Síða 2340

Drengjaliðið sigraði riðilinn

10. flokkur Vestra með þjálfurum.

Um síðustu helgi gerðu ungir körfuboltamenn í í Vestra góða ferð í Þorlákshöfn þar sem keppt var í 10. flokki drengja. Skörð voru höggvin í lið Vestra vegna veikinda og því aðeins 6 leikmenn í liðinu. Auk Vestra tóku lið Snæfells, Tindastóls og Þórs úr Þorlákshöfn þátt í mótinu. Vestramenn sýndu styrk sinn og unnu riðilinn og eru þar með komnir upp í B-riðil.

Lið Vestra skipuðu: Daníel Wale Adeleye, Þorleifur Ingólfsson, Stefán Ragnarsson, Blessed Parilla og Hilmir og Hugi Hallgrímssynir. Þjálfari er Yngvi Páll Gunnlaugsson en honum til aðstoðar voru Magnús Breki Þórðarson og Adam Smári Ólafsson.

smari@bb.is

Launagreiðendum fjölgar

Á síðasta ári var að jafnaði 16.721 launa­greiðandi á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 705 eða 4,4% milli ára. Á síðasta ári greiddu launa­greiðend­ur að meðaltali um 180.100 ein­stak­ling­um laun sem er aukn­ing um 8.400 eða 4,9% sam­an­borið við árið á und­an. Þetta kem­ur fram á vef Hag­stofu Íslands.

Skipt eft­ir at­vinnu­grein­um hef­ur launþegum fjölgað mikið á milli ára hjá launa­greiðend­um í ferðaþjón­ustu og bygg­ing­ariðnaði. Launþegum hef­ur hins veg­ar fækkað í sjáv­ar­út­vegi.

Á ár­inu 2016 voru að meðaltali 1.577 launa­greiðend­ur og um 24.200 launþegar í ein­kenn­andi grein­um ferðaþjón­ustu og hafði launþegum fjölgað um 3.800 eða um 18,7% frá ár­inu á und­an.

Sömu­leiðis voru að meðaltali 2.404 launa­greiðend­ur og um 10.400 launþegar í bygg­inga­starf­semi og mann­virkja­gerð og hafði launþegum fjölgað um 1.400 eða um 15,6% á einu ári.

„Hafa verður í huga að í þess­um töl­um eru ekki upp­lýs­ing­ar um ein­yrkja sem eru með rekst­ur á eig­in kenni­tölu og greiða sjálf­um sér laun, en slíkt rekstr­ar­form er al­gengt í bygg­ing­ariðnaði, land­búnaði, hug­verkaiðnaði og skap­andi grein­um svo dæmi séu tek­in,“ seg­ir á vef Hag­stof­unn­ar.

smari@bb.is

Útilokar ekki að rifta samningi

Norðurtangahúsin

Ísafjarðarbær hefur ekki greitt leigu til Norðurtangans ehf. fyrir geymslupláss fyrir söfnin á Ísafirði. Í ágúst 2015 var undirritaður 10 ára leigusamningur milli Ísafjarðarbæjar og Norðurtangans ehf. um leigu á 408 fermetrum í Norðurtangahúsinu. Samkvæmt ákvæðum samningsins átti bærinn að fá húsnæðið afhent 1. janúar 2016, eða fyrir rúmu ári. „Við féllumst á að fresta því til júní 2016 en það hefur því miður ekki staðist,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Hann segir að bærinn hafi sýnt leigusala skilning á því að ýmislegt óvænt hafi komið upp við framkvæmdir í húsinu en þær eru umtalsverðar svo það verði hæft til að hýsa viðkvæma muni safnanna.

Hann fundaði í gær með forsvarsmanni Norðurtangans ehf. „Það stendur upp á Norðurtangann að gefa okkur dagsetningu sem fyrst og ég vonast til að við getum fengið húsið afhent fljótlega. En það er alveg ljóst að við bíðum ekki út í hið óendanlega,“ segir Gísli Halldór sem útilokar ekki að bærinn rifti samningnum en vonar að til þess komi ekki.

Forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða lýsti því í samtali við BB í síðustu viku að húsið fullnægi ekki kröfum og safnið ætli að rifta leigusamningi við Ísafjarðarbæ. Gísli Halldór segir að Ísafjarðarbær hafi ekki samþykkt að Byggðasafnið dragi sig út úr samningnum. „Okkur hefur ekki borist ákvörðun stjórnar safnsins um þetta þannig að við vinnum málið ennþá þannig að Byggðasafnið taki þátt.“

Samkvæmt samningi er fermetraverð leigunnar 1.500 kr. eða 612 þúsund kr. á mánuði. Eins og áður segir hefur bærinn ekki greitt leigu til Norðurtangans ehf. með einni undantekningu þó. „Vegna þess að forstöðumaður Byggðasafnsins ákvað að flytja hluta af safnmunum inn í húsið þurftum við að greiða leigu í skamma stund. En þar sem húsið er ekki tilbúið er leigan eignfærð hjá Ísafjarðarbæ og er eins og fyrirframgreidd leiga,“ segir Gísli Halldór.

smari@bb.is

Hvernig bera skal sig að ef slys eða veikindi ber að höndum utan dagvinnutíma

Í aðsendri grein sem nú má lesa á vef Bæjarins besta fjallar Hörður Högnason framkvæmdastjóri hjúkrunar við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða ítarlega um fyrirkomulag sem einstaklingum ber að nýta þurfi þeir að nýta þjónustu stofnunarinnar utan dagvinnutíma. Vísar hann í greininni til tveggja frétta sem birst hafa á BB um sjúklinga sem gert var að hringja í 1700 er þeir komu á staðinn til að leita læknishjálpar utan þess tíma. Viðbrögð við fréttunum sýndu að íbúum á svæðinu var almennt brugðið við þá breytingu sem orðið hefur á þjónustu stofnunarinnar og nokkuð ljóst er að flækst hefur fyrir fólki hvernig bera skal sig að eftir að hið nýja kerfi, það er að þurfa að hringja í vaktnúmerið 1700 eða í 112 áður en það getur fengið þjónustu á staðnum. Þá segir Hörður að ekki hafi verið leitað til HVEST eftir skýringum í þeim tilfellum sem sjúklingum var bent á vaktsímann, en í báðum tilfellum ræddi blaðamaður við framkvæmdastjóra lækninga við stofnunina.

Hörður bendir á í greininni að starfsmenn stofnunarinnar sem sinna sjúklingum þar utan almenns opnunartíma eigi ekki hægt um vik með að bregðast við ef sjúklingar koma beint á staðinn án þess að hafa gert boð á undan sér: Á kvöldvöktum á legudeildinni eru 3 starfsmenn, stundum 2 og af þeim ansi oft aðeins 1 hjúkrunarfræðingur. Á næturvöktum eru tveir starfsmenn, hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði. Mönnunin miðast við meðalálag við umönnun sjúklinga á 15 rúma deild. Ef fleiri eru inniliggjandi, eða ef erfið veikindi hrjá sjúklingana, er álagið meira og erfiðara að fara af deildinni, eða annast símsvörun.

Og á öðrum stað segir hann: Ef viðkomandi sneiðir framhjá 1700 og 112 og mætir beint að dyrasímanum á HVEST, þá bendir hjúkrunarfræðingurinn á legudeildinni honum á 1700, ef hann metur erindið þannig, en hringir strax á vaktlækninn, ef um bráðatilvik er að ræða. Í báðum tilfellum á hann að opna fyrir viðkomandi og vísa á sæti við afgreiðsluna, eða á biðstofu slysadeildar.

Komist hjúkrunarfræðingurinn frá deildinni, gætir hann að viðkomandi sjálfur, ef þess er þörf. Ef um alvarlegt bráðatilfelli er að ræða fer hann undantekningarlaust strax til viðkomandi, fer með hann á slysastofu, gerir viðeigandi ráðstafanir og bíður komu vaktlæknisins, eða kallar út hjúkrunarfræðing á bakvakt skurð- og slysadeildar til að leysa sig af.

1700 eða 112

Í greininni segir Hörður að þurfi fólk að ná sambandi við HVEST vegna veikinda og slysa utan dagvinnu, þurfi fyrst að tala við 1700, eða 112 og gefur hann lýsingar á því hvernig meta skuli hvert á að hringja:

Einstaklingar utan úr bæ hringja í 1700, ef um er að ræða tilfallandi veikindi og slys sem þarfnast ekki sjúkrabíls (t.d. flensa, hausverkur síðan í gær, kviðverkir, tognaður ökkli, spurning um handleggsbrot, eða skurður á fingri). Hjúkrunarfræðingur svarar og metur þörfina fyrir aðstoð. Ef hjálpin getur ekki beðið dagvinnutíma, er viðkomandi gefið beint samband við síma læknisins. Læknirinn og sjúklingurinn mæla sér svo mót á slysastofu, heilsugæslustöð, eða leysa málið á annan hátt.

Ef um er að ræða alvarlegri slys og veikindi með áverkum og einkennum sem gætu þarfnast bráðahjálpar og sjúkrabíls (t.d. meðvitundarminnkun, öndunarerfiðleikar, krampar, slæmur brjóstverkur, hjartastopp, fótbrot, liðhlaup o.s.frv.) er hringt í 112. Þeir leiðbeina, kalla á sjúkrabílinn, ef með þarf og senda vaktlækninum og legudeildinni SMS um málið. Læknirinn ákveður strax, hvort hann mætir beint á staðinn, eða tekur á móti viðkomandi á spítalanum. Hjúkrunarfræðingurinn gerir þær ráðstafanir sem þarf, eftir alvarleika málsins.

Ef einhver bið er eftir sambandi við 1700 á mesta álagstíma og viðkomandi telur sig ekki geta beðið, þá er líklega um neyð að ræða og rétt að hringja í 112. Ef óvissa er um, hvort hringja skuli í 1700 eða 112, þá er betra að hringja í 112 fyrst. Þeir meta stöðuna og beina manni á 1700, ef svo ber undir.

annska@bb.is

Bæjarins besta 6. tbl. 34. árgangur 2017

Margir vilja flytja aftur heim

Jónína Hrönn Símonardóttir.

Í Vísindaporti vikunnar flytur Jónína Hrönn Símonardóttir, kennari og náms- og starfsráðgjafi, erindi sem byggir á meistararitgerð hennar um náms- og starfsferil fólks sem útskrifast hefur úr fámennum skóla á landsbyggðinni. Ritgerðin var unnin upp úr megindlegri rannsókn sem fram fór veturinn 2015.

Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna náms- og starfsferil einstaklinga sem allir eiga það sameiginlegt að hafa útskrifast úr 10. bekk Grunnskólans á Þingeyri á árabilinu 1994-2012. Einnig var viðhorf þeirra til heimabyggðarinnar kannað og ástæður núverandi búsetu.

Niðurstöður sýndu að mikill meirihluti þátttakenda fór í framhaldsskóla að loknum grunnskóla og fóru flestir í skóla í heimabyggð. Flestir sem voru í eða höfðu lokið framhaldsskóla völdu námsbrautir til stúdentsprófs, þrátt fyrir að margir hefðu meiri áhuga á verklegum greinum í grunnskóla. Flestir eru stoltir af því að kallast Dýrfirðingar og finnst þeir fara „heim“ þegar þeir fara þangað. Margir myndu flytja aftur á heimaslóðir ef atvinnutækifæri væru til staðar fyrir þá og maka þeirra.

Jónína Hrönn er Skagfirðingur að uppruna og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra árið 1989. Hún lauk B. Ed. gráðu í fjarnámi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1996 og var í hópi þeirra fyrstu sem það gerðu á Vestfjörðum. Hún lauk Dipl.Ed. í sérkennslu frá KHÍ árið 2008 ásamt því að ljúka viðbótarnámi í íslensku árið 2010. Hún útskrifaðist með M.A. í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands haustið 2016. Jónína flutti frá heimahögunum í Skagafirði til Þingeyrar fyrir aldarfjórðungi og hefur starfað sem kennari á öllum skólastigum við Grunnskólann á Þingeyri um langt árabil auk þess að stunda sérkennslu. Hún starfar einnig sem náms- og starfsráðgjafi í grunnskólunum á Þingeyri, Suðureyri og í Önundarfirði.

Vísindaportið stendur að vanda frá 12.10-13.00 og er öllum opið. Erindi þessarar viku fer fram á íslensku.

smari@bb.is

Umhverfisnefnd GÍ tekur matarsóun fyrir

Nemendur í umhverfisnefnd með niðurstöður matarsóunarkannananna. Mynd af heimasíðu Grunnskólans á Ísafirði.

Í Grunnskólanum á Ísafirði er starfandi umhverfisnefnd sem sex nemendur á unglingastigi ásamt sex kennurum skipa. Fyrr í vetur stóð umhverfisteymið fyrir fræðsluverkefni um matarsóun. Verkefnið hófst með því að kennarar í umhverfisteyminu gerðu leynilega könnun í mötuneyti skólans þar sem fylgst var með því hversu miklum mat nemendur í fjórum yngstu bekkjunum hentu í lok máltíðar. Mælingarnar stóðu yfir í eina viku og voru allar niðurstöður skráðar. Að því loknu tóku unglingarnir í umhverfisnefndinni til starfa. Þau settu saman fræðsluefni og fóru skipulega í alla bekki á yngsta stigi. Fræðslan miðaði að því að útskýra fyrir yngri börnunum hvernig hægt væri að minnka eða jafnvel koma alveg í veg fyrir matarsóun. Einnig komu unglingarnir aðeins inn á skynsamlega notkun á pappír og sápu.

Eftir fræðslu unglinganna var gert samkomulag við starfsfólk mötuneytisins og var þá nákvæmlega sami matseðill hafður í eina viku og hafði verið er könnunin var gerð. Aftur voru allar matarleifar mældar og nú með vitneskju nemenda. Fræðsla unglinganna virðist hafa skilað sér vel því mikill munur var á niðurstöðum milli mælinganna í öllum árgöngum. Í gær kynntu svo unglingarnir niðurstöðurnar fyrir yngri börnunum og hengdu þær upp fyrir framan stofur barnanna. Í dag er foreldradagur í skólanum og fá börnin þá tækifæri til að sýna foreldrum sínum árangurinn. Frá þessu var greint á heimasíðu Grunnskólans á Ísafirði.

Þessir strákar voru duglegir að klára af diskunum sínum. Mynd af heimasíðu Grunnskólans á Ísafirði.

annska@bb.is

Deilt um þjóðerni eldislaxins

Það er ótækt að laxeldisfyrirtæki markaðsetji afurðir sínar sem íslenskar þar sem eldislaxinn sé ekki af íslenskum uppruna heldur norskum. Þetta segir Haraldur Eiríksson, markaðsstjóri Hreggnasa Angling Club og einn ódeigasti baráttumaður gegn sjókvíaeldi á Íslandi. „Hingað er komið norskt sjókvíaeldisfyrirtæki, elur upp norskan lax í sjókvíum og selur hann og markaðssetur sem íslenskan. Meira að segja er íslenskur fáni settur á vöruna í Asíu og á Indlandi,“ segir Haraldur í Fréttblaðinu í dag og bendir á að íslenskur lax hafi í áratugi verið markaðssettur erlendis með þeirri ímynd að þar fari hreina afurð úr villtri íslenskri náttúru.

Kristian B. Matthíasson, forstjóri Arnarlax, er Haraldi ósammála. „Þetta er í grunninn lax sem var fluttur til Íslands fyrir tveimur áratugum. Við kaupum hann frá innlendu fyrirtæki og köllum hann íslenskan lax. Þeir sem eru síðan á móti laxeldinu segja að hann sé norskur lax,“ segir Kristian.

smari@bb.is

Nóróveira í frosnum jarðarberjum

Matvælastofnun hefur borist tilkynning frá hraðviðvörunarkerfi Evrópu um matvæli og fóður (RASFF) um nóróveirumengun í frosnum jarðarberjum frá COOP. Innflytjandi jarðarberjanna, Samkaup hf, hefur í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja innkallað jarðarberin af markaði, þau koma í 400gr pokum og eru með best fyrir merkinguna: 06/04/2018, strikamerki: 7340011459514.

Matvælastofnun varar við neyslu vörunnar og ráðleggur neytendum að farga vörunni eða skila henni til þeirrar verslunar sem hún var keypt í. Viðvörunin varðar eingöngu ofangreinda vöru. Nóróveirur valda sýkingu í smágirni. Sýkingin leiðir til kviðverkja, ógleði, uppkasta og niðurgangs og eru veirurnar í miklu magni, bæði í niðurgangi og uppköstum. Veirurnar eru mjög smitandi því að örfáar veirur geta valdið sýkingu.

Nánari upplýsingar um vöruna veitir Björn Björnsson, innkaupastjóri hjá Samkaupum.

annska@bb.is

100 skemmtiferðaskip í sumar

Skemmtiferðaskip á legunni í Skutulsfirði.

Hvorki meira né minna en eitt hundrað skemmtiferðaskip hafa staðfest komu sína til Ísafjarðar og nágrannahafna í Ísafjarðarbæ næsta sumar. „Hundraðasta skipið bókaði sig í gær en það var Sea Spirit sem kemur í september,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar. Fjölgun skemmtiferðaskipa hefur verið ævintýraleg á síðustu árum. Fyrir áratug komu 24 skip til hafna Ísafjarðarbæjar og þeim hefur fjölgað ár frá ári síðan. Í fyrrasumar voru skipakomurnar 82 og er þeim því að fjölga um 22% milli ára.

Guðmundur segir ekki miklar líkur á skipakomum í ár fjölgi frekar. „Venjulega eru ekki breytingar á listanum þegar komið er fram á þennan tíma.“

Hann segir komur skemmtiferðaskipa kærkomnar fyrir hafnarsjóð. „Sérstaklega í tekjuleysinu núna. Það hefur ekki komið mikið í kassann síðan sjómannaverkfallið hófst,“ segir Guðmundur.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir