Miðvikudagur 9. apríl 2025
Síða 2338

Hæpið að tala um lélega kjörsókn sjómanna

Þátttaka í atkvæðagreiðslu sjómanna um kjarasamningin getur ekki talist lág að mati Sjómannasambands Íslands. Eftir atkvæðagreiðslu um kjarasamning sjómanna og útvegsmanna hefur verið nokkur umræða um þátttökuna í atkvæðagreiðslunni og því haldið fram að þátttakan hafi verið léleg þar sem 53,7% þeirra sem voru á kjörskrá tók þátt í kosningunni. Tíminn sem menn höfðu til að greiða atkvæði var stuttur, en sjómenn voru í verkfalli og því flestir tiltækir enda gat deilan leysts með stuttum fyrirvara.

Að mati Sjómannasambands Íslands er hæpið að tala um lélega kjörsókn í atkvæðagreiðslunni þegar kjörsókn er borin saman við fyrri atkvæðagreiðslur.

Áður en sjómenn samþykktu kjarasamninginn höfðu þeir tvívegis fellt samninga. Í ágúst lauk mánaðarlangri atkvæðagreiðslu um kjarasamning sem var undirritaður í júní. Kjörsókn var 38,5% og sjómenn felldu samninginn með 66% atkvæða.

Atkvæðagreiðsla um verkfall var mánaðarlöng og lauk þann 17. október með 54,2% þátttöku og var verkfall samþykkt með miklum meirihluta atkvæða.

Þann 14 nóvember var undirritaður annar kjarasamningur og atkvæðagreiðslu sjómanna lauk með 60,4% þátttöku þar sem samningarnir voru felldir.

Að framansögðu segir Sjómannasambandið að það teljist hæpið að tala um dræma þátttöku í atkvæðagreiðslu sjómanna um helgina.

smari@bb.is

Málþing um menningartengda ferðaþjónustu á Hólmavík

Náttúrubarnaskólinn er meðal þess sem fjallað verður um á málþinginu. Mynd af Fésbókarsíðu skólans.

Málþing um menningartengda ferðaþjónustu verður haldið á Restaurant Galdri á Hólmavík á morgun, fimmtudag. Á málþinginu láta bæði heimamenn á Ströndum og nemendur í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands ljós sitt skína og segja frá margvíslegum verkefnum. Málþingið er haldið í tengslum við heimsókn háskólanema í námskeiðinu Menningartengd ferðaþjónusta, en þeir dvelja tvær nætur á Ströndum, þar sem þeir skoða sig um, heimsækja söfn, sýningar og sögustaði.

Meðal fyrirlesara á málþinginu eru Skúli Gautason menningarfulltrúi Vestfjarða sem fjallar um uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu á Vestfjörðum, Esther Ösp Valdimarsdóttir mannfræðingur og tómstundafulltrúi Strandabyggðar sem fjallar um bæjarhátíðina Hamingjudaga og fleiri hátíðahöld í Strandabyggð, Hafdís Sturlaugsdóttir landnýtingarfræðingur sem fjallar um menningarverkefni á vegum Náttúrustofu Vestfjarða og Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur sem fjallar um Náttúrubarnaskólann. Einnig flytja nemendur í hagnýtri menningarmiðlun fjórar kynningar á verkefnum sem þeir hafa unnið í tengslum við námskeiðið syðra. Málþingið er opið öllum sem áhuga hafa, það hefst klukkan 12:10 og verður súpa frá Restaurant Galdri á boðstólum.

Það er Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa sem stendur fyrir móttöku hópsins og málþinginu í samvinnu við Strandagaldur og Sauðfjársetur á Ströndum. Frá þessu var greint á Strandavefnum.

annska@bb.is

Um fiskeldi – meiri hagsmunir fyrir minni sérhagsmuni.

Magnús Reynir Guðmundsson

Síðustu ár hefur fiskeldi á suðursvæði Vestfjarða vakið verðskuldaða athygli.Bjartsýni íbúa á þessu svæði hefur aukist og íbúar annarra svæða á Vestfjörðum hafa fylgst með áformum um frekara fiskeldi, m.a. í Ísafjarðardjúpi.

Enginn vafi  virðist vera á því að fiskeldi í stórum stíl geti haft mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun á Vestfjörðum. Strandlengja Vestfjarða er u.þ.b. 1/3 hluti af strandlengju Íslands, tæplega 2.000 km. af  6.000 km. Vestfirðingar hafa gert sér grein fyrir þeim miklu möguleikum sem firðir þeirra og flóar geta haft í framtíðinni, m.a. í fiskeldi og ferðamennsku. Sveitarstjórnir á Vestfjörðum og víðar um land hafa þó bent á, að úthlutun þessara gæða er ekki í  þeirra höndum, heldur hjá ríkisstofnunum suður í Reykjavík. Þessu þarf að sjálfsögðu að breyta þannig, að sveitarstjórnirnar fái skipulagsvald og úthlutunarrétt  gæðanna, sem liggja við bæjardyrnar. Ekki er verið að krefjast þess að faglega hliðin, t.d. varðandi fiskeldið, verði ekki háð almennum landslögum hvað varðar umhverfi og eftirlit, en ráðstöfunarréttur verði alfarið í höndum heimafólks í gegnum sveitarstjórnir sínar.

Töluvert hefur borið á því að sjálfskipaðir sérfræðingar á borð við Orra nokkurn Vigfússon, sem virðist hafa það sem aðaláhugamál þessi misserin að koma íslenskum bújörðum í hendur breskra auðkífinga, reki skefjalausan áróður gegn fiskeldi á Vestfjörðum og þar með gegn atvinnuuppbyggingu og jákvæðri þróun byggðar á svæðinu. Þingmenn Norðvesturkjördæmis og sveitarstjórnarfólk á Vestfjörðum verða nú að taka höndum saman og verjast óvinum landsbyggðarinnar á borð við Orra Vigfússon, „landsölumanninn“ sem kemur nú hverri  laxveiðiánni á fætur annarri í hendur breskra milljarðamæringa.

Magnús Reynir Guðmundsson

Framtíð Act alone í hættu

Frá Act alone síðasta sumar er Elfar Logi Hannesson og Þröstur Leó Gunnarsson kynntu einleik sinn um einbúann Gísla á Uppsölum

Ef ekki kemur til aukins fjármagns til einleikjahátíðarinnar Act alone getur svo farið að hátíðin leggist af. Þetta kemur fram í bréfi Elfars Loga Hannessonar sem dregið hefur vagn hátíðarinnar sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í vikunni. Þar segir Elfar Logi reksturinn í járnum og allt benda til þess að dagar hátíðarinnar séu taldir. Hátíðin var haldin í þrettánda sinn síðasta sumar og segir Elfar Logi að þó hátíðin sé kominn á táningsaldur hafi fjármögnun hennar gengið erfiðlega. Segir hann jafnframt sárast að Menningarmálaráðuneytið hafi einungis styrkt hátíðina einu sinni, en það hafi á sama tíma styrkt aðrar listahátíðir á höfuðborgarsvæðinu og segir Elfar Logi vandamálið í raun risavaxið þar sem staða atvinnulistar á landsbyggðinni sé mjög bágborinn og njóti ekki skilnings innan ráðuneytisins og spyr hann hvort þetta sú byggðastefna sem við viljum viðhafa? Að hafa listalausa landsbyggð? Stjórnendur Act alone hafa óskað eftir fundi með Menningarmálaráðherra, en ekki borist svar við beiðninni.

Í bréfinu segir nú svo komið að Act alone verði ekki haldin nema fjárhagur þessi verði tryggður. Aðstandendur hafa rætt þann möguleika að færa hátíðina annað, fáist þar fjármagn, en segja jafnframt að þeir trúi að hátíðin skipti máli, ekki bara fyrir Vestfirði heldur og listalíf allt. Líkt og þeir vita sem sótt hafa hátíðina hefur mikill metnaður verið lagður í hana og hefur hún sett sterkan svip á menningarlíf á Vestfjörðum.

Í bréfinu leitar Act alone til Ísafjarðarbæjar um aukin fjárframlög með það fyrir augum að halda megi hátíðina í sumar líkt og síðustu sumur í sveitarfélaginu, en hún var fyrstu árin haldin á Ísafirði, en síðustu ár hefur hún verið haldin á Suðureyri. Bæjarráð fól bæjarstjóra að ræða við forsvarsmenn Act Alone um endurnýjun samnings vegna hátíðarinnar, en síðustu tvö ár hefur hátíðin hlotið 500.000.- króna styrk hvort ár.

annska@bb.is

Spurt um áhrif fiskeldis á sveitarfélögin

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti hefur sent út spurningarlista um áhrif fiskeldis á sveitarfélögin. Er það liður í stefnumótun stjórnvalda í fiskeldi á Íslandi sem þáverandi sjávarútvegsráðherra boðaði í haust. Starfshópur til að móta stefnuna var skipaður í desember. Liður í stefnumótuninni er að horfa til þess hvernig umfang og þróun fiskeldis hefur áhrif á sveitarfélögin með tilliti til þátta eins og samfélags-, umhverfis- og skipulagsmála, byggðaþróunar, tekna og gjalda svo fátt eitt sé nefnt.

Þegar skipun starfshópsins var tilkynnt var tekið fram að stefnumótun í fiskeldi væri sérstaklega brýn vegna hins hraða vaxtar greinarinnar. Í henni þarf m.a. að horfa til stjórnsýslu og rannsókna, almennra starfsskilyrða greinarinnar, umhverfismála, hættu á erfðablöndun við villta stofna, sjúkdóma og sníkjudýra,  menntunarmála, gjaldtöku, markaðsmála og efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið.

Í starfshópnum eru:

Bald­ur P. Erl­ings­son formaður, skipaður af at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyti

Sig­ur­björg Sæ­munds­dótt­ir, til­nefnd af um­hverf­is- og auðlindaráðuneyti

Guðmund­ur Gísla­son, til­nefnd­ur af Lands­sam­bandi fisk­eld­is­stöðva

Kjart­an Ólafs­son, til­nefnd­ur af Lands­sam­bandi fisk­eld­is­stöðva

Óðinn Sigþórs­son, til­nefnd­ur af Lands­sam­bandi veiðifé­laga

Bryn­dís Björns­dótt­ir, til­nefnd af at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyti

Vinnu starfshópsins á að ljúka eigi síðar en 30. júní 2017 en bæjarráð Ísafjarðar tók fyrir spuningalista starfshópsins á fundi bæjarráðs í vikunni.

smari@bb.is

Éljagangur í dag

Veður á Vestfjörðum hefur verið sérlega gott það sem af er febrúarmánuði og með slíkum hætti að íbúum bregður í brún að ganga um marauðar götur dag eftir dag, og ekki sé nú talað um að hafa á stundum geta keyrt um snjólausar heiðar. Veðrið verður ekki til vandræða í dag og á morgun er Veðurstofa Íslands spáir suðaustan 5-10 m/s og éljum og hægviðri lengst af á morgun. Ekki verður allt autt þó og frost verður á bilinu 0 til 4 stig. Á föstudag má búast við vaxandi suðaustanátt og éljum á landinu, en þurru og björtu fram eftir degi norðanlands. Þá hlýnar í veðri og má búast við suðaustan stormur og talsverð rigning eða slydda um kvöldið, en snjókoma til landsins.

Á Vestfjörðum er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum.  Þungfært er úr Bjarnarfirði á Ströndum norður í Árneshrepp.

annska@bb.is

Arnarlax metið á 16 milljarða

Trygg­inga­miðstöðin hf. hef­ur selt 3,0% hlut í Kvit­hol­men, sem á 100% eign­ar­hlut í fisk­eld­is­fyr­ir­tæk­inu Arn­ar­laxi hf., fyr­ir 35,7 millj­ón­ir norskra króna eða því sem nem­ur 473 millj­ón­um króna. TM átti fyr­ir viðskipt­in 7,4% eign­ar­hlut í Kvit­hol­men og því jafn­gilda þessi viðskipti að eign­ar­hlut­ur TM sé met­inn á 89,1 millj­ón norskra króna eða 1.177 millj­ón­ir króna. Sé miðað við kaupverðið má áætla að Arnarlax sé metið á hátt í 16 milljarða króna. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins standa að baki kaupunum nokkrir norskir fagfjárfestar.

Arnarlax hefur verið í miklum vexti frá því fyrirtækið var stofnað á Bíldudal árið 2009 og í fyrra eignaðist fyrirtækið Fjarðalax hf. samhliða því sem norska stórfyrirtækið Salmar varð kjölfestufjárfestir í fyrirtækinu.

smari@bb.is

 

Veittist að lögreglumönnum

Í dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að aðfaranótt 19. febrúar var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna nokkurra gesta á vínveitingastað á Ísafirði sem dyraverðir áttu í erfiðleikum með. Einn gestanna, áberandi ölvaður, var handtekinn eftir að hafa veist að lögreglumönnum sem komu til aðstoðar dyravörðum. Sá hinn sami var vistaður í fangaklefa og látinn sofa úr sér áfengisvímuna. Málið er til skoðunar hjá lögreglu.

Tuttugu og fimm ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir voru stöðvaðir í Ísafjarðardjúpi en einnig í Strandasýslu og í Vesturbyggð. Sá sem hraðast ók var mældur á 127 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.

Af og til hefur það gerst að ökumenn sem lögreglan stöðvar eru ekki með ökuskírteini á sér. Lögreglan bendir á að heilög skylda hvílir á ökumönnum að hafa slík skilríki á sér við akstur og framvísa við lögreglu sé þess óskað. Sekt liggur við. Ökumenn eru hvattir til að gæta vel að þessum.

Einn ökumaður var kærður í vikunni fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu á gatnamótum einum á Ísafirði.

Um miðjan dag þann 19. febrúar barst tilkynning um ammoníakslykt frá frystigeymslu einni á Ísafirði. Slökkvilið var kallað út ásamt starfsmönnum viðkomandi fyrirtækis. Greiðlega tókst að loka fyrir lekann. Ekkert tjón eða skaði varð af þessu.

smari@bb.is

Mættu til guðsþjónustu í þjóðbúningum

Það voru prúðbúnir kirkjugestir í Hólskirkju á sunnudag. Mynd: Bjarni Benediktsson.

Á konudaginn síðasta sunnudag fór fram guðsþjónusta í Hólskirkju í Bolungarvík og í tilefni dagsins og upphafs góu voru kirkjugestir hvattir til að mæta í þjóðbúningum í messuna þar sem séra Ásta Ingibjörg Pétursdóttir sóknarprestur predikaði. Bolvískar konur brugðust vel við kallinu og mættu margar í sínu fínasta pússi; í upphlutum, peysufötum og jafnvel faldbúningi. Að guðsþjónustu lokinni var svo þjóðlegt kaffi í safnaðarheimilinu hjá kvenfélaginu Brautinni í Bolungarvík sem kirkjugestir sóttu.

annska@bb.is

Stefnumótun í fiskeldi

Frá kvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði í desember síðastliðinn starfshóp til að móta stefnu stjórnvalda í fiskeldi á Íslandi. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók fyrir bréf frá starfshópnum á fundi sínum í vikunni þar sem óskað var eftir ítarlegum upplýsingum um hvaða áhrif fiskeldi hefur í sveitarfélaginu og á þau verkefni sem falla undir verksvið sveitarfélagsins.

Starfshópurinn óskar eftir upplýsingum um til dæmis hvort fiskeldi hafi áhrif á tekjur og gjöld sveitarfélagsins, hvort ráðist hafi verið í innviðauppbygginu vegna fiskeldisins og hvernig þau hafi verið fjármögnuð. Hvort störfum hjá þjónustustofnunum eða stjórnsýslu hafi fjölgað og hvort þjónustustig við íbúa hafi breyst.

Einnig spyr starfshópurinn um fólksfjölgun/fækkun vegna atvinnugreinarinnar og áhrif á byggðaþróun, hver staða sé á fasteignamarkaði og hvort bregðast þurfi við á þeim vettvangi. Hvort þörf sé á uppbyggingu samgöngumannvirkja og hvort búast megi við áhrifum á aðrar atvinnugreinar.

Óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til laga og reglugerða, aðkomu að umhverfismálum og skoðun á skipulagi haf- og strandsvæða. Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku er bókað í umsögn um matsáætlun Arctic Sea Farm að bæjarstjórn telur að sveitarfélög eigi að hafa skipulagsvald út að 1 sjómílu út fyrir grunnlínu landhelginnar, sömuleiðis kallar bæjarstjórn eftir því að sveitarfélög fái heimildir til gjaldtöku af þeim aðilum sem nýta svæði í strandsjó til fiskeldis.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir