Síða 2339

Endurmenntun í verkfallinu

Skipstjórnarmenn HG kampakátir með prófskírteinin.

Skipstjórar og stýrimenn á skipum Hraðfrystihússins-Gunnvarar útskrifuðust fyrir helgi úr 150 stunda námsbraut Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða sem nefnist Sterkari starfsmaður – upplýsingatækni og samskipti“. Skipstjórnarmennirnir nýta þannig tímann í sjómannaverkfallinu á uppbyggilega hátt, en þeir eru ekki í verkfalli ólíkt hásetum.

Sterkari starfsmaður – upplýsingatækni og samskipti er ætlað fólki á vinnumarkaði sem vill auka færni sína til að takast á við breytingar í starfi og stuðla að jákvæðu viðhorfi námsmanna til starfa, nýjunga, upplýsingatækni, samskipta og símenntunar og gera þá eftirsóknarverðari starfsmenn.

 Þetta var yfirgripsmikið og fjölbreytt nám. Upphaflega var megináherslan lögð á aukna tölvufærni í Word, Excel, Outlook. Samhliða því var komið inn á leiðtogafærni, mannauðsstjórnun og vinnustaðamenningu. Farið var yfir virðiskeðjuna þar sem rætt var um meðferð afla og gæðastjórnun. Einnig voru fyrirlestrar frá Hafrannsóknastofnun um veiðarfæri, atferli fiska og hafstrauma í kringum landið.

smari@bb.is

Lokuð kvíakerfi óraunhæf

Eggið sem Marine Harvest er með í skoðun.

Ekki er raunhæft að skilyrða fiskeldisleyfi á Íslandi við lokaðar kvíar eða eldi á geldlaxi. Þar ræður að tæknin er enn á tilraunastigi og ekki komin í notkun í háþróuðustu fiskeldislöndunum. Þetta er mat Höskuldar Steinarssonar, framkvæmdastjóra Landssambands fiskeldisstöðva, en rætt er vði hann í fréttaskýringu Morgunblaðsins í dag. Umhverfisstofnun telur að eldisfyrirtæki ættu í matsáætlunum sínum að fjalla um möguleika á notkun geldfisks og einnig möguleika á notkun lokaðra eldiskvía í mati á umhverfisáhrifum nýrra staðsetninga.

Höskuldur tekur fram að margir fiskeldismenn bindi vonir við þróun nýrrar tækni – eins og lokaðra kvóa. Enn sé þó langt í land með að þær verði raunhæfur kostur.

Í Morgunblaðinu er einnig rætt við Guðmund Val Stefánsson, fiski- og sjávarlíffræðing. Hann telur það misskilning að lokaðar kvíar sem nú eru í þróun erlendis komi í veg fyrir slysasleppingar. Þótt fiskurinn sé í lokuðu kerfi þurfi til dæmis að koma honum í viðkomandi kví og taka hann aftur úr henni til slátrunar. Það er stór aðgerð, að hans sögn. Guðmundur segir að tilgangur með slíkum búnaði sé fyrst og fremst að loka eldislaxinn frá laxalús og kom böndum á sjúkdómum. Lúsin hefur verið mikið vandamál í norsku laxeldi, en enn sem komið er hefur hún lítt látið á sér kræla á Íslandi.

„Ég tel að líkur á slysasleppingum á laxi séu einnig minni en menn vilja vera láta. Orðið hafa tvær umtalsverðar slysasleppingar á laxi. Í báðum tilvikum slapp laxinn úr sláturkvíum en ekki eldiskvíum. Nú eru flestir hættir að nota sláturkvíar en taka fiskinn beint úr eldiskvíum. Þær eru gríðarlega sterkar og mikið þarf til að þær gefi sig,“ segir Guðmundur.

smari@bb.is

MÍ mætir FG í annarri umferð Gettu betur

Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson, Ína Guðrún Gísladóttir og Veturliði Snær Gylfason klár í slaginn

Í kvöld hefst önnur umferð spurningakeppninnar Gettu betur á Rás2. Fyrir helgi var dregið í 16 liða úrslitum og lá þá fyrir að lið Menntaskólans á Ísafirði myndi mæta liði Fjölbrautaskólans í Garðabæ í keppninni annað kvöld í annarri viðureign kvöldsins, en 8 lið keppa í fjórum viðureignum hvort kvöldið. Keppnin hefst á Rás2 klukkan 19:25.

Menntaskólinn á Ísafirði reið á vaðið í keppninni þar sem skólinn mætti Verkmenntaskóla Austurlands og vann MÍ þar öruggan sigur 24-18, stigafjöldi VA dugði þeim þó til að komast í aðra umferð keppninnar. FG tapaði einnig sinni lotu á móti Flensborg, en liðið var með 21 stig sem tryggði þeim áframhaldandi keppni.

Í keppnisliði Menntaskólans á Ísafirði eru þau: Ína Guðrún Gísladóttir, Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson og Veturliði Snær Gylfason og þjálfari liðsins er Ingunn Rós Kristjánsdóttir, málfinnur skólans.

annska@bb.is

Markmiðið að greina sveitarstjórnarstigið

Fyrsti fundurinn var á Hólmavík.

Fundarferð verkefnisstjórnar um greiningu og endurbætur á sveitarstjórnarstiginu er hafin, en fyrsti fundurinn var haldinn á Hólmavík nýverið. Verkefnisstjórnin hefur að markmiði að greina sveitarstjórnarstigið og skilgreina tækifæri og leiðir til að styrkja það. Áhersla er lögð á samráð og samvinnu við fulltrúa sveitarstjórna og samtök sveitarfélaga, en henni til aðstoðar er tuttugu manna hópur sem samanstendur af fulltrúum sem voru sérstaklega kjörnir af landshlutasamtökum, úr ungmennaráðum og úr háskólasamfélaginu auk ýmissa sérfræðinga. Einnig er lögð áhersla á samstarf við íbúa og þegar hefur verið framkvæmd rannsókn á viðhorfum íbúa sveitarfélaga og upplifun þeirra, viðhorf og væntingar sérstaklega höfð að leiðarljósi. Ráðgert er að verkefnið verði kynnt á þingi Sambands íslenskra sveitarfélaga nú í lok mars.

smari@bb.is

Dagur leikskólans í dag

Frá leikskólanum Sólborg á Ísafirði.

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins og er þetta í tíunda sinn sem haldið er upp á daginn. 6.febrúar er merkur dagur í leikskólasögunni hér á landi, því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Út um allt land er haldið upp á daginn með einhverjum hætti, margir leikskólar hafa opið hús og eða vekja athygli á starfi sínu með einum eða öðrum hætti. Hægt er að skoða og setja inn myndir á viðburðasíðu Dags leikskólans á Facebook, myllumerkið er #dagurleikskolans2017.

Samstarfshópur um Dag leikskólans efnir til hátíðarhalda í leikskólanum Hofi við Gullteig í Reykjavík klukkan 13:30. Þar mun Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenda hvatningarverðlaunin Orðsporið, sem veitt hafa verið þeim sem hefur þótt skara fram úr í að efla orðspor leikskólans og eða hefur unnið ötullega í þágu leikskóla. Orðsporið var fyrst veitt árið 2013 og þá fékk Súðavíkurhreppur það fyrir að veita gjaldfrjálsan leikskóla í sveitarfélaginu.

annska@bb.is

Engir samningafundir boðaðir

Ekki er útlit fyrir að samninganefndir sjómanna og útvegsmanna setjist að samningaborðinu á næstunni. Deiluaðilar hittust á fundi hjá Ríkissáttasemjarar á föstudag og í þeirri stöðu sem deilan er í dag er ekki líklegt að samninganefndir hittist aftur fyrr en eftir tæpar tvær vikur, en eins og kunnugt er ber ríkissáttasemjara að boða aðila deilunnar til sáttafundar innan tveggja vikna frá því síðast var funda.

Ákall um ríkisvaldið beiti sér í deilunni verður sífellt háværara. Stjórnmálamenn hafa ekki viljað segja beint út að þeir styðji lagasetningu á verkfallið. Í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins að hann væri ekki talsmaður lagasetningar á deiluna en hins vegar vildi hann ekki útiloka að ríkisvaldið grípi inn í með einhverjum öðrum hætti en lagasetningu. „Stjórnvöld geta ekki látið þessa auðlind þjóðarinnar liggja óbætta hjá garði. Það er bara óraunsæi og ég veit svo sem ekki hvern menn eru að blekkja með því ef þeir eru að halda því fram að það sé hægt eða að staðhæfa það að það verði ekki undir neinum kringumstæðum gripið inn í þessa kjaradeilu,“ sagði Páll í morgun.

smari@bb.is

Hvasst í veðri í vikunni

Það verður allvíða hvassviðri eða stormur næstu daga er fram kemur í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Vindur verður austanstæður í dag, en síðan verða sunnan- og suðaustanáttir ríkjandi með miklu vatnsveðri sunnanlands en mildu veðri. Það nær líklega ekki að lægja og rofa til að ráði fyrr en í lok vikunnar. Það lítur samt ekki út fyrir neina lognmollu næstu helgi því þá kemur önnur bylgja og jafnvel að það endi svo með útsynningi og éljaklökkum ef að líkum lætur.

Spáin fyrir Vestfirði kveður á um vaxandi austanátt og það þykknar upp, 15-20 m/s seint í dag og lítilsháttar rigning. Það léttir til í nótt, en vindur verður suðlægari á morgun og þykknar aftur upp, 18-23 m/s annað kvöld. Hiti á bilinu 2 til 7 stig.

Flughálka er á Hálfdán, Mikladal og Kleifarheiði annars er hálka eða hálkublettir á Vestfjörðum og snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði.

annska@bb.is

Fengu blóðtökustól að gjöf

Rósa Kolbrún Ástvaldsdóttir vígir stólinn. Mynd af Fésbókarsíðu HVEST á Patreksfirði

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði fékk á dögunum blóðtökustól að gjöf frá Lionsklúbbi Patreksfjarðar og Kvenfélagsins Sifjar. Gjöfin kemur skjólstæðingum stofnunarinnar að góðum notum og  á meðfylgjandi mynd má sjá er Rósa Kolbrún Ástvaldsdóttir vígði stólinn. Heilbrigðisstofnuninni berast reglulega góðar gjafir, líkt og hjúkrunarrúmið sem Stöndum saman Vestfirðir færði henni fyrir skemmstu og fjallað var um. Þá færði Vélsmiðjan Logi stofnunni vatnsvél. Á síðasta ári fékk HVEST á Patreksfirði einnig seglalyftara frá kvenfélögunum á Suðurfjörðum, Lionsmenn á Patreksfirði voru þá einnig örlátir við stofnunina og gáfu loftdýnu og Slysavarnafélagið Unnur á Patreksfirði gaf sogtæki.

annska@bb.is

Nýskráningum og gjaldþrotum fjölgar

Ný­skrán­ing­ar einka­hluta­fé­laga í des­em­ber voru 200 en á síðasta ári fjölgaði ný­skrán­ing­um einka­hluta­fé­laga um 13% milli ára. Alls voru 2.666 ný einka­hluta­fé­lög skráð á ár­inu, borið sam­an við 2.368 árið 2015. Hlut­falls­leg fjölg­un ný­skrán­inga var mest í leigu­starf­semi og ým­issi sér­hæfðri þjón­ustu, þar sem þeim fjölgaði úr 176 í 272, eða um 55% frá fyrra ári. Einnig má nefna að ný­skrán­ing­um í flutn­ing­um og geymslu fjölgaði árið 2016 úr 46 í 60 eða um 30%. Ný­skrán­ing­um fækkaði í rekstri gisti­staða og veiting­a­rekstri um 5% frá fyrra ári, þ.e. úr 169 í 161.

Í des­em­ber 2016 voru 29 fyr­ir­tæki tek­in til gjaldþrota­skipta. Gjaldþrota­beiðnum fyr­ir­tækja árið 2016 fjölgaði um 75% frá fyrra ári. Alls voru 1.027 fyr­ir­tæki tek­in til gjaldþrota­skipta á ár­inu, borið sam­an við 588 árið 2015. Á vef Hagstofunnar segir um fjölgun gjaldþrota: „Í þessu sam­hengi má nefna að vegna verk­falls lög­fræðinga sem stóð frá apríl til des­em­ber 2015 má vera að ein­hver hluti þeirra gjaldþrota sem skráð voru árið 2016 hafi í raun átt sér stað 2015, en erfitt er að leggja mat á hversu stór part­ur af aukn­ing­unni milli ára ligg­ur í þeirri skýr­ingu.“

smari@bb.is

Framtíðarsýn í sundlaugarmálum Ísfirðinga

Gauti Geirsson

Þrátt fyrir ágætar og margar hverjar snjallar niðurstöður arkitektasamkeppni um lausnir tengdar Sundhöll Ísafjarðar er ennþá aðalspurningunni ósvarað í sambandi við sundlaugarmál Ísfirðinga, hver er framtíðarsýnin? Fyrir liggur þverpólitískt ferli frá síðasta kjörtímabili um uppbyggingu íþróttamannvirkja en ef það er ekki vilji til þess að vinna eftir því, hefði farið vel á að vinna betur í framtíðarsýninni áður en lagst var í dýra arkitektasamkeppni. Tilvalið hefði verið að halda íbúafundi, tala við íþróttahreyfinguna og skapa einhverskonar sameiginlega sýn eða sátt um málið. Ég held að sterk viðbrögð við tillögunum þessa dagana endurspegli það samráðsleysi sem liggur að baki vinnunni.

Úrelt aðstaða

Það var nefnilega trú á framtíðinni og staðnum sem réð ríkjum þegar ákveðið var að ráðast í byggingu á Sundhöll Ísafjarðar fyrir rúmum 70 árum. Það var hvorki ódýrt né létt verk en með samvinnu lögðust bæjarbúar og ýmiskonar félög á árarnar og unnu saman að því að reisa þessa glæsilegu byggingu. Tíminn líður hins vegar og aðstaðan er orðin algjörlega úrelt. Fyrir liggur að bæði er ákall um að fá fullnægjandi aðstöðu til sundiðkunar, æfingar-og keppnisaðstöðu með 25 metra laug með flötum bökkum sem er lágmarkskrafa sundfólks í dag og hins vegar að fá útiaðstöðu með heitum pottum. Niðurstöður arkitektasamkeppninnar uppfylla aðeins annað af þessum skilyrðum sem er bagalegt, sérstaklega þar sem það mun kosta rúmlega hálfan milljarð sem óneitanlega seinkar frekari framkvæmdum á sundaðstöðu í bænum.

Í umræðum um málið virðast margir tengja fyrirhugaðar framkvæmdir við að halda lífi í Sundhöll Ísafjarðar. Sundhöllin mun hins vegar áfram verða glæsileg bygging þrátt fyrir að sundlauginni yrði lokað. Í húsnæðinu er starfrækt dægradvöl, félagsmiðstöð, íþróttahús, skrifstofur auk þess sem vel er hægt að finna sundlaugarrýminu nýtt hlutverk. Það hefur tekist vel á Ísafirði að finna gömlum húsum ný hlutverk og ætti það áfram að heppnast vel.

Horft til framtíðar

Ég er algjörlega sammála þeim sem hafa lýst því yfir að Torfnes komi helst til greina fyrir sundlaugarmannvirki í Skutulsfirði. Á Torfnesi eru til drög að 25 metra sundlaug á milli íþróttahússins og grasvallarins. Ég vil benda á að á Hólmavík (sem er á köldu svæði) og Tálknafirði eru 25 metra sundlaugar en engin á norðanverðum Vestfjörðum. Sundiðkendur fengju löglega aðstöðu til móta og æfinga og opnunartími myndi stóraukast enda þyrfti ekki að loka lauginni á meðan æfingar fara fram. Aðgengi er gott, staðsetningin er frábær, íþróttahúsið myndar gott skjól fyrir innlögninni og þar er sólríkt. Það sýndi sig vel á 150 ára afmæli Ísafjarðar í sumar þegar afmælisgestir flatmöguðu í sólinni. Staðsetningin er í reynd svo góð að mínir góðu vinir, Gísli Halldór bæjarstjóri og Gerður ákvaðu meira segja að kaupa sér hús þarna rétt fyrir ofan fyrir ekki alls löngu. Þarna yrði skemmtilegt útisvæði með heitum pottum sem gæti verið fyrsti áfangi í verkinu. Í framhaldinu væri hægt að útfæra líkamsræktaraðstöðu við anddyri íþróttahússins með útsýni yfir Pollinn. Aukinn ferðamannastraumur bæði á sumrin og veturna kallar einnig á aðlaðandi sundaðstöðu sem dregur til sín fólk fyrir utan að raunveruleg sundmenning gæti skapast á Ísafirði. Þetta verkefni er stórhuga langtímaverkefni en með því að skipta því niður í viðráðanlega bita yrði bærinn, með nútíma sund og líkamsræktaraðstöðu, mun samkeppnishæfari í að laða til sín ungt fólk.

Ég kalla eftir því sem framtíðaríbúi Ísafjarðar að eftir erfið ár sem bærinn okkar hefur gengið í gegnum að nú þegar allt er að hjarna við, leyfum við okkur að hugsa til lengri tíma. Ég skora á bæjarstjórnina að taka til greina mismunandi sjónarmið í þessu máli, staldra við og vinna í átt að betri lausn með bæjarbúum.

Gauti Geirsson, sundáhugamaður og nemi

Nýjustu fréttir