Föstudagur 21. febrúar 2025
Síða 2338

22 ár frá Súðavíkurflóðinu

Björgunarsveitarmenn nærast í frystihúsi Frosta í Súðavík. Mynd: Brynjar Gauti.

Í dag eru 22 ár frá því að snjóflóðið mannskæða féll á Súðavík.  Snjóflóðið, sem var rúmlega 200 metra breitt, féll klukkan 6:25 á miðja byggðina í Súðavík og tók með sér 15 íbúðarhús. Í þeim voru 26 manns og fórust 14 þeirra, þar af átta börn, en 12 manns tókst að bjarga. Húsin sem flóðið féll á stóðu flest utan þeirra marka sem skilgreind voru sem hættusvæði vegna snjóflóða.

Á þessum tíma hafði geysað óveður á Vestfjörðum og var landleiðin milli Ísafjarðar og Súðavíkur ófær sökum snjóa og fjölmargra snjóflóða sem höfðu fallið á veginn um Súðavíkurhlíð. Björgunarlið, læknar, lögreglumenn og sjálfboðaliðar voru því flutt frá Ísafirði og nágrannasveitum sjóleiðis. Djúpbáturinn Fagranes spilaði stóran þátt í því verkefni. Á fjórða hundrað björgunarsveitarmanna af Vestfjörðum og björgunarmenn úr 10 sveitum á SV horni landsins tóku þátt í aðgerðum í Súðavík, en sunnanmenn komu vestur með varðskipi. Þá er ótalinn fjöldi sjálboðaliða frá Súðavík og nágrannabyggðum sem lögðu lið.

smari@bb.is

Hvassviðri eða stormur í dag

Suðvestan 15-23 m/s og él verða á Vestfjörðum í dag, en lítið eitt hægari í kvöld. Það lægir smám saman fram á morgundaginn og undir kvöld á morgun verður suðvestlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og úrkomulítið. Hiti verður um og undir frostmarki. Í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar er varað við að vegir og gangstéttir kunni að vera hál og fólki bent á að fara varlega. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja eru á vegum á Vestfjörðum.

Á morgun lægir víða og léttir til og kólnar, en sunnan úr hafi nálgast kröpp og dýpkandi lægð. Næstu daga er síðan búist við umhleypingum, hvössum vindum og úrkomu í öllum landshlutum.

annska@bb.is

Katrín Björk er Vestfirðingur ársins

Katrín Björk við afhendingu viðurkenningarinnar ásamt Huldu Maríu systur sinni og Maríu dóttir hennar og Bryndísi Sigurðardóttir ritstjóra bb.is

 

Katrín Björk Guðjónsdóttir er Vestfirðingur ársins árið 2016 að mati lesenda Bæjarins besta og bb.is. Katrín Björk er 23ja ára Flateyringur og hefur hún haldið úti bloggsíðunni https://katrinbjorkgudjons.com/ þar sem hún deilir með lesendum lífinu og tilverunni með hennar augum eftir að líf hennar kollvarpaðist árið 2015 er hún fékk stóreflis blóðtappa í heila, en áður en það gerðist hafði hún tvívegis fengið heilablæðingar. Blóðtappinn stóri lamaði Katrínu Björk frá hvirfli til ilja og gat hún fyrst einungis hreyft augun til að gefa merki og tjá sig. Katrín hefur tekið miklum framförum í endurhæfingu og getur til að mynda sest sjálf upp, staðið og notað fingurna til að skrifa með þeim bloggin sem heillað hafa lesendur upp úr skónum. Til að gefa smá innsýn í skrif hennar er hér brot úr bloggi hennar um jólin:

Á aðfangadagsmorgun vöknuðum við í winter wonderland, þegar ég fór að sofa kvöldið áður sá ég ekki snjókorn á jörðinni. Fallegra verður það varla en þegar jólasnjór fellur beint niður og safnast fyrir á tjágreinum og það hreyfir ekki vind svo snjókornin fá að liggja nákvæmlega þar sem þau lenda, jólalegra verður það ekki. Seinustu daga hef ég notið þess að eiga dásamlegar stundir með fjölskyldu minni og tengdafjölskyldu. Þetta hefur verið svo afslappað og gott frí sem ég þurfti mikið á að halda eftir mikla keyrslu undanfarna mánuði. Núna er tími til að rifja upp allar góðu minningarnar sem við eigum og vera þakklát.

Fjölmargir nefndu Katrínu Björk hetju í ummælum sínum og tiltóku dugnað hennar, jákvæðni, baráttuþrek, bjartsýni og skrif hennar sem ástæðu þeirra fyrir valinu. Þetta er meðal þess sem fólk hafði að segja:

  • Katrín hefur á einstaklega fallegan og einlægan máta sett fjöldann allan í sjálfskoðun með sinni sýn á lífið og þær gjafir sem það hefur að geyma. Hún er dæmi um einstakling sem stendur bein og með fókus fram á við, án þess að hafa getað gert það bókstaflega, og þannig kennt mér og eflaust fleirum að það er fátt óyfirstíganlegt. Frábær penni, hógvær og gríðarlega stór fyrirmynd í lífi og starfi.
  •  Ótrúleg baráttukona sem lætur ekkert stoppa sig. Virkilega einlæg og skemmtilegur bloggari.
  •  Þessi yndislega stelpa hefur gengið í gegnum svo margt og hefur allan tímann verið svo sterk og haldið áfram að lifa lífinu eins vel og hún getur. Það eru nú ekki margir sem hafa fengið jafn þung högg í byrjun fullorðinsára og verið svona sterkir. Katrín stoppar heldur ekki við það að heilla vini og fjölskyldu með styrkleika sínum en heldur líka uppi bloggi þar sem allir geta lesið um rússíbanann sem lífið hennar er. Hún er kraftaverk!
  •  Hún er fyrirmynd okkar hinna hvernig hún tekst á við lífið með æðruleysi, jákvæðni og baráttuþreki að vopni ásamt klettinum sínum henni mömmu sinni og allri fjölskyldunni.
  •  Falleg sýn á lífið og verkefnin sem hún hefur fengið í hendurnar. Hún hefur leyft fólki að skyggnast inn í hugarheim sinn og kennt okkur að þakka fyrir litlu sigrana, taka eftir öllu því smáa sem gerir lífið svo yndislegt.
  •  Glæsileg fyrirmynd! Með risastórt, hlýtt og gott hjarta! Katrín hefur upplifað ansi mikið á sínum fáu árum. Það einkennir Katrínu mikil jákvæðni, lífsgleði og umhyggja í garð náungans, sama hvaðan hann kemur eða hver hann er. Katrín er Vestfirðingur ársins!

Katrín Björk fékk blómvönd og viðurkenningarskjal til staðfestingar á valinu, farandgrip frá Dýrfinnu Torfadóttur sem Vestfirðingur ársins hefur hjá sér fram að næsta kjöri, sem og glæsilegan eignargrip sem Dýrfinna Torfadóttur gefur og er hann hennar hönnun og smíði.

Annað sæti.

Það var spennandi barátta um tvö efstu sætin í valinu á Vestfirðingi ársins 2016  en Árni Brynjólfsson bóndi á Vöðlum í Önundarfirði vermir annað sæti. Árni sagði sig úr stjórn Orkubús Vestfjarða á árinu og gagnrýndi opinberlega vinnubrögð stjórnarinnar við ráðningu orkubússtjóra. Meðal skýringa á atkvæði sínu til Árna var:

  • Sem stjórnarmaður í Orkubúi Vestfjarða vakti hann athygli á að ekki hefði verið farið að lögum við ráðningu framkvæmdastjóra fyrirtækisins og sagði sig síðan úr stjórninni.
  • Fyrir að standa á sínu og láta ekki valta yfir sig í hagsmunapólitík og klíkuskap þegar ráðið var í stöðu Orkubússtjóra.
  • Fyrir að hafa kjark til að láta vita af spillingunni.
  • Upplýsa um ferli við ráðningu orkubússtjóra og veita þannig innsýn í gang mála í stjórnsýslunni á Íslandi.

Og í þriðja sæti  var Isabel Alejandra Diaz meðal ummæla um Isabel Alejandra eru:

-Mikil fyrirmyndarstúlka sem vakti jákvæða athygli á Ísafirði og ísfirðingum í sumar með fallegri framkomu, fallegum ummælum um bæjarbúa og einstaklega fallegu málfari.

-Því hún koma hingað sem flóttamaður en barðist fyrir rétti sínum og útskrifast með hæstu einkunn í íslensku. Hún er fyrirmynd og þörf áminning að við getum gefið tækifæri sem þjóð.

Aðrir sem hlutu tvö atkvæði eða fleiri voru: Hálfdán Óskarsson og Arna ehf í Bolungarvík, Baldur Ben, Kristín Þorsteinsdóttir, Ævar Einarsson, Björgunarsveitirnar, Stöndum saman, Sorphirðufólk, Sigurður Sivertssen, Jóhannes K. Kristjánsson, Gullrillurnar, Guðjón Þorsteinsson og Elfar Logi.

annska@bb.is

Börnin heimsóttu Tanga

Börnin tóku lagið með þeim Diddu og Gumma Hjalta

Tangi, ný leikskóladeild 5 ára barna á Ísafirði, tekur til starfa í næstu viku. Í morgun komu börn af leikskólunum Eyrarskjóli og Sólborg ásamt kennurum að skoða nýja skólann sinn og var mikil eftirvænting í hópnum er kíkt var í hvern krók og kima á hinum nýju húsakynnum þeirra sem eru í kjallara Tónlistarskóla Ísafjarðar, rétt við grunnskólann, þar sem þau munu svo setjast á skólabekk í haust. Það er heilmikið pláss í Tanga, 300 m², rúmgóð fatageymsla, tvær stofur fyrir hópastarf, salur, aðstaða fyrir starfsfólk og móttökueldhús, en börnin munu snæða hádegisverð í sal Grunnskólans á Ísafirði. Útiaðstaða barnanna verður skólalóð G.Í. ásamt öðru svæði í nágrenninu.

Starfsemi Tanga hefst fimmtudaginn 19.janúar, en á mánudag fara börnin aftur í heimsókn og munu þau í næstu viku taka þátt í því að aðstoða við flutninga áður en þau flytja formlega yfir á fimmtudaginn. Sólborg rekur Tanga, líkt og leikskólinn gerði í tilfelli Eyrarsólar. Á deildinni verða 45 börn og Jóna Lind Kristjánsdóttir verður deildarstjóri.

Það er verktakafyrirtækið Gamla spýtan á Ísafirði sem hefur haft yfirumsjón með verkinu og hafa menn þar haft í nægu að snúast síðastliðna tvo mánuði við að umbreyta kjallara T.Í. í þá aðstöðu sem nú er þar að finna. Magnús H. Jónsson framkvæmdastjóri bauð börnin velkomin í morgun og færði þeim tafl í innflutningsgjöf, í framhaldi af því sungu börnin þrjú lög undir stjórn Málfríðar Hjaltadóttur, við undirleik bróður hennar Guðmundar Hjaltasonar; Góða ferð, Ég er kominn heim og í leikskóla er gaman. Þá fengu börnin sér kringlur og kókómjólk og dvöldu um stund á nýja staðnum áður en þau héldu aftur á leikskólana sína.

Með tilkomu Tanga hefur verið hægt að bjóða mikið af nýjum nemendum inn á Eyrarskjól og Sólborg, en mikil köllun hefur verið eftir leikskólaplássi á Ísafirði og eru yngstu börnin sem fengið hafa pláss 16 mánaða gömul.

Magnús færði Tanga tafl að gjöf og vakti það mikla kátínu er hann sagði að það mætti alltaf nota það í staðinn fyrir Ipad.
Tangi er til húsa í kjallara T.Í.

Bílvelta á Súðavíkurhlíð

Bílvelta var á Súðavíkurhlíð í gærkvöldi. Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í hálku og rann út af veginum þar sem bíllinn fór eina veltu. Ökumaður var einn í bílnum og slasaðist hann ekki við óhappið og segir Hlynur Snorrason yfirlögregluþjónn á Ísafirði öryggisbeltin þarna enn og aftur hafa sannað gildi sitt.

annska@bb.is

Leita eftir gestgjafafjölskyldum

SIT hópurinn síðasta sumar í heimsókn á Melrakkasetrinu

Háskólasetur Vestfjarða leitar nú að gistifjölskyldum fyrir bandaríska háskólanema sem eru á leið í vettvangsnám til Ísafjarðar í næsta mánuði og þarfnast gistingar í þrjár vikur. Góð reynsla er af móttöku slíkra nema á Ísafirði og í nágrenni en Háskólasetrið hefur um fimm ára skeið haft milligöngu um heimagistingu fyrir sambærilega hópa. Nemendurnir eru á vegum SIT vettvangsskólans, School for International Training (SIT) í Vermont í Bandaríkjunum. Háskólasetrið er samstarfsaðili SIT og nemendahópurinn mun dvelja samtals sjö vikur hér á landi. Námið fer að mestu fram hér á norðanverðum Vestfjörðum, í Reykjavík og á Grænlandi.

Frá árinu 2012 hefur Háskólasetrið haft umsjón með heimagistingu í tengslum við sumaráfanga SIT skólans. Síðastliðið haust var í fyrsta sinn boðið upp á vettvangsnám að vetri og bauð Háskólasetrið þá velkominn hóp bandarískra nemenda sem hóf nám við nýja vettvangsbraut sem SIT Study Abroad hleypti af stokkunum í samvinnu við Háskólasetrið. Hún nefnist Iceland and Greenland: Climate Change and the Arctic, hún nær yfir heila önn eða 15 vikur og er í boði haust og vor. Hluta úr önninni dvelja nemendurnir á Ísafirði.

Nú styttist í að vorönnin hefjist og þar sem gisting í heimahúsum er liður í náminu leitar Háskólasetrið nú að fjölskyldum sem eru til í að opna heimili sín fyrir þessa nemendur tímabilið 20. febrúar- 13. mars n.k. Markmiðið með heimagistingu er að gefa ungmennunum tækifæri til að kynnast íslenskri menningu, með því að taka þátt í lífi fjölskyldu. Nemendurnir hafa í gegnum tíðina gist hjá fjölskyldum ýmist á Ísafirði, í Hnífsdal eða í Bolungarvík.

Frá þessu er greint á vef Háskólaseturs Vestfjarða og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við Pernillu Rein, verkefnastjóra hjá Háskólasetrinu í síma 820-7579 eða pernilla@uw.is. Einnig má kynna sér málin á Fésbókarhóp verkefnisins.

annska@bb.is

Bæjarins besta í Vísindaporti

Bryndís Sigurðardóttir, ritstjóri

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða þessa vikuna mun Bryndís Sigurðardóttir, ritstjóri héraðsfréttablaðsins Bæjarins besta og netmiðilsins bb.is, fjalla um erindi og ábyrgð fjölmiðla, mikilvægi héraðsfréttamiðla og hvað það þýðir að vera frjáls og óháður miðill. Bryndís mun einnig kynna nýja heimasíðu bb.is og ýmis verkefni miðilsins á nýju ári sem varða umfjöllun um viðburði, tengingar við stærra svæði og fleira.

Bryndís Sigurðardóttir er fædd og uppalin í Ölfusi og Hveragerði, við ástríki og hamingju og áhuga á landsins gagni og nauðsynjum eins og hún sjálf orðar það. Hún er kerfisfræðingur og viðskiptafræðingur að mennt auk þess að hafa viðað að sér víðtækri þekkingu og reynslu, svo sem eins og auknum ökuréttindum og svæðisbundnum leiðsöguréttindum. Hún fluttist til Vestfjarða árið 2013 og tók við stöðu framkvæmdastjóra sjávarútvegsfyrirtækisins Arctic Oddi á Flateyri. Sumarið 2015 tók hún við eignarhaldi og ritstjórnartaumunum á Bæjarins besta úr höndum Sigurjóns J. Sigurðssonar sem hafði ásamt félaga sínum haldið miðlinum úti í rúma þrjá áratugi. Bæjarins Besta er því að sigla inn í sitt 33. starfsárs í fjölmiðlaflóru landsins.

Vísindaportið er að vanda opið öllum og stendur frá 12.10-13.00. Erindi Bryndísar fer fram á íslensku.

annska@bb.is

Gylfi kominn í fjármála- og efnahagsráðuneytið

Gylfi tekur við starfsmannamöppunni úr hendi Svanhildar Hólm í fjármála- og efnahagsráðuneytinu

Með nýjum ráðherrum í ríkisstjórn Íslands taka einnig við nýjum störfum aðstoðarmenn þeirra. Meðal þeirra sem það gerir er ísfirðingurinn Gylfi Ólafsson, sem er nú aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra og er hann nú tekinn til starfa í ráðuneytinu. Gylfi leiddi lista Viðreisnar á Vestfjörðum í alþingiskosningum síðasta haust. Flokkurinn kom ekki inn manni í kjördæminu en Gylfi tók í framhaldinu við starfi sem aðstoðarmaður formanns flokksins. Er Benedikt tók við lyklavöldum á mánudag úr höndum Bjarna Benediktssonar, tók Gylfi við starfsmannamöppu frá fráfarandi aðstoðarmanni, Svanhildi Hólm. Segir hann nýtt starf leggjast vel í sig:

„Við Benedikt höfum unnið saman síðustu mánuði, fyrst í kosningabaráttunni og svo hef ég verið aðstoðarmaður hans sem formanns að kosningum loknum. Það samstarf hefur gengið afar vel. Okkur báðum hentar vel að fara í fjármálaráðuneytið, í mínu tilviki vegna menntunar minnar í hagfræði.

Þennan eina vinnudag sem ég hef verið hér hefur okkur verið afar vel tekið og augljóst að hér starfar fært og glaðsinna starfsfólk. Hér er einnig annar Ísfirðingur, Leifur Skarphéðinsson, og við höfum nú þegar stofnað stuðningshóp fólks sem segir „á helginni“.“

Gylfi hefur ekki af því neinar áhyggjur að sitja auðum höndum í nýju starfi og mörg verkefni sem bíða í ráðuneytinu. „Við ætlum að ganga vasklega til verks og vinna að þeim málum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem undir fjármálaráðuneytið heyra, en þar falla bæði stór og smá verkefni. Eitt það stærsta er kannski endurskoðun peningastefnu, en endurskoðun skattkerfis, stöðugleikasjóður og fleira er þar einnig að finna. Svo er það nú með þetta starf að það óvænta getur oft tekið langmestan tíma.“

Hvað hann sjálfan áhrærir segir Gylfi hans helsta hlutverk verða að sjá til þess að ráðherra geti sinnt starfi sínu sem best í hvaða mynd sem það birtist og segir hann það eiga eftir að þróast á næstu vikum.

annska@bb.is

6 standa eftir

Unnið er að því að ráða í stöðu forstöðumanns Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða líkt og greint hefur verið frá á vef Bæjarins besta. Tólf umsækjendur voru um stöðuna og eftir stendur nú helmingur þeirra. Þeir hafa verið boðaðir í viðtöl sem verða í næstu viku og á Smári Haraldsson sem nú gegnir stöðunni von á að í vikunni þar á eftir liggi niðurstöður fyrir.

annska@bb.is

Samkvæmt orðanna hljóðan

Súðavík.

Birt er á bb.is aðsend grein eftir Pétur Markan sveitarstjóra Súðavíkurhrepps og fjallar hann þar um efnistök bb.is á málefni sem hann vakti máls á í fundargerð sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps. Það er að sönnu rétt að orðið „skattsvik“ koma ekki fram í bókun hans á fundi sveitarstjórnar þann 19. desember en lesendum til glöggvunar er bókun hans birt hér orðrétt:

„ Rekstur sveitarfélagsins hefur stórbatnað á kjörtímabilinu eins og vöxtur á handbæru fé gefur til kynna.

Áhyggjuefni er hversu útsvarstekjur dragast skart saman á milli ára. Skerðingin verður ekki útskýrð með fækkun skattbærra manna eingöngu.

Líklegasta skýringin er að tilfellum fjölgar í sveitarfélaginu þar sem íbúar notast við einkaneysluhlutafélög til þess að fjármagna heimilis og einkaneyslu.

Þessi þróun er afar uggvænleg og í raun aðför að samfélaginu sem byggir samrekstur sinn á skattheimtu“

Í frétt um málið á bb.is er vísað í lög og reglugerðir hvað varðar rekstur einkahlutafélaga og vefurinn stendur við þá túlkun sína að í þriðju málsgrein bókunar sveitarstjórans felist ásökun um skattsvik.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir