Síða 2339

Saga frá Vínarborg

Jóna Benediktsdóttir

Ég var svo heppin að fá tækifæri til að heimsækja nokkra skóla í Vínarborg í janúar og spyrja skólafólk spjörunum úr um skólakerfið.  Við getum margt lært af þeim og þeir gætu auðvitað lært ýmislegt af okkur.  Sérstaka athygli vakti það sem er frábrugðið því sem algengast er á Íslandi og langar mig að deila með ykkur nokkrum atriðum.  Skólakerfið í Austurríki er talsvert frábrugðið okkar.  Þeir skólar sem ég skoðaði og aflaði upplýsinga um eru allir í Vín, kerfið þar er að miklu leyti samræmt en mér láðist að spyrja hvort þetta væri eins um allt landið.  Í Vín búa um 1,8 milljón manna þannig að þrátt fyrir að ekki séu mörg börn í hverri fjölskyldu eru þar margir skólar.  Þar er skólaskylda og foreldrar eru ábyrgir fyrir því að öll börn stundi skóla rétt eins og hér.  Börn byrja í skóla á því ári sem þau eru sex ára 1.ágúst.  Þá fara þau í primary school sem tekur fjögur ár ef framvinda er ,,eðlileg”.  Svo tekur við secondary school sem einnig tekur fjögur ár hjá flestum nemendum og að því loknu er skyldunámi lokið.  Eftir skyldunám er hægt að velja um bóknám eða verk – og listnám.

Primary school

Skólar sem tilheyra þessu skólastigi eru yfirleitt fremur litlir eða með um 150-300 nemendur.  Nemendur fara ekki í neinn sérstakan skóla eftir búsetu heldur geta foreldrar sótt um þá skóla sem þeir kjósa helst, skólastjórar geta hafnað börnum með ýmsum rökum.  Ekki er heimilt að vera með fleiri en 20 börn í bekk og af þeim mega aðeins fjögur vera með einhvers konar sérþarfir.  Foreldrum barna með sérþarfir er því sá vandi á höndum að ef þeir vilja að barnið sé í almennum skóla þurfa þeir að finna bekk þar sem þetta skilyrði er uppfyllt.  Margir sérskólar eru í borginni sem taka við nemendum með alvarlegri frávik.  Á þessu skólastigi er góður stuðningur við nemendur.  Alltaf eru tveir umsjónarkennarar í hverjum bekk sem deila með sér ábyrgð og kenna nánast allar greinar.  Kennararnir skipta yfirleitt sjálfir með sér verkum og algengt er að annar kennarinn sjái um innlögn á námsefni en hinn um að kenna nemendum að haga sér í skólanum.  Mikil áhersla er á að sýna nemendum umhyggju og kenna þeim tillitssemi við aðra nemendur.  Ef nemendur með sérþarfir eru í bekkjunum kemur til auka stuðningur vegna þeirra.  Margir þroskaþjálfar og sérkennarar starfa á þessu skólastigi.  Ef námið gengur ekki sem skyldi er hægt að fá aðstoð sérfræðinga sem meta vanda barnsins og leggja til leiðir.  Skóladagurinn er yfirleitt frá 8:00- 13/14:00 og að honum loknum er boðið upp á gæslu.  Í gæslunni er einnig hægt að fá aðstoð við heimanám.  Hægt er að velja skóla með margskonar ólíkar áherslur, Waldorfskóla, Montessoriskóla, fjölmenningarskóla og fleira.

Eftir að primary school lýkur tekur við secondary school, þar er almennt gert ráð fyrir að börn ljúki námi á fjórum árum.  Andi og skólabragur eru mjög ólík á þessum tveimur stigum.

Secondary school

Þegar barn kemur í secondary school er gert ráð fyrir að það hafi tileinkað sér hegðun, viðhorf og vinnubrögð sem eru líkleg til að vera hjálpleg við að ná árangri í námi.  Fjöldi í bekk má ekki fara yfir 25 nemendur.  Foreldrar þurfa að sækja um skólavist fyrir börn sín og mæta í viðtal til skólastjóra þar sem metið er hvort barnið sé líklegt til að geta staðið undir þeim kröfum um nám og hegðun sem gerðar eru í viðkomandi skóla.  Ef það er ekki talið líklegt verður foreldrið að sækja um annarsstaðar.  Gert er ráð fyrir því að greiningar á námsvanda hafi farið fram á yngra stigi, ef upp kemur grunur um námsvanda geta skólarnir ekki sótt um stuðning í kerfinu til að skoða það nánar eða bregðast við með einhverjum hætti, vísa þarf foreldrum á einkarekin úrræði til þess.  Austurríkismenn, eins og fleiri, hafa áhyggjur af lakri stöðu í PISA.  Til að bregðast við því var ákveðið að hafa tvo kennara inni í kennslustundum í þýsku, stærðfræði og ensku á þessu skólastigi.  Annar kennarinn sinnir þá nemendum sem þurfa meiri aðstoð en hinn bekknum.  Þetta fyrirkomulag hefur nú verið við lýði í tvö ár þar sem tekist hefur að manna þessar stöður, en skortur er á kennurum í Vín.  Á þessu skólastigi er mikil áhersla á bóklega kennslu og námskröfur eru skýrar.  Kennarar kenna yfirleitt aðeins sína sérgrein og list – og verkgreinar eins og við þekkjum þær eru ekki partur af daglegu námsumhverfi nemenda, þeir fara þó í mynd- og handmennt en verkefnin eru afmörkuð og geta varla talist fjölbreytt.  Elstu nemendurnir fá kennslu í heimilisfræði tvo tíma á viku.  Sundkennsla er ekki almenn og íþróttir eru með allt öðru sniði en við þekkjum.  Tölvunotkun er ekki almenn og spjaldtölvuvæðing rétt að fara af stað í nokkrum skólum.  Lögð er áhersla á að nemendur skili fallegum skriflegum verkefnum og geti svarað spurningum kennara greiðlega.  Hegðunarvandamál eru sjaldgæf, enda viðurlög ströng og inntökukröfur í skólana skýrar.  Sumir skólar eru eftirsóttir og þá eru gerðar meiri kröfur um hegðun og námsárangur hjá nemendum á yngsta stigi áður en þeir eru teknir inn í skólann.  Ef upp koma hegðunarvandamál sem ekki lagast með einföldum aðgerðum eins og samtali við skólastjóra og einum fundi með foreldrum er nemendum vísað úr skóla.  Fyrst í nokkra daga en ef nemandinn sér ekki að sér er honum vikið úr skólanum fyrir fullt og allt.  Það er þá á ábyrgð foreldra að finna skóla sem vill taka við barninu með þá ferliskrá að því hafi verið vísað úr skóla vegna hegðunarvanda.  Andmælaréttur foreldra er ekki þekktur.

Vínarborg býður öllum nemendum í secondary school upp á sérstaka aðstoð í þýsku, stærðfræði og ensku.  Aðstoðin fer fram eftir að skóla lýkur síðdegis á mánudögum og föstudögum klukkutíma í senn.  Foreldrar sækja um þessa aðstoð og skrá nemendur í samráði við skólastjóra viðkomandi skóla, þetta er þeim að kostnaðarlausu.

Námsviðmið og námsefni

Skilgreind hafa verið námsviðmið fyrir alla bekki.  Ef nemendur ná ekki þessum viðmiðum er haldinn fundur um málefni hvers og eins.  Boðið er upp á sumarskóla fyrir þá sem vantar lítið upp á og þeir geta svo þreytt próf aftur að hausti.  Ef það gengur ekki er aftur haldinn fundur og metið hvort rétt sé að hleypa nemanda í næsta bekk.  Það er ekki alltaf niðurstaðan og þá þurfa nemendur að endurtaka bekkinn.   Ef nemandi er einu sinni undir námsviðmiðum í tveimur greinum sem ekki teljast til kjarnagreina er haldinn fundur með öllum kennurum viðkomandi og foreldrum og gerð áætlun um hvernig má bæta árangur og stöðu nemandans.  Ef nemandinn er aftur undir viðmiðum í sömu greinum að ári loknu þarf hann að endurtaka bekkinn.  Ef nemandi er undir námsviðmiðum í tveimur kjarnagreinanna þarf hann undantekningarlaust að endurtaka bekk. Ekki eru takmörk á því hve oft nemandi má endurtaka bekk en yfirleitt gerist það ekki oftar en einu sinni en elsti nemandinn sem ég sá á þessu stigi var þó 20 ára.

Námsefni er foreldrum að kostnaðarlausu en þær reglur gilda í Vín að hver kennari má aðeins velja eina bók fyrir hvern bekk og allir nemendur í bekknum eru með þá bók.  Það er því ekki um að ræða mæta nemendum þar sem þeir eru staddir enda kerfið allt byggt upp miðað við að nemendur séu á svipuðum stað námslega.  Foreldrar sjá alfarið um að kaupa það sem við köllum stílabækur og önnur smáverkfæri sem nemendur þurfa að nota í skólanum.

Móttaka nemenda sem ekki tala þýsku

Skólar geta ráðið hvort þeir taka við nemendum sem ekki tala þýsku en flestir þeirra kjósa að gera það og þrýstingur er frá skólayfirvöldum um það.  Stuðningur við þýskunám er mjög öflugur.  Fyrsta árið fá nemendur allt að 11 stundum á viku í aukaþýsku með litlum hópi nemenda.  Þeir eru einnig undanþegnir námsviðmiðum fyrsta árið.  Á öðru ári er dregið úr stuðningi ef hægt er en allir þessir aukatímar eru þó enn í boði fyrir þá sem þurfa.  Ef nemandi hefur ekki náð þeim tökum á þýsku að hann sé talinn fær um að taka próf er hægt að sækja um undanþágu frá viðmiðum á öðru ári en ekki oftar.  Ef nemandi hefur ekki tileinkað sér þýsku með þessum stuðningi að því marki að hann geti tileinkað sér námsefni viðkomandi bekkjar að þremur árum liðnum þarf hann einfaldlega að endurtaka bekk eins og aðrir nemendur.

Eftir skyldunám

Flestir nemendur fara í bóknám eftir að skyldunámi lýkur.  Þá taka við menntaskólar með ólíkar áherslur og svo hefðbundið háskólanám eins og við þekkjum.  Einnig eru sérstakir menntaskólar sem leggja áherslu á listir og sköpun en útskrift úr þeim gefur ekki rétt til hefðbundins háskólanáms.  Verknám er hugsað með fjölbreyttari hætti en við þekkjum og ríkið er með sérstakt verkefni sem miðar að því að efla fjölbreytta verkþekkingu og vinna gegn atvinnuleysi ungs fólks.  Algengast er að nemendur stundi verknám eftir tveimur meginleiðum.  Sú vinsælli er að vera í starfsnámi í fyrirtæki fjóra daga í viku og einn dag í skóla í tvö til fjögur ár og taka svo próf að því loknu.  Ef nemandinn nær prófinu telst hann fullgildur fagmaður á sviðinu.  Lengd samningsins fer eftir um hverskonar starf er að ræða og hvernig nemandanum gengur að tileinka sér nauðsynlega færniþætti.  Verknám af þessu tagi er mun fjölbreyttara en við eigum að venjast, auk þess sem við þekkjum sem hefðbundið verknám er til dæmis er hægt að verða sérhæfður verslunarmaður, sporvagnastarfsmaður og fleira í þeim dúr.  Nemendur sem útskrifast af þessari námsleið eiga yfirleitt greiða leið í sérhæfð störf.  Einnig er hægt að fara í sérstaka verknámskóla og ljúka námi þar á þremur árum.  Þriðja leiðin er hugsuð fyrir nemendur sem ekki hafa fundið hvert þeir vilja stefna í lífi sínu, þetta er aðeins í boði fyrir um 100 nemendur í borginni á ári hverju.  Þá geta nemendur fengið samninga við þrjú til sex fyrirtæki, þeir eru þá á hverjum stað frá einum mánuði til þriggja, í eitt ár og vinna og kynnast starfseminni fjóra daga vikunnar, fimmta daginn eru þeir í skólanum.  Þessi leið er launuð af ríkinu, nemendur fá vasapeninga, 80 evrur á viku, en aðeins ef þeir mæta alla fimm dagana og engar afsakanir fyrir forföllum eru teknar gildar.  Ef sérstaklega vel gengur hjá þeim í einhverju fyrirtækjanna og báðir aðilar eru ánægðir er hægt að breyta yfir í formlegan námssamning eins og lýst var hér að ofan.

Skólinn og samfélagið

Ég horfði í kringum mig í skólunum sem ég heimsótti og spurði mig ,,hvar eru óþekktarangarnir”.  Nemendur voru yfirleitt mjög tillitssamir hver við annan og kurteisir við kennara og starfsfólk en merki um gleði eða sköpun voru ekki á hverju strái.  Ég spurði líka kennarana og fékk þau svör að nemendur sem ekki gætu lært að haga sér með stuðningnum sem veittur væri á yngsta stigi fengju ekki aðgang nema í örfáa almenna skóla þar sem eru stíf fjöldatakmörk, ef ekki væri pláss fyrir þá þar færu þeir í sérskóla.  Mér sýnist ljóst eftir þessa heimsókn að ýmislegt sem þeir gera þarna suður frá væri gott til eftirbreytni, til dæmis þessi mikli stuðningur við nemendur á yngsta stigi og þá sem ekki tala þýsku og nálgunin á verknáminu.   Fyrir krakka sem eru skapandi og vilja fara sínar eigin leiðir er þetta skólakerfi erfitt og þeir fá ekki að njóta hæfileika sinna nema að litlu leyti.  Þessi skýru og alvarlegu viðurlög við hegðunarvanda held ég að hafi margskonar áhrif í samfélaginu.  Foreldrar leggja mjög mikla áherslu á uppeldi, uppátæki eða ókurteisi lítilla barna er tekin alvarlega og hvorki hlegið upphátt né í laumi að slíku.  Hvort það er gott eða slæmt treysti ég mér ekki til að segja til um en millivegur milli okkar siða og þeirra væri sjálfsagt frábær.

Stærðfræðikennsla á yngsta stigi. Stóri strákurinn á myndinn er að líma heimanámið inn í bækur. Hann er í samfélagsþjónustu í skólanum en drengir á aldrinum 18-20 ára geta valið hvort þeir gegna herþjónustu eða sinna samfélagsþjónustu í skóla eða á sjúkrastofnun í eitt ár.
Dæmigerð kennslustofa á eldra stigi. Kennarinn spyr út úr heimanáminu og nokkrir vilja svara.

Jóna Benediktsdóttir

Eðlilegt að lögregla rannsaki slysasleppinguna

Regnbogasilungur.

Óheyrilega langur tími leið frá því regnbogasilungur fór að veiðast í ám þar til Arctic Sea Farms viðurkenndi að þannig fiskur hefði sloppið í miklum mæli út um gat á sjókví. Þetta segir formaður Landssambands veiðifélaga samtali við fréttastofu RÚV. Í gær var tilkynnt um umtalsverða slysalseppingu í Dýrafirði. Í fréttatilkynningu Arctic Sea Farm segir að gat á kví hafi komið í ljós í gær við slátrun upp úr kvínni og einnig að þarna kunni að vera fundin meginskýring á „mögulegri slysasleppingu regnbogasilungs sem fjallað var um sl. haust þegar engin skýring fannst á því hvaðan regnbogasilungur væri upprunninn sem veiddist í ám á Vestfjörðum,“ eins og það er orðað í fréttatilkynningunni.

„Það kom okkur ekki mikið á óvart að það hefði fundist gat á kví því við fengum fyrst upplýsingar um að það væri að veiðast regnbogasilungur 13. júní síðasta sumar. Það eru liðnir 8 mánuðir frá því fyrst fóru að sleppa fiskar þannig að þetta er óheyrilega langur tímur sem líður milli þess sem fiskar fara að sleppa og einhver viðurkennir að eitthvað sé að. Það er eðlilegt að lögregla rannsaki slík mál,“ segir Jón Helgi.

smari@bb.is

Rigning eftir hádegið

Veðurstofa Íslands spáir norðaustan 8-13 m/s á Vestfjörðum í dag. Það þykknar upp með deginum og má búast við rigningu eftir hádegið. Á morgun styttir upp og verður þá hæg breytileg átt á morgun og þurrt að kalla. Hiti verður yfirleitt á bilinu 1 til 4 stig. Í spá fyrir landið í heild sinni á sunnudag segir að búast megi við stífri vestlægri eða breytilegri átt og talsverðri rigningu, en slyddu norðanlands. Rofar þó til seinni partinn. Hiti verður 0 til 8 stig, mildast suðaustanlands.

Hálkublettir eða hálka er á fáeinum fjallvegum á Vestfjörðum.

annska@bb.is

Bjarki mætir Joey Dakin í Liverpool

Bjarki Pétursson. Mynd: Mjölnir/Sóllilja

Ísfirðingurinn Bjarki Pétursson heldur í næstu viku út til Liverpool þar sem hann keppir fyrir hönd Mjölnis á alþjóðlegu móti í blönduðum bardagaíþróttum (MMA), Shinobi 10 Evolution sem fram fer þar í borg 25.febrúar. Bjarki mun þar mæta enska bardagakappanum Joey Dakin í millivigt (83,9) í flokki áhugamanna og er hann einn þriggja Mjölnismanna sem keppa á mótinu. Bjarki er náði inntökuprófi í keppnislið Mjölnis fyrir um tveimur árum síðan og hefur hann æft grimmt síðan og þá kom að því að hann fékk bardaga og var nafn hans sent til Shinobi bardagasambandanna þar sem fundinn var andstæðingur fyrir hann fyrir um þremur vikum síðan.

Bjarki segist mjög vel stemmdur fyrir mótið, enda sé þar draumur að verða að veruleika: „Undirbúningurinn er búinn að ganga mjög vel. Þó ég hafi bara fengið að vita af bardaganum með 5 vikna fyrirvara þá er ég í raun búinn að vera undirbúa mig frá því að ég flutti til Reykjavíkur í þeim tilgangi til að berjast.“ En Bjarki hefur búið fyrir sunnan í á þriðja ár og æft hjá Mjölni þann tíma, áður en hann hélt suður þá æfði hann Jiu-Jitzu með glímudeild Harðar á Ísafirði en boðið upp á Jiu-Jitzu hjá félaginu alla mánudaga, miðvikudaga og föstudaga í íþróttahúsinu við Austurveg. Allir 16 ára og eldri eru velkomnir á æfingarnar sem hefjast klukkan 20.

Bjarki er í góðu form til að takast á við bardagann handan við hornið: „Formið er orðið mjög gott, enda ekki annað hægt en með alla þessa frábæru æfingafélaga og þjálfara.“ Segir Bjarki klár í slaginn.

Bjarki hefur ekki mætt neinum aukvisum, en hér má sjá hann berjast á æfingu við hinn goðsagnakennda Gunnar Nelson. Mynd: Mjölnir/Sóllilja

annska@bb.is

Athugasemd við eigin útreikning

Komið hefur í ljós að gögn um fjölda lögskráningardaga sem fjármálaráðuneytið lagði til grundvallar við útreikning á skatti af fæðispeningum sjómanna eru ekki rétt. Fjöldi lögskráningardaga sé umtalsvert minni en gert var ráð fyrir. Þetta kemur fram á vef ráðuneytisins. Ekki er upplýst þar hver raunverulegur fjöldi lögskráningardaga sé og tekjutap ríkissjóðs ekki endurreiknað  Fyrri yfirlýsing er heldur ekki dregin til baka þótt ráðuneytið gangist við að forsendur útreikninganna séu ekki réttar. Í fyrri yfirlýsingu kom fram að tekjutap ríkissjóðs yrði  730 milljónir og tap sveitarfélaga 330 milljónir verði fæðispeningar sjómanna skattfrjálsir.

Athugasemd ráðuneytisins fer hér á eftir:

„Vegna tilkynningar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í gær í tengslum við skattlagningu fæðispeninga og dagpeninga tekur ráðuneytið fram: Í tilkynningunni var miðað við að heildarkostnaður útgerðarinnar vegna greiðslu fæðispeninga sjómanna á fiskiskipum væri um 2,3 milljarðar króna á ári samkvæmt gildandi kjarasamningum og var miðað við að fjöldi lögskráningardaga sjómanna væri um 1,5-1,6 milljónir daga á ári. Var þar stuðst við gögn sem Sjómannasambandið lét ráðuneytinu í té á síðastliðnu ári. Komið hefur í ljós að þau eru ekki rétt, heldur er fjöldi lögskráningardaga umtalsvert minni.“

smari@bb.is

Samningur í höfn – beðið eftir ríkinu

Samninganefndir sjómanna og útgerðarinnar funduðu fram eftir kvöldi í gær og sagði Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, að samningur milli deiluaðila sé í höfn fyrir utan hvað varðar skattaafslátt á fæðispeningum sem sjómenn setja á oddinn. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra hefur boðað úttekt á skattalegri meðferð fæðispeninga og er niðurstöðu að vænta í lok apríl en sjómenn segja að þeir muni ekki fresta verkfalli meðan beðið er eftir úttektinni, þeir vilji fá botn í málið núna.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra var í viðtali í Morgunvakt Rásar 1 í morgun. Hvað varðar skattleysi fæðispeninga lagði Benedikt áherslu á að lausnin verði að vera almenn, en ekki sértæk. „Þegar menn reyna að finna lausnirnar þá verða þær að vera almennar, þær mega ekki eiga við bara um einhverja ákveðna sem lýst er heldur verða þær að gilda um alla sem eru í sambærilegri stöðu. Það er það sem þau hafa sett fram og við vildum taka okkur tíma til að skoða og í sjálfu sér þá myndi gildistíminn þess vegna vera frá 1. janúar svo enginn tapaði á biðtímanum.. En við sjáum hvað setur,“ sagði Benedikt.

Ekki hefur verið boðað til fundar í deilunni í dag.

smari@bb.is

Stórslagur í körfunni

Vestri tekur á móti Hamri í 1. deild Íslandsmótsins í körfubolta í kvöld. Leikurinn verður í íþróttahúsinu á Torfnesi og hefst fyrr en venjulega, eða kl. 18.30. Vestri og Hamar sitja jöfn að stigum í 5.-6. sæti deildarinnar en það lið sem nær í 5. sætinu fer í úrslitakeppnina og mætir liðinu sem hafnar í 2. sæti. Leikurinn er því gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið þar sem innbyrðis viðureignir geta skorið úr um hvort þeirra kemst áfram í úrslitakeppnina. Það verður því án efa hart barist í kvöld og skiptir stuðningur áhorfenda því miklu máli. Forsvarsmenn Vestra hvetja alla til að mæta og styðja Vestramenn í baráttunni.

smari@bb.is

Bolungarvíkuhöfn í 8. sæti

Botnfiskaflinn hélt áfram að aukast í Bolungarvíkurhöfn á síðasta ári. Fiskistofa birtir á vefsíðu sinni ársuppgjör 2016 þar sem fram kemur að Bolungarvíkurhöfn var 8. stærsta löndunarhöfn landsins í botnfiski með 19.288 tonn. Ísafjarðarhöfn er í 9. sæti með 19.076 tonn. Samdráttur í afla var víða um land. Mestur var samdrátturinn í magni talið í Grindavík og á Ísafirði um 2.900 tonn. Mesta aukning frá fyrra ári var í Hafnafirði um 6.300 tonn og Bolungarvík um 4.000 tonn.

Aflaaukningin í Bolungarvík er veruleg hlutfallslega, eða 26 prósent. Að sama skapi dróst aflinn talsvert saman í Ísafjarðarhöfn eða um rúm 13 prósent.

smari@bb.is

Umtalsverð slysaslepping í Dýrafirði

Komið hef­ur í ljós gat við botn sil­ung­seldisk­ví­ar fyr­ir­tæk­is­ins Arctic Sea Farm í Dýraf­irði. Þetta seg­ir í til­kynn­ingu frá fyr­ir­tæk­inu.

Kem­ur þar fram að með upp­götv­un­inni kunni að hafa fund­ist meg­in­skýr­ing­in á „mögu­legri slysaslepp­ingu regn­bogasil­ungs“ sem fjallað var um í haust.

Í tilkynningunni segir að þegar hafi verið gripið til aðgerða og gatinu á kvínni lokað. Þá segir: „Því miður er fyrsta mat starfsmanna það að umtalsvert magn regnbogasilungs sé sloppinn. Viðbragðsáætlun við slysasleppingu var virkjuð þegar í stað og var Fiskistofu gert viðvart, m.a. vegna samráðs um næstu skref.  Auk þess sem um umtalsvert tjón er að ræða fyrir fyrirtækið er hér um að ræða mikið áfall fyrir starfsmenn og eigendur sem vinna að uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum“ segir í fréttatilkynningunni.

Ljóst er að framundan er ítarleg greining á orsökum gatsins í samstarfi við Fiskistofu og MAST með það að markmiði að draga lærdóm af, m.a. varðandi kvíaútbúnað og fleiri þætti. Útbúnaður kvía er nú þegar í ítarlegri skoðun hjá fyrirtækinu þar sem m.a. er unnið að innleiðingu strangari krafna sem settar hafa verið af hálfu eftirlitsaðila,“ segir í tilkynningu Arctic Sea Farm.

smari@bb.is

 

Milljarður rís á Ísafirði

Milljarður hefur risið á Ísafirði síðustu ár

Í hádeginu á morgun fer fram árlega dansbyltingin Milljarður rís og verður þá dansað í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Það er UN Women sem stendur fyrir vitundarátakinu þar sem fólk um allan heim kemur saman í eina klukkustund til að dansa fyrir réttlæti og þá með táknrænum hætti taka afstöðu gegn ofbeldi. Hér á landi verður að þessu sinni dansað á 10 stöðum og alls staðar á milli 12 og 13 og er það með þessum samtakamætti sem heimsbyggðin lætur til sín taka er segir í fréttatilkynningu frá UN Women á Íslandi og hvetja þau vinnustaði, skóla og vinahópa til að mæta og dansa fyrir réttlátum heimi. Þar segir jafnframt: Ofbeldi gegn konum er vandamál um allan heim – tökum afstöðu gegn ofbeldinu, mætum og dönsum!

Í ár verður með dansinum minning Birnu Brjánsdóttur heiðruð. UN Women á Íslandi segja að í kjölfar andláts Birnu hafi konur hér á landi í auknum mæli stigið fram og lýst þeim ótta og óöryggi sem þær finna fyrir á götum úti og hvernig þær axla ábyrgð á mögulegu ofbeldi með því að forðast augnsamband, velja ákveðnar götur fram yfir aðrar, halda á lykli milli fingra sinna í annarri hendi og símanum í hinni með 112 á hraðvali er þær ferðast milli staða að kvöld- og næturlagi. Ofbeldi eða ótti við að verða fyrir því er hluti af daglegu lífi kvenna víða um heim. Ofbeldið á sér stað hvenær sem er dagsins, á heimilum, á úti á götum, í almenningssamgöngum, á vinnustöðum og í kringum skóla svo dæmi séu nefnd.

UN Women vinnur að því að gera borgir öruggari fyrir konur og stúlkur víða um heim meðal annars vinna samtökin víða í samstarfi við borgaryfirvöld að einföldum og ódýrum aðgerðum sem miða að því að uppræta og draga úr ofbeldi gegn konum og stúlkum á almenningssvæðum. UN Women á Íslandi hvetur alla til að taka þátt í að gera borgir öruggari fyrir konur og stelpur með því að senda sms-ið Konur í 1900 (1000 kr.)

Dansbylting Milljarður rís verður sem áður segir í Edinborgarhúsinu á Ísafirði þann 17. febrúar á milli klukkan 12 og 13. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Gísli Halldór Halldórsson setur byltinguna og þá mun DJ Annska sjá dönsurum fyrir dansfóðri úr hátölurunum. Boðið verður upp á léttar veitingar meðal annars frá mjólkurvinnslunni Örnu og Kristal frá Ölgerðinni.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir