Miðvikudagur 16. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2341

Jón Hákon var ofhlaðinn með viðvarandi stjórnborðshalla

Jón Hákon BA.

Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur lokið rannsókn á skipskaða þegar Jón Hákon sökk á Vestfjarðarmiðum í byrjun júlí 2015. Nefndin telur orsök slyssins vera þá að skipið var ofhlaðið og með viðvarandi stjórnborðshalla. Einn fórst þegar Jón Hákon sökk en þrír skipverjar náðu að komast upp á kjöl skipsins þegar því hvolfdi og halda sér þar þangað til hjálp barst. Þetta kom fram á vef RÚV.

Vegna ofhleðslu og viðvarandi stjórnborðshalla átti sjór greiða leið inn á þilfar skipsins í veltingi, bæði yfir lunningu og um lensport. Vegna óþéttleika á lestarlúgukarmi bættist stöðugt sjór í lestina. Varð þetta til þess að skipið missti stöðugleika og því hvolfdi þegar öldutoppur rann óhindrað yfir lunningu þess. Þá telur nefndin að í aðdraganda slyssins hafi lensibúnaður í lest ekki virkað sem skyldi vegna óhreininda í síu. Þetta átti sinn þátt í því að sjór safnaðist í lest skipsins.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Kalt og fallegt veður í vikunni

Það ætti að viðra ágætlega á maskana sem verða á ferðinni í kvöld

Það verður norðaustanátt 10-15 m/s og él á Vestfjörðum í dag, hiti nálægt frostmarki. Það lægir á morgun og þá léttir til og frystir. Spá Veðurstofu Íslands fram að helgi er með svipuðum hætti og má búast við fallegu og köldu veðri í vikunni en spáin gerir ráð fyrir hægri austlægri eða breytilegri átt á landinu og víða verður léttskýjað. Frost verður á bilinu 1 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

Snjóþekja eða hálka er á vegum á Vestfjörðum og víðast hvar skafrenningur á fjallvegum.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Maskadagur í dag

Í dag er bolludagur og er þá til siðs þennan ágæta dag hér á landi að belgja sig út af gómsætum bollum. Kannski hefur minnkað aðeins bollumagnið eftir að börn landsins snar drógu úr flengingum á foreldrum sínum þar sem þau nældu sér í jafnmargar bollur og þau náðu að flengja sér inn áður en nývaknaðir foreldrarnir fengu rönd við reist. Reyndar er það ekki einvörðungu bolluát sem tíðkast á Ísfirði og í Bolungarvík, enda bolluveislurnar aðeins farnar að færa sig yfir á sunnudag, heldur hefur sælgætisát einnig lifað góðu lífi – því í dag er einnig maskadagur.

Að maska á bolludag, það er að klæða sig upp í ýmissa persóna og kvikinda líki, er gamall siður á Ísafirði sem hefur verið við lýði í um 150 ár, þannig að mann fram af manni hafa kynslóðirnar arkað um bæinn og sníkt sér gott í gogginn í skiptum fyrir upplýsingar um hver væri þar á ferð, því auðvitað er Jón í næsta húsi einhver allt annar á maskadaginn en hann dags daglega er. Í skólum og leikskólum eru grímuböll og þegar að kvölda tekur fer grímuklæddur flokkurinn á stjá og bankar upp á í húsum og nælir sér í góðgæti, núorðið oft í skiptum fyrir söng, þó það hafi ekki tíðkast hér áður á Ísafirði. Má því búa sig undir að sjá hinar ýmsu verur á kreiki í dag og gaman getur verið að fá að heyra hverjir eru þar á ferð og eiga eitthvað gott til að gauka að þeim að launum.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Ný vinnubátur til Þingeyrar

Í síðustu viku kom til landsins nýr vinnubátur fyrir Arctic Fish.  Báturinn er smíðaður í Póllandi og er 16 metra langur og 9 metra breið tvíbytna. Hann hefur fengið nafnið Hafnarnes og verður með heimahöfn á Þingeyri.  Hafnarnes er afar vel búinn og sérhæfður vinnubátur fyrir fiskeldi. Á vef Landssambands fiskeldisfyrirtækja segir að „þátttaka erlendra fiskeldisfyrirtækja í uppbyggingunni hér á landi leiðir til þess að fyrirtækin á Íslandi fá æ betri búnað og verkfæri og eykur það á öryggi í kringum eldið, bæði fyrir fiska og menn,“ en Arctic Fish er nær öllu leyti í eigu erlendra aðila.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýskráningum fjölgaði um 13%

Ný­skrán­ing­ar einka­hluta­fé­laga í janú­ar  voru 242 tals­ins. Síðustu 12 mánuði, frá fe­brú­ar 2016 til janú­ar 2017, hef­ur ný­skrán­ing­um einka­hluta­fé­laga fjölgað um 13% í sam­an­b­urði við 12 mánuði þar á und­an. Greint er frá þessu á vef Hag­stofu Íslands.

Alls voru 2.698 ný einka­hluta­fé­lög skráð á tíma­bil­inu, borið sam­an við 2.387 á fyrri 12 mánuðum. Hlut­falls­leg fjölg­un ný­skrán­inga var mest í leigu­starf­semi og ým­issi sér­hæfðri þjón­ustu, þar sem þeim fjölgaði úr 179 í 278 á síðustu 12 mánuðum eða um 55%, og í flutn­ing­um og geymslu, þar sem fjölg­un­in var úr 44 í 68 ný­skrán­ing­ar eða um 55%. Í fram­leiðslu fækkaði ný­skrán­ing­um á tíma­bil­inu úr 94 í 84 eða um 11%.

Í janú­ar 2017 voru 70 fyr­ir­tæki tek­in til gjaldþrota­skipta. Gjaldþrota­beiðnum fyr­ir­tækja síðustu 12 mánuði, frá fe­brú­ar 2016 til janú­ar 2017, hef­ur fjölgað um 84% í sam­an­b­urði við 12 mánuði þar á und­an. Alls voru 1.037 fyr­ir­tæki tek­in til gjaldþrota­skipta á tíma­bil­inu, borið sam­an við 564 á fyrra tíma­bili.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

23. sæti á HM

Albert (t.v.) og Sævar. Mynd: Skíðasamband Íslands.

Ísfirski skíðakappinn Albert Jónsson keppti í gær í sprettgöngu liða á heimsmeistaramótinu í Lahti í Finnlandi. Liðasprettur fer þannig fram að hvert lið stillir upp tveimur keppendum sem hvor um sig fer þrjá 1,4 km langa spretti. Albert og Sævar Birgisson kepptu fyrir Íslands hönd.Sævar tók fyrsta sprettinn og heppnaðist hann afar vel. Þegar Sævar kom inn á skiptisvæðið var hann á meðal fremstu manna. Þá dró aðeins af þeim félögum og höfnuðu þeir að lokum í 23. sæti. Þeir bættu því árangur Íslands frá því á HM fyrir tveimur árum um tvö sæti.

Rússar komu fyrstir í mark, Ítalir höfnuðu í öðru sæti og Finnar í því þriðja.

 

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Skilorðsbundin fangavist

Aðalstræti 19

Þann 24. febrúar féll dómur í Héraðsdómi Vestfjarða í máli héraðssaksóknara á hendur Valdimar Lúðvík Gíslasyni vegna skemmda sem hann vann á Aðalstræti 19 í Bolungarvík. Valdimar fær þriggja mánaða skilorðsbundna fangelsisvist og er gert að greiða Bolungarvíkurkaupstað rúma milljón í skaðabætur. Bolungarvíkurkaupstaður hafði lagt fram kröfu upp á rúmar fimm milljónir.

Málsatvik eru með þeim hætti að í byrjun júlí árið 2014 vann Valdimar skemmdir á húsinu við Aðalstræti  með traktorsgröfu enda taldi hann það valda hættu fyrir vegfarendur. Húsfriðunarefnd hafði nokkru áður lagst gegn niðurrifi eða flutningi hússins eins og Bolungarvíkurkaupstaður hafði óskað eftir og taldi nefndin að húsið hefði umtalsvert varðveislugildi en heimilaði að því yrði eitthvað hnikað til enda stendur það langt fram í götuna. Engu að síður er gert ráð fyrir húsinu á þessum stað í deiliskipulagi sem nú er í vinnslu.

Við skýrslutöku dró Valdimar niðurstöðu Húsfriðunarnefndar í efa og taldi ósannað að húsið væri menningarminjar. „Um er að ræða kofaræksni norðan úr Aðalvík sem var reist þarna og byggt við tvívegis. Ekkert finnist um húsið fyrir 1930“ segir Valdimar við skýrslutökuna en það reyndist ekki rétt því húsinu er líst veturinn 1917-1918 á blöðum Vilmundar Jónassonar landlæknis, ennfremur kemur fram í fasteignamati að húsið hafi verið byggt árið 1909.

bryndis@bb.is

 

Auglýsing
Auglýsing

Um bæjarmálin

Daníel Jakobsson

Samstarf í bæjarstjórn er almennt gott. Í lang flestum málum erum við bæjarfulltrúar sammála og höfum getu til að rökræða/rífast á fundum en förum svo út sem félagar sem geta gert sér glaðan dag saman. Við höfum ólíkar skoðanir en virðum það hvort við annað. Það þarf að vera hægt í litlu samfélagi.

En það þýðir ekki að við séum sammála um allt. Það er meiningarmunur á okkur og við höfum ólíkar stefnur og leiðir að markmiðum. Sá munur á áherslum hefur kristallast ágætlega á síðustum missernum þegar að tekjur sveitarfélagsins hafa aukist mikið og atvinnuástand er gott. Við Sjálfstæðismenn höfum viljað gæta aðhalds, greiða niður skuldir, fjárfesta hóflega og lækka álögur. Meirihlutinn hefur hinsvegar aðra sýn, vill taka lán fyrir fjárfestingum, fjölga stöðugildum hjá bænum án þess rökstyðja þörfina. Byggja upp deildir og fjárfesta án þess að sýnt sé fram á að bærinn geti gert þetta fyrir minni fjárhæð en ef ver-kefnin væru boðin út. Ákvarðanir er teknar eftir geðþótta hverju sinni og langtímahugsun skortir. Geta bæjarins til að koma inn þegar að ver árar verður því minni eða engin.

Þrjú mál sem verið hafa á dagskrá upp á síðkastið hefur verið tekist á um. Sundlaugin, skjalageymslan og reiðskemman. Þessi þrjú mál eiga það sammerkt að það er nánast búið að fullvinna þau í meirihlutanum á meirihlutafundum og leiða þau þar til lykta bak við lokaða hurð, áður en þau koma til umræðu í bæjar-ráði, nefndum eða bæjarstjórn. Þegar við í minnihlutanum komum að þeim, er búið að taka veigamiklar ákvarðanir og meirihlutanum lítið haggað. Það hefur leitt til þess að teknar hafa verið vondar ákvarðanir, samningar eru illa gerðir og hagsmunum sveitarfélagsins er ekki gætt.

Norðurtanginn

Þegar Norðurtanginn var tekinn á leigu var það tilfinning mín að búið var að gefa leigusala fyrirheit um að taka ætti húsið á leigu. Það var ekki raunverulegur vilji til að skoða alvarlega aðra kosti eða ræða be-tur framtíðarfyrirkomulag safna. Reyndar var fallið frá því að leigja allt húsið, en niðurstaðan var engu að síður sú að taka á leigu mjög dýrt hús í stað þess að byggja geymsluhúsnæði sem hefði verið mun ódýra, jafnvel þó að það hefði verið tímabundin ráðstöfun. Eftirfylgni með framkvæmdum var svo ábótavant að tekið var við húsinu og byrjað að greiða leigu (þrátt fyrir að bæjarstjóri haldi öðru fram), áður en húsið var tekið út af Eignasjóði. Vegna þess að eftirfylgni og samningar voru ekki nægjanlega góðir er málið nú komið í hnút og óljóst hvort það endi þannig að sveitarsjóður skaðist ekki. Við þessu var varað áður en samningurinn var gerður og aðrar leiðir lagðar til.

Sundhöllin

Í sundhallarmálinu kom tillaga um hönnunarsamkeppnina alveg þvert á alla stefnu bæjarins og án samráðs. Ekkert hafði verið rætt um endurbætur á sundhöllinni, það var ekki á langtímafjárhagsáætlun og aftur var ekki vilji til að skoða málið heildstætt og bera saman fleiri kosti. Minnihlutinn lagði á það mi-kla áherslu að áður en farið væri í kostnaðarsama hönnunarsamkeppni, færi fram skrifborðsúttekt þar sem fjárhæðir og þarfir væru skoðaðar. Í kjölfarið væri hægt að bera saman mismunandi kosti. Það var ekki gert. Málið var keyrt áfram en nú virðist meirihlutinn vera á því að leyfa íbúum að kjósa um málið og jafnvel aðra kosti. Á þá að fara í hönnunarsamkeppni um þá kosti líka áður en hægt er að fara lengra? Hver er svo eiginlega afstaða bæjarfulltrúa meirihlutans til sundhallartillögunnar. Á bara að gera það sem íbúarnir vilja (sem er út af fyrir sig göfugt) eða hafa þau einhverja skoðun sjálf; hvað þau vilja að gert verði við þær tillögur sem liggja fyrir og þau hafa sett um 20 m.kr. í? Vilja þau fara í þessa framkvæmd nú

þegar niðurstöðurnar liggja fyrir? Ef svo er gengur það þvert á yfirlýsingar sumra bæjarfulltrúa sem sögðu í ræðustól í bæjarstjórn að ef þetta væru einhverjar hundruðir milljóna þá styddu þau þetta ekki.

Til viðbótar við þetta mál er rétt að halda til haga hvernig sundlaugarmálið hófst. Á fjárhagsáæltun fyrir árið 2014 sem samþykkt var samhljóða var gert ráð fyrir að deiliskipuleggja og hanna Torfnessvæðið. Ástæðan var sú að um langt bil hafði verið rætt hver væri framtíðarnotkun svæðiðsins. Var pláss fyrir fjölnotahús, sundhöll, líkamsrækt o.s.frv.? Öll þessi umræða strandaði á því að ekki var búið að taka ákvörðun um hvernig skipulagi yrði háttað. Arkitektastofa hafði verið fengin í að koma með nokkrar tillögur og út frá þeim átti að skipuleggja svæðið. Þegar að formanni bæjarráðs var falið það verkefni að útfæra þessa samkeppni og skiplagsferli, var tillaga formannsins sú að hætta við allt og fara í hönnunarsamkeppni um pottaaðstöðu af því að við hefðum ekki efni á neinu nema nokkrum pottum. Þetta kemur okkur svo í koll núna, þegar að búið er að samþykkja að leggja fjármagn í gervigras á Torfnessvæðinu. Þá kemur upp sú staða að ekki liggur fyrir hvernig skipulagi þarna er háttað og nú erum við því að falla á tíma með það að vanda til skipulags á svæðinu eða þá að uppbygging tefst.

Reiðskemman

Ákvörðun meirihluta Ísafjarðarbæjar að semja við hestamannafélagið Hendingu um byggingu reiðhallar er annað dæmi um algjöran skort á samráði. Á meðan bæjarstjórn sat vinnufundi fjárhagsáætlunar bæjarins þar sem fjárfestingaráætlun næstu ára var rædd var verið að semja við Hendingu um byggingu reiðhallar. Ekki var minnst á þessa samninga einu orði né gert ráð fyrir þeim í fjárhagsáætlun. Þegar að fjárhagsáætlunin var nýsamþykkt var kynntur óformlega samningur sem umboðslaus bæjarfulltrúi var búinn að ná við hestamenn og það tilkynnt að meirihlutinn væri á bak við samninginn. Samt var ekki haft fyrir því að koma málinu á fjárhagsáætlun, ekki var minnst á þessar viðræður einu orði eða spurt hvaða afstöðu við hefðum til upphæða eða efnistaka samnings. Því staðreyndin er að þrátt fyrir að ágreiningur sé um upphæð samningsins og þá forgangsröðun sem í honum birtist, er eiginlega enn meiri ágreiningur um efnistök samningsins sem er galopinn tékki á bæjarsjóð. Þar má nefna að stofnað sé hlutafélag um framkvæmdina sem bærinn mun eiga með Hestamönnum, ekki lá fyrir skilalýsing á húsnæðinu þegar samið var, ekki var fyllilega klárt hvernig fara ætti með virðisaukaskatt af byggingunni og áætlun um byggingarkostnað og rekstur lá ekki fyrir þegar málið hafði verið til lykta leitt.

Til viðbótar má svo benda á að með þessu er forgangsröðun um uppbyggingu íþróttamannvirkja að engu höfð og látið að því liggja að það sé sérstakt markmið að ljúka þessu þrætumáli Hestamanna og bæjarins og það sé hægt að kaupa frið þar sama hvað það kostar skattborgara.

Vond og illa unnin mál

Niðurstaðan í öllum þessum tilvikum eru því vond og illa unnin mál. Skjalageymsla þar sem fermetraverð er svo hátt að það jafnast á við fínasta íbúðarhúsnæði, reiðhöll án skilalýsingar og almennilegrar áætlunar um rekstur og byggingarkostnað, og tillögu um sundhöll sem enginn veit hvort eigi að byggja né hvort aðrir kostir séu betri. Allt er gert þannig að engin samstaða er um málið, hvorki í bæjarstjórn eða meðal bæjarbúa almennt. Íbúalýðræði hefur breyst í meirihlutaræði. Nóg er að hafa meirihluta í meirihlutanum því þar eru ákvarðanirnar teknar.

Daníel Jakobsson

Auglýsing
Auglýsing

Undankeppnum fyrir Stóru upplestrarkeppnina lokið

Keppendur í undankeppninni á Þingeyri klárir í slaginn

Grunnskólar Ísafjarðarbæjar hafa í vikunni haldið skólakeppnir meðal nemenda í 7.bekkjum skólanna fyrir Stóru upplestrarkeppnina sem fram fer í Hömrum þann 9. mars. Á þriðjudaginn fór undankeppni fram í Grunnskólanum á Þingeyri. Þá komu saman 7. bekkjar nemendur úr grunnskólunum á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri og lásu sögubúta og ljóð. Dómararnir Hildur Inga Rúnarsdóttir, Elfar Logi Hannesson og Guðrúnar Birgisdóttir völdu þau Auðbjörgu Ernu Ómarsdóttur og Grétu Proppé Hjaltadóttur frá G.Þ. og Einar Arnalds frá G.Ö til áframhaldandi keppni.

Á Ísafirði fór keppnin fram í sal grunnskólans á miðvikudag og þar völdu þau: Jóna Benediktsdóttir, Birna Lárusdóttir og Baldur Ingi Jónasson þau Arnar Rafnsson, Kára Eydal, Lenu Rut Ásgeirsdóttur, Lilju Borg Jóhannsdóttur og Snæfríði Lillý Árnadóttur í lokakeppnina.

Í síðustu viku fór undankeppni fram við Grunnskóla Bolungarvíkur og voru þar hlutskörpust þau Jón Karl Karlsson og Íris Embla Stefánsdóttir. Þessir tíu sjöundu bekkingar sem valdir voru munu svo stíga á stokk í Hömrum og láta ljós sitt við upplesturinn skína.

Á öllum stöðum var dómari vandi á höndum að velja úr hópi þeirra glæsilegu upplesara sem komu fram, líkt og Erna Höskuldsdóttir skólastjóri Grunnskólans á Þingeyri segir að þrátt fyrir að komast kannski ekki áfram þá er það stórsigur fyrir hvern og einn að koma fram og lesa vel fyrir framan fullt af fólki.

Stóra upplestrarkeppnin hófst í Hafnarfirði árið 1996 og er markmið hennar að vekja athygli og áhuga nemenda á vönduðum upplestri og framburði.

annska@bb.is

 

Auglýsing
Auglýsing

Nóg um að vera í Fræðslumiðstöðinni

Það er alltaf nóg um að vera við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og er þar boðið upp á hvert áhugaverða námskeiðið á fætur öðru og er óhætt að segja að fjölbreytni námskeiðanna spanni vítt áhugasvið. Á mánudag hefst þar námskeiðið WordPress – vefurinn minn, þar sem Birgir Þór Halldórsson kennir heimasíðugerð með litlum tilkostnaði en WordPress er eitt vinsælasta vefumsjónarkerfið í heiminum í dag. Þá hefst námskeið í vefnaði á þriðjudag, þar sem Sigrún Guðmundsdóttir kennir grunn aðferðir í vefnaði og hvernig útfæra má þær á fjölbreyttan hátt í mismunandi efni. Námskeiðið verður haldið í vefstofu úr Húsmæðraskólanum Ósk sem er nú staðsett í Barnaskólanum í Hnífsdal. Á þriðjudag verður einnig námskeiðið Veðurfræði – Veðurspár, þar sem Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur fjallar um gagnsemi tölvuspáa og leiðir um frumskóg þeirra á vefnum. Hverjar þeirra eru hentugar og hvað ber að varast í þessum efnum, ekki síst fyrir vestan. Hversu langt fram í tímann er hægt að spá með þessum aðferðum? Námskeiðið miðast sérstaklega við sjómenn en er gagnlegt öllu áhugafólki um veður.

Þann 4. mars verður svo boðið upp á námskeið þar sem kennt verður að gera súrkál og annað sýrt grænmeti, en mjólkursýring er ævagömul náttúruleg leið til að geyma grænmeti. Kennslan verður bæði í formi fyrirlesturs Dagnýjar Hermannsdóttur og sýnikennslu. Boðið verður upp á smakka á um tuttugu útgáfum af sýrðu grænmeti og þátttakendur fá bækling þar sem tekin eru saman helstu atriði sem hafa þarf í huga auk nokkurra uppskrifta.

annska@bb.is

 

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir