Laugardagur 3. maí 2025
Heim Blogg Síða 2339

Notkun bílbelta verulega ábótavant

 

Ferðamönnum sem aka um Ísland hefur stórfjölgað og samfara því hefur fjöldi umferðarslysa þeirra margfaldast. Samkvæmt upplýsingum Samtaka ferðaþjónustunnar er fjölgun ferðamanna á Íslandi áætluð 20- 25% á ári. Í nýlegum skýrslum Rannsóknarnefndar samgönguslysa á tveimur banaslysum erlendra ferðamanna 2015 kemur í ljós að bílbelti voru ekki notuð. Í einu af þeim slysum sem átti sér stað 30. ágúst 2015 var límmiði í bílnum á hanskahólfinu þar sem bent var á mikilvægi þess að spenna bílbeltin. Konan sem lést var beltislaus farþegi í aftursæti.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa á 16 banaslysum í umferðinni 2015 kemur meðal annars fram að í fimm þessara slysa létust erlendir ferðamenn og líkt og fyrri ár var áberandi hve bílbeltanotkun er ábótavant meðal þeirra. Að mati Rannsóknarnefndarinnar þurfa viðvörunarlímmiðar að vera stærri og helst einnig sýnilegir farþegum í aftursæti. Notkun bílbelta í aftursæti er verulega ábótavant í slysum ferðamanna sem neffndin hefur rannsakað.

Auglýsing

Matthías með sigurmarkið

Ísfirski knatt­spyrnumaður­inn Matth­ías Vil­hjálms­son skoraði sig­ur­mark norska liðsins Rosen­borg sem vann finnska liðið HJK Hels­inki í æf­inga­móti á Marbella í gær þar sem loka­töl­ur urðu 2:1. Matth­ías var í byrj­un­arliðinu hjá Rosen­borg og skoraði sig­ur­markið þegar komið var í upp­bót­ar­tíma.

FH, fyrr­ver­andi fé­lag Matth­ías­ar, leik­ur einnig á mót­inu en liðin mæt­ast á sunnu­dag­inn. Þar gæti danski sókn­ar­maður­inn Nicklas Bend­tner leikið sinn fyrsta leik eft­ir að hann gekk í raðir Rosen­borg eftir skrautlega feril á Englandi, Ítalíu og Þýskalandi.

Auglýsing

Bætir í vind seinnipartinn

Norðaustanáttin hefur ráðið ríkjum alla vikuna á Vestfjörðum og verður svo áfram í dag með vindhraða 5-13 m/s fyrripart dags en 10-18 m/s síðdegis. Það verður skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Það verður rigning eða slydda í nótt en snýst í suðaustan 5-10 m/s í fyrramálið og þá styttir að mestu upp. Hiti verður á bilinu 0 til 4 stig. Á sunnudag gerir Veðurstofa Íslands ráð fyrir suðlægri eða breytilegri átt á landinu, 5-10 m/s. Víða verður rigning eða slydda um morguninn en úrkomulítið á Norður- og Vesturlandi síðdegis. Hiti verður 0 til 5 stig að deginum.

Í dag er búist við stormi á landinu sunnanverðu og búast má við snörpum vindhviðum við fjöll við suðurströndina, undir Eyjafjöllum, í Öræfum og einnig á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Vindhviður gætu farið upp í allt að 35 m/s SV-til en 40 m/s seint í dag og í kvöld með suður og suðausturströndinni.

Á Vestfjörðum eru víða aðeins hálkublettir eða alveg autt á láglendi en hálka eða snjóþekja á fjallvegum og einhver skafrenningur.

annska@bb.is

Auglýsing

Mottudagurinn í dag

Í dag er Mottudagurinn og hvetur Krabbameinsfélagið alla landsmenn, konur og karla, til að halda upp á hann með því að leyfa karlmennskunni að skína sem aldrei fyrr. Mottumars er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum í körlum. Markmið átaksins í ár er að auka þekkingu á skaðsemi tóbaksnotkunar og hvetja þá karla sem nota tóbak að hætta. Á Mottudaginn fær karlmennskan að njóta sín. Í fréttatilkynningu Krabbameinsfélagsins um Mottudaginn segir að það sé kjörið að leyfa ímyndunaraflinu að ráða för og skarta öllu mögulegu tengdu karlmanninum, fatnaði, höfuðfötum, gerviskeggi og þar fram eftir götunum – og fá sem flesta í lið með sér. Krabbameinsfélagið hvetur hópa til að gera eitthvað skemmtilegt saman, smella af því myndum og senda á mottumars@krabb.is eða setja á Facebooksíðu átaksins.

Hjá Krabbameinsfélaginu er hægt að fá ýmislegt sem fólk getur notað til að skreyta sig á Mottudaginn. Mottuvarninginn má kaupa í netverslun Krabbameinsfélagsins, en einnig má koma við hjá þeim í höfuðstöðvum þeirra í borginni í Skógarhlíð 8 frá 8:30-16:00. Til að styrkja átakið má senda sms-ið MOTTA í símanúmerið 1900 og er þá Krabbameinsfélagið styrkt um 1900 krónur.

Þriðjudaginn 14. mars næstkomandi stendur Embætti landlæknis ásamt Læknafélagi Íslands, Háskóla Íslands og Krabbameinsfélaginu fyrir málþingi um tóbaksvarnir sem ber yfirskriftina „Hættu nú alveg!“

Auglýsing

Skoði samstarf í sorpmálum

Umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt tillögu fulltrúa sjálfstæðismanna í nefndinni um að leita eftir samstarfi við Súðavíkurhrepp og Bolungarvíkurkaupstað um sorpmál. Ísafjarðarbær hefur unnið að næsta útboði í sorpmálum og tillagan gerir ráð fyrir að sú vinna verði lögð í salt á meðan rætt er við nágrannasveitarfélögin. „Það gefur auga leið að um sameiginlegt hagsmunamál allra sveitarfélaganna er að ræða, bæði kostnaðarlega og umhverfislega. Við leggjum til að skipuð verði nefnd með fulltrúum allra sveitarfélaganna hið fyrsta og unnið verði hratt og vel í undirbúningi að sameiginlegu útboði í sorpmálum,“ segir í tillögunni.

Nefndin leggur til við bæjarráð að skipuð verði nefnd um útboð á sorpmálum sveitarfélaganna með fulltrúum Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkurkaupstaðar og Súðavíkurhrepps.

Auglýsing

Leggur til sölu ríkiseigna til að fjármagna vegakerfið

Teitur Björn Einarsson.

Verulegur gæti náðst í uppbyggingu samgönguinnviða á næstu tveimur til fjórum árum, m.a. með sölu ríkiseigna. Þetta segir Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, í grein á Vísi. Teitur Björn skrifar meðal annars: „Hátt í 500 milljarðar af fé ríkisins er bundið í eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Með vandaðri og skipulagðri sölu á stórum hluta þeirra eigna má losa um mikið fé til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og spara þannig tugi milljarða á ári hverju í vaxtagreiðslur. Þannig skapast alvöru svigrúm til að styrkja grunnþjónustuna og byggja upp innviði.
Teitur nefnir fleiri dæmi um rekstur sem hann telur að ríkið gæti losað sig úr. „Til dæmis verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem varla getur talist til grunnþjónustu af hálfu ríkisins og einnig gætu allt að sex milljarðar áunnist með því að selja eignir ÁTVR.“

Að sögn Teits er ljóst að sumar þessara hugmynda þykja umdeildar og ólíklegt að hægt verði að losa um allar þessar eignir og draga úr umsvifum á skömmum tíma. „En með einhverjum hætti verður að stíga skrefi framar, og það fljótt, ef raunverulegur vilji er hjá þingheimi og ríkisstjórn að ráðast af krafti í nauðsynlegar samgönguumbætur. Tillögur um að draga úr umsvifum ríkisins í minna mikilvægum verkefnum, greiða niður skuldir til að spara vaxtagreiðslur og fjárfesta þess í stað í samgönguinnviðum eru einfaldlega valkostir í stöðunni sem nauðsynlegt er að horfa til,“ skrifar þingmaðurinn.

Auglýsing

Tvíhöfði á Torfnesi

Meistaraflokkur Vestra. Mynd: Ágúst Atlason.

Um helgina verða leiknir síðustu leikir Vestra í 1. deild Íslandsmótsins í körfubolta þetta tímabilið. Tveir leikir – svokallaður tvíhöfði – fara fram í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði og Valsmenn eru andstæðingarnir í báðum leikjum. Fyrri leikurinn er í kvöld kl. 19:15 og sá síðari á morgun laugardag kl. 16:00. Aðgangseyri er sem fyrr stillt í hóf en aðeins 1.000 krónur kostar á leikinn. Þá verða hinir rómuðu Vestraborgarar á grillinu á föstudagskvöldið.

Þótt sæti í úrslitakeppninni hafi runnið úr greipum Vestramanna eru þeir staðráðnir í að ljúka mótinu með stæl og stóla á stuðning heimamanna og hvetja alla til að mæta á leikina.

Auglýsing

Ferðamenn fjármagni uppbyggingu í vegakerfinu

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra telur að leita þurfi leiða til að ferðamenn taki þátt í uppbyggingu vegakerfisins með gjaldtöku. Hann sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær, að hann mæti á ríkisstjórnarfund í dag með betlistaf, en til að uppfylla fyrirheit samgönguáætlunar þarf 10 milljarða kr.

„Þannig að það blasir við mér að ef við ætlum í alvöru að takast á við þetta verkefni, ef við ætlum að stíga alvöru skref og fara inn í þetta á næstu árum svo um muni, þá þurfum við að horfa til annarra leiða,“ sagði Jón.

Verkefnið sem stjórnvöld standa frammi fyrir í samgöngumálum er risavaxið, en sextíu og fimm milljarða króna vantar í viðhald og uppbyggingu vegakerfisins á næstu árum.

Mikil reiði er víða um land eftir að samgönguráðherra skar niður framkvæmdir sem Alþingi hafi samþykkt í samgönguáætlun rétt fyrir kosningar í haust. Niðurskurðurinn kemur til vegna minna fjármagns til samgönguáætlunar í fjárlögum sem Alþingi samþykkti eftir kosningar.

Auglýsing

Listaverkauppboðið mælist vel fyrir

Verk eftir Reyni Torfason er á uppboði Sigurvonar.

Á laugardag býður krabbameinsfélagið Sigurvon til opins húss í húsakynnum sínum við Pollgötu 4 á Ísafirði á milli klukkan 14 og 17. Heitt verður á könnunni og dýrindis kökuhlaðborð sem gestir geta gætt sér á af. Á opna húsinu fer fram kynning á verkunum sem seld verða á listaverkauppboði félagsins sem nú er hafið og stendur út marsmánuð. Á því er að finna átta verk eftir sex vestfirska listamenn þau: Pétur Guðmundsson, Berglindi Höllu Elíasdóttur, Ólafíu Kristjánsdóttur, Ágúst G. Atlason, Reyni Torfason og Marsibil Kristjánsdóttur.

Tinna Hrund Hlynsdóttir sem er í stjórn Sigurvonar segir viðbrögðin við listaverkauppboðinu hafa verið afar góð, en þetta er í fyrsta sinn sem þessi fjáröflunarleið er farin á þeirra vegum. „Viðbrögðin hafa verið mjög góð, bæði frá listafólki og kaupendum. Við lögðum af stað með að bjóða upp fjögur verk en erum nú með átta á uppboðinu. Listafólk hafði samband og vildi fá að taka þátt í þessu með því að gefa til okkar verk, sem er alveg hreint dásamlegt. Eins og staðan er núna er búið að bjóða í fjögur af átta verkum sem verður að teljast góð byrjun og sum verk hafa fengið fleira en eitt boð.“

Einnig er félagið að selja bindisherðatré, sem hönnuð eru af Oddi Andra sem á og rekur verslunina O-design í Bolungarvík. Herðatrén koma í mörgum litum og eru í formi bindis og var upphaflega hugmynd Odds að búa til hlut þar sem hann gæti haft bindin sín öll hangandi á einum stað. Herðatrén má hins vegar hægt að nota þetta í hvað sem er að sögn Tinnu: „Það má til að mynda geyma skartgripi á þeim eða bara hengja uppá vegg sem punt þar sem að þetta er afskaplega falleg hönnun hjá honum.“

Hægt er að skoða verkin sem eru á uppboðinu á fésbókarsíðu Sigurvonar. Bjóða má í verkin þar í skilaboðum eða með því að senda tölvupóst á sigurvon@snerpa.is

Auglýsing

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgar

Tilkynningum til Barnaverndarstofu hefur fjölgað.

Tilkynningum til barnaverndarnefnda á landinu fjölgaði um 9,1% á árinu 2016 miðað árið á undan, en alls bárust 9.310 tilkynningar er fram kemur í nýbirtu talnaefni Barnaverndarstofu. Aðeins einu sinni í sögu barnaverndar hér á landi hafa tilkynningar verið fleiri en það var í kjölfar bankahrunsins árið 2009 er 9.353 tilkynningar bárust. Tilkynningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 5,9%, en á landsbyggðinni um 17% miðað við 2015. Tilkynningar til barnaverndarnefndar verða að barnaverndarmáli ef tekin er ákvörðun um könnun máls í kjölfar tilkynningarinnar.

Flestar tilkynningar á árinu 2016 voru vegna vanrækslu líkt og árin á undan en hlutfall tilkynninga vegna vanrækslu var 39,5%. Tilkynningum um áhættuhegðun fækkar milli ára, en tilkynningum um ofbeldi fjölgar, mest vegna heimilisofbeldis. Flestar tilkynningar bárust barnaverndarnefndum frá lögreglu, eða 43,8% tilkynninga á árinu 2016, hlutfallið var 44,7% árið á undan og 44,2% á árinu 2014.

Meira um skýrslu Barnaverndarstofu má lesa hér.

Auglýsing

Nýjustu fréttir