Fimmtudagur 17. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2339

Kjarasamningum verður ekki sagt upp

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og Björgólfur Jóhannsson formaður SA kátir eftir undirritun kjarasamnings á almennum vinnumarkaði. Mynd: mbl.is

Niðurstaða forsendunefndar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins vegna endurskoðunar kjarasamninga er að tvær af þremur forsendum standast en ein gerir það ekki. Sú snýst um launaþróun annarra hópa. Samninganefnd ASÍ hefur engu að síður, m.a. að undangengnum fundarhöldum í baklandi stéttarfélaganna, ákveðið að segja ekki upp núgildandi kjarasamningi.

Forsendurnar sem voru til skoðunar eru þessar:

  1. Fjármögnun stjórnvalda á stofnframlögum ríkisins til 2.300 almennra íbúða á árunum 2016-2019 eða að hámarki 600 á ári.
  2. Mat á því hvort sú launastefna og þær launahækkanir sem í samningnum fólust hafi verið stefnumarkandi fyrir aðra á vinnumarkaði (32% hækkun frá nóv 2013 – des 2018).
  3. Aukinn kaupmáttur á samningstímanum.

Að áliti nefndarinnar er ljóst að liðir 1 og 3 standast skoðun en liður 2 er forsendubrestur.

Rök samninganefndar ASÍ fyrir því að segja ekki upp samningum eru að ákveðin verðmæti séu í núgildandi samningi en samkvæmt honum verður 4,5% almenn launahækkun 1. maí og 1,5% hækkun á mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð þann 1. júlí. Að auki er lítill áhugi á því að almenni markaðurinn fari fyrstur í þeim kjaraviðræðum sem framundan eru, en mörg opinberu félaganna eru með lausa samninga síðar á þessu ári.

smari@bb.is

Auglýsing

Skyldu bræður öskudags verða átján?

Kalt og fallegt veður verður á Vestfjörðum í dag, en spáð er austan 3-8 m/s og léttskýjuðu á Vestfjörðum og verður frost á bilinu 0 til 8 stig. Í dag er öskudagur og gamlar, íslenskar alþýðuveðurspár kveða á um að öskudagur eigi sér átján bræður í veðurfari og ættu því Vestfirðingar að horfa glaðir fram veginn – veðurfarslega. Veðurspá Veðurstofu Íslands tekur nánast undir þetta með spá sinni næstu tvo daga þar sem áfram á að vera hæg austlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað. Frost verður 0 til 10 stig og má segja að hver dagur þessa vikuna sé afrit af hinum fyrri. Helgarveðrið virðist ætla að vera með svipuðu sniði á Vestfjörðum þó það taki meiri breytingum annarsstaðar á landinu.

Þessa vísu um öskudag má finna í Íslenzkum þjóðháttum eftir Jónas Jónasson:

Öskudagsins bjarta brá

bætti úr vonargögnum,

þar hann bræður átján á,

eptir gömlum sögnum.

annska@bb.is

Auglýsing

Kerecis sækir um þrjár lóðir

Lækningavörufyrirtækið Kerecis hf. hefur sótt um þrjár lóðir á Suðurtanga á Ísafirði. Lóðirnar eru við Æðartanga 6, 8 og 10, en Æðartangi eru gata í nýlegu deiliskipulagi á Suðurtanga. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Kerecis, segir að ekki hafi verið tekið endanleg ákvörðun um húsbyggingar. „Lóðirnar eru veittar með skilyrðum sem við eigum eftir að fara yfir og athuga hvort að eru ásættanlegar,“ segir Guðmundur. Starfsemi Kerecis á Ísafirði er í Íshúsinu. Verði af húsbyggingu á Suðurtanga verður húsnæðið í stað þess sem fyrirtækið er með í Íshúsinu, en Guðmundur segir að nokkuð sé farið að þrengjast um Kerecis með meiri umsvifum í húsinu tengdu fiskeldi.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur mælt með við bæjarstjórn að fyrirtækið fái lóðirnar. Lóaúthlutunin fellur úr gildi hafi teikningar ekki borist Ísafjarðarbæ innan 6 mánaða og framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá úthlutun.

smari@bb.is

Auglýsing

Gistinóttum á Vestfjörðum og Vesturlandi fjölgar um 62%

Gistinætur á hótelum hér á landi í janúarmánuði voru 281.400 sem er 43% aukning miðað við janúar 2016. Gistinætur erlendra gesta voru 89% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 47% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 17%. Í tölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag má sjá að aukningin á Vesturlandi og Vestfjörðum sem teknar eru saman í flokki var 62% á milli ára, í fyrra voru skráðar gistinætur í janúarmánuði 3.901        og í ár voru þær 6.311, ekki er boðið upp á sundurliðaðar tölur á milli landshlutanna og nær talningin einungis til hótela sem opin eru allt árið.

Flestar gistinætur á hótelum í janúar voru á höfuðborgarsvæðinu eða 206.500 sem er 30% aukning miðað við janúar 2016. Um 73% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu. Á tólf mánaða tímabili frá febrúar 2016 til janúar 2017 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum 3.907.600 sem er 34% aukning miðað við sama tímabil árið áður. Á sama tíma var aukningin á Vestfjörðum og Vesturlandi 42%, þar sem skráðum gistinóttum fjölgaði úr 122.921 í 173.945.

Nánar um gistináttafjölda má lesa á vef Hagstofunnar.

annska@bb.is

Auglýsing

Bolvíkingar andsnúnir opinberri umræðu um sameiningarmál

Gísli Halldór Halldórsson.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, vísar á bug gagnrýni Baldurs Smára Einarssonar, formanns bæjarráðs Bolungarvíkur, á vinnubrögð sín varðandi þreifingar sveitarfélaganna við Djúp um aukna samvinnu og mögulega sameiningu. Gísli Halldór segir í samtali við bb.is að upphaf málsins megir rekja til þess að ráðgjafafyrirtæki í Reykjavík hafi sent erindi til sín þar sem á það var bent að mögulegt væri að sækja um fjárframlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að láta fara fram vinnu þar sem kostir og gallar sameiningar og samvinnu sveitarfélaga yrðu dregnir fram. Hann segir að sveitarstjórnarfólk hafi verið að ræða sín á milli möguleika til samstarfs og sameiningar mest allt kjörtímabilið. „Að minnsta kosti hafa sveitarstjórnarmenn frá Ísafjarðarbæ og Súðavíkurhreppi gert það. Þegar þessi tillaga berst frá ráðgjafarfyrirtækinu þá þótti mér engin ástæða til að stinga henni undir stól eða fela hana með einum eða öðrum hætti. Ég kynnti hana því í tölvupósti fyrir sveitarstjóranum í Súðavík og bæjarstjóranum í Bolungarvík. Þá kom í ljós að ekki virtist mega ræða málið opinberlega án þess að valda óánægju ráðamanna í Bolungarvík,“ segir Gísli Halldór.

Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í gær var samþykkt að sækja um fyrrgreint fjárframlag Jöfnunarsjóðs og bjóða Súðavíkurhreppi til samstarfs. „Það átti að taka tillöguna fyrir fyrr, en við frestuðum því til að geta fundað óformlega með Bolvíkingum.  Á hinum óformlega fundi var ég af Bolvíkingum rukkaður um svör við því hvernig tillagan hefði borist mér og athugasemdir gerðar við aðdraganda málsins. Ég reyndi bara að útskýra fyrir fundinum hvaðan og hvernig fyrirliggjandi tillaga að nálgun hefði borist,“ segir Gísli Halldór og hafnar því að hafa mætt á fundinn með „allt tilbúið“ fyrir Bolvíkinga að kvitta uppá eins og Baldur Smári sagði í samtali við bb.is í gær.

Gísli Halldór segir að tillagan ráðgjafafyrirtækisins sé eins og hver önnur tillaga sem sveitarstjórnarmönnum er frjálst að taka afstöðu til eins og þeim sýnist. „Ég á enga persónulega hagsmuni í þessum sameiningarmálum, nema sem almennur íbúi. Þar að auki hef ég engin völd til að taka ákvarðanir í slíkum málum. Hinsvegar hef ég sem bæjarstjóri tillögurétt fyrir bæjarstjórn og nefndum og ráðum bæjarins. Ef einhverjum líður betur með að ráðast á sendiboðann heldur en að þurfa að horfast í augu við skilaboðin þá verður bara svo að vera.“

Að sögn Gísla Halldórs hefur í samtölum sveitarstjórnarfólks í Ísafjarðarbæ og í Súðavíkurhreppi komið skýrt fram að sveitarfélögin eiga mikla sameiginlega hagsmuni af því að vel takist til með fyrirliggjandi uppbyggingu í ferðaþjónustu og fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. „Ísafjarðarbær er með stóra og öfluga stjórnsýslu í samanburði við nágrannasveitarfélögin og hefur auk þess náð frábærum árangri í skólastarfi og félagsþjónustu.“

Gísli Halldór segir að það sé alveg réttmæt að gagnrýna hvernig til tókst með sameiningarnar 1996 þegar sex sveitarfélög sameinuðust í Ísafjarðarbæ. „Við erum á þessu kjörtímabili að gera eins og hægt er til að bæta fyrir það sem ekki hefur heppnast nógu vel,“ segir hann og bætir við að ef fram fer skoðun á kostum og göllum sameiningar á yfirstandandi kjörtímabil þá verður fyrri reynsla af sameiningum alveg örugglega notuð sem mælistika og þess gætt að falla ekki aftur í sömu gryfjurnar.

„Það er hinsvegar nauðsynlegt að horfast í augu við verkefnið og leita allra leiða sem færar kunna að vera til að færa íbúum aukna hagsæld, betra samfélag og betri þjónustu. Hvort það felst í sameiningu eða ekki verður bara að koma í ljós og endanleg ákvörðun liggur auðvitað alltaf hjá íbúunum, en ekki einhverjum bæjarstjórum,“ segir Gísli Halldór Halldórsson að lokum.

smari@bb.is

Auglýsing

Súðvíkingar ötulastir við hreyfinguna

Það var oft fjör í Súðavíkurskóla þegar hinar ýmsu útgáfur hreyfingar voru iðkaðar. Mynd af heimasíðu skólans.

Á föstudag voru afhentar í sal KSÍ við Laugardalsvöll viðurkenningar til þeirra sem best stóðu sig í Lífshlaupinu þetta árið, en góð þátttaka var í keppninni með 16.124 virka þátttakendur í 1.374 liðum. 5-9% þátttökuaukning er frá síðasta ári í mismunandi flokkum keppninnar og skráðar voru 14.597.297 hreyfimínútur og 183.340 dagar sem náðu daglegu lágmarksviðmiði.

Á dögunum greindum við frá því að Súðavíkurskóli hafi sigrað í flokki grunnskóla með að níutíu nemendum og bar skólinn þar höfuð og herðar yfir aðra keppendur með hlutfall skráðra daga 13,16. Nemendur í Grunnskóla Önundarfjarðar voru einnig ötulir við að hreyfa sig og var skólinn í 5.sæti með 8,82 daga af hreyfingu.

Súðavíkingar sköruðu fram úr í fleiri flokkum og voru starfsmenn Súðavíkurskóla í fyrsta sæti keppninnar í flokki vinnustaða með 10- 29 starfsmenn þar sem 152 vinnustaðir voru skráðir til leiks. Hlutfall skráðra daga hjá starfsmönnunum var 20,8 og hlutfall skráðra mínútna var 1.816. Liðið Naglarnir er skipað harðsnúinni sveit kvenna sem þrælaðist upp um fjöll og út um allar koppagrundir til að ná þessu markmiði, auk þess sem þær stunduðu líkamsrækt þrisvar í viku og fóru reglulega í jóga.

annska@bb.is

Auglýsing

Togararallið hafið

Árni Friðiriksson RE.

Stofn­mæl­ing botn­fiska á Íslands­miðum er haf­in og stend­ur yfir næstu þrjár vik­ur, að því er fram kem­ur í til­kynn­ingu frá Haf­rann­sókn­ar­stofn­un. Fjög­ur skip taka þátt í verk­efn­inu að þessu sinni; tog­ar­arn­ir Ljósa­fell SU og Barði NK, og rann­sókn­ar­skip­in Árni Friðriks­son og Bjarni Sæ­munds­son.

Togað verður á um 600 stöðvum á 20-500 metra dýpi um­hverf­is landið. „Verk­efnið, sem einnig er nefnt marsrall eða tog­ar­arall, hef­ur verið fram­kvæmt með sam­bæri­leg­um hætti á hverju ári síðan 1985. Helstu mark­mið eru að fylgj­ast með breyt­ing­um á stofn­stærðum, ald­urs­sam­setn­ingu, fæðu, ástandi og út­breiðslu botn­fisk­teg­unda við landið. Einnig verður sýn­um safnað vegna ým­issa rann­sókna, t.d. á meng­andi efn­um í sjáv­ar­fangi,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Helstu niður­stöður verða kynnt­ar í apríl.

Hér má fylgjast með ferðum skipanna.

smari@bb.is

Auglýsing

Andstaðan eykst milli ára

Meirihluti Íslendinga, eða 58 prósent, er andvígur því að sala léttvíns í matvöruverslunum hér á landi verði leyfð. Um 32 prósent Íslendinga eru hlynntir því, samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Andstaða við sölu léttvíns í matvöruverslunum hefur aukist frá því í febrúar í fyrra þegar um 52 prósent voru andvíg því og 35 prósent hlynnt því. Lítið fleiri eru hlynntir sölu bjórs í matvöruverslunum, eða á bilinu 33 til 34 prósent.

Yfirgnæfandi meirihluti er andvígur sölu sterks áfengis í matvöruverslunum eða hátt í 74 prósent svarenda. Þegar niðurstöður eru skoðaðar úr öllum spurningunum þremur kemur í ljós að rúmlega 66,3 prósent eru ekki hlynntir sölu á neinu áfengi í matvöruverslunum.

Andstaða við sölu bjórs í matvöruverslunum eykst með hækkandi aldri. Þannig eru um 60 prósent þeirra sem eru yngri en 25 ára hlynnt sölunni en aðeins um 19 prósent þeirra sem eru 55 ára og eldri. Þá er andstaðan meiri utan höfuðborgarsvæðisins.

Nærri helmingur kjósenda Bjartrar framtíðar, Pírata og Sjálfstæðisflokks er hlynntur sölu bjórs á meðan kjósendur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sýna mestu andstöðuna, eða um 70-75 prósent. Sami marktæki munur var á milli hópa þegar kemur að sölu léttvíns.

smari@bb.is

Auglýsing

Lestrarhesturinn Ásdís las mest

Lestrarhesturinn Ásdís Jónsdóttir. Mynd: strandir.is

Í síðustu viku var tilkynnt um úrslit í lestrarleiknum Allir lesa. Bókaþjóðin lá ekki á liði sínu við lesturinn og þegar allt var tiltekið spannaði tímafjöldi allra þeirra sem skráðu sig til leiks um 5 ár af lestri í klukkustundum talið. Sá einstaklingur sem var með mestan skráðan tímafjölda við lesturinn var Strandakonan Ásdís Jónsdóttir á Hólmavík sem las í heilar 304 klukkustundir og var Strandabyggð í efsta sæti sveitarfélaga í landinu í leiknum.

Fréttaritari Strandavefsins leit við hjá Ásdísi í síðustu viku til að forvitnast um hvaða bækur henni þættu skemmtilegastar og geta lesendur Bæjarins besta eflaust fengið einhverjar hugmyndir að láni hjá Ásdísi um hvaða bækur megi kíkja á. Þar má sjá að hún tekst jöfnum höndum á við barnabækur, glæpasögur og ævisögur, svo dæmi séu tekin og einnig mælir hún með lestri á „Doddabókunum“ fyrir háttinn, en svo kallar hún bækur Rauðu seríunnar. Viðtalið við Ásdísi má lesa hér.

annska@bb.is

Auglýsing

Kópur BA seldur til Noregs

Aflafréttir segja frá því á heimasíðu sinni að Kópur BA sem seldur frá frá Þórsbergi á Tálknafirði haustið 2015 til Nesfisks hafi nú verið seldur til Noregs.

Þórsberg hf á Tálknafirði seldi Kóp haustið 2015, sagði upp öllum starfsmönnum til sjós og lands og lokaði frystihúsinu. Báturinn hefur síðan þá legið við bryggju í Njarðvík þar sem kvótinn var fluttur af honum og yfir á báta Nesfisks.

Kópur BA á langa vestfirska sögu og á BB.is í desember 2002 er fjallað um komu hans til Tálknafjarðar og þar er Kópur kynntur til leiks sem gamall Tálknfirðingur en hann var gerður út frá Tálknafirði frá 1968-1978.

bryndis@bb.is

 

Auglýsing

Nýjustu fréttir