Þriðjudagur 13. maí 2025
Heim Blogg Síða 2340

Tíu fyrirtæki með helming kvótans

Tvö útgerðarfyrirtæki ráða yfir tæplega átján prósentum af öllum aflaheimildum í íslenska kvótakerfinu. Tíu fyrirtæki ráða yfir helmingi allra aflaheimilda. HB Grandi og Samherji, sem hafa verið kvótahæstu fyrirtæki landsins undanfarin ár, tróna enn á toppnum. Þetta kemur fram í samantekt Fiskistofu. Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. í Hnífsdal er 11. kvótahæsta fyrirtækið með kvóta upp á 12 þúsund þorskígildistonn sem jafngildir 3,07% af heildarkvótanum. Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík er næsta vestfirska fyrirtækið á listanum, með rúmlega 6 þúsund tonna kvóta og 18. kvótahæsta fyrirtæki landsins. Oddi hf. á Patreksfirði er í 31. sæti listans með 2.600 tonna kvóta.

Kvóti HB Granda er 43 þúsund þorskígildistonn og kvóti Samherja er 25 þúsund tonn. Þá er vert að geta þess að Samherji allt hlutafé í Útgerðarfélagi Akureyringa (8 þús. þorskígildistonn) og rétt tæplega helming í Síldarvinnslunni hf. (16 þús. þorskígildistonn). Síldarvinnslan á svo Berg-Huginn ehf. (5.500 þorskígildistonn). Í samantekt Fiskistofu er miðað við eigendur skipa þann 1. mars en um áramótin gekk í gildi samruni Síldarvinnslunnar og Gullbergs ehf. á Seyðisfirði sem hafði yfir að ráða 2.900 þorskígildistonnum. Gullberg hafði verið í fullri eigu Síldarvinnslunnar í rúm tvö ár.

smari@bb.is

Auglýsing

Fjárfest fyrir hálfan milljarð

FleXicut vélin í vinnslusal Odda.

Líkt og greint var frá fyrr í vikunni hefur fiskvinnslan Oddi hf. á Patreksfirði tekið í notkun FleXicut skurðarvél frá Marel. FleXicut er háþróuð skurðarvél sem greinir og sker burt beingarð, þunnildi og sporð með mikilli nákvæmni og hlutar svo flökin niður í bita samkvæmt óskum viðskiptavinar.

Í frétt frá Odda hf. segir að árangur í rekstri fyrirtækisins hafi verið verið viðunandi á síðustu árum.  Árið 2016  fór afkoman þó  versnandi sem rekja má alfarið til styrkingar íslensku krónunnar og hækkunar á rekstrarkostnaði s.s. launa. Vegna síversnandi afkomu, aukinnar samkeppni á öllum sviðum sjávarútvegsrekstrar,  hafi verið ákveðið að grípa til aðgerða til að styrkja reksturinn með því að ráðast í nokkrar kostnaðarsamar framkvæmdir.

Patrekur BA 64  var keyptur til að bæta hráefnisöflun. Skipið var  síðan útbúið með nýjustu tækni á sviði veiða með línu og meðferð hráefnis. Meðal annars var sett í skipið Mustad línukerfi,  Rotex kerfi frá 3X á Ísafirði, andveltitankur til að bæta aðstöðu skipverja og annan tæknibúnað.

Á sama tíma var farið í endurnýjun fiskvinnslubúnaðar í fiskvinnslu félagsins með nýjum tæknibúnaði. Má þar nefna flatningsvél og roðdráttarvél frá Baader, hausara og flökunarvél frá Curio.  Með þessu móti reynir fyrirtækið að ná fram sem mestri hagræðingu með aukinni nýtingu, meiri vinnsluhraða og meiri gæðum.

Kostnaður við allan þennan nýja tæknibúnað upp kominn er áætlaður tæplega 500 milljónir króna, sem verður að teljast talsverð upphæð fyrir fyrirtæki af þessari stærð.

smari@bb.is

Auglýsing

Bæjarins besta 11. tbl. 2017, 34. árgangur

Auglýsing

Segir Vegagerðina sýna dónaskap

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Mynd: mbl.is / Helgi Bjarnason.

Ákvörðun Vegagerðarinnar að láta Breiðafjarðarferjuna Baldur leysa Herjólf af lýsir dónaskap í garð íbúa og fyrirtækja á sunnaverðum Vestfjörðum. Þetta segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Herjólf­ur fer í reglu­bundna slipp­töku í maí og á meðan siglir Baldur milli lands og Eyja. Bald­ur mun sigla sam­kvæmt áætl­un á Breiðafirði 30. apríl og hefji sigl­ing­ar frá Vest­manna­eyj­um 2. maí og er stefnt að því að Bald­ur verði aft­ur kom­inn aft­ur í áætl­un á Breiðafirði sunnu­dag­inn 21. Maí.

„Meðan vegirnir eru eins og þeir eru, hálsarnir snarbrattir og oft eitt drullusvað, þá hefur þó verið pínutrygging í þessari leið. Við höfum þurft að senda okkar afurðir með Baldri þegar hálsarnir eru hvað verstir. Svo má heldur ekki gleym að það er fólk sem treystir sér ekki til að keyra þessa leið og hefur því nýtt sér Baldur,“ segir Víkingur.

Mikil reiði er á sunnanverðum Vestfjörðum með þá ákvörðun samgönguráðherra að skera niður framkvæmdafé til Vegagerðar í Gufudalssveit, vegagerð sem á að leysa af vegina yfir Ódrjúgsháls og Hjallaháls. „Ofan í þessa umræðu kemur svo þessi ákvörðun að kippa ferjunni í burtu á svæði sem býr við vegakerfi sem er löngu úrelt.“

Víkingur segir að Vegagerðin hafi ekki verið í sambandi við fólk á svæðinu varðandi þessa ákvörðun. „Við lesum þetta bara í blöðunum,“ segir Víkingur.

smari@bb.is

Auglýsing

Kuldi í kortunum

Veðurstofa Íslands spáir norðaustan 8-15 m/s og éljum á Vestfjörðum í dag, en hægri austanátt og bjartviðri á morgun. Frost í dag verður að 5 stigum, en á morgun kólnar heldur og verður frost þá á bilinu 3 til 8 stig. Á laugardag er spáð austlægri átt á landinu, víða 8-15 m/s og snjókoma eða él, en suðvestan 5-10 syðst. Áfram verður kalt í veðri og frost á bilinu 1 til 6 stig, en frostlaust við suðurströndina.

Éljagangur er á Vestfjörðum og snjóþekja eða hálka á flestum vegum, sumstaðar er skafrenningur, einkum á fjallvegum.

annska@bb.is

Auglýsing

Ernir heldur hangikjétsveislu

Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík í Bolungarvík heldur á laugardagskvöld svokallaða hangikjétsveislu í félagsheimili Bolungarvíkur, þar verða veitingar með þjóðlegra móti er björgunarsveitarfélagar bjóða upp á úrvals hangikjöt í aðalrétt og ís með ávöxtum og rjóma í eftirrétt. Viðburðurinn er fjáröflun fyrir félagið og verður einnig happdrætti þar sem fjölda glæsilegra vinninga úr heimabyggð er að finna – og segja menn vinningslíkur góðar. Um veislustjórn sér bæjarstjóri þeirra Bolvíkinga, Jón Páll Hreinsson og verða þar skemmtiatriði að hætti Ernismanna.

Miðaverð er 4000 krónur. Húsið opnar klukkan 19 og hefst borðhald klukkan 20. Panta má miða á viðburðinn í síma 776-7798.

annska@bb.is

Auglýsing

Loðnuveiðar hífa upp heildarveiðina

Góðri og snarpri loðnuvertíð er að ljúka þessa dagana.

Fiskafli íslenskra skipa í febrúar var 85.678 tonn sem er 4% minna en heildaraflinn í febrúar 2016, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. Botnfiskafli var 58 prósent minni en í febrúar 2016 eða 14,5 þúsund tonn og gætir þar enn áhrifa af sjómannaverkfallinu. Uppsjávarafli jókst um 65%, var 65 þúsund tonn, samanborið við 40 þúsund tonn í febrúarmánuði 2016 og samanstóð aflinn eingöngu af loðnu.

Á 12 mánaða tímabili frá mars 2016 til febrúar 2017 hefur heildarafli dregist saman um 165 þúsund tonn eða 14% samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr.

Sjómannaverkfall stóð nær allan mánuðinn, en það leystist 19. febrúar.

smari@bb.is

Auglýsing

Steinunn sýnir Gleðina sem gjöf í Gerðubergi

Steinunn við tvær myndanna

Steinunn Matthíasdóttir opnar á laugardag ljósmyndasýninguna Gleðin sem gjöf í menningarhúsinu Gerðubergi, þar sem sýnd verða glaðleg portrett af eldri borgurum. Sýningunni er ætlað að draga athygli að virðingu fyrir þeim sem eldri eru og lífsgæðum þeirra, mikilvægi þess að finna gleðina sama hvernig lífið leikur okkur og vekja fólk til umhugsunar um hvernig við getum öll átt þátt í að veita gleði. Gleðin sem gjöf er hluti af Inside Out Project, sem gert er út frá New York af franska listamanninum JR í samvinnu við Ted Prize verðlaunin. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á völdum málstað með hjálp portrettljósmynda hvaðanæva að úr heiminum. Inside Out project Steinunnar var framkvæmt í Búðardal sumarið 2016 þar sem risamyndir af 64 eldri borgurum voru límdar á húsveggi við þjóðveginn. Einnig var 14 mynda úrtak sett upp við kirkjutröppur Akureyrarkirkju sem hluti af Listasumri og í nóvember síðastliðnum voru myndirnar til sýnis í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri.

