Síða 2340

Fyrsti titill Vestra

9. flokkur Vestra með þjálfurum.

Drengirnir í 9. flokki Vestra gerðu sér lítið fyrir í gær og sigruðu val 60-49 í úrslitaleik Maltbikarsins í körfubolta. Fyrri hálfleikur leiksins  jafn og spennandi, en Vestradrengir voru þó yfirleitt skrefinu á undan. Eftir fyrsta leikhluta var staðan jöfn, 12-12 og þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var Vestri stigi yfir, 23-24.

Í hálfleik var Ástþór Atli Svalason atkvæðamestur fyrir fyrir Val með 5 stig, 7 fráköst og 2 stoðsendingar. Fyrir Vestra var það Hugi Hallgrímsson með 5 stig, 9 fráköst og 4 varin skot. Í upphafi seinni hálfleiksins var leikurinn svo áfram í járnum, eftir 3. leikhluta var staðan aftur jöfn 38-38.

Undir lok leiksins tók Vestri svo öll völd á vellinum og kláraði leikinn með miklum glæsibrag. Bræðurnir Hugi og Hilmir Hallgrímssynir voru gott betur en drjúgir fyrir Vestra og skoruðu 43 af 60 stiga liðsins og var Hugi valinn maður leiksins.

smari@bb.is

Inflúensan líklega í hámarki

Frá því í lok nóvember 2016 hefur inflúensa A(H3) verið staðfest hjá 226 einstaklingum á landinu er fram kemur á vef Landlæknisembættisins. Í síðustu viku greindust fleiri með staðfesta inflúensu samanborið við vikurnar á undan og hefur hún nú verið staðfest í öllum landshlutum. Inflúensan er hlutfallslega algengari meðal 60 ára og eldri, meðalaldurinn er 63 ár hjá þeim sem greinst hafa frá því í nóvember. Inflúensan var fyrr á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu en á síðustu vikum hefur inflúensan farið hægt vaxandi á landsbyggðinni. Frá því í byrjun desember hafa alls 95 einstaklingar legið á Landspítala vegna inflúensu, flestir yfir 70 ára, þar af greindist 21 í síðustu viku sem er aukning borið saman við vikurnar á undan.

Inflúensan er útbreidd í samfélaginu, sennilega er hún í hámarki núna og gera má ráð fyrir að tilfellum fækki á næstu vikum. Inflúensa A(H3N2) er sá stofn sem hefur verið í dreifingu, en ekki er útilokað að inflúensa A(H1N1) eða inflúensa B eigi eftir að koma í kjölfarið á næstu vikum.

Þeim fjölgar sem sem greinast með staðfesta Respiratory Syncytial veirusýkingu (RSV) en hún hefur greinst hjá alls 114 einstaklingum frá því í byrjun október, þar af 19 í síðustu viku sem er svipaður fjöldi og hefur greinst á síðastliðnum vikum. Það má því gera ráð fyrir að RSV sé í dreifingu í samfélaginu. Börn á fyrsta og öðru aldursári greinast hlutfallslega oftast með RSV en veiran hefur einnig verið staðfest hjá öðrum aldurshópum, einkum meðal aldraðra, sem ásamt ungabörnum er þekktur áhættuhópur. Þá er fjöldi tilkynninga frá heilsugæslunni og bráðamóttökum um niðurgang eins og gera má ráð fyrir á þessum árstíma.

annska@bb.is

Botnfiskaflinn 80% minni

Треска á rússnesku

Heildarafli botnfisks og flatfisks dróst saman um 80% frá 1. janúar til 8. febrúar miðað við sama tíma í fyrra en verkfall sjómanna hefur staðið allt tímabilið og gott betur. Aflinn á þessu tímabili var 48.000 tonn í fyrra en er 9.300 tonn í ár, samkvæmt bráðabirgðatölum um landaðan afla á vef Fiskistofu og greint er frá í Fiskifréttum. Samdrátturinn milli ára nemur 38.700 tonnum.  Þótt smábátar hafi verið iðnir við kolann í verkfallinu er afli þeirra næstum hinn sami og í fyrra eða um 7.800 tonn.

smari@bb.is

Verndunaráætlun fyrir Surtabrandsgil

12 milljón ára gamlir steingervingar finnast í Surtarbrandsgili

Búið er að vinna tillögu að stjórnunar- og verndunaráætlun fyrir náttúrvættið Surtabrandsgil á Barðaströnd. Tillagan er unnin af fulltrúum Vesturbyggðar, ábúenda á Brjánslæk  og Umhverfisstofnunar. Surtarbrandsgil var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975 og var markmiðið með friðlýsingunni að vernda surtarbrand og leirlög þar sem er að finna steingerðar leifar gróðurs tegundaríkustu skóga sem fundist hafa í jarðlögum hér á landi og klæddu landið fyrir um 12 milljónum ára. Undanfarin ár hefur ferðamannastraumur aukist á svæðinu og er svæðið nú á appelsínugulum lista Umhverfisstofnunar yfir svæði sem eiga á hættu að tapa verndargildi sínu. Helsta ógn Surtarbrandsgils er brottnám steingervinga úr gilinu.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Surtarbrandsgil er ætlað að vera stefnumótandi skjal og unnið í samvinnu við sveitarfélag og ábúendur á ríkisjörðinni Brjánslæk, er hún hugsuð sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun Surtarbrandsgils og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins þannig að sem mest sátt ríki um. Með áætluninni er stefnt að því að standa vörð um og efla jákvæða ímynd svæðisins. Í áætluninni er lögð fram stefnumótum til 10 ára, ásamt aðgerðaráætlun til 5 ára.

Frestur til að skila inn athugasemdum við tillöguna er til 23. mars 2017.

Hér má nálgast tillöguna

smari@bb.is

Eflum geðheilbrigðisþjónustu ungs fólks

Guðjón Brjánsson

Geðheilbrigðisþjónusta fyrir ungt fólk, einkum nemendur í framhaldsskólum hefur verið til umræðu að undanförnu og það er vel. Þetta er brýnt málefni sem varðar ungmenni á Vestfjörðum ekki síður en aðra landsmenn.

Framhaldsskólar hafa átt í fjárhagslegum þrengingum undanfarin ár og ekki haft bolmagn til að bæta hér úr með varanlegum og góðum hætti.  Þó hafa skólarnir eftir föngum, m.a. M.Í. leitast við að koma til móts við nemendur í vanda. Samstarf við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er til fyrirmyndar og regluleg viðvera hjúkrunarfræðings innan veggja skólans leysir hluta af aðkallandi erfiðleikum nemenda.

Stigin voru mikilvæg fyrstu skref í eflingu geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum með lítilsháttar fjárveitingu til ráðningar sálfræðinga á fjárlagaárinu 2016 sem þó dugar hvergi.

Samfylkingin lagði fram tillögu um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum á vorþingi í fyrra en þá var fyrsti flutningsmaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður. Þetta var síðan eitt þeirra forgangsmála sem þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram að nýju nú á haustþingi.

Brottfall framhaldsskólanema er alvarlegur vandi á Íslandi en aðeins 44% nemenda lýkur námi á tilsettum tíma. Ungt fólk hverfur frá námi og mun langtímaáhrifa þess gæta víða í samfélaginu og eru þau þegar farin að sjást. Þetta má að hluta rekja til slæmrar geðheilsu ungmenna hér á landi en sjálfsvíg eru til að mynda helsta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi. Þessum vanda þarf og er hægt að mæta, t.d. með auknu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

Vegna þessa hefur álag aukist mikið á kennara, skólahjúkrunarfræðinga og námsráðgjafa víða í skólakerfinu, sem hafa jafnan ekki sérmenntun né forsendur til þess að takast á við vandann. Einstaka skólar hafa í neyð sinni brugðist við og falið t.d. námsráðgjöfum aukin hlutverk á þessu sviði.  Það er hins vegar ófullnægjandi, bregðumst við kallinu og aukum gott aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu innan veggja skólanna.

Markmið tillögu okkar í Samfylkingunni er að í byrjun skólaárs 2017–2018 verði tryggt að í öllum fram­haldsskólum landsins hafi nemendur aðgang að sálfræðiþjónustu sér að kostnaðarlausu.

Við gerum ráð fyrir að ráðherra útfæri nánar með hvaða hætti þjónustan verði veitt og að miðað verði við að einn sálfræðingur í fullu starfi geti sinnt um 700 nemend­um. Ber að miða þjónustuþörf fámennari jafnt sem fjölmennari skóla við það hlutfall.

Það væri Alþingi og ráðherra til mikils sóma að ljúka þessu máli í góðri sátt.

Guðjón Brjánsson

Alþingismaður

Stór stund í vestfirskum körfubolta

Níundi flokkur drengja hjá Vestra tryggðu sér á dögunum leik um bikarmeistaratitil KKÍ með frækilegum sigri á Fjölni á útivelli. Á sunnudaginn kemur, þann 12. febrúar, rennur stóra stundin upp þegar liðið mætir Valsmönnum í úrslitaleiknum. Leikurinn hefst klukkan 9:45 og fer að sjálfsögðu fram í Laugardalshöllinni. Allir stuðningsmenn Vestra sem staddir eru á höfuðborgarsvæðinu eru hvattir til að mæta í Höllina og styðja strákana. Það þarf þó enginn að missa af leiknum því hann verður sýndur í beinni útsendingu á vef RÚV.

Níundi flokkur er yngsti aldursflokkurinn sem tekur þátt í bikarkeppni KKÍ. Leikurinn er því frumraun leikmanna beggja liða á stóra sviðinu og verður dýrmæt reynsla fyrir alla þátttakendur. Yngvi Páll Gunnlaugsson þjálfari piltanna er þó enginn nýgræðingur þegar kemur að bikarúrslitaleikjum. Hann hefur bæði stýrt meistaraflokki kvenna og yngri flokkum til sigurs í úrslitum, fyrir utan að eiga að baki fjölda Íslandsmeistaratitla með yngri flokkum og meistaraflokkum. Reynslubrunnur Yngva mun því án efa koma liðinu vel á sunnudag þegar á hólminn er komið.

Það er nokkuð síðan vestfirðingar áttu síðast fulltrúa í Höllinni á bikarhelgi KKÍ. Flestir körfuboltaáhugamenn muna þó eftir bikarævintýrinu árið 1998 þegar meistaraflokkur KFÍ lék gegn Grindavík.

smari@bb.is

Fokk ofbeldi-húfurnar aftur í sölu

Eva María og Unnsteinn með FO húfur, en þau eru verndarar UN Women á Íslandi

Í dag hóf UN Women á Íslandi sölu á nýrri húfu undir slagorðinu „Fokk ofbeldi.“ Húfunni er ætlað að vekja fólk til vitundar um það stöðuga ofbeldi sem konur og stelpur þurfa að þola á almenningssvæðum í borgum heimsins. Á síðasta ári var farið í samskonar herferð og létu viðbrögðin ekki á sér standa en húfurnar seldust þá upp á einungis fimm dögum.

Ofbeldi gegn konum, stúlkum og börnum í almenningsrýmum er vandamál um allan heim er segir í fréttatilkynningu frá UN Women á Íslandi. Þar segir jafnframt að konur sem búa á þéttbýlissvæðum séu tvöfalt líklegri til að verða fyrir ofbeldi, sérstaklega í fátækustu löndum heims samkvæmt rannsóknum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Meira að segja í öruggustu borgum heims eins og Reykjavík verða konur fyrir ofbeldi af ýmsu tagi fyrir það eitt að vera konur. Víða um heim er slíkt ofbeldi daglegt brauð sem hamlar konum að lifa eðlilegu lífi eins og að ferðast til og frá vinnu, ganga í skóla eða eiga sér félagslíf. Með verkefninu Öruggar borgir (Safe Cities Global Initiative) vinnur UN Women að því að gera borgir heimsins öruggari fyrir konur og stúlkur með sértækum lausnum út frá svæðisbundnum veruleika.

Með því að kaupa húfuna tekur fólk þátt í að auka öryggi kvenna og stúlkna í borgum um allan heim, er ágóðinn rennur til verkefnis UN Women Öruggar borgir og styrkti Vodafone framleiðsluna svo allur ágóðinn rennur til verkefnisins. UN Women segja Fokk ofbeldi húfuna ætlaða fullorðnum. Orðalagið er sagt vísvitandi ögrandi og ætlað að hreyfa við fólki og það hafi hugfast að ein af hverjum þremur konum verða fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Húfurnar, sem eru í takmörkuðu upplagi, fást í vefverslun UN Women á Íslandi sem og í verslun Vodafone í Kringlunni dagana frá og með deginum í dag og til 24. febrúar.

Eitt mikilvægasta verkefni UN Women á Íslandi er að styðja við verkefni UN Women um heim allan heim sem miða að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum, efla réttindi þeirra og þátttöku þeirra í stjórnmálum. UN Women vinnur einnig að efnahagslegslegri valdeflingu kvenna ásamt því að tryggja að þörfum kvenna og stúlkna í neyð sé mætt. Samtökin standa fyrir fjölda herferða og  hafa farið nýstárlegar leiðir við að vekja landsmenn til umhugsunar um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna um víða veröld. Í næstu viku standa þau til að mynda fyrir dansbyltingu gegn ofbeldi, Milljarður rís, sem meðal annars fer fram á Ísafirði í Edinborgarhúsinu í hádeginu föstudaginn 17.febrúar.

annska@bb.is

Taka þátt í 112 deginum

Lögreglan á Vestfjörðum, Slökkvilið Ísafjarðarbæjar og Björgunarfélag Ísafjarðar taka þátt í 112 deginum sem verður haldinn um allt land og verða til taks við Menntaskólann á Ísafirði milli kl 14 og 16 á morgun. Tæki þessara mikilvægu viðbragðsaðila verða til sýnis og hægt er að fræðast um starfsemina. „Það er hlutverk okkar að bregðast við beiðnum frá neyðarnúmerinu 112 og því langar okkur að kynna hvaða tækjakostur er hér á svæðinu og sérstaklega er unga kynslóðin boðin velkomin. Við hlökkum til að sjá ykkur,“ segir í tilkynningu.

smari@bb.is

Húfur gegn einelti í þriðja sinn

Nemendur í 1.bekk Grunnskóla Bolungarvíkur flottir með nýju húfurnar

Í Grunnskóla Bolungarvíkur hafa nemendur í 1. bekk undanfarin ár fengið afhentar húfur með áletruninni „gegn einelti“ og í gær var húfudagurinn svo haldinn hátíðlegur við skólann þar sem hápunkturinn var er hver og einn nemandi fékk afhenta sína eigin heimaprjónuðu húfu gegn einelti.  Verkefnið má rekja til Ragnheiðar Ragnarsdóttur sem fyrir þremur árum átti barn í fyrsta bekk og tók hún sig til og prjónaði húfur á alla nemendurna í bekknum, með það í huga að hefðu börnin áletrunina „gegn einelti“ stöðugt fyrir augunum myndi það vera góð áminning um málstaðinn að koma vel fram hvert við annað.

Á síðasta ári og í vetur hafa svo íbúar í Bolungarvík tekið við keflinu og prjónað húfurnar og er það vilji skólayfirvalda að halda þessu góða verkefni áfram. Í vetur hafa nemendur í 1. bekk G.B. unnið fjölbreytt verkefni tengd vináttu, virðingu, hrósi og umburðarlyndi.

annska@bb.is

Rangfærslur um stóru málin í samfélaginu

Gísli Halldór Halldórsson.

Jóhann Bæring Pálmason óskaði eftir því við mig á Facebook að ég útlistaði þær rangfærslur sem ég hafði fullyrt að stútfullt væri af í grein hans í BB um stóru málin í samfélaginu. Ég geri ráð fyrir að Jóhann Bæring hafi meint vel með sinni grein og jafnvel skrifað eftir bestu vitund, en hann hlýtur þá að hafa fengið afskaplega villandi upplýsingar. Það er því sjálfsagt mál að verða við ósk hans um að koma því sem rétt er á framfæri. Leiðréttingarnar fara hér á eftir.

Norðurtanginn

Fyrsta villan í grein Jóhanns Bærings er að telja að Ísafjarðarbær greiði fyrir ónotað húsnæði í Norðurtanganum. Það er rangt að Ísafjarðarbær greiði leigu fyrir tómt húsnæðið. Það er þó rétt, því miður, að húsnæðið í Norðurtanganum hefur enn ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru við undirritun leigusamnings. Vegna ástands húsnæðisins getur Ísafjarðarbær enn ekki litið svo á að húsnæðið hafi verið afhent og mun að sjálfsögðu ekki greiða leigu fyrr en verki húseigandans er lokið samkvæmt skilalýsingu sem fylgdi leigusamningi. Í skilalýsingu er tekið á fjölmörgum málum og meðal annars brunavörnun.

Það kann að vera að hægt sé að halda kostnaði svo lágum sem Jóhann Bæring nefnir með því að reisa skemmu undir safnageymslurnar. En er það einhver framtíðarsýn fyrir Ísafjarðarbæ að reisa skemmur í hvert skipti sem við þurfum húsnæði? Fylla bæinn af skemmum? Nei, framtíðarsýn er að endurnýta húsnæðið í Norðurtanganum til 10 ára og ráðast svo í nýbyggingu, t.d. í tengslum við Gamla sjúkrahúsið þar sem gera mætti námsfólki og notendum safnsins hátt undir höfði.

Reiðskemman

Það er rangfærsla að bærinn ætli að greiða 49% af rekstrarkostnaði við reiðskemmuna sem Jóhann Bæring kallar höll. Bærinn mun leggja hlutafé til sem 49% eignarhlut í reiðskemmunni, í því felst hluti framlagsins til hestamanna, eftir það mun bærinn ekki bera ábyrgð á rekstrinum. Eins og flestir vita þá borgar Ísafjarðarbær venjulega 100% af rekstri íþróttamannvirkja, þarna er því um sérstaklega góð kjör að ræða fyrir bæinn. Vafalaust munu hestamenn standa undir þeirri ábyrgð að reka reiðskemmuna með sóma og byggja upp hestaíþróttir í Ísafjarðarbæ.

Greinarhöfundur telur að HSV hafi ekki haft getu til að segja sitt um drögin að samkomulagi við Hestamannafélagið Hendingu. Hið rétt er að HSV getur sagt allt um samninginn við hestamenn sem HSV telur rétt að segja, einmitt þess vegna fékk HSV samninginn til umsagnar. HSV, eins og margir fleiri, fagnar því að þetta mál skuli loks til lykta leitt eftir að hafa þvælst fyrir bæjaryfirvöldum í nærri áratug.

Ísafjarðarbær mun hér eftir sem hingað til hafa samráð við HSV um íþróttamál.

Ein rangfærslan í viðbót er að 20 manns muni nota reiðskemmuna. Ástæða þess hve fækkað hefur í hópi hestafólks er aðstöðuleysi. Hestaíþróttir eru þriðja vinsælasta íþrótt landsmanna hvað þátttakendafjölda snertir og engin ástæða til að ætla annað en að aðstaða á nútímavísu, sambærileg og annarsstaðar á landinu, muni draga að sér fleiri en 20 notendur.

Á síðasta ári var unnið í því hjá Eignasjóði Ísafjarðarbæjar að kanna bestu leiðir til endurnýjunar eða uppfærslu á gólfinu í íþróttahúsinu. Verið er að kanna hvort hefja megi framkvæmdir á þessu ári.

Sundhöll Ísafjarðar

Ég get ekki rengt tölur Jóhanns Bærings um Sundhöll Ísafjarðar, þær kunna jafnvel að fara nærri lagi. Þetta verður kannað betur á árinu, skoðað hvernig heildarútfærsla breytinga og viðhalds þarf að líta út til að nýtast samfélaginu sem best. Í því verða allar kostnaðartölur skoðaðar, innanhúss og utan. Það er þó rétt að benda á að mikið af þeim kostnaði má í raun kalla sokkinn kostnað, það er að segja engin leið er að koma í veg fyrir stóran hluta kostnaðarins. Þetta er vegna þess að ef ekki á að rífa sundhöllina þá mun þurfa að grípa til kostnaðarsamra aðgerða, hvernig sem við hyggjumst nýta bygginguna. Viðhald og breytingar í því skyni munu alltaf kosta hundruð milljóna.

Ég minni einnig á að sundlaugin í Sundhöllinni er mikið nýtt fyrir skólasund og þyrfti að leysa þau mál með ærnum kostnaði og fyrirhöfn ef ekki á að hafa sundlaugin áfram.

Jóhann Bæring má auðvitað draga upp þá mynd að hægt sé að byggja enn eina ódýru skemmuna yfir 25 metra sundlaug. Kostnaður sá er byggingarfulltrúi gaf upp á íbúafundi í Vestrahúsinu er 750 milljónir króna fyrir umbúnað laugarinnar, sundlaugarhús fyrir 25 x 12,5 metra sundlaug (skv. S002), 1.500m2 á um 500.000 kr./m2.

Krafturinn í bæjarapparatinu

Ekki er hægt að átta sig á því hvaðan Jóhann Bæring hefur þær sögur að jafn mörg mál hafi ekki áður komi jafn seint á borð æðstu stofnana bæjarins, það er jafnvel erfitt að átta sig á hvað hann meinar með þessari setningu – kannski á hann við samkomulagið við Hendingu, sem hefði átt að koma til afgreiðslu fyrir mörgum árum síðan. Samningar við Hestamannafélagið Hendingu hafa reyndar komið á dagskrá áður og hafa nú verið til umfjöllunar af og til í eitt og hálft ár.

Það er rétt að mörg stór og merkileg mál koma nú inn á borð æðstu stofnana bæjarins, það er kraftur í bæjarapparatinu þessa dagana. Það sem er þó einna helst einkennandi er að Í-listinn fer ekkert í felur með þessi mál, vekur athygli á erfiðum málum og leyfir umræðunni að eiga sér stað. Oft er sú umræða hatrömm, a.m.k. er hún lífleg og er það vel. Enn stendur til dæmis yfir umræðan um samninginn við Hendingu, hefur tekið tæpa tvo mánuði og ákvörðun bæjarstjórnar er enn ekki lokið.

Það er rétt að meirihlutinn talar um að bæjarsjóður hafi aldrei staðið jafn vel fjárhagslega. Það er líka einmitt þannig sem það er. Þrátt fyrir að núverandi bæjarstjórn hafi fengið slæma sendingu með hjúkrunarheimilinu, sem byggðist á illa unninni og óuppfærðri kostnaðaráætlun, þá hefur náðst að lækka skuldaviðmið Ísafjarðarbæjar þannig að það hefur aldrei verið lægra og lítur út fyrir að vera um 120% í lok árs 2016, en það mun skýrast betur þegar ársreikningur liggur fyrir á næstunni.

Skólamál

Lagt hefur verið allt kapp á að uppfylla þá skólastefnu Ísafjarðarbæjar að geta vistað börn 18 mánaða og eldri á leikskólum bæjarins, bæði á yfirstandandi kjörtímabili og því síðasta. Þessi árangur hefur nánast alltaf náðst frá því stefnan var sett og stöndum við mörgum sveitarfélögum framar, þar á meðal Reykjavíkurborg. Miklu fé hefur nú verið varið til að bjóða upp á úrvals aðstöðu á jarðhæð Tónlistarskólans og er sómi að. Einnig hefur verið sett til hliðar fé á fjárhagsáætlun 2018 til að stækka leikskólann Eyrarskjól.

Vissulega væri gaman að geta boðið leikskólavist yngri börnum en 18 mánaða og er mikill vilji til þess hjá meirihluta Í-listans, en til þess að færa aldurinn niður í 12 mánuði þarf mikið rekstrarfé, líklega 50 milljónir á ári. Kannski nálgumst við þann stað með áframhaldandi góðum rekstri bæjarins, eða þá með því að ríkið úthluti sveitarfélögum þá tekjustofna sem þarf til að takast við verkefnið og þá helst frá lokum fæðingarorlofs.

Bæði í grunnskólum og leikskólum hefur átakið Stillum saman strengi verið í gangi þar sem lögð er ofuráhersla á að búa börnum stuðning og aðbúnað til að ná sem bestum árangri í námi, lífi og leik og hefur verkefnið tekist frábærlega.

Það er grátlegt að lesa þá fullyrðingu í grein Jóhanns Bærings að málum sem snúa að yngstu borgurunum sé sífellt frestað og reynt að þagga niður í fólki með plástrum. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Allt kapp hefur verið lagt á að leysa þessi mikilvægu verkefni í samráði við foreldra. Samráðið getur stundum verið snúið þar sem skoðanir foreldra eru oft ólíkar. Alltaf hefur þó tekist að finna farsælar lausnir.

Gott samfélag

Það er reyndar skynsamlegt mat hjá Jóhanni Bæring, það sem hann nefnir sem lykilatriði í góðu samfélagi, góða leik- og grunnskóla, góðar aðstæður í atvinnumálum, góð heilbrigðisþjónusta og gott mannlíf. Það sem ég tel hinsvegar rangsnúið hjá honum er þegar hann virðist ekki telja tómstundaiðkun til mannlífs. Íþróttir og tómstundir, heitir pottar og samræðuvettvangur eru einmitt dæmi um undirstöðurnar í góðu mannlífi. Allt hitt sem Jóhann Bæring taldi upp sem lykilatriði í góðu samfélagi er sennilega býsna lítils virði ef ekki næst að skapa gott mannlíf.

Þegar lausna hefur verið leitað á brýnum verkefnum á þessu kjörtímabili þá hefur verið lögð mikil áhersla á að koma sem flestu á koppinn, enda eru áríðandi og mikilvæg verkefni gríðarlega mörg eftir langvarandi ládeyðu í sveitarfélaginu. Í því skyni hefur oft þurft að leita lausna sem eru fljótlegar og kalla á minni fjárútlát. Fjárfestingin á jarðhæð Tónlistarskólans mun nýtast okkur vel, hvaða starf sem verður rekið þar í framtíðinni.

Leikskólamál og önnur skólamál eru þau mál sem Í-listinn telur mikilvægust. Í-listinn mun áfram leggja áherslu á að í skólamálum verði Ísafjarðarbær í fremstu röð. Gott starf hefur verið unnið í þeim málum og verður áfram gert – á meðan Í-listinn ræður einhverju.

Sundlaugin fyrir skólastarfið er til staðar í Sundhöllinni og þarfnast lagfæringa. Gólfið í íþróttahúsinu hefur þarfnast lagfæringa árum saman og er nú efst á lista, vonandi verður hægt að takast á við það verkefni í sumar.

Samhliða áríðandi og mikilvægum verkefnum í skólamálum og innviðum þarf að gæta vel að því að láta ekki sálartetrið drabbast niður og því verður áfram lögð áhersla á gott mannlíf, íþróttir og tómstundir.

Gísli Halldór Halldórsson

Bæjarstjóri

 

Nýjustu fréttir