsdóttir, Helgi Björnsson, Anna Hafþórsdóttir en auk þess kemur Már Guðmundsson seðlabankastjóri fram og leikur sjálfan sig.

Edduhátíðin 2017 verður haldin sunnudaginn 26. febrúar á Hótel Hilton Reykjavík Nordica og sýnd beint á RÚV.

annska@bb.is

Líkist evrópskum fljótapramma

Dan fighter

Danska flutningaskipið Dan fighter kom til Ísafjarðar í gær og lagðist upp að hafnarbakkanum á Mávagarði. Skipið vekur athygli fyrir útlit, en það líkist helst flutningaprömmum sem sigla upp og niður stórfljót meginlands Evrópu. Skipið kom til Ísafjarðar með stálþil, annars vegar 50 tonn í viðleguþyppu á Mávagarði og hins vegar 227 tonn sem fara í ofanflóðavarnir á Súðavíkurhlíð.

Áður en skipið kom til Ísafjarðar losaði það 400 tonn í Reykjavík og heldur í dag til Akureyrar.

smari@bb.is

ASÍ: Alþingi féll á fyrsta prófinu

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands telur forsætisnefnd Alþingis hafa fallið á fyrstu prófraun sinni og „sýnt að Alþingi skortir jarðsamband og tengsl við almenning í landinu.“ Nefndin hafi sýnt það þegar hún ákvað að beita sér ekki fyrir breyt­ingum á launa­hækk­unum þing­manna heldur draga ein­ungis úr starfs­kostn­aði þeirra. Þetta kemur fram í ályktun sem mið­stjórn ASÍ hefur sent frá sér.

Í ályktun ASÍ segir að lands­mönnum hafi ofboðið launa­hækk­un­in. „Síðan þá er búið að skipta um helm­ing þing­manna og snér­ust kosn­ing­arnar í haust ekki síst um breytt sið­ferð­i. Nýir þing­menn höfðu tæki­færi til að beita sér og sýna í verki að alvara lá að baki kosn­inga­lof­orðum og taka til baka hækkun þing­fara­launa umfram það sem hinn almenni launa­maður hefur fengið í sitt umslag. Mið­stjórn Alþýðu­sam­bands­ins mót­mælir hálf­káki for­sætis­nefndar þings­ins og krefst þess að Alþingi taki málið upp og aft­ur­kalli hækk­anir kjara­ráðs. Mið­stjórn ASÍ minnir á að for­sendu­á­kvæði kjara­samn­inga eru til end­ur­skoð­unar nú í febr­úar og hækk­anir til alþing­is­manna og æðstu emb­ætt­is­manna geta sett fram­hald kjara­samn­inga alls þorra lands­manna í upp­nám.“

smari@bb.is

Ljósamessa á sunnudagskvöld

Á sunnudagskvöldið kl 20  verður ljósamessa í Ísafjarðarkirkju. Þá verður kirkjan fyllt af logandi ljósum, ljós kveikt á kertaaltarinu og neytt heilagrar kvöldmáltíðar. Sérstakur gjörningur verður í kirkjunni þar sem tónlist og myndlist verða fléttuð saman. Tuuli Rähni mun leika spuna á orgelið. Sr. Magnús Erlingsson þjónar fyrir altari.

smari@bb.is

Ragnar íþróttamaður ársins í Strandabyggð

Friðrik Heiðar (t.v.) og Ragnar við afhendingur viðurkenninganna.

Ragnar Bragason var í byrun vikunnar útnefndur íþróttamaður ársins 2016 í Strandabyggð. Ragnar vann afrek á skíðum, í körfubolta og maraþonhlaupum á síðasta ári auk þess að leggja mikla vinnu í sjálfboðastarf og þjálfun, bæði í körfubolta og á gönguskíðum. Hvatningarverðlaunin þetta árið hlaut Friðrik Heiðar Vignisson. Í umsögn segir að hann hafi staðið sig með eindæmum vel bæði á gönguskíðum og í körfubolta og á sannarlega framtíðina fyrir sér í íþróttum.

Íþróttastarf á Ströndum var í blóma á árinu. Skíðafélagið var kraftmikið að vanda og hefur að auki sett alla umframorkuna í byggingu skíðaskála í Selárdal. Fjöldi barna stundar fótboltaæfingar og körfuboltaíþróttin er í mikilli sókn með síauknu samstarfi við íþróttafélagið Vestra á norðanverðum Vestfjörðum  Víðavangshlaup er vinsælt sem aldrei fyrr og Íþróttamiðstöðin vel nýtt til íþróttaiðkunar.

smari@bb.is

Afmæli Sundlaugar Bolungarvíkur fagnað

Síðasta laugardag var haldið upp á afmæli Sundlaugar Bolungarvíkur með pompi og prakt. Sundlaugin, sem starfsfólk hennar kallar iðulega í dag musteri vatns og vellíðunar, var vígð 30. janúar árið 1977. Gunnar Hallsson forstöðumaður vék að hinni nýju nafngift í ræðu sinni á afmælinu þar sem hann sagði meðal annars: „Musteri er æðra rými, það getur verið hverskonar bygging raunveruleg eða huglæg. Líkami mannsins  getur þess vegna verið musteri hans sjálf, sem hann umgengst með þeim hætti sem hann virðir líf sitt. Öll viljum við freista þess að ganga vel um það musteri.“

Á þriðja hundrað manns fagnaði afmælinu í íþróttamiðstöðinni Árbæ. Þar var að morgni dags boðið upp á samflot og heilsufarsmælingu sem fulltrúar frá Heilsubænum Bolungarvík buðu gestum og gangandi, þar sem mátti fá upplýsingar um eigin blóðþrýsting, blóðsykur og fituprósentu. Þá öttu kappi um sextíu sundhetjur sunddeildar UMFB. Að því loknu færðist afmælisgleðin um set í íþróttasalinn sem er að finna í sömu byggingu, þar sem fram fóru ræðuhöld og tónlistaratriði, jafnframt því sem boðið var upp á dýrindis kræsingar líkt og tíðkast í öllum betri afmælum. Þá var þetta góða tækifæri notað til að útnefna íþróttamann ársins 2016 í Bolungarvík sem er Nikulás Jónsson.

Hið fertuga afmælisbarn ber aldurinn vel og hefur undanfarinn áratug aðsókn í laugina aukist stórum, enda hafa reglulega verið gerðar þar endurbætur og stöðugt bætist í flóru þess sem sundlaugagestir nútímans óska eftir að slíkir staðir hafi upp á að bjóða, líkt og gott útisvæði þar sem finna má heita potta og vaðlaug og til að bæta um betur er þar einnig að finna rennibraut og kaldan pott sem gestir nýta sér óspart.

Þeir eru ófáir sem hafa heimsótt afmælisbarnið í gegnum tíðina og margir eru reglulegir gestir í lauginni og hefur sundlaugin frá árinu 1977 þjónustað um eina milljón baðgesta.

annska@bb.is

Bæjarins besta 5. tbl. 34. árgangur 2017

Nýjustu fréttir