Steinunn er fædd á Ísafirði 1976 og alir þar upp, móðir hennar er Björk Gunnarsdóttir frá Bolungavík og faðir hennar Ísfirðingurinn Matthías Zóphanías Kristinn Kristinsson. Hún er kennari að mennt en er sjálflærð í ljósmyndun. Steinunn býr ásamt eiginmanni og börnum í Búðardal þar sem hún starfar í fjölskyldufyrirtæki þeirra hjóna auk þess að stunda ljósmyndun og taka að sér verkefni sem fréttaritari fyrir Skessuhorn. Í heimi ljósmyndunar heillar fjölbreytileikinn Steinunni en hún hefur þó aðallega einbeitt sér að því að mynda fólk ásamt því að vinna með landslag. Sýningin stendur til 14.maí.

annska@bb.is

Auglýsing

Gísli á Uppsölum ferðast um landið

Gísli á Uppsölum er nú orðin ein vinsælasta sýning Kómedíuleikhússins frá upphafi. Þegar hefur sýningin verið sýnd 36 sinnum þar af 14 sýningar í Þjóðleikhúsinu, oftast fyrir fullu húsi. Það er sveitungi Gísla, Elfar Logi Hannesson, sem túlkar einbúann víðfræga í leikstjórn annars sveitunga hans, Þrastar Leós Gunnarssonar. Sýningin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda og áhorfenda, þar sem Halla Þórlaug Óskarsdóttir gagnrýnandi Víðsjár sagði meðal annars: „Elfar Logi er einstaklega sannfærandi í hlutverki Gísla og málar upp mynd af manninum af virðingu. Einleikurinn um Gísla á Uppsölum er næmt og fallegt verk sem snertir við áhorfendum. Viðfangsefninu er sýnd virðing og verður til þess að Gísli fær að ferðast um landið einsog hann hafði sjálfur viljað.“

Gísli Oktavíus fær sannarlega að ferðast áfram um landið. Á þriðjudag verður einleikurinn sýndur í Fella- og Hólakirkju og er uppselt á þá sýningu. Strax á eftir bregður hann sér á Hvammstanga þar sem verða sýndar tvær sýningar í Selasetrinu á miðvikudag og á fimmtudag verður sýning á Akranesi. Þá geta Vestfirðingar fengið að bera hann aftur augum í Dymbilviku er sýnt verður bæði á Þingeyri, sem og í Birkimel á Barðaströnd. Þá heldur hann austur á land og svo í leikferð um Suðurland. Í maímánuði verður hann aftur í Þjóðleikhúsinu og fleiri sýningar eru í kortunum í sumar, sem lesa má um á heimsíðu Kómedíuleikhússins.

annska@bb.is

Auglýsing

Bolvíkingar sigruðu Vestfjarðariðilinn í Skólahreysti

Skólahreystilið Grunnskóla Bolungarvíkur sem sigraði Vestfjarðariðil keppninnar. Mynd:

Fyrsti keppnisdagur Skólahreysti 2017 fór fram í íþróttahúsinu Mýrinni í Garðabæ fyrir fullu húsi í gær. Í Vestfjarðariðli keppninnar tókust á fjórir skólar, Grunnskóli Bolungarvíkur, Grunnskólinn á Ísafirði, Grunnskólinn á Hólmavík og Grunnskólinn á Suðureyri. Það var Grunnskóli Bolungarvíkur fór með sigur af hólmi í riðlinum og tryggði sér þar með þátttökurétt í úrslitakeppninni. Liðið sigraði allar einstaklingsgreinarnar og varð í öðru sæti í hraðakeppninni. Vala Karítas Guðbjartsdóttir sigraði í armbeygjum og hreystigripi, Flóki Hrafn Markan sigraði í upphífingum og dýfum og Kristján Logi Guðbjarnason og Jónína Arndís Guðjónsdóttir urðu í öðru sæti í hraðakeppninni

Eftir fyrsta keppnisdag í Skólahreysti eru fjórir skólar komnir með þátttökurétt í úrslitakeppni Skólahreysti sem fram fer í beinni útsendingu í Laugardalshöll 26.apríl, áðurnefndir Bolvíkingar, Grunnskóli Stykkishólms, Lindaskóli og Laugalækjarskóli.

annska@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir