Síða 2339

Stormur kominn á besta stað í stofunni

Dísa og Stefán Máni er þau skiptust á verkum

Ung bolvísk listakona, Valdís Rós Þorsteinsdóttir, varð þeirrar óvæntu ánægju aðnjótandi að selja sína fyrstu mynd á dögunum, eftir að faðir hennar Þorsteinn Másson birti mynd af henni með verkið „Storm“ á Twitter. Valdís sem iðulega er kölluð Dísa og er níu ára gömul, hefur þrátt fyrir ungan aldur sýnt sérlega góða færni í gerð olíumálverka eftir að hafa á síðasta ári farið að horfa á kennslumyndbönd á YouTube þar sem Bob Ross leiðir áhorfendur í gegnum helstu trixin við svokallaða wet-on-wet tækni. „Við fórum að fikra okkur áfram eftir þessum myndböndum og Dísa sýndi strax að hún er „natural talent.“ Segir Steini pabbi Dísu í spjalli við blaðamann, en hún hafði mikið teiknað fram að því.

Það var enginn annar en rithöfundurinn Stefán Máni sem keypti myndina. Stefán Máni er myndlistarunnandi og segist strax hafa fallið fyrir myndinni er hann sá hana á Twitter og kannað hvort hún væri föl. „Steini, sem umboðsmaður listakonunnar, stakk upp á vöruskiptum sem hentaði bara prýðilega en ég samt von á því að verðskrá listamannsins fari hækkandi úr þessu.“ Segir Stefán Máni um listaverkakaupin:

„Við hittumst svo á Grillhúsinu og bíttuðum á verkum. Ég fékk málverkið og Valdís fékk árituð eintök af Svartagaldri og Döprustu stúlku í öllum heiminum. Það var mjög gaman að hitta þau feðgin. Steini er mikið ljúfmenni og Valdís Rós jafnsæt og krúttleg og hún er klár. Held að framtíðin sé hennar, hvað sem sem hún mun taka sér fyrir hendur. Myndin er kominn upp á vegg á besta stað í stofunni heima hjá mér. Ekki amalegt að vera með Vestfirska sjávarmynd fyrir augunum alla daga!“ Vestfirskra tengla gætir í þeim verkum sem skipst var á, stormurinn sem stundum ýfir hafflötinn við Vestfirði í verki Dísu og í Svartagaldri er súðvíski lögreglumaðurinn Hörður Grímsson í aðalhlutverki.

Unga listakonan er hógvær og ekkert mikið fyrir að ræða heiðurinn að sögn föður hennar, en hann segir að hún sé þó afar ánægð með söluna á Stormi. Dísa getur strax sest við lesturinn á Döprustu stúlkunni í öllum heiminum, en Svartigaldur bíður betri tíma og segir Steini að hún muni eflaust kunna að meta hana þegar hún verður eldri, en líkt og flestir vita er Stefán Máni hve þekktastur fyrir skrif á glæpasögum af myrkari sortinni.

annska@bb.is

Allstór sinubruni í Mjóafirði

Sinubrunar geta hæglega orðið stjórnlausir líkt og í Laugardal í Ísafjarðardjúpi í júní 2015.

Á föstudaginn fékk lögreglan á Vestfjörðum tilkynningu um að verið væri að brenna sinu í Mjóafirði, skammt frá brúnni við Hrútey. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var engan að finna á svæðinu en greinilegt að sina hafði verið brennd á allstóru svæði í Hrútey og nánasta nágrenni. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni. Lögreglan minnir á reglugerð um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum Í reglugerðinni kemur fram að óheimilt sé að brenna sinu en þó sé eigendum jarða, á lögbýlum þar sem landbúnaður er stundaður, heimilt að brenna sinu en þó aðeins með skriflegu leyfi sýslumanns. Samkvæmt slíku leyfi má einungis brenna sinu á tímabilinu frá 1. apríl til 1. maí ár hvert. Aðeins í undantekningartilvikum má brenna sinu utan þess tímabils.

Alls voru 15 ökumenn kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Ökumennirnir voru stöðvaðir í Ísafjarðardjúpi, Strandasýslu og víðar í umdæminu. Sá sem hraðast ók var mældur á 141 km. hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.

Tilkynnt var um eitt umferðarslys. Það var í Staðardal í Strandasýslu um miðjan dag í gær, sunnudaginn 12. febrúar. En þá valt jeppabifreið á veginum. Auk ökumanns voru fjórir farþegar í bifreiðinni. Meiðsl þeirra urðu minniháttar. Talið er að ökumaður hafi verið þreyttur og svefndrungi hafi orsakað atvikið. Ökumenn eru hvattir til þess að leggja ekki af stað ef þreyta er annars vegar og ef hún gerir vart við sig að stöðva og hvílast áður en haldið er áfram.

Einn ökumaður var kærður í liðinni viku fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Sá var stöðvaður í Önundarfirði aðfaranótt sunnudagsins 12. febrúar.

smari@bb.is

Deiluaðilar sýni ábyrgð og semji

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar skorar á deiluaðila í sjómannaverkfallinu að sýna ábyrgð og ljúka samningum sem allra fyrst, enda er tjón vegna deilunnar orðið umtalsvert og fer hratt vaxandi. Tveir mánuðir eru á morgun frá því sjómannaverkfallið skall á. Tap vegna verkfalls sjómanna er metið fleiri milljarða króna og standi verkfallið lengur er áætlað að tapið geti numið um það bil milljarði á dag. Í nýrri skýrslu sjávarútvegsráðuneytisins kemur fram að heildaráhrif verkfallsins á ráðstöfunartekjur sjómanna eru talin nema um 3.573 milljónum króna til 10. febrúar 2017; tekjutap 2.400- 2.600 fiskverkamanna er metið á um 818 milljónir króna; tekjutap ríkissjóðs er gróft áætlað á tímabilinu 2,5 milljarðar króna og sveitarfélaga einn milljarður króna.

smari@bb.is

Rangfærslu svarað með annarri

Jóhann Bæring Pálmason

Bæjarstjórinn okkar Gísli Halldór gaf sér tíma til að svara grein minni um stóru málin í samfélaginu og bendir á nokkur atriði sem hann telur mig fara ranglega með. Fyrir það er ég þakklátur og ánægður með að ekki er allt mitt svartsýnis raus rétt.

Norðurtanginn, safnmunageymslan

Gísli bendir á að Ísafjarðarbær greiði ekki leigu fyrir tómt geymsluhúsnæði í norðurtanganum gamla. Enn staðfestir svo annarsstaðar að greiðslur hafi verið inntar af hendi til leigusala. Ísafjarðarbær á því inni hjá leigusala nokkra upphæð að mati Gísla.

Skemmur þurfa ekki endilega að vera ljótar byggingar. Verið er að byggja þær nokkrar hér á Ísafirði þessa stundina og ég get ekki sagt að þær séu neitt ljótar, þó þær séu kannski ekki nein listaverk. Ég get ekki sagt að Norðurtanginn sé neitt sérstaklega fallegur en Gísli bendir á að hugmyndin sé að nýta húsnæðið til 10 ára eða þar til hægt er að byggja t.d. í tengslum við Gamla Sjúkrahúsið betri aðstöðu undir safnið og notendur þess. Hefðum við t.d. byggt skemmu eða keypt eitthvað húsnæði undir safnið, þá gætum við selt það aftur þegar kæmi að því að byggja betri aðstöðu og ættum þá eitthvað upp í byggingakostnaðinn.

Reiðskemman góða

Það verður vissulega ánægjulegt ef skemma hestamanna getur staðið undir rekstri sínum og enn ánægjulegra ef iðkendum fjölgar hjá hestamönnum. Af sjálfsögðu fagnar HSV því að búið sé að semja við hestamenn, annað væri óeðlilegt. Eitthvað myndi nú ganga á ef félagið sem berst fyrir bættri aðstöðu til íþróttaiðkunar færi að berjast gegn uppbyggingu fyrir eina grein.

Það er gott til þess að vita að bærinn ætli áfram að viðhafa samráð sem komið var í gang við HSV. Enn ánægjulegra verður það ef tekst að skipta út gólfinu í íþróttahúsinu á Torfnesi í ár.

Lykilatriði að leiðrétta rétt

Í máli þínu kemur eftirfarandi fram „Eins og flestir vita þá borgar Ísafjarðarbær venjulega 100% af rekstri íþróttamannvirkja, þarna er því um sérstaklega góð kjör að ræða fyrir bæinn.“ Er þar verið að tala um 49% hlut bæjarins í reiðskemmunni. Sigurður Jón Hreinsson benti okkur á að af 108,5 milljóna veltu skíðasvæðis væri gert ráð fyrir 11,5 milljónum í aðgangseyri. Ég þarf að borga 600 kr í hvert skiptið sem ég fer í sund, og ef ég ætla að fá tíma í einhverju íþróttahúsa bæjarins þá þarf ég einnig að borga fyrir það. Það er því alveg ljóst að Ísafjarðarbær borgar ekki 100% af rekstri íþróttamannvirkja sinna.

Sundlaugin í sundhöllinni eða ekki

Það er vissulega kostnaður sem fylgir því að breyta húsnæði sundhallar til annarra nota en það getur einnig verið hagur í því að koma sundlaug og Íþróttahúsi í sömu byggingu. Hvað gætum við sparað mörg stöðugildi með að hafa sundlaugina og Íþróttahúsið í sömu byggingu? Ég heyrði því fleygt að með sparnaði um 1 stöðugildi mætti réttlæta fjárfestingu upp á um 80 milljónir.

Ódýr bygging þarf ekki að vera ljót. Hvað er að því að byggja ódýrt, við þurfum ekki alltaf að spandera í flott og lúxus. Ég heyrði eitt sinn góða sögu af uppbyggingu verkmenntaskólans á Akureyri. Þar var víst krafa um að einhverju hlutfalli af byggingakostnaði væri eytt í listaverk. Þegar verkið var vel á veg komið þá átti eftir að mála einn stóran vegg innandyra og allur aur uppurinn nema listaverkasjóðurinn. Til að komast hjá listaverka hlutanum og klára verkið á ódýran og góða máta á skólameistari að hafa ráðið listmálara til að mála vegginn góða. Með þessu tókst að klára verkið á réttri fjárhagsáætlun.

Krafturinn í bæjarapparatinu

Krafturinn virðist svo mikill að þrátt fyrir auknar tekjur eru skuldir einnig að hækka. Skuldaviðmið er eftir því sem mér skilst reiknað sem hlutfall af tekjum bæjarsjóðs. Þannig að ástæða hinnar ánægjulegu lækkunar viðmiðsins er ekki lækkun skulda heldur hækkun tekna.

Það er ánægjulegt að menn séu tilbúnir að ræða stóru og erfiðu málin. Enn þar ekki nóg að vera tilbúinn að ræða málin menn verða líka að vera tilbúnir í möguleg skoðanaskipti.

Skólamálin

Það hefur vissuleg mikið verið gert til að standa við markmiðin, enn hvaða framtíðarsýn er það að hlaupa til á síðustu stundu með plástur á sárið í annað skiptið á 3 árum. Gleymum því ekki að plássskortur í leik- og grunnskólum okkar er ánægjulegasta vandamál sem við fáum á borð okkar.

Gott samfélag gulli betra

Góð aðstaða til tómstundaiðkunar spilar vissulega stóran þátt í að byggja upp gott mannlíf. Enn án góðrar leik- og grunnskólaaðstöðu höfum við mjög takmörkuð not fyrir tómstundaraðstöðuna. Helsta ógn góðs samfélags er hækkandi meðalaldur þess sem það byggja.

J. Bæring Pálmason

 

 

Vá Vest leggst gegn áfengisfrumvarpinu

Vá Vesthópurinn lýsir yfir andstöðu við frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum.  Hópurinn telur einsýnt að í breytingunum felist aðför að þeim góða árangri sem náðst hefur hér á landi í forvarnastarfi, sem m.a. hefur komið fram í niðurstöðum kannana meðal ungs fólks á vegum Rannsóknar & greiningar, undanfarna tvo áratugi.  Þetta kemur fram í umsögn Va Vest um frumvarp um að heimila sölu áfengis í matvöruverslunum. Í umsögninni segir að árangur Íslendinga í forvarnamálum sé ekki sjálfsagður. Hópurinn telur að þessi árangur sem margar aðrar þjóðir vildu státa af hafi orðið til með tvennum hætti. Annars vegar því forvarnastarfi sem Íslendingar hafa þróað og hins vegar heftu aðgengi ungmenna að áfengi í samræmi við gildandi áfengislög.

„Núverandi dreifingaraðili, ÁTVR, hvetur ekki til aukinnar sölu áfengis. Það er engin ástæða til að ætla annað en að einkaaðilar færu eins með sölu á áfengi og öðrum vöruflokkum sem verslunin hefur upp á að bjóða. Þar myndu lögmál markaðarins ráða. Þá er rétt að benda á að í flestum matvöruverslunum landsins, ekki síst í dreifðum byggðum, eru oft á tíðum ungmenni við afgreiðslu.,“ segir í umsögninni.

Vá Vesthópurinn er hópur fagaðila á norðanverðum Vestfjörðum sem hefur verið að störfum undanfarin 20 ár. Hlutverk og markmið hópsins er að sinna og stýra vímuefnaforvörnum á norðanverðum Vestfjörðum.

smari@bb.is

 

Súld eða rigning í dag

Það verður hlýtt í veðri á Vestfjörðum í dag og hæglætis veður, suðlæg átt, 5-10 m/s og dálítil súld eða rigning. Austlægari í kvöld en austan 3-8 m/s og rigning á morgun, en slydda til fjalla. Talsvert hlýtt hefur verið á landinu það sem af er febrúarmánuði og í dag og á morgun verður hiti á bilinu 1 til 7 stig, þegar líður á vikuna kólnar í veðri og gangi spár eftir þá mun sjást snjór á föstudag.

Vegir eru að heita má greiðfærir um allt land en sums staðar er þokuloft.

annska@bb.is

Segir LV reyna að afvegaleiða umræðuna

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Sea Farm, segir ályktun Landssambands veiðifélaga (LV) um fyrirætlanir fyrirtækisins um eldi í Ísafjarðardjúpi og rekstur stórs eiganda þess, Norway Royal Salmon (NRS), byggða á rangfærslum og misskilningi. LV sendi frá sér fréttatilkynningu í síðustu viku þar sem meðal annars er gagnrýnt að NRS stundi grænt eldi með ófrjóum laxi í Noregi, en ekki hérlendis.  Hann segir að ályktun LV megi skilja sem svo að meginstarfsemi NRS felist í eldi á ófrjóum laxi í Noregi. Það sé alrangt. „Vissulega er NRS leiðandi aðili á þessu sviði í Noregi. Hér er þó enn sem komið er aðeins um tilraunaverkefni að ræða sem NRS hefur metnað til að kanna til hlítar, einnig hér á landi í verkefni sem nú er í burðar­liðnum á vegum Arctic Sea Farm, NRS og fleiri aðila,“ segir Sigurður í fréttatilkynningu til fjölmiðla og bendir á að ófrjór lax nam einungis 1% ef heildarframleiðslu fyrirtækisins í fyrra og í norsku laxeldi nam framleiðslan á síðasta ári af ófrjóum laxi innan við 0,2 prósentum af heildinni.

„Að notkun geldstofna ryðji sér nú mjög til rúms í Noregi eins og fullyrt er í ályktun LV virðist því einungis ætlað að afvegaleiða umræðuna,“ segir Sigurður.

smari@bb.is

Kristín bætir við sig gullum

Kristín sátt með gullið í 50m baksundi. Mynd af Fésbókarsíðu sundkonunnar.

Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir keppti um helgina á Malmö open í Svíþjóð. Kristín, sem nýlega hampaði titlinum íþróttamaður Ísafjarðarbæjar, fjórða árið í röð, sýndi þar og sannaði að hún er hvergi nærri af baki dottin og landaði þar þrennum gullverðlaunum. Kristín hélt utan á föstudag ásamt þjálfara sínum, Svölu Sif Sigurgeirsdóttur og móður sinni og sérlegum aðstoðarmanni, Sigríði Hreinsdóttur. Á laugardag keppti Kristín í 50m flugsundi og tók þar gullið í flokki DS. Hún synti á tímanum 42,42 sem er 2,01 sek bæting frá því að hún synti þessa grein síðast í jafnt langri laug og stakk hún aðra keppendur af þar sem 13 sekúndur voru svo í 2.sætið.

Kristín keppti svo aftur í gær og var þá 100m baksund fyrst á dagskrá, sundið sem var annars gott, var gert ógilt eftir að hún snéri hún sér svo of snemma inn í snúninginn eftir 2 ferðir, sem sundkonan var, líkt og gefur að skilja afar ósátt með. Kristín hélt svo sigurgöngu sinni á sundbrautinni áfram eftir hádegið er hún landaði fyrst gulli í 50m skriðsundi er hún synti á tímanum: 37.27 og síðan í 50m baksundi er hún kom fyrst í mark á tímanum: 47.88.

Í pistli sem þjálfari hennar Svala Sif skrifaði á Fésbókarsíðu sundkonunnar Kristínar segir að keppni lokinni hafi tekið við hvíld og dekur fram á þriðjudag er þær stöllur snúa aftur heim.

Malmö OPEN er alþjóðlegt íþróttamót fatlaðra í Malmö. Mótið er eitt það stærsta sinnar tegundar í Evrópu og hefur það verið haldið allar götur frá árinu 1977. Hefur það vaxið að vinsældum og umfangi síðan, bæði er viðkemur keppnisgreinu

Kristín, Svala Sif og Sigríður í ferðalaginu á föstudaginn. Mynd af Fésbókarsíðu sundkonunnar.

m og þátttakendafjölda, en þar keppa nú á þriðja þúsund keppendur í 18 íþróttagreinum.

annska@bb.is

Milljarður á dag

Tap vegna verkfalls sjómanna er metið fleiri milljarða króna og standi verkfallið lengur er áætlað að tapið geti numið um það bil milljarði á dag. Þetta kemur fram í skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um áhrif verkfallsins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir skýrsluna ekki leysa kjaradeiluna en hún varpi þó ljósi á þjóðfélagslegt tap deilunnar og gæti nýst í framtíðinni

Heildaráhrif verkfallsins á ráð- stöfunartekjur sjómanna eru talin nema um 3.573 milljónum króna til 10. febrúar 2017; tekjutap 2.400- 2.600 fiskverkamanna er metið á um 818 milljónir króna; tekjutap ríkissjóðs er gróft áætlað á tímabilinu 2,5 milljarðar króna og sveitarfélaga einn milljarður króna. „Ekki er hægt að halda því fram að þjóðhagslegt tap af völdum verkfallsins hafi numið 960-1.160 milljónum króna á hverjum verkfallsdegi hingað til, en bent er á að rannsóknir gefi það til kynna að við algjört og langvarandi vinnslustopp nálgist hið þjóðhagslega tap á degi hverjum þessar upphæðir. Vinnustoppið nú er hvorki algjört né langvarandi, en er engu að síður mjög víðtækt og hefur dregist á langinn þannig að áhrifa þess gætir nú talsvert víðar í hagkerfinu en á fyrstu vikum verkfallsins,“ segir í skýrslunni.

smari@bb.is

Fyrsti titill Vestra

9. flokkur Vestra með þjálfurum.

Drengirnir í 9. flokki Vestra gerðu sér lítið fyrir í gær og sigruðu val 60-49 í úrslitaleik Maltbikarsins í körfubolta. Fyrri hálfleikur leiksins  jafn og spennandi, en Vestradrengir voru þó yfirleitt skrefinu á undan. Eftir fyrsta leikhluta var staðan jöfn, 12-12 og þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var Vestri stigi yfir, 23-24.

Í hálfleik var Ástþór Atli Svalason atkvæðamestur fyrir fyrir Val með 5 stig, 7 fráköst og 2 stoðsendingar. Fyrir Vestra var það Hugi Hallgrímsson með 5 stig, 9 fráköst og 4 varin skot. Í upphafi seinni hálfleiksins var leikurinn svo áfram í járnum, eftir 3. leikhluta var staðan aftur jöfn 38-38.

Undir lok leiksins tók Vestri svo öll völd á vellinum og kláraði leikinn með miklum glæsibrag. Bræðurnir Hugi og Hilmir Hallgrímssynir voru gott betur en drjúgir fyrir Vestra og skoruðu 43 af 60 stiga liðsins og var Hugi valinn maður leiksins.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